Lesbók22.02.02 — Enter
Þetta er titilljóð bókarinnar Möndluvirkisins. Þetta er jafnframt eitt af mínum eftirlætisljóðum, enda fjallar það um, eins og allt sem gott er, kynlíf.

þar sem austur og vestur mætast og fallast í faðma
finna má statt undir bómull og hálfkveðnum brag
útséð virki sem gæti allt eins með sann verið sirgús
sífreðinn kofi sem birtist mér einmitt í dag

man þá dögurðartíð ég gekk fram á góðkynja æxli
grátandi skar ég á steininn sem hékk mér við brjóst
þú sem flúðir með vegg ég vildi þig klæða í kristal
kroppinn ég litaði annað hvert veiðihár ljóst

þetta virki er naumast sýnilegt öðrum en ossum
ætti ég frekar að segja að það sé úr leir
ekki ljúgað mér krybba þú sem ert sólgin í saftið
segðu þeim allt sem þú vissir og svo ekki meir

veðruð mandla er fráleitt samasem hneta í hnotskurn
hnugginn ég elskaði bládís sem lá undir grun
rúðu andlit þitt netlum mundu að mold getur brunnið
mandlanna virki mun afbera veraldarhrun

sagði enginn þér frá því virkið er næstum því nafnlaust
naflinn á óekta prinsessu snertir mig ei
svonefnt líf hefur aldrei gefið mér neitt nema nautnir
næst eftir plasti í röðinni girnist ég hey

standi gleiður og týndur maður við rúmstokk og reyki
reynir á hálfnakta álfa að sigla sinn sjó
undir fráhnepptri skyrtu dansmeyja glittir í gimstein
gerðu mig brjálaða öskraði ljóskan sem dó

eftir sjöunda árið komst ég að svolitlu svæsnu
svipur á konu er falskur en aðeins um stund
vanti ómálga rottu félagsskap, vatn eða vindil
velur hún staðinn hvar möndlurnar fengu sér blund

umrætt virki er ekki flimtingapakki með pífum
postulín hverfur sé tunglinu sagt eitthvað ljótt
möndlur og virki, hugsanagangur er gildra
greiddu þér pontíus, ekkert er nálægt því fljótt

kæru undirföt fallið óhrein til jarðar og játið
jagastu svartklædda hafmeyja, ýttu úr vör
ristuð mannabörn skríða óhikað fram eins og forðum
fyrstur fer skáldið með skotthúfu, pilsner og slör

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182