Lesbók30.01.09 — Enter

Hvað er eiginlega að þessu liði? Svona í alvöru talað. Altsvo þessu grábölvaða hyski sem er búið að skuldsetja íslensku þjóðina. Allt sem hún á og allt sem hún hefur unnið sér inn síðan hún skreið með erfiðismunum upp úr moldarsvaðinu.

Er þetta ekki sama fólkið og þáði hér læknisþjónustu við fæðingu og hlaut hér tækifæri til menntunar – með okkur hinum? Sama fólkið og var bólusett og tannlæknað, alið á lýsi og flúor – með okkur hinum? Sama fólkið og fékk að hnoða leir og lita á leikskólum landsins – með okkur hinum? Sama gerilsneydda og fitusprengda pakkið og fór í sumarfrí til Costa del Sol og Benidorm – með okkur hinum?

Er það ekki rétt skilið hjá mér? Svona í meginatriðum.

Eða er þetta bara eitthvað allt annað fólk? Af allt öðru sauðahúsi, gullslegnu og smaragðslögðu? Spratt þetta pakk bara einn daginn upp úr jörðinni skrýtt sínu Armaní og Gútsí á öllum sínum hvítleðruðu Bentleyum og glyðrufylltu Porsum? Á öllum sínum kolefnisójöfnuðu blökkuþotum og skreppitúraþyrlum? Hingað komin til þess eins að eyðileggja allt – fyrir okkur hinum.

Á hvaða tímapunkti ákvað þetta gíruga slúbbertastóð að það væri yfir okkur hin hafið? Var það þegar þau föttuðu að sumir gætu splæst í vídeótæki, en aðrir ekki? Þegar sumir gátu leyft sér stöð tvö, en aðrir ekki? Þegar sumir gátu splæst í jeppling, en aðrir ekki? Þegar sumir gátu fengið sér banka, en aðrir ekki?

Á hvaða tímapunkti ákveður einhver réttkjósandi íslenskur plebbi á ofbónuðum skóm að hann sé ósnertanlegur og óskeikull hálfguð? Sem má allt og á allt? Sem getur farið með eigur og orðspor heillar þjóðar eins og honum sýnist? Hvað þarf nákvæmlega að aftengja í heilanum, hjartanu og sálinni til að þesslags landeyður hafi sig fram úr bælinu að morgni? Hvar verður maður sér úti um jafn vita tannlausa samvisku og útúrsjoppaða sjálfsmynd?

Og hvers konar vatnsþynntar og niðurtraðkaðar undirlægjustjórnvaldslyddur láta illseðjandi sníkjudýrin komast upp með að leggja landið í rúst?

Og.

Af hverju í djúpsteiktum dansskóm djöfulsins er ekki búið að taka þessa uppblásnu oflátungsgrísi og kaghýða til blóðs og tára, fyrir allra augum – og senda slyppa og snauða úr landi.

Langt, langt, langt í burtu – frá okkur hinum.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182