— GESTAPÓ —
Heiðursgestur.
Sálmur - 2/11/08
Ég er...

...

...aska, sem eldurinn kveður.
...andvana, sökkvandi steinn.
...ferja, sem ferjar ei nokkurn.
...flík, sem að klæðir ei neinn.
...barn, sem er bannað að kætast.
...blóð, sem að rennur ei meir.
...ósk, sem fær aldrei að rætast.
...ást, sem í fæðingu deyr.

...söngur, sem aldrei er sunginn.
...sár, sem ei nokkuð fær grætt.
...glóð, sem að logar ei lengur.
...líf, sem er andvana fætt.
...skáld, sem ei neitt hefur skrifað.
...skata, sem aldrei verð kæst.
...drykkur, sem aldrei er drukkinn.
...draumur, sem aldrei fær ræst.

...tími, sem gleymir að tifa.
...tröll, sem að breytist í stein.
...blóm, sem er bannað að lifa.
...brúður við altarið ein.
...ljóð, sem ei nokkur vill lesa.
...ljós, sem er alla tíð slökkt.
...fræ, sem í mölina fellur.
...fley, sem í hafið er sökkt.

...stjarna, sem steypist af himni
...stormur, sem aldregi hvín.
...þörf, sem ei nokkur mun þarfnast.
...þurrleitt og bragðlítið vín.
...minning, sem enginn vill muna.
...málverk, sem enginn vill sjá.
...hljómur, sem enginn vill heyra.
...hjarta, sem enginn vill þrá.

   (6 af 25)  
2/11/08 13:01

Bleiki ostaskerinn

<Þurrkar tárin> Bravó.

2/11/08 13:01

hlewagastiR

Þetta er alveg drulluflott hjá þér, Pó. Ef þú slípar til minniháttar hnökra á hrynjandinni hér og hvar ertu kominn með meistaraverk.

2/11/08 13:01

Regína

.. skata sem aldrei verð kæst ... svo skelfileg örlög ... dásamlegt ljóð ... og samt svo vitlaust allt saman. Pó er nefnilega ekkert af þessu.

2/11/08 13:01

hvurslags

Svona á að yrkja. Leiftrandi sniðug hugmynd að kvæði.

2/11/08 13:01

Upprifinn

þetta er flott hjá kalllinum.

2/11/08 13:01

Grýta

Ég er...
...stórhrifin.

2/11/08 13:01

Goggurinn

Æj greyið, verðuru svona lítil sál í prófatíðinni?

Drulluflott annars, bravó!

2/11/08 13:01

Garbo

Já bara hreinræktuð snilld.

2/11/08 13:01

Heimskautafroskur

Klappar saman lófunum af hrifningu! En sjálfsmyndin er þó veikari en kvæðið.

2/11/08 13:01

Kífinn

Þetta eru lítilyrði um stórskáldið Pó, afar vel kveðið, skál.

2/11/08 13:01

Útvarpsstjóri

Frábært!

2/11/08 13:01

Einn gamall en nettur

Einn gamall en nettur likes this!

2/11/08 13:01

Þarfagreinir

Til eru fræ ...

Þessi kveðskapur er þó margfalt magnaðri útfærsla á þemanu.

2/11/08 13:02

drullusokkur

Ágætt ljóð. Pó hlýtur að fara gefa út ljóðabók.

2/11/08 13:02

Herbjörn Hafralóns

Frábært!

2/11/08 14:00

Þakka falleg orð, kæru vinir.
Tilraun hefur verið gerð til úrbóta á hrynjandihnökrunum, sem Hlebbmeister benti á.
Þakka Þarfa sérstaklega hans innlegg, þó svo að ég sé innihaldi þess ósammála.

2/11/08 14:00

Miniar

Öflugt, fallegt og hrífandi. Snilld.

2/11/08 14:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Alveghreint stórgott. Sannkallað ljúfmeti.

2/11/08 14:00

Huxi

Míkið dæmalaust hrikalega flott kvæði. Þegar ég var búinn að lesa 2 erindi þá var ég kominn á sömu skoðun og Þarfi. Það er altént ekki erfitt að sjá hvert þú sækir áhrif og fyrirmynd. Svo byggjirðu sannkallaða listasmíð á þeim grunni. Þú mátt alveg fara gefa út ljóðabók. Þú getur skrifað mig fyrir einu eintaki.
Skál fyrir þér.

2/11/08 14:01

Madam Escoffier

Magnað verk. Ég er sammála Huxa endilega að koma ljóðunum á harðspjöld og það má skrá mig fyrir eintaki.

2/11/08 14:01

krossgata

Frábært. Fannst einstaklega skemmtilegt að lesa þetta og þá ekki skemmtilegt í meiningunni hlægilegt.

2/11/08 14:01

Tigra

Vá. Þetta var magnað verð ég að segja!

2/11/08 14:01

Bleiki ostaskerinn

Ég myndi kaupana. Sko bókina sem mér sýnist þú verða þvingaður til að gefa út.

2/11/08 15:00

Huxi

[Klappar og stappar með hrópum] Ljóðabók, ljóðabók, ljóðabók...

2/11/08 15:01

Kiddi Finni

Eindæmis feykilega gasalega flott.

2/11/08 15:01

Valþjófur Vídalín

Þetta þykir mér afskaplega magnaður kveðskapur. Ekki er loku fyrir það skotið að ég myndi freistast til að kaupa ljóðabók eftir yður herra Pó.

2/11/08 16:00

Álfelgur

Beint í úrvalsrit og ekki orð um það meir!

2/11/08 16:00

Huxi

Ein spurning: Hvaða heitir þessi bragarháttur?

2/11/08 17:00

Ég er aldeilis upp með mér yfir þessum viðbrögðum, þakka ykkur öllum. Og mikið er gaman að vita til áhuga á ljóðabók - skemmtileg áskorun.

Mig þrýtur hins vegar þekkingu til að svara síðustu spurningu Huxa.

Pó:
  • Fæðing hér: 22/9/08 01:50
  • Síðast á ferli: 22/5/22 23:24
  • Innlegg: 2331
Eðli:
Áhugamaður um hitt og þetta.
Fræðasvið:
Hitt og þetta.
Æviágrip:
Borinn í Rvk og verið þar síðan með undantekningum.