— GESTAPÓ —
Steinríkur
Fastagestur.
Gagnrýni - 1/11/04
Búðapest

Á fimmtudaginn skrapp ég til Búðapest í Ungverjalandi að sækja stúlku sem ég hafði *hóst* pantað á netinu...

Ferðin byrjaði ekki vel, þar sem fluginu seinkaði um rúma 3 tíma. Ég komst þó á staðinn og var á endanum sóttur, en kvöldverðurinn fór fyrir lítið þar sem við komumst ekki á leiðarenda fyrr en um miðnætti.
Íbúðin var í aldargömlu húsi með jafngamalli lyftu, steinsnar frá þinghúsinu og Dóná. Íbúðin var rúmgóð og björt með 4m lofthæð, en kommarnir höfðu samt klippt hana í tvennt þar sem þeir töldu að engin fjölskylda hefði gott af meira en 3 herbergjum. Ég var reyndar látinn sofa á dýnu á gólfinu eins og hundur, en vistin var að öðru leyti góð.

Daginn eftir var farið í skoðunarferð um Búðapest þar sem öll helstu kennileiti borgarinnar voru skoðuð, ásamt kvöldgöngu um flóðlýstar byggingarnar við Dóná, en fátt annað markvert gerðist þann daginn.

Á laugardeginum var svo farið út fyrir borgina. Fyrst var farið til Esztergom, þar sem ein stærsta basilika Evrópu stendur. Esztergom er við landamæri Slóvakíu, en Slóvakía er gagnrýnd í öðru félagsriti. Þaðan var farið til bæjarins Szentendre sem er gamaldags bær með þröngum strætum og stórt marsipansafn þar sem Michael Jackson er í fullri stærð.
Í kvöldmat steikti móðir stúlkunnar handa okkur villigölt sem dýralæknirinn eiginmaður hennar hafði \"skotið\". Engum varð meint af svo að ég ákvað að vera ekkert að véfengja það.

Á sunnudeginum var farið í tyrkneskt baðhús á Hótel Gellért. Hluti þeirra var kynjaskiptur og í karlahlutanum fengum við lendaskýlu í stað sundskýlunnar. Mjög frelsandi allt saman.
Þaðan var gengið upp á Gellért hæð og helliskapellan var skoðuð. Eftir hressandi göngutúr bauð faðir stúlkunnar okkur til hádegisverðar og eftir það var rölt um Margharet eyju. Þar fékk ég heimanmund, 1.5 l ómerkta flösku af einhverju sem hann kallaði rauðvín, ásamt meira áfengi og öðru smálegu.

Á mánudeginum fórum við svo á fætur fyrir allar aldir og brunuðum út á flugvöll til þess eins að komast að því að vélinni hafði seinkað. Alls varð seinkunin tæpir 4 tímar, og fá Heimferðir litlar þakkir fyrir.

Allt í allt var þetta stórgóð ferð og því gef ég borginni 5 stjörnur.

   (10 af 16)  
5/12/04 11:00

Hverfill Kverúl

Sástu nokkuð Zandor Imrenz, hann er mikið á eftir Íslendingum, sá bjöllusauður, býr í Buda.

5/12/04 11:00

Lómagnúpur

Getur verið að í "meira áfengi" hafi leynst flaska af szilvapálinka? Og í gvuðanna bænum, segðu okkur frá gúllasinu.

5/12/04 11:01

Hakuchi

Stórgóður ferðapistill. Mig hefur lengi langað til Búðapestar og þessi pistill hefur styrkt mig í þeirri löngun. Það þarf meira af svona skrifum hér á Baggalút.

1,5 lítrar af áfengi! Þetta hlýtur að vera úrvals kvenkostur. Tókstu stúlkuna sem sagt með heim?

5/12/04 11:01

Steinríkur

Hverfill: Finnst þér það líklegt?

Lómi: þetta var 0,5l flaska af ferskjulíkjör sem er sagður mjög góður, þó að ég muni ekki nafnið.
Að sjáfsögðu var útbúið gúllas í kvöldverð fyrsta kvöldið ( með gulrótum, katöflum o.fl.), en þar sem fluginu seinkaði varð það að hádegisverði daginn eftir. Sósan var mun þynnri en hér heima (hálfgert kjötsoð) og minnti þetta því nokkuð á kjötsúpu.

Hakuchi: Stúlkan er komin til landsins og er annað hvort læst niðri í kjallara eða á bókhlöðunni að læra. Eins er ég ekki viss um að allt þetta vínmagn sé gæðastimpill, þar sem hann virtist vera að gefa í skyn að ég þurfi að vera mjög ölvaður til að þola að umgangast hana.

5/12/04 12:00

Texi Everto

"Sækja stúlku" ... þetta hljómar vel. Tókstu með þér "fínvafið" eða bara "standard"? Ég hefði sjálfur pakkað niður einun "þræði" og kannski löngum "snákaham". ... en þú veist líka hvernig ég er.

5/12/04 12:01

Lómagnúpur

Líkjör eða brennivín? Það er ógnarmunur á því. Þarna suðurfrá sjóða þeir afbragðs brennivín úr ávöxtum. Ef þú ert svo heppinn að eiga slíka dropa óska ég þér til hamingju. Drekkist við 10-15 gráður, alls ekki of kalt því þá gætirðu eins verið að drekka rauðspritt.

5/12/04 14:01

Steinríkur

Lómi: við nánari skoðun er þetta aprikósubrandý, Kecskemeti að nafni...

Steinríkur:
  • Fæðing hér: 10/8/03 14:57
  • Síðast á ferli: 22/2/21 21:45
  • Innlegg: 117
Eðli:
Fullkominn. Eða í það minnsta fullkomlega hnöttóttur.
Fræðasvið:
Bautasteinar, mjöður og villigeltir.
Æviágrip:
Getinn af Heilögum Anda, fæddur af Maríu mey; leið undir valdi Pontíusar Pílatusar, var krossfestur, dáinn og grafinn, sté niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum.

Nei annars - það var víst ekki ég...