— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Grágrímur
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 1/12/08
Myrká

Þetta byrjaði sem innlegg í "Hvað ertu að lesa?" þræðinum en vatt aðeins upp á sig. Innbirgð ógleði yfir lesefninu hreinlega sturtaðist niður á lyklaborðið mitt.

Ég var að gefast upp á að lesa bókina sem ég fékk senda frá Íslandi um jólin, það var bókin Myrká eftir Arnald Indriðason. Eftir að hafa lesið um það bil hálfa bókina er mér hreinlega orðið flökurt og held ég verði að vara ykkur við henni. Ég hef áður reynt að lesa bók eftir þessa "stórstjörnu íslenskra glæpasagna" og yfirleitt gefist upp en aldrei sem nú.

það er ýmislegt í þessari bók sem mér bara finnst ekki í lagi.
Persónur Arnaldar eru jafn óhuggnanlega klisjukenndar og í öllum hinum bókunum hans. Aftan á bókakápu er vitnað í þýskt dagblað og segir „"Arnaldur skapar persónur af holdi og blóði... á heimsmælikvarða"“. Ég er viss um að annað hvort eru þjóðverjarnir svona afskaplega ílla lesnir, eða þá þetta hefur verið einhver kaldhæðni í þeim sem útgáfan hefur ákveðið að misskilja. En persónurnar eru allt annað en á heimsmælikvarða. Þær eru allar eins og þær hafi verið búnar til á auglýsingastofu, týpískar steríótýpur af íslendingum, eins og þeir hafa birst í banka og bílasölu auglýsingum síðustu árin.
Glæpamennirnir eru miskunlausir, fórnarlömbin aumkunarverð með slæma fortíð, löggurnar snjallar en þreyttar, líka með slæma fortíð, fjölskyldur þeirra samanstanda af fótboltaglápandi skotveiðimönnum, vandræðaunglingi og undrabarni, sem á auðvitað iPod. Allt er svart eða hvítt. Erlendur borðar svið niðrá BSÍ. Fortíðin er vond.

Svo eru það efnistökin. Sakamálið sem bókin fjallar um er leyst á fyrstu 15 blaðsíðunum. Það þarf engan Sjérlokk til að sjá glæpinn út, restin af bókinni er froðusnakk um þessar hundleiðinlegu persónur, sömu helvítis fortíðar endursagnirnar (af persónum sem maður hefur lítinn sem engan áhuga á fyrir, gaman að kafa dýpra í klisjupottinn) og eru í öllum bókum Arnaldar og eru alltaf eins, og svo einhver siðferðispredikun um hvað kynferðisglæpir eru slæmir og hvað höfundurinn er á siðferðislega háum stalli að benda á það, en því miður verður sú predikun ekkert nema innantóm hræsni því fyrstu blaðsíður bókarinnar eru ekkert annað enn leiðarvísir um hvernig skal bera sig að við kynferðisglæpi á skemmtistöðum. Ég velti því mikið fyrir mér meðan ég las fyrstu kaflana, hvort feminista félagið hafi gert jafnmikið fjaðrafok yfir þessari bók og þeir gerðu yfir þjóðhátíðarlagi stórsveitarinnar síðastliðið sumar. Ábyggilega ekki.

Verst finnst mér þó, að allur ritstíll Arnaldar ber þessara predikana glöggt merki og hvað hann er að tala niður til lesandans, Arnaldur veit betur en lesandinn, sem er bara vitleysingur sem verður að kenna hvað er rétt og hvað er rangt, þetta er sami ritstíll og tónn og maður sér hjá Þráni Bertelsyni í bakþönkum aftan á Fréttablaðinu.
Það vita flestir sem hafa dómgreind á við misþroska bavíana að nauðgun er viðbjóðslegur glæpur, en höfundurinn er á svo háum stalli að hann verður að básúna það á annari hverri blaðsíðu til að lesandinn sem er bara vitlleysingur, gleymi því örugglega ekki.

Að lokum vil ég bara segja að ef Arnaldur er „Einn bjartasti neistinn í heimi alþjóðlegra glæpasagna“, eins og prentað er einnig á bókarkápu og ég er viss um að er líka misskilin kaldhæðni, þá er samkeppnin sennilega ekki upp á marga fiska.

   (19 af 31)  
1/12/08 11:00

Texi Everto

Hérna er tjörusjampó sem hún Elínborg vildi að ég færði þér.

1/12/08 11:00

Andþór

Það er aldeilis.
Annars hef ég varla lesið bók síðan ég byrjaði að lesa internetið. Virðist bara ekki geta lagt það frá mér.

1/12/08 11:01

Furðuvera

Tjah, ég hef nú reynt að lesa eina glæpasögu á minni ævi og ég gafst upp þegar ég var hálfnuð. Ég fatta ekki þessa yfirgnæfandi risastóra grein bókmenntaheimsins, ég velti því oft fyrir mér hvort það sé ekki fullt fullt FULLT af endurtekningum í þessu miðað við hvað margar glæpasögur hafa komið út í heiminum. Hversu marga mismunandi glæpi er hægt að fremja?
Ég las fyrsta kaflann í Myrká þegar hann var prentaður í Fréttablaðinu eða Mogganum í fyrra og ég gat satt að segja ekki einu sinni klárað hann. Mér fannst ritstíllinn klisjukenndur og leiðinlegur. Arnaldur er líklega "einn bjartasti neistinn í heimi alþjóðlegra glæpasagna" vegna þess að heimur glæpasagnanna er ótrúlega myrkur og óáhugaverður hvort eð er.

Ég vil taka það fram að mér finnst bækurnar um Dexter ekki teljast undir glæpasögur... af því að þær eru bara of góðar.

1/12/08 11:01

hvurslags

Algerlega sammála þér um persónusköpunina. Margar af þessum bókum Arnaldar munu enda í Kolaportinu á 500 kall eftir nokkur ár.

1/12/08 11:01

Huxi

Persónur eru klisjukenndar, sérstaklega í raunheimum.
Arnaldur er að skrifa um hinn dæmigerða Íslending og dregur upp klisju. Dæmigert.
Ef þú vilt lesa hressilega Íslenska glæpasögu þá skaltu lesa eitthvað eftir Yrsu Sigurðardóttur. Klisjukennd kannski, en það eru þó alltaf einhverjir hlutir í sögunum hennar sem koma á óvart.

1/12/08 11:01

Garbo

Ég hef ekki lesið Myrká og líklega sleppi ég því bara.
Napóleonsskjölin finnst mér það besta sem ég hef lesið eftir Arnald.

1/12/08 11:01

Golíat

Gafst upp á Arnaldi fyrir löngu. Erlendur fór óendanlega mikið í taugarnar á mér mökkreykjandi vesalingur.
Ætla hins vegar að lesa Auðnina eftir Yrsu enda kom hún á mitt heimili um jólin, þe Auðnin, ekki Yrsa.

1/12/08 11:01

krossgata

Mér hefur aldrei þótt bækur Arnaldar skemmtilegar, þ.e. þessar tvær sem ég hef lesið og legg mig ekki eftir þeim. Mér finnst þessi eina bók sem ég hef lesið enn eftir Yrsu margfalt skemmtilegri og á trúlega eftir að sækjast eftir fleirum eftir hana. Það sem mér finnst einstaklega ánægjulegt við þetta rit og orðabelgina er að fleirum en mér þykir Arnaldur leiðinlegur. Ég hélt ég væri ein.

1/12/08 11:02

Regína

Mér þóttu fyrstu bækur Arnaldar sem ég las ágætar. En þar sem ég er ekki glæpasagnaaðdáandi lengur, og ekki einu sinni lestrarhestur, þá er ég ekkert að eltast við allar hans bækur.

1/12/08 12:00

Vestfirðingur

Mýrin er skást af þessu.

1/12/08 12:01

U K Kekkonen

Grafarþögn var ágæt, myrin aftur á móti stenst ekki... læknisfræðilega séð.

1/12/08 12:01

Álfelgur

Mér finnst Grafarþögn ein besta bók sem ég hef lesið. Er ósammála ykkur öllum finnst Arnaldur góður og Erlendur frábær persóna, mér er sama um klisjur en kann vel við boðskapinn sem er í flestum bókunum.

1/12/08 12:01

Dula

Við vorum látin lesa Grafarþögn í vetur og okkur fannst hún góð skemmtun. Ég sá líka mýrina á DVD og fannst það ágætis mynd , en ég er nú ekkert með það á TO DO list að lesa þessi rit sem hann hefur skrifað.

Grágrímur:
  • Fæðing hér: 25/12/06 04:26
  • Síðast á ferli: 16/4/24 02:43
  • Innlegg: 12721
Eðli:
Skrýtinn gaur með alltof mikinn frítíma, Þjáist af heiftarlegri ritstíflu.
Fræðasvið:
Rannsóknir á áður óþekktum hámörkum í leti, áhrif of mikils svefns á menn og hvernig hægt er að komast af með því að gera sem minnst og ermeð lágskólapróf í málvillu
Æviágrip:
Fæddist fyrir um 30 árum og er enn að átta sig á aðstæðum. Ef Þú tekur saman allt sem ég hef áorkað í þessu lífi og þjappar því niður á einn dag, myndi það bara kallast þó nokkuð gott