— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
hlewagastiR
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 8/12/08
Braut

Nú er svo komið að nýjar götur í þéttbýli fá næstum aldrei heiti sem endar á -gata, -vegur, -stígur eða einhverju sæmilega rökréttu? Nú heita þær -vað, -sveigur, - kvísl, -kór, -tunga, -smári, -hvarf eða eitthvað enn verra.

Rökin eru vísast þau að sé nú þegar sé komið svo mikið af götum, vegum og stígum að vart sé á bætandi auk þess sem slík nöfn gefi ekki ótvírætt til kynna í hvaða hverfi þær eru.

Reyndar heldur þessi röksemd illa því að sveitarstjórnarmönnum er fyrirmunað að líta út fyrir landamæri eigin hrepps þegar þeir gefa götum nöfn. Þannig eru Ásar í Reykjavík, Garðabæ, Hafnarfirði og Egilsstöðum og eflaust víðar; Holt í Reykjavík, Garðabæ, Mosfellsbæ og Ísafirði og eflaust víðar og svo mætti lengi telja. Áður en menn vita af verður svo hægt að finna hina ofurfrumlegu Smára, Sali, Kóra og Hvörf þeirra Kópvyginga í öðru hverju krummaskuði landsins.

-----------------

Nú býður Hlebbi hugmyndasnauðum gatnanafngiftarmönnum upp á snilldarlausn. Það vantar algerlega Brautahverfi! Brautir hafa hingað til aðeins heitið umferðarþungar aðalbrautir en það er öldungis nauðsynjalaust að takamarka þetta góða, forna heiti við slík ferlíki.

Leiðin inn í hverfið væri um götuna Þjóðbraut. Aðalgatan í hverfinu, sem tengir allar hinar, myndi auðvitað heita Fjölbraut. Grunnskólinn í hverfinu stæði við Menntabraut. Fangelsi gæti risið við Glæpabraut eða Ógæfubraut. Íbúðargöturnar gætu svo heitið Akbraut, Beinbraut, Dráttarbraut, Fótbraut, Gardínubraut, Hryggbraut, Járnbraut, Lærbraut, Mölbraut, Rifbeinsbraut, Tábraut, Vetrarbraut, Zetubraut og Ævibraut.

Varasamt væri þó að kalla neina af götunum Hraðbraut, það gæti bara misskilist.

   (39 af 82)  
8/12/08 02:01

Galdrameistarinn

Urrandi snilld hjá þér.
[Veltist um af hlátri]

8/12/08 02:01

Huxi

Verður þá róluvöllurinn eða leikskólinn ekki að rísa við Rennibraut?

8/12/08 02:01

hlewagastiR

Vissulega, Huxi. Þá láðist mér að nefna það að samkvæmt deiliskipulagi ætti að vera óheimilt að malbika Mölbraut.

8/12/08 02:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Það er mikilvægt að allir séu á réttri braut...
[Tryggir sér byggingarlóð við Zetubraut]

8/12/08 02:01

Kargur

Sannarlega merkilegur pistill að vanda Hlebbi. Er annars ekki til Þjóðbraut á hinu nauðaómerkilega Akranesi?

8/12/08 02:01

hlewagastiR

Kargur: jú hún er til þar en er aðalvegur. Þeir eru ekki með Brautahverfi. Reyndar hafa þeir þann sérstaka sið að kalla allar götur sem byggst hafa eftir 1980 sama nafninu, þ.e. Jörundarholt. Það munu vera um 30 götur á Skaganum sem heita þetta í dag. Auk þess er Akranes alls ekki svo ómerkilgur bær. Það er t.d. enn ekki útséð um að knattspyrnuliði þeirra takist að halda sæti sínu í næstefstu deild Íslandsmótsins.

8/12/08 02:02

Kargur

Hlebbi, Akranes hefir verið óþarft síðan það kom ríki í borgarnes. Ég reiknaði það út að knattspyrnulið Akraness hafi svo gott sem verið fallið eftir tæpar tvær umferðir á Íslandsmótinu.

8/12/08 02:02

Herbjörn Hafralóns

Kargur, ef þú ætlar að halda áfram að gera lítið úr fæðingarbæ mínum, skal ég svo sannarlega finna þig í fjöru einhvern daginn.

8/12/08 02:02

Þú ert sannkallaður brautryðjandi í götunafngiftum, Hlebbi. Húrra!

8/12/08 03:00

Jóakim Aðalönd

Það verður ekki af þér skafið hlebbi minn. Það er leitun að janf skemmtilegu og fróðlegu félaxriti, sérstaklega á þessum tímum.

Hafðu þökk fyrir þetta. Skál og prump!

8/12/08 03:00

Hvæsi

Já þarfur pistill. Fyrsta sem mér dettur í hug er grey fólkið sem býr við götuna "völundarhús"
En, Hlaupabraut gæti hýst íþróttahúsið... og hringbraut gatan sem allir villast í.

8/12/08 03:01

Útvarpsstjóri

Ég held því miður að "snillingarnir" sem ákveða götunöfnin hefðu ekki vit á því líta hingað inn jafnvel þó gáfur þeirra væru allar lagðar saman í einn koll.

8/12/08 03:01

Hvæsi

Framabraut...

8/12/08 03:01

Ívar Sívertsen

Nýbúagatan verður vitanlega Málabraut.

8/12/08 03:02

Regína

.. og pant þá ekki búa við Félagsfræðibraut. Þá er Náttúrufræðibraut skemmtilegri.

8/12/08 03:02

hlewagastiR

Snilld að bæta námsbrautunum í Fjölbraut við þetta. Auli gat ég verið að fatta það ekki.

hlewagastiR:
  • Fæðing hér: 2/11/03 22:29
  • Síðast á ferli: 17/2/19 16:40
  • Innlegg: 3684