— GESTAPÓ —
Glúmur
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 1/11/04
Af góðu og illu

Réttlætiskennd er afar merkilegur eiginleiki og er djúpt rituð í hjörtu okkar, þessi djúpa sannfæring þjónar okkur til að gera mun á réttu og röngu, góðu og illu. En til hvers erum við gædd þessari gáfu að greina þar á milli - er það til þess að get fellt dóma yfir öðrum eða til að rækta okkur sjálf?

Það er vissulega til slæmt fólk hér í heimi. Fólk sem vinnur öðrum illt án þess að hugsa sig tvisvar um og jafnvel þeir sem sækja í að vinna öðrum illt með mikilli áfergju og algjöru skeytingarleysi gagnvart þeim sálum sem þeir særa. Það er engum greiði gerður með því að þykjast að slíkir einstaklingar séu ekki til en það er hollt að hafa líka hugfast að þeir eru sem betur fer ekki á hverju strái.
Þegar fólk stendur frammi fyrir einstakling sem í raun er illur í eðli þá er einnig margt sem við verðum að hafa hugfast. Enginn er svo illur að í honum leynist ekki eitthvað gott og mannlegt. Eitthvað sem snertir samúð góðs fólks og eitthvað sem fær mann til að finna til samsvörunar með honum. Hinir sannarlega illu vita vel hverjar sínar góðu hliðar eru og þeir rækta þær jafnvel því það veitir þeim vellíðan og einnig finna þeir hvernig hendur þeirra verða frjálsari og tortryggni samferðamanna minnkar í þeirra garð.
Slík hegðun er þó á engan hátt einskorðuð við illvirkja því þetta gerum við öll á einhvern hátt - ég nefni þetta til að minna á að hinir sönnu illvirkjar eru menn líkt og við og hafa kosti að bera sem eiga það til að blinda okkur fyrir ókostunum eða jafnvel fá okkur til að afsaka og líta fram hjá þeim ókostum þeirra sem okkur eru augljósir.
Af mínum kynnum af mannfólki þá hef ég kynnst nokkrum illa innrættum einstaklingum en mér til lukku hef ég aldrei verið illa særður eða skaðaður af illvirkja. Af þeim sem ég hef haft þá reynslu af að hafa samskipti við þá verð ég að segja að flestir þeirra áttu það sameiginlegt að það gustaði af þeim þegar svo bar við, með drifkraft og einbeittan vilja, gráglettni og ögn af stórmennsku - en voru jafnan skelfilega mistækir og áttu erfitt með að halda hlutunum á réttri braut.
Svo er vitaskuld önnur tegund illvirkja sem ekkert gustar af en það eru hinir hægu og bitru. Slíkir einstaklingar geta líka reynst fólki skelfilega grimmir en bera þó með sér þann kost að yfirleitt reyna þeir ekki eins mikið að fela óbeit sína og biturð og maður veit betur hvar maður hefur þá. Þeir hafa vissan heiðarleika við óbeit sína gagnvart manni sem ég hef alltaf talið þeim til tekna.
Allir þessir einstaklingar hafa vafalaust verið illa leiknir af mörgum í gegnum tíðina, illt getur af sér illt. Í upphafi óverðskuldað og síðar kynnast menn illindum sem þeir sjálfir voru valdur að. Fátt fer jafn illa með sálina í fólki og þeirra eigin illska. Jafnvel þeim sem af sönnu hjarta óska þess að hætta að særa þá sem eru sér nærri getur reynst það nánast óyfirstíganlegt að verða ekki eldri siðum að bráð. Allt er þó vitanlega mögulegt og með góðu má hjálpa til með að rækta burt hið illa, lækna gömul sár. Illt verður ekki með illu burt rekið, það er víst. Það er hið góða í okkur sem við verðum að rækta, það er það sem veitir okkur hamingju. Það er hlutur sem við vitum öll innra með okkur, allir vita að sú tilfinning að reynast einhverjum sem maður elskar ákaflega góður er einhver sú ljúfasta sem við kynnumst. Að ég tali nú ekki um þá tilfinningu þegar einhver sem elskar okkur reynist okkur ákaflega góður þegar við þörfnumst þess helst.
Það er mín skoðun að ekkert reynist okkur betur í leit að hamingjunni en að vera góð, þar held ég að hinn sanni tilgangur réttlætiskenndarinnar liggi, hann er ekki að dæma hvort aðrir séu góðir eða slæmir heldur til að hjálpa okkur að varðveita það sem er gott í okkur. Góðmennskan er okkar rétta hlið og jafnframt sú auðsærðasta, við verðum því að standa vörð um hana og neita öðrum um að svipta okkur henni því hún er sannarlega okkar dýrmætasta eign.

   (17 af 24)  
1/11/04 08:00

Gísli Eiríkur og Helgi

Þú ert góður maður og góður stílisti hafðu þökk
mína alla

1/11/04 08:01

blóðugt

Þegar maður finnur það ekki í sér að vera góður við einhvern sem sýnt hefur eintómt undirförli og illsku, hefur maður þá glatað eigin góðmennsku?

1/11/04 08:01

Limbri

Þér, herra minn, eruð gull af manni.

Sérlega gott félaxrit og vandað verk í alla staði.

-

1/11/04 08:01

Sæmi Fróði

Fyrir mannræktendur er þetta höfuðrit, mannrækt í sínu skýrasta formi, hafðu þökk fyrir Glúmur.

1/11/04 08:01

Heiðglyrnir

Vel skrifað og virkilega gott félagsrit, Riddara-þakkir.

1/11/04 08:01

Von Strandir

Þakka þér.

1/11/04 08:01

Glúmur

Ég þakka ykkur.
Varðandi það sem þú segir blóðugt þá er okkur engin skylda að sýna öllum góðmennsku. Það er okkar að velja hverjum við sýnum þessa hlið og þeim mun fleiri sem við sýnum hana þeim mun meiri líkur eru á að við verðum særð á einhvern hátt, því er eðlilegt að vera sýna varkárni. Það er mín skoðun að það að standa hlutlaus gerir okkur ekki illt en að sýna öðrum illsku tel ég að hafi sjaldnast gott í för með sér heldur hafi það ill áhrif á okkur sjálf.
Það sem ég minntist ekki á var að það er, eins og við vitum, oft auðvelt að grípa til illskunar, manni getur jafnvel fundist það gefandi. Það er erfitt að vera ekki illur þeim sem manni finnst "eiga það skilið". Þetta er dæmi um notkun á réttlætistilfinningunni þar sem hún er notuð til að dæma aðra og útdeila refsingu í formi illinda, slíkt fellur mér ekki í geð þó ég sé á engann hátt saklaus um slíkt háttalag. Það er mín skoðun að hreinskilni og hörð afstaða sé alltaf réttari leið heldur en að grípa til illkvittni og særandi ummæla. Því finnst mér best að sýna velviljuðu fólki góðmennsku og þá sérstaklega þeim sem manni þykir vænt um, vera hlutlaus en varkár gagnvart þeim sem maður hefur efasemdir um. Ég kýs svo að fjarlægja mig frá þeim sem hafa gert á minn hlut tilfinningalega en vera fastur fyrir ef þeir sækja að mér eftir það. Umfram allt að forðast illkvittni sem heitan eldinn, því í mörgum tilfellum hefur manns eigin illkvittni djúpstæðari og verri afleiðingar fyrir mann en illkvittni annarra.

1/11/04 09:02

Hakuchi

Þetta er fögur sunnudagspredikun Glúmur minn.

1/11/04 11:00

Lopi

Frábær pistill. Eitthvað sem maður hefur verið að velta sér fyrir sjálfur en ég hefði aldrei getað komið þessu svona vel fyrir í orðum.

Glúmur:
  • Fæðing hér: 8/8/03 13:32
  • Síðast á ferli: 23/6/16 16:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Ég er Glúmur Angan verzlunar- og múgæsingamaður. Vertu hjartanlega velkomin(n) á þessa lítilfjörlegu síðu mína og endilega fáðu þér kaffibolla og lummu af borðinu.
Fræðasvið:
Verzlunar- og múgæsingamaður
Æviágrip:
Glúmur Angan er fæddur og uppalinn að Hálsakoti í Háadal. Ungur að árum var Glúmur fljótur upp á lag með að gera gys að jafnöldrum sínum og þótti honum þeir tregir. Varð þetta til þess að jafnaldrar Glúms forðuðust hann og óskuðu enskis frekar en að verða ekki fyrir háðslegum skætingi og níðvísum hans er síst varði, varð Glúmur fljótt vinalaus með öllu utan prestinn á Síðu sem Glúmur heimsótti oft og ræddu þeir jafnan saman heilu dægrin.Glúmur þótti duglegur til verks og þá sérstaklega höfuðverks en hann bar því tíðum við að hann gæti eigi farið út á engi eða sinnt gegningum sökum höfuðverks. Glúmur átti eigi í vandræðum með að útskíra höfuðverkinn og sagði hann vegna þess að slíkar gáfur hefði hann að hann hreinlega verkjaði í höfuðið ef hann mætti eigi huxa um eitthvað gáfulegt. Þessu trúði enginn nema presturinn á Síðu sem tæmdi safnaðarsjóðinn til þess að hægt væri að senda Glúm til náms í Lærðaskólanum. Því er skemmst frá að segja að Glúm þótti ekki mikið koma til gáfnafars kennaranna í Lærðaskólanum og sótti því enga tíma, sem varð til þess að Glúmur var rekinn úr skólanum strax á haustmánuðum. Tók þá Glúmur sér allrahanda hluti fyrir hendur og tók stefnuna á þá braut sem hann fylgdi æ síðan sem verzlunar- og múgæsingamaður.Meðal þeirra hluta sem hann var hvað frægastur fyrir var að æsa fyrrverandi bekkjarfélaga sína til að æpa "Pereat" út um alla Reykjavík þó svo að enginn þeirra vissi hvað það þýddi, slíkir vanvitar sem þeir voru, hló þá Glúmur og nuddaði saman höndunum eins og hann gerði svo oft er hann var eitthvað að bralla.Glúmur fór snemma að stunda verzlun og var fljótt farinn að standa í útflutningi. Glúmur var snjall í viðskiptum, ef ekki viðsjárverður, og varð fljótt ríkur af viðskiptum sínum þó stundum orkuðu þau tvímælis. Danska krúnan varð til dæmis að grípa fram fyrir verzlun Glúms í Danmörku þegar hann varð uppvís af því að hafa selt reyðinnar býsn af mjöli til Dana sem síðar kom í ljós að var ekkert annað en vikur og jafnvel alvarlegra var hversu margir veiktust eftir að Glúmur seldi Dönum móköggla sem þrumara. Enn þann dag í dag eru verzlunarsvik Glúms kennd í grunnskólum í Danmörku og á hann væntanlega stóran þátt í því hversu mjög Danir eru kvekktir og varir um sig í návist Íslendinga.Glúmur var í seinni tíð virtur galdrabrennu forkólfur og "ÚltraKóbalt" veldi hans var stórt í sniðum.