BAGGALÚTUR
FRÉTT — 2/12/19 — Enter
Myndmerki Baggalúts uppfært
Merki Baggalúts er margverðlaunað og er jafnan talið best heppnaða íslenska myndmerkið.

Hið fornfræga myndmerki (e. lógó) Baggalúts hefur verið uppfært. Er það gert til að mæta betur kröfum samtímans um skjámiðlun, skölun, formlegt hagræði og breytta merkjaskynjun nútíma skjáneytenda, eins og segir í fréttatilkynningu.

Merki Baggalúts var upprunalega hannað af vestgotnesku listakonunni Gertrude Zeta–Zebra og standa angar þess fyrir gildi Baggalúts; traustgefni, samhygli, þrautsýni, metnúð og frumkvæðni. Þá stendur hringurinn fyrir kvenlægni og miðdepillinn fyrir mangó. Undirstrikið er svo villa í teikniforritinu Paint.

Eftir talsverða yfirlegu og hreinteikningu þar sem öll form, litir og útlínur myndmerkisins voru tekin til gagngerrar endurskoðunar, með tilliti til fagurfræðilegrar og tæknilegrar nálgunar, var ákveðið að færa merkið upp um þrjá svokallaða „pixla“ — til reynslu.