— GESTAPÓ —
víólskrímsl
Nýgræðingur.
Dagbók - 1/11/05
Fræðsluhornið

VIÐVÖRUN: Hér verður sérhæfðri fyrirspurn Hakuchis um mun á fiðlu og víólu gerð afar nördaleg skil. Hafirðu haft annars konar fræðslu í huga verðurðu líklegast fyrir vonbrigðum.

Til þeirra er málið varðar

Fiðla og víóla eru náskyld hljóðfæri. Hvað lögun varðar eru þau nánast eins, nema hvað víólan er öllu stærri. Eins og glöggir Bagglýtingar hafa þegar bent á hefur víóla dýpri og dekkri tón en fiðla og er það vegna aukinnar stærðar hljóðfærisins. Að vissu leyti mætti því fremur líkja víólu við lítið selló fremur en við stóra fiðlu. Tónn víólunnar er ekki eins skær og fiðlunnar. Hins vegar hefur víólan hlýjan, dimman tón sem heillar flesta þá sem á hlýða.

Þegar litið er til sögu þessara tveggja hljóðfæra kemur í ljós að víólan er í raun formóðir fiðlunnar. Víólan þróaðist frá annarri fjölskyldu strengjahljóðfæra, viola da gamba. Haldið var á þeim hljóðfærum eins og á sellói, það er að segja hæversklega milli fótanna. Sú víóla sem við þekkjum í dag er hins vegar af tegundinni viola da braccia, sem víóluleikarinn heldur á undir kinn. Frá viola da braccia þróaðist fiðlan síðarmeir og með henni hinn skýri, skæri tónn sem mörg tónskáld hafa heillast af.

Nútímafiðlan kom fyrst fram á Ítalíu fyrir um 400 árum síðan. Ítölsk tónskáld voru fljót að tileinka sér hinn nýja skæra hljóm fiðlunnar og sömdu mörg tónverk sem mjög reyndu á tæknilega getu spilarans. Corelli, Tartini og Vivaldi eru dæmi um slík tónskáld. Fiðluvirtúósar hösluðu sér hratt völl og sýndu listir sínar víða. Fiðlutónlist og fiðlusmíð breiddust út um lönd og nutu sívaxandi vinsælda almennings.

Hinar nýfengnu vinsældir fiðlunnar skyggðu mjög á víóluna, sem nú varð að láta sér nægja annað sætið í vinsældakeppni strengjahljóðfæra. Dökkur hljómur hennar höfðaði ekki eins mikið til fólks og fyrr og ekki leið á löngu áður en víóluleikarar fengu lítið annað að gera nema að spila undir hjá fiðluleikurunum sem fengu að láta ljós sitt skína. Vegna þessa komst fljótt sá kvittur á kreik að aðeins slæmir fiðluleikarar létu sig hafa það að spila á víólu - og þó skömm sé frá að segja eimir enn af þessu hugarfari í dag.

Þrátt fyrir þetta hafa varðveist nokkur einleiksverk fyrir víólu frá 17. og 18. öld, sem gefa fiðluverkum frá sama tíma ekkert eftir. Á fyrri hluta 19.aldar veittu tónskáld víólunni alla jafna ekki mikla athygli. Það átti eftir að breytast. Þegar rómantíkin hóf innreið sína á seinni hluta 19.aldar og fram á hina 20. tóku tónskáld í sívaxandi mæli að skrifa verki fyrir víólu. Dimmur, dramatískur tónninn hentaði rómantíkinni mjög vel. Brátt fóru tónskáld að gera miklar tæknilegar kröfur til víóluleikara og afsönnuðu þar með goðsögnina um að víóluleikarar væru aðeins annars flokks fiðluleikarar. Þessi þróun stendur enn, á hverju ári er saminn fjöldinn allur af verkum fyrir víólu, sífellt fleiri hljóðfæranemendur velja sér víólu sem aðalhljóðfæri og víóluleikarar hafa verið duglegir við að kynna hljóðfærið almenningi.

Þrátt fyrir þetta eimir enn eftir af fornum fordómum og víst er að þeir eru til sem lýsa frati á víóluna og víóluleikara og telja þá annars flokks hljóðfæraleikara. Til er fjöldinn allur af svokölluðum víólubröndurum, sem líkja má við Hafnfirðingabrandara, sem gera út á þá hugmynd að víóluleikarar séu upp til hópa seinþroska vitleysingar og lélegir tónlistarmenn. Að því leytinu til má segja að enn sé ákveðinn rígur milli víólu og fiðluleikara, þó hann sé að miklu leyti í nösunum á mönnum.

Ég hef setið báðum megin borðsins og þó ég sé víólskrímsl og atvinnumaður í víólspili í dag leik ég oft á fiðlu mér til skemmtunar. Ég tel að víólan sé í mikilli uppsiglingu um þessar mundir og að sá tími muni koma þegar tónlistarnemar velji sér annað hvort þessara hljóðfæra á grundvelli persónuleika síns og áhuga í stað fordóma.

Auk þess er bara svo miklu skemmtilegra í víólupartíum.

Meiri bjór.

Ég þakka þeim sem hlýddu, góðar stundir.

   (3 af 23)  
1/11/05 04:00

Ugla

[klappar eins og vitskert sé..]

1/11/05 04:00

Jóakim Aðalönd

Eins og?

1/11/05 04:00

Jóakim Aðalönd

Áhugaverð samantekt annars hjá þér Víólskrímsl. Hafðu þökk fyrir það.

1/11/05 04:00

Heiðglyrnir

Glæsilegt og einkar fróðlegt félagsrit...Þakka fyrir það.

1/11/05 04:00

Lopi

[Hlustar með athygli á fróðlegan pistil]

1/11/05 04:00

Finngálkn

Já eins og góður pistill á sunnudags-síðdegi á RUV. Stórgott og fróðlegt. Mætti vera svo miklu meira af svona þungavigtarpistlum.
Vinsamlegast þurkið þér út tilvísunina um áfengi! - Slíkt er ekki við hæfi!

1/11/05 04:00

Rattati

Hvernig stendur þá á því að þegar RUV sýnir frá opnun listviðburða þá eru allir eru með glas í hönd?

1/11/05 04:01

Tigra

Frábær pistill.

1/11/05 04:01

Hexia de Trix

Þetta var skemmtileg og fróðleg lesning! [Ljómar upp]

Við þetta má bæta að Viola da gamba þýðir einmitt fótleggja-víóla, en Viola da braccia þýðir arm-víóla. Eða eitthvað í þeim dúr, ítölskukunnátta mín er ekki nema miðlungs sæmileg.

1/11/05 04:01

Billi bilaði

Skemmtileg lesning.

1/11/05 04:01

Hakuchi

Hjartans þakkir Víóluskrýmsl. Þú hefur svalað fróðleiksþorstanum með glæsibrag.

Það væri óskandi að obbinn af félagsritum Baggalúts væru lærðir pistlar af þessu tagi.

1/11/05 04:01

Vímus

Jahá!
Gegn öllum lögmálum lífs míns var þetta bæði fræðandi og græðandi.
Ég ólst upp á heimili þar sem fiðlan var í hávegum höfð. Afi minn og móðusystir æfðu sig öllum stundum á þetta hljóðf.. nei hljóðsæri. Ég hataði skerandi vælið sem þeim tókst að kremja úr helvítinu. Það er nokkuð ljóst að ég hef skaðast all verulega af þessum pyntingum og það eitt að lesa þennan pistil og síðan njóta hans segir mér að ég sé á batavegi.

Hallelúja, skál og fimm í munn. Amen.

1/11/05 04:01

Hakuchi

Eflaust hefði víólan farið betur með þig í æsku en fiðlan Vímus minn, með sínum dýpri hljómi.

1/11/05 04:01

Stelpið

Skemmtilegur og fræðandi pistill, mikið væri ég til í að sjá meira af svona.

1/11/05 04:01

Offari

Ég hef aldrei verið haldinn fordómum gegn Víóluleikurum því ég heyri svo sjaldan í þeim.

1/11/05 04:02

Skabbi skrumari

Glæsilegur pistlingur... þú ert skrefinu fremri flestum... Skál...

1/11/05 05:00

Vladimir Fuckov

Afar fróðlegt, svona fjelagsrit er gaman að sjá hjer. Skál ! [Sýpur á fagurbláum drykk]

1/11/05 06:00

Jarmi

Loksins hafði einhver eitthvað að segja hérna. Enda kominn tími til.

2/11/05 02:02

Tina St.Sebastian

Núna er akkúrat verið að fjalla um víóluleikara í sjónvarpinu.

víólskrímsl:
  • Fæðing hér: 10/12/03 20:34
  • Síðast á ferli: 8/11/13 17:14
  • Innlegg: 3
Eðli:
Útlagi. Eirir engum.
Fræðasvið:
Víólspil, lestur þungra bóka sem fara illa í tösku, karókíbarir, hjólreiðar, pípulagnir, eyðing meindýra, kurteisleg framkoma við embættismenn, volgur bjór.
Æviágrip:
Fætt og óuppalid. Eftir stormasama æsku, ormatínslu í úthverfum Reykjavíkurborgar, eltingarleiki vid lögreglu, heimspekilegar umræður vid ýmiss konar aðstæður og illa dulbúnar brottvísanir frá virðulegum menntastofnunum flúði víólskrímslið til Hollands til að mennta sig í músíkfræðum. Hefur nú aðsetur í gömlu Reykjavík, þar sem ormétin reynitré skýla því fyrir illsku heimsins,