— GESTAPÓ —
Félagsrit:
Haraldur Austmann
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 4/12/05
Lífið og Gestapó

Gestapó er ekki raunheimar, hef ég haldið fram til þessa. T.d. er ég, Haraldur Austmann, ekki mikið líkur þeim sem þekkir hann best, ef frá er talinn aldurinn. Hvorugum okkar þykir t.d. sniðugt að blanda raunheimum of mikið inn í það sem skrifað er á Gestapó og því endurspegla skoðanir Haraldar ekki endilega skoðanir vinar hans.

Því eldri sem við verðum, því ljósara verður okkur hvað við vitum lítið. Þegar við vorum ungir, töldum við okkur vera með flesta hluti á hreinu en smám saman hefur runnið upp fyrir okkur ljós og nú eru absolút staðreyndir ekki jafn kvittar og klárar.

Þar á meðal eru skoðanir okkar á álverum og virkjunum; við vitum ekki alveg hvað er rétt og hvað er rangt þar. Hinsvegar vitum við að öll sjónarmið eiga rétt á sér og við vitum líka að bæði Valgerður Sverrisdóttir og Andri Snær Magnason eru öfgafólk, segjum kannski ekki kjánar en allt að því, sem ágætt er að hafa til viðmiðunar en ekki til að éta upp eftir einhvern algildan sannleika.

Við vorum fylgjandi álversframkvæmdum við Reyðarfjörð vegna þess að við sáum ekki fram á að geta brauðfætt fjölskyldur okkar að óbreyttu hér á Austurlandi og örvæntingafullu fólki má selja hvaða bjargráð sem er. Það gildir bæði um álver og sjálfshjálparbækur.

Við frábiðjum okkur málflutning Valgerðar Sverrisdóttur og ríkisstjórnarinnar sem snýst um að verksmiðjuvæða landið en við tökum heldur ekki mark á fólki sem aldrei hefur upplifað þá tilfinningu sem fylgir því að sjá hrun alls mannlífs í kringum sig. Og okkur þykir bara fyndið að Kárahnjúkasvæðið varð allt í einu að náttúruperlu sem ekki mátti spilla, sérstaklega í ljósi þess að áður en farið var að tala um virkjun þar, vissi nánast enginn neitt um það. Síst af öllu fólkið á Súfistanum.

Við viljum bara fá að lifa okkar lífi í friði fyrir Valgerði og Andra því bæði eru þau til óþurftar og skilja ekki að þrætur þeirra snúast um annað og meira en einhverja hugmyndafræði; þær snúast um lífsafkomu okkar og fjölskyldna okkar.

Um það hvort við missum ofan af okkur húsin, um það hvort við getum sent börnin okkar í skóla svo þau geti orðið eitthvað annað en verksmiðjuþrælar.

Við vitum líka að þetta er allt fullt af þversögnum en svoleiðis er lífið; það er enginn einn algildur sannleikur til.

Hinsvegar er okkur ljóst að síðasti fávitinn er ekki fæddur ennþá og við föllum ekki í þá gryfju að rugla saman raunheimum og þeim hlutverkaleik sem hér fer fram.

   (49 af 164)  
4/12/05 03:01

Heiðglyrnir

Já maður lifandi sko karlinn..Hárbeitt og raunsönn grein um Íslenskan raunheimaveruleika..Laus við þá díalektísku hughyggju (efnislegu fyrringu) þeirra öfga, sem að þessu máli sækja úr öllum áttum. Hver er hinn stóri sannleikur..Hvar fæðist síðasti fávitinn..Frábært félagsrit. Húrra Haraldur.

4/12/05 03:01

krumpa

Sammála. Frábært félagsrit og þörf sjónarmið sem koma fram...

4/12/05 03:01

Ugla

Var Ingibjörg þá aldrei til?
Borðar þú kannski ekki heldur mannakjöt?
Er hundur í brúnni sósu ekki raunverulega mataruppskrift?
Lygar, lygar og ekkert nema lygar...

Ég er sammála mörgu í þessum pistli fyrir utan það sem þú segir um Andra Snæ.

4/12/05 03:01

B. Ewing

Frábært rit hjá þér Haraldur. Ég ætla að vera sammála ´þrátt fyrir það sem á eftir kemur í svari mínu.

Án þess að leggjast í hugsjóna- og öfgastefnu þá er því miður staðreyndin hinum megin við heiðarnar að þar er fjöldi fyrirtækja og starfsmanna að missa lífsviðurværið vegna áhrifa framkvæmdanna og gengisstefnu ríkisins. Hátækni- útflutnings- og þekkingarfyrirtækin, þessi sem byggja sitt á rannsóknarvinnu, þróunarvinnu og erlendum tekjum hafa hvert á fætur öðru hrökklast frá landinu.
Bakkavör er dæmi um slíkt fyrirtæki meðal annars (jafn stöndugt og það er).
Áhrifin vegna þessa eru illsjánleg vegna almenns skorts á vinnuafli og eru langflestir komnir í aðra vinnu (þó líklega ekki jafn vel borgaða) strax við starfslok innan sprotafyrirtækja og sjást þess vegna aldrei á atvinnuleysisskrá.
Ef til væri tekjutapsskrá í líkingu við atvinnuleysisskrá þá sæust áhrifin glögglega.

Sjálfur hef ég sem betur fer ekki unnið innan þessa geira sem nú á undir högg að sækja en sé vel að gáð þá er þetta því miður raunveruleikinn.

Hafi það hver sem vill í sínum garði. Ég get nefnt lognið á fjörðunum og gulleitu mengunina sem þá á eftir að sjást glögglega lónandi yfir álverinu en læt þetta bara duga.
Margir sendu inn viðvaranir. Vonandi rætast fæstar þeirra.

4/12/05 03:01

Haraldur Austmann

Á meðan ekki koma fram bitastæðar og raunhæfar hugmyndir frá okkur sem setjum spurningamerki við álver og annað því um líkt eða erum hreinlega andsnúin þeim, um hvað þetta eitthvað annað sem svo margir tala um eigi að vera, mun þetta halda áfram.

4/12/05 03:01

Þarfagreinir

Nei, það er rétt að raunheimar og Gestapó eru ólík fyrirbæri. Samt sem áður er óneitanlega skörun þar á milli. Mjög misjafnt er hversu aðskildar raunheimapersónurnar og Gestapóásjónur fólks eru, eins og gengur og gerist. Slíkt getur valdið misskilningi og leiðindum.

Ég er sjálfur í hópi þeirra sem eru afskaplega líkir sjálfum sér hvert sem þeir fara og hvar sem þeir skrifa. Ég er líka ungur og hugsjónafullur. Þetta á kannski eftir að eldast af mér, en þangað til er lítið við því að gera.

Það er rétt að ég hef aldrei búið í hnignandi samfélagi. Ég er líka ótrúlega fáfróður um Ísland almennt séð, sem mér þykir miður og mér nokkuð til skammar. Þó veit ég að vandi mjög margra byggða hér á skerinu er raunverulegur - því hef ég aldrei reynt að draga úr. Vitahringur fólksfækkunnar og samdráttar atvinnugreina er án efa mjög sárt að horfa upp á. En að stilla upp þeim andstæðum að þjóðfélagsins í heild bíði annað hvort stóriðja eða dauði er óábyrgt í meira lagi, og engum greiði er gerður með því.

Ég ítreka það síðan enn og aftur að ég tel það ekki vera hlutverk ríkisstjórna að verja tugum milljarða skattfjár í verkefni til að 'bjarga' hlutfallslega fáum þegnum. Ef þróunin liggur í átt að fólksfækkun og afnámi byggða tel ég að svo verði einfaldlega að verða, hversu hart sem það er. Hrun húsnæðisverðs mætti hæglega bæta fólkinu úr ríkiskassanum fyrir brot þeirra fjármuna sem stífluframkvæmdir kosta.

Ég ítreka enn og aftur að ég er fáfróður um byggðir landsins. Mér finnst það engu að síður eðlilegt að ég fái að hafa skoðun á því hvernig skattfé mínu er varið, og hvernig þjóðfélag ég vil hafa hér á landi. Öðrum er síðan frjálst að hafa aðra skoðun á því, en mér gramdist hins vegar óneitanlega að sjá rit mitt þar sem ég gagnrýni bók og reifa hugsjónir mínar henni tengdar útatað í glensi sem kemur efni pistilsins lítið sem ekkert við.

Ef þetta eru skilaboð þess efnis að umræða af þessu tagi er illa séð hér á Gestapó mun ég hætta henni tafarlaust, og finna mér annan vettvang fyrir hana.

4/12/05 03:01

Haraldur Austmann

Voðalega væri nú gaman fyrir dreifarana að fá bréf inn um lúguna:
"Ágæti viðtakandi.
Því miður tilkynnist þér hér með að lífi þínu, sem þú hefur varið síðustu fjörutíu árum í að byggja upp, er lokið. Íslenska ríkið mun kaupa af þér húsið þitt á sanngjörnu verði en þú verður að flytja þig burt viljir þú eiga aðgang að heilsugæslu eða annarri opinberri þjónustu því hún verður ekki lengur veitt þarna í Krummaskuð. Það er einfaldlega of dýrt að halda þessari þjónusutu úti og við kjósum að líta framhjá því að alla þína ævi hefur þú starfað í útflutningsgrein og skapað talsverð auðævi fyrir þjóðarbúið.
Sértu ósatt(ur) við þetta, viljum benda þér á sjálfshjálparbók Andra Snæs Magnasonar.
Kær kveðja
Ríkisstjórnin."

4/12/05 03:01

Þarfagreinir

Ég sé að þetta er viðkvæmt mál, og ég á það nú stórlega á hættu að missa mig út í óábyrgt tal á borð við það sem ég gagnrýni sjálfur - hafi ég ekki gert það nú þegar.

Sjálfur er ég ættaður úr sjávarþorpi. Afi minn vann við sjómennsku alla þá tíð sem hann hafði burði til að stunda hana. Amma mín var húsmóðir, og lifðu þau góðu lífi í plássinu litla. Hins vegar fóru börnin öll suður, og þau fylgdu loks með niður í Hafnarfjörð svo þau gætu verið nær afkvæmunum í ellinni.

Heimabær þeirra, æskuslóðir föður míns, eru fallegar; há fjöllin og djúpi fjörðurinn minna sífellt á nálægðina við náttúruna og grundvöll þess að bærinn gat byggst.

Hins vegar myndi ég aldrei vilja búa þarna, né sé ég forsendur fyrir því að slíkt myndi ganga upp. Þarna eru engin fyrirtæki sem starfa á því sviði sem ég hef valið mér sem ævistarf (að minnsta kosti engin sem ég veit um). Þarna er einn bar, og álíka mörg kaffihús. Ekkert Subway, sem mér þykir góður matur. Fáir tónleikar stórhljómsveita eru haldnir þarna, síst af öllu á vegum erlendra listamanna. Ferðir til útlanda útheimta langt ferðalag til Keflavíkur, fram og til baka. Og síðast en ekki síst er bærinn fámennur - þó mér líki mjög illa við stórborgir líkar mér enn verr við bæi þar sem hægt er að kynnast öllum á fáeinum dögum.

Ég skil því vel að fólk vilji flytja í burtu. En ég skil líka vel að margir vilji vera áfram, því smekkur manna er misjafn (sem betur fer), og taugirnar sem toga hvern mann að æskuslóðum sínum eru sterkar. Ég hef fulla samúð með fólki í þeirri stöðu, en hef fáar töfralausnir að bjóða því.

Kannski að virkjanir og álver myndu bæta stöðu þeirra. Ég get ekkert fullyrt um það. Og það er ekki eins og ég sé það mikill náttúruunnandi að þessar framkvæmdir snerti mig gríðarlega á þá vegu. Það sorglegasta finnst mér hins vegar uppgjöfin. Að það sé annað hvort þetta, eða byggð leggist þarna af. Kannski er það staðreynd. En er þetta það sem fólk í dreifbýlinu vill bjóða börnum sínum? Heldur það virkilega að álver og súrálsverksmiðjur muni halda komandi kynslóðum í plássinu? Er fórnarkostnaðurinn virkilega þess virði? Er réttlátt og eðlilegt að ríkið leggi þessar hrikalegu fjárhæðir í slíkt verkefni? Er það hlutverk þess?

Ég ætla ekki að þykjast hafa svör við þessum spurningum. En mér finnst ekkert að því að spyrja þeirra.

Og í guðanna bænum ekki halda að ég sé að segja fólki að 'taka sig bara saman í andlitinu' og 'gera bara eitthvað'. Þessi mál leysast ekki að sjálfu sér, en álver finnst mér vafasöm lausn í meira lagi.

4/12/05 03:01

Haraldur Austmann

Ég bara veit ekki hvort álver bjargar einhverju einshversstaðar og ég veit ekki heldur hvort kaffihúsaspeki Andra Snæs gerir það heldur. Líklega þurfum við eitthvað þar á milli, t.d. uppskriftabók eftir Jóa Fel.

4/12/05 03:01

Þarfagreinir

Það er ekki nógu framsækið. Sudoku-bók eftir Bjarna Fel væri lóðið.

4/12/05 03:01

Offari

Loks lætur hinn þögli minnihluti í sér heyra. Ég er einn af þessum þögla minnihluta, en því miður er Kárahnjúkavirkjun nú þegar búinn að kosta of mörg manslíf, það eitt réttlætir mótmælin.

4/12/05 03:01

Skabbi skrumari

Er þetta félagsrit skoðun ykkar beggja, Haraldur?

4/12/05 03:01

Haraldur Austmann

Já, þetta er meðaltal þeirra.

4/12/05 03:01

Skabbi skrumari

P.S. þörf umræða að mínu mati... ég vil aðskilja ríkið (Gestapó) og kirkju (raunheima)... en þó á ég það til að koma mínum kirkjulegu skoðunum á framfæri hér í Ríkinu...

4/12/05 03:01

Ugla

Ég ætla rétt að vona að fólk haldi ekki að "ég" sé neitt lík þessu bitra, reiða og drykkfellda fríki sem hún Ugla blessunin er...!
[ hneykslast...]

4/12/05 03:01

Skabbi skrumari

Ha... Ugla... ertu ekki Ugla?

Ég er Skabbi... ég er Alkahólisti...

4/12/05 03:01

Haraldur Austmann

Ég heiti Haraldur. Ég er flagari og sprautufíkill.

4/12/05 03:01

Golíat

Stóra spurningin er; á ríkið að vera með inngrip í þróun sem er í gangi. Þróun sem virðist stefna að því marki að sífellt stærri hluti landsins fer úr byggð en sífellt fleiri setjast að á litlum hluta landsins. Þróun sem búin er að vera í gangi vel á aðra öld. Er það hlutverk stjórnvalda að berjast á móti slíkiri þróun?
Ég segi hiklaust já. En með hvaða aðferðum þá? Ekki með lánasukki úr sameiginlegum sjóðum undir nafni Byggðastofnunar eða einhvers álíka. Slíkt býður aðeins upp á spillingu og að óarðbærum störfum er haldið gangandi með almannafé. Annar möguleiki er almennar aðgerðir eins og skattaívilnanir fyrir íbúa og fyrirtæki þeirra landsvæða sem menn vilja verja. Þetta er kostur sem mér finnst fólk alltof feimið við að ræða. Hvort er betra að eyða 1 milljarði úr ríkissjóði með þessum hætti eða láta Kristna Há Gunnarssyni, Gunnlauga Stefánssyni og Agla Jónssyni Byggðastofnunar úthluta honum til vina sinna, vandamanna og kjósenda? Svari hver fyrir sig.
Ein leiðin enn er að styðja við ákveðin stórverkefni á ákveðnum landssvæðum. Þar kemur Iðnaðarráðuneytið með hina skeleggu Valgerði til sögunnar. Og hér set ég punkt.

4/12/05 03:01

Vladimir Fuckov

Þetta er augljóslega bara grín. Hjer villir aldrei neinn á sjer heimildir, hvorki hvað nafn, útlit nje persónuleika snertir.

4/12/05 03:01

Golíat

Vladimir - ég hélt að öll léttúð og spé væri stranglega bönnuð hér. Hvernig skýrir þú þetta?

4/12/05 03:01

Vamban

Við erum báðir stórmyndarlegir!

4/12/05 03:02

Hakuchi

Mikið var þetta vel skrifað og falleg hjá honum Haraldi gamla. Ég tek heilshugar undir flest það sem þar er skrifað. Sjálfur er ég af þeim skóla bagglýtiskrar hugsunar að ég er ekki sá sem ég skrifa. Þetta er karakter. Auðvitað blandast eigið sjálf og karakterinn, sumt er ýkt og skrumskælt annað hreinn skáldskapur í Hakútsa. Ég hef ávallt haft mestan áhuga á slíkum karakterum í Gestapó, þ.e. athyglisverðast er að sjá hvernig fólk skapar og leikur sér með hliðarsjálf sem endurspegla alls ekki endilega viðkomandi í raunheimum og hefur verið almennur skilningur hjá slíku hjá flestum held ég. Enda er skemmtilegra að leika sér með léttklikkuðum hliðarsjálfum( venjulegs/óvenjulegs fólks) en venjulegu fólki á Gestapó. Venjulegt fólk er hægt að leika sér við í hinum meintu raunheimum.

Að þessu skrifuðu afneita ég öllu ofanskrifuðu í þessu kommenti og skil ekkert hvaða blaður þetta var. Til er einungis einn heimur Gestapó. Annað er lygi.

4/12/05 03:02

feministi

Ég vil taka það fram strax að ég er ekki til í raunheimum og efir því sem ég kemst næst eru Kárahnjúkar heldur ekki til. Þeir eru partur af alheimssamsæri auðvaldsfasista og náttúrukrípa sem ætla að skemma allt okkar líf með því að takmarka bandvídd og dánlód til okkar.

4/12/05 04:00

Vladimir Fuckov

Þjer eigið það líka sameiginlegt með nær öllum öðrum Bagglýtingum að vera heldur ekki til hjer, líkt og nýjasta fjelagsrit vort sannar með ótvíræðum hætti.

Því má svo bæta við að það er Hakuchi ritaði hjer að ofan hefði hvað innihald snertir nánast getað verið ritað af oss - þó með blæbrigðamun á nokkrum stöðum.

Að lokum bendum vjer feminista á að skv. umfangsmiklum rannsóknum eru sk. 'raunheimar' risavaxið samsæri er Kárahnjúkar eru einungis örlítill hluti af. Samsærið er m.a.s. svo stórt og umfangsmikið að raunheimarnir eru ekki til.

Haraldur Austmann:
  • Fæðing hér: 17/11/03 23:10
  • Síðast á ferli: 8/9/11 18:56
  • Innlegg: 504