— GESTAPÓ —
Heiðursgestur.
Sálmur - 1/12/08
Gegnum dimmunnar göng

Þetta er kannski voða 2007 eitthvað, en ofurlítil jákvæðni skaðar vonandi ekki, þótt allt, sem er neikvætt, sé víst svaka móðins.

Ég get dansað í dag
gegnum dimmunnar göng
við hinn bjartasta brag,
við hinn blíðasta söng.
Þegar dagurinn dvín,
þegar dimman fær völd
stjarnan skærasta skín,
hún er skrautleg í kvöld.

Hennar blikandi blær
er mitt bjartasta skin,
dýrðin tindrandi tær -
ég á tunglið að vin.
Ég sé norðurljós nær,
bera neistandi krans.
Ljómi stjörnunnar slær
um mig stjarnanna glans.

Og ég syngjandi svíf
um hið sindrandi fljót.
Það er ljúft, þetta líf,
sem mér lýsir í mót.
Við hinn bjartasta brag,
við hinn blíðasta söng,
gat ég dansað í dag
gegnum dimmunnar göng.

   (21 af 25)  
1/12/08 22:01

Regína

[Lætur fara vel um sig á sömu plánetu og Pó.]

Þetta er gott, bæði kvæðið og áminningin um það að gleyma ekki því sæta þegar það súra verður áberandi.

1/12/08 22:01

Skabbi skrumari

[Fær sér súrt slátur og sálmakonfektmola í eftirrétt]... þetta er skemmtilegt og syngjandi flott... og þar sem þetta ert þú þá ætla ég ekki að setja út á gnýstuðlunina... skál...

1/12/08 22:01

Takk elskurnar mínar.

Varðandi gnýstuðlunina minni ég á umræðuna sem fór um þá á Skólastofuþræðinum fyrir nokkrum vikum. Ég leyfi mér að stuðla st- við sl- vegna framburðarhljóða.

1/12/08 22:01

krossgata

Þetta er leikandi og létt, sem að sjálfsögðu er hneyksli í sjálfu sér. Það er alveg bannað á öld alvarleikans.
[Glottir alvarlega eins og fífl]

1/12/08 22:01

Sæmi Fróði

Þakkir, samskegglingur góður!

1/12/08 22:01

hvurslags

Vel er ort, ég þakka kærlega fyrir mig.

1/12/08 22:02

Garbo

Þessi sálmur flæðir svo ljúflega að það liggur við að hann lesi sig sjáfur. Glæsilegt!

2/12/08 00:00

Bölverkur

Þetta er salla fínt. Minnir samt pínu á Stefán frá Hvítadal.

2/12/08 01:02

Bu.

Mig líkar ekki við þetta.

2/12/08 02:00

Bu., þágufallssýki er velþekktur sjúkdómur, en þú ert sá fyrsti sem ég greini með þolfallssýki.

2/12/08 02:01

Bu.

Gerðu ekki grin að minum sjúkdómi litli stubbur, ég er með þolfallssótt.

En mér líkar ekki þetta kvæði.

2/12/08 06:00

Tina St.Sebastian

Passar ekki að syngja þetta við "Undir dalanna sól"?

2/12/08 04:00

Ég þekki það lag ekki alveg, en þú færð hér með leyfi til að prófa.

Pó:
  • Fæðing hér: 22/9/08 01:50
  • Síðast á ferli: 22/5/22 23:24
  • Innlegg: 2331
Eðli:
Áhugamaður um hitt og þetta.
Fræðasvið:
Hitt og þetta.
Æviágrip:
Borinn í Rvk og verið þar síðan með undantekningum.