Lesbók17.09.08 — Enter

Mér þykir rétt að drepa hér á nokkrum vinsælum umfjöllunarefnum, lauslega.

Evran.
Við höfum andskotakornið ekkert með þessa Evru að gera. Við eigum bara að drulluháleistast til að fara almennilega með krónuna okkar og sýna henni tilhlýðilega virðingu.

Hlutabréf.
Hverjum er ekki sama þó þessi útúrsnýttu bréfsnifsi fuðri upp? Þetta er mjög einfalt. Ef eitthvað er ekki til í alvörunni – ekki kaupa það.

Viðskiptafréttir.
Var ekki passlegt að hafa þetta allt á leiðinlegu síðunni í Mogganum? Æ, þið vitið, þessari þarna rétt aftan við miðju.

DeCode.
Af hverju fær Kári ekki bara huggulegan kontór í einhveri háskólabyggingunni með sæmilegri tölvu og stórum hörðum diski? Þarf virkilega að flækja málið svona?

Styttur.
Því fleiri styttur, því betra. En erum við í alvöru ekki komin lengra en að Tómasi Guðmundssyni? Og var hann ekki búinn? Kommon. Hvar er Jón Páll? Kiljan? Hvar er moðerfokking Ríó Tríó?

Ásdís Rán.
Er ekki hægt að hafa hana einhvers staðar í beinni? Ég verð bara að vita meira um hana.

Borgarfulltrúar.
Hér í eina tíð hefði ég ekki getað nefnt einn einasta borgarfulltrúa með nafni. Nú er smetti hvers eins og einasta þeirra greypt inn í heilabörkinn á mér. Þið eruð borgarstarfsmenn – ekki fyrirsætur.

Kreppan.
Mér býður við fólki, kjagandi í eigin spiki upp í raðgreidda jeppann sinn með útbelgda poka af sætindum og ropvatni til að sturta í sig og sína yfir heiladeyfandi pönnukökuskjánum sínum, sem dirfist að taka sér þetta orð í munn.

Bankarnir.
Hvaða fáskrúðsfirra er það að bankarnir eigi að vera góðir og tillitssamir? Síðan hvenær? Bankar eru vondar, gráðugar, valdasjúkar blóðsugur með það eitt að markmiði að græða peninga. Að búast við öðru er barnalegt.

Eimskip.
Það er algerlega ólíðandi að fara svona með sjálft akkeri íslenska lýðveldisins. Þeir sem eru ábyrgir ættu að vera kjöldregnir. Ítrekað.

Virkjanir.
Stífla allt helvítis draslið. Stíflur eru töff. Mosi síður.

Okrið.
Hættið að kaupa allt þetta fokdýra drasl, bjánarnir ykkar. Í guðanna bænum. Hættið að kaupa!

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182