— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 1/11/03
Frœðakorn

Dálítið um æ og œ

Æ ... það er fyrir löngu kominn tími að útskýra muninn á ‘œ’ og ‘æ’. Ég þakka Limbra og forsetanum okkar Vladimir fyrir að minna mig á það. Hér reyni ég að varpa ljósi á málið.

Í árdaga voru tvö ólík sérhljóð í norrœnu sem síðar runnu saman í íslensku og urðu að ‘æ’ í nútímastafningu. Hljóðfrœðilega séð varð hvorttveggja til út af i-hljóðvarpi. Sérhljóðið ‘ó’ undir áhrifum ‘i’ varð að ‘œ’, meðan sérhljóðið ‘á’ varð að ‘æ’. Ekki er viðkomandi ‘i’ lengur til sýnis í öllum tilfellunum, sem getur verið ruglandi. Oft er það ósýnilegt, týnt í málsögu einhvers staðar, eins og þegar nafnorðið hár gefur okkur lýsingarorðið hærður. Íslendingar kannast best við i-hljóðvarp í sagnbeygingum: þótti í framsagnarhætti verður að þœtti í viðtengingarhætti. En fyrir þá sem vilja nota þessa stafi á réttum stöðum, er best að hafa í huga höfuðregluna: ‘œ’ tengist ‘ó’ meðan ‘æ’ tengist ‘á’.

Tengslin geta verið margvísileg, eins og sést fyrir neðan.

Dœmi um ó og œ:

fróðleik - frœði
bók - bœkur
óður - œði
tómur - tœma
góður - gœði - gœða - gœzka
hóf - hœfi - hœfa - hœfilegur
gróa - grœða
flóð - flœða
flókinn - flœkja
óp - œpa
nóg - nœgja - nœgur
mót - mœta
sóma - sœma - sœmd
sótt - sœtti - sœkja
dómur - dœma - dœmi
fór - fœra
tók - tœki

Svo er hitt sérhljóð ‘æ’ og skyld orð með ‘á’:

(eiga) - átt - ætt - ættingi
(eta/éta) - át - æta
hár - hærður
gát - gæta - gæzla
máta - mætur - dýrmætur
sár - særa
sáttur - sætta
mál - mæla
ráð - ræða
háttur - hættir
ár - æ - ævi - ævintýr

Stundum dettur manni bara ekkert hugsanlega skylt orð í hug, og þá hjálpar danskan oft. Tilfellið er að hljóðið ‘œ’ þróaðist í aðra átt í dönskunni heldur en í íslenskunni, rann saman við norrœna ‘ö’ og varð að nútíma ‘ø’. Fyrir þá sem eru að skrifa íslensku og reyna að greina sundur ‘æ’ og ‘œ’ þýðir það, að ef til er skylt orð á dönsku með ‘ø’, er rétta sérhljóðið oftast ‘œ’. Hér eru nokkur dœmi:

norrœnn (sbr. Da. norrøn)
grœnn (sbr. Da. grønd)
hœna (sbr. Da. høne)
hœgri (sbr. Da. høyre)
sœtur (sbr. Da. sød)

[Því miður eru nokkrar undantekningar hér til vandræða. Nefna má sær og fræ. Þannig er það bara.]

Norrœnt ‘æ’ hinsvegar varð að danska ‘æ’. Merkilegt nokk. Þannig að kæri svarar til kjære.

Síðast má nefna nokkur algeng dœmi sem erfitt yrðu að púsla út: æ æ, (svona svona), sí og æ, ætla, þær, væri, kæmi, nákvæmni.

Þar hafið þið það. Njótið vel.

   (12 af 28)  
1/11/03 07:00

Hakuchi

Seisei já. Loksins lærir maður eitthvað nýtt á þessum vef.

1/11/03 07:01

Limbri

Úff, og er ég að skilja það rétt að þú sért ekki íslensk ?
Ef svo er, þá ert þú alveg mögnuð. Jah, reyndar ertu mögnuð hvað sem þjóðerni líður.
Takk kærlega fyrir þessa útskýringu.

-

1/11/03 07:01

Órækja

Þetta er afbragðs rit og hefur það vakið mikla umræðu á mínu heimili, meðal annars um stafagerð þá sem notuð er í fyrirsagnir félagsrita og þær gerðir af æ-um sem þessi gerð notar.

1/11/03 07:01

Tigra

Jahérna. Þetta kom mér skemmtilega á óvart. Geturu sagt mér hvort að Æ er ekki eitthvað skyldt því sem skrifað er ae í frönsku.. og hvort þetta er e inhver sambærileg þróun þar?

1/11/03 07:01

Vladimir Fuckov

Þetta er stórmerkilegt - vér þökkum frœðandi pistling. Og kostulega öfugsnúið að oss var farið að gruna (sbr. veðurþráðinn) að 'œ' (er eigi er til í íslensku) tengdist 'ó' en höfðum eigi áttað oss á samsvarandi tengslum 'æ' (er til er í íslensku) við 'á'. Vér höfðum reyndar eigi hugsað sérstaklega út í það.

Fróðlegt væri að vita afhverju 'tœki' (sbr. sjónvarpstœki) er með 'œ' því vér erum vissir um að vér sáum það með 'œ' í einhverjum þræði ásamt einhverri athugasemd varðandi það.

Nú getum vér semsagt við hátíðleg tækifæri skrifað 'je' í stað 'é' og hugsanlega líka er við á 'z' í stað 's' og 'œ' í stað 'æ' [Ljómar upp].

1/11/03 07:01

Haraldur Austmann

Æ œ, ég botna ekki neitt í neinu.

1/11/03 07:01

Mosa frænka

Þvílík viðbrögð! Stórkostlegt að fólk hefur gaman af þessu. Tigra - því miður hef ég lágmarkskunnáttu í frönsku og get ekki svarað þér af viti. Enda eru franskan og íslenskan ekki mjög náskyldar (nema í tilfelli stöku tökuorða eins og 'kæri' - 'cheri'), þannig að mig grunar að 'æ' og 'ae' séu ekkert tengdar. Vladimir - 'tœki' er skylt 'tók', og þaðan kemur sérhljóðið. Og vissulega er 'œ' til á íslensku. Eins og 'z' sést varla lengur nema í vissum falsmiðlum, sést 'œ' oftast í vissum fornritsútgáfum.

1/11/03 07:01

Jóakim Aðalönd

Þetta er magnað rit hjá þér Mosa. Hafðu þökk fyrir.

1/11/03 07:01

Barbapabbi

Þú ert greinilega ekki græn í fræðunum. Svei mér þá ef maður heldur ekki pistlinum til haga.

1/11/03 07:02

Herbjörn Hafralóns

Er það ekki merkilegt að erlend kona, með aðsetur langt í burtu skuli skáka okkur í íslenskunni?

1/11/03 07:02

Hakuchi

Já. Mosa frænka er Rassmus Christian Rask nútímans.

1/11/03 07:02

Hildisþorsti

Þessi grein á heima á Menjasafni. Hrein snilld.

1/11/03 01:00

Glúmur

Megir þú lifa þúsund ár Mosa! [Ljómar upp]

1/11/03 01:01

hundinginn

VÁ. Ef að ég hefði haft svona gáfaðan kennara í æsku... Þá hefði maður örugglega sýnt honum, henni, þeim meiri virðingu.

1/11/03 01:01

Skabbi skrumari

Ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að það væri einhver munur á þessum æjum, Mosa þú ert fræðimaður á heimsmælikvarða... Skál

1/11/03 01:01

Lómagnúpur

Ég leyfi mér að benda á að þessi stafur gengur undir nafninu Eðel og er upprunalega ligatúra fyrir OE. Hann er jafnan borinn fram sem Ö, og hefur líklega verið svo á þeim tíma er hann var notaður hér fyrir þetta hljóðvarp. Því má bæta við að að OE í latneskum stofnum á að bera fram ö, þótt að kanar geri það ekki, sbr. Phoebe og foetus.

1/11/03 01:01

Frelsishetjan

Hmm og kannski Pheonix líka. Jahh hver þekkir ekki fuglinn Fönix.

Annars er þetta mjög góð skrif og finnst mér leitt að þetta skuli hafa verið tekið úr íslenskunni. En kannski var það fínt því að þetta er einni reglunni færra að læra.

Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.