Lesbók03.10.08 — Enter

Mikið var nú uppörvandi að sjá þingheim saman kominn í gærkvöldi. Hressan og endurnærðan eftir sumarfrí. Uppfullan af eldmóði og hugmyndum. Kjarki og dirfsku.

Eða svoleiðis.

Eiga þetta að heita fulltrúar þjóðarinnar? Er þetta fólkið sem á að bjarga okkur? Leiðtogarnir? Guð minn almáttugasti.

Þessi þjóðkjörnu himpigimpi komu þarna hvert á fætur öðru, hikstandi og stamandi, blaðandi í þunnbotna ræðubleðlum. Hóstandi, andstutt og rasssveitt. Er ekki í það minnsta hægt að redda þessum bakkelsisfylltu vesalingum textaskjá, til að þau geti horft framan í okkur meðan þau muldra þetta og tuldra?

Og ekki var sérdeilis hughreystandi að sjá fram í salinn. Þarna sátu frjálshyggjupésar eins og skömmustulegar smástelpur með hönd undir kinn og fingur að nös. Ungandstöðukvendi mauluðu tyggjó og útlifaðir ellibelgir horfðu galtæmdu augnaráði upp í loftið og óskuðu sér þess eins að þetta væri nú allt um garð gengið.

Að sjá þetta lið var ekki huggun hnípinni þjóð. Það gerði lítið nema að auka á magapínuna, ógleðina og nagandi vissuna um að við séum í djúpsteiktum, daunillum skít.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182