Lesbók25.03.14 — Enter

Hananú!

Þá á loks að fara að sýna stórslysamyndina um arkarsmiðinn knáa Nóa Lameksson. Þessa sem var tekin hér á landi, því hér er alltaf ausandi rigning, hér má plata tökulið út á rúmsjó í snarvitlausu veðri og hér þrífast passlega fáar dýrategundir.

En hvað ætli þetta þrekvirki sé svo kallað?

NOAH.

Hugsið ykkur! Við sem umbárum titla á borð við Logandi hræddir, Tveir á toppnum, Aftur til framtíðar, Ógnareðli, Beint á ská og Bilun í beinni útsendingu. Eigum við nú að flykkjast á mynd um einhvern … Noah?

Fari það tólfbölvað í táfúla sokkaskúffu þess í neðra að maður láti bjóða sér þessa daunillu dellu.

Var ekki næg niðurlæging að horfa upp á sjálfan Ása–Thor og vini hans í Asgard? Sem Marvel veldið er búið að gúmhúða í höfundarverjur sínar — og þjösna sleipiefnalitlu upp bifröstina á okkur.

Á nú að afþýða Biflíusögurnar líka?

Og hvar endar þetta eiginlega? Ætlum við möglunarlaust að syngja um Gamla Noah sem keyrir beinskipta kassabíla, poppar (popp) og kyssir giftar konur?

Ég held nú síður.

Það var bara einn náungi sem hlustaði á veðurspána, fór á svig við öll heilbrigðis-, sóttvarnar- og dýraverndunarlög og stóðst það að fá sér feita nautasteik eftir að hafa bjargað mannkyninu frá glötun.

Og hann hét Nói.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182