— GESTAPÓ —
Regína
Heiðursgestur.
Pistlingur - 10/12/06
Til hagyrðinga.

Ég er búin að vera lengi að velta fyrir mér hvort ég eigi að áræða að setja inn þetta félagsrit. En ég hef ákveðið að taka áhættuna þó ég verði kannski að athlægi hér á Baggalút.

Ég byrjaði að taka mín fyrstu hikandi skref hér á kveðskaparþráðunum í fyrra, fljótt óx mér kjarkur og satt að segja er ég bara ánægð með mig núna.
En ég er að mestu hætt að setja inn vísur í Kveðist á, en er þeim mun duglegri á hinum og þessum afkimum, og hagyrðingamótum.
Og hvers vegna?

Ástæðan er sú að mér ofbýður klámvísnakveðskapurinn hérna. Ég vissi vel af honum þegar ég byrjaði, og ég er búin að átta mig á að í byrjun stuðaði þetta mig engan vegin. Nýlega skoðaði ég til dæmis fyrstu skrefin mín þar sem ég botnaði og klastraði svo saman fyrriparti. Það brást ekki að botninn sem næsti maður setti væri tvíræður, og ég man ekki til að það hafi truflað mig neitt sem heitið getur. Ég hef hins vegar aldrei sett inn vísu þegar klámvísnabylgja gengur yfir.

En í janúar og febrúar urðu klámvísurnar yfirgnæfandi, það varð varla nokkurt hlé. Nýliðar virtust halda að þannig væri kveðið á Gestapó og virtist ekki detta í hug að reyna að semja neitt öðruvísi. Ef ég hélt að það væri glufa og prófaði að hnoða saman vísu þá kom allt of oft fyrir þetta sem ég kalla káf. Einhver læddi lúkunni á lærið hennar Gínu, eða eitthvað þaðan af nærgöngulla. Það kom mér á óvart hvað mér fannst þetta óþægilegt - og niðurlægjandi.
Í lok febrúar sauð uppúr út af smáatriði, ég bað aðila um að breyta línu en skilaboðin eru enn þá gul í úthólfinu mínu. Mér datt ekkert annað í hug þá en að hann hefði hent skilaboðunum ólesnum og var alveg óskaplega sár.
(Löngu seinna fann ég út að það gat alveg eins verið að viðkomandi hefði aldrei opnað pósthólfið.)

Ég er alveg haugfúl yfir þessu öllu. Mér finnst hafa verið eyðilagður fyrir mér húmor sem ég hafði þó áður því ein og ein tvíræð vísa getur verið sniðug. Núna fæ ég bara hroll eins og fimmtug kirkjurækin jómfrú. Og þegar mér dettur sjálfri í hug eitthvað sem er á mörkunum, þá þori ég ekki að láta það frá mér af ótta við hugsanlegt káf.

Flestar klámvísur eru hvort sem er ekkert annað en eitthvert furðulegt hormónaflæði sem ég skil ekki. Sumar finnst mér vera árás, aðrar minna þó einhvern vegin á atlot sem er þó skárra, en þið hljótið þó að skilja að atlot sem maður vill ekki en verður að þola eru ekkert annað en árás. Burt með frænkukossana!

Ég tek það fram að ég er ekki að fara fram á að klámkveðskapur leggist af hér. Þær verða hvort sem er samdar áfram, og ég get alveg horft fram hjá þeim að einhverju leiti, og ræð engu heldur .
En mikið þætti mér gott ef það yrði minna af honum, og káfið hverfi alveg.

Viðbrögðin við þessum skrifum ráða því hvort ég held mig áfram bara við felustaðina eða þori aftur að kveðast á, en núna nenni ég varla að lesa þessa þræði.

   (19 af 23)  
10/12/06 00:01

Anna Panna

Það á alltaf að segja það sem manni finnst!
Ég er alveg sammála, það er afskaplega þreytandi að lesa vísu eftir vísu um mis-blautlega hugaróra höfunda, það eru nefnilega afar fáir sem fara vel með slík efnistök. Flestir líta bara út eins og graðhundar með einstefnuhugsunarhátt.

Skabbi hefur áður skrifað félagsrit um sama efni (Um klámvísur og Um klámvísur 2, nenni ekki að finna tenglana) en það er alltaf gott að koma svona athugasemdum í umræðuna...

10/12/06 00:01

Skabbi skrumari

Tek undir þetta með þér... þó sumir hafi fundið einhverjar fornar vísur eftir mig þar sem ég er að yrkja klámvísur þá var það alldrei beint að neinni ákveðinni manneskju (nema hún vildi slíkt)... menn verða að muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar...

Ég fékk nú á mig nokkur skot fyrir að tala gegn slíkum vísum og finnst mér það miður... oft er það lélegur kveðskapur, enda reyna góðir hagyrðingar að gæta orða sinna...

10/12/06 00:01

Tigra

Ég get haft gaman af klámvísum ef þær eru skondnar og sniðugar og enda á einhvern skemmtilegan hátt, en flestum af þessum vísunum tekst bara því miður einfaldlega ekki að ná því.
Þær verða ekki eins tvíræðar og höfundur kannski ætlaði sér og engin "punchline" er í endanum... og þá verða þær bara asnalegar og höfundi sínum ekki til sóma.
Ég hef eins og ég segi ekkert á móti klámvísum, en þær verða... í raun umfram aðrar vísur... að vera einstaklega vel samdar.
Höfum aðeins hemil á greddunni strákar mínir.
Gott er kannski að geyma vísuna aðeins.. eða lesa hana nokkrum sinnum yfir og sjá hvernig hún meltist.

10/12/06 00:01

Billi bilaði

Ekki skamma ég þig fyrir þetta rit, og vona að enginn sé sár yfir einhverju frá mér. Ef svo er, þá er bara að benda á það. [Hylur að lokum allar næturvísurnar með teppi]

10/12/06 00:01

Dula

Sammála þessu Regína, ég er hætt að opna suma kveðskaparþræðina af því að ég veit nokkurnveginn innihaldið. Er ekki hægt að benda sorakjöftunum á aðrar leiðir.

10/12/06 00:01

Offari

<Lætur gera við bremsurnar> Skabbi þó ég hafi skotið stýft á þig eftir þinn pistil þá var ég aðallega að grínast í þér og þykir mér sárt að heyra að ég hafi sært þig með því sem ég taldi saklaust grín. Fyrirgefðu og Fyrirgefðu líka Regína ég er klámhundur sem kann mig ekki. En ef enginn tjáir sig um það veit ég ekki hvort ég sé særand eður ei því á alltaf að segja eins og manni finnst.

10/12/06 00:01

Vladimir Fuckov

Vjer höfum mjög gaman af tvíræðum kveðskap sje hann vel ortur auk þess sem hann er bestur undir rós. Það er hinsvegar afar leiðigjarnt ef allur kveðskapur hjer verður svoleiðis, sjerstaklega ef hann er fullur af 'dónaskap' án nokkurar tvíræðni.

10/12/06 00:01

Regína

Rétt hjá þér Anna, það er þessi einstefnuhugsunarháttur sem er mest þreytandi. Billi, þú þarft ekkert að teppaleggja næturvísurnar fyrir mér, ég les þær yfirleitt ekki.
Að yrkja undir rós: Ég man eftir vísu eftir Vímus sem ég fattaði ekki að var klúr fyrr en eftir þriðja lestur. Hún var káf, en ekki á mér. Svo þó að vísan væri frábær fékk ég samt hroll.

10/12/06 00:01

Huxi

Sæl Regína.
Mikið er ég ánægður að sjá þetta félagsrit frá þér. Ástæðan fyrir því að ég gerði laumulega innrás til að leggja undir mig Baggalútíu, (sem reyndar var fyrirfram dauðadæmd), var sú að í Baggalútíu sýndist mér samankominn hópur fólks sem hafði í heiðri vandað málfar og góða siði í samskiptum sínum. Því urðu það mér allnokkur vonbrigði að rekast á leirkenndan blautlegan kveðskap á sumum þráðum Baggalúts. Mér sýnist jafnvel að káfið sem þú nefnir sé einfaldlega brot á háttsemireglum Gestapó og mætti alveg skoða það nánar af mér fróðari mönnum.
Að lýsa nánum samskiptum kynjanna, (eða kynsins)[klórar sér í höfðinu ], er vandmeðfarið efni og því miður eru miklu fleiri hagyrðingar sem halda sig þess umkomna að geta samið góða klámvísu, en þeir sem það geta. Það gildir það sama um klámvísur og annan kveðskap, það er stór munur á skáldi og vísugerðarmanni.

10/12/06 00:01

Regína

Heyr heyr Huxi, þú ert þá ekki eins vitlaus og þú sýndist í fyrstu.

10/12/06 00:01

Huxi

Þakka þér góð orð í minn garð Regína.
Ef þér finnst svo skaltu láta það berast til þeirra sem enn álíta mig vanvita..

10/12/06 00:01

Grýta

Ég er mjög sammála þessu pistli þínum Regína. Burtséð frá kveðskap leiðist mér afskaplega að lesa mörg innlegg hér á almennum þráðum þar sem einstkalingar hafa einhvers konar druslu hugsunarhátt og geta varla komið útúr sér einni setningu án þess að hún innihaldi orð fyrir neðan mitti. Eða hrein og bein klámyrði.

10/12/06 00:01

Regína

Huxi, þú gætir t.d. byjrað á að laga stafsetningarvilluna í nafninu á þræðinum.
Ég á greinilega nokkrar skoðanasystur hér. Og bræður.

10/12/06 00:01

Huxi

Hvaða stafsetningarvillu? Á hvaða þræði?

10/12/06 00:01

Regína

Efni; Laumuleg innrás í Bagalútíu, frummælandi Huxi.

10/12/06 00:01

Huxi

Þú meinar það, ha, ha. Þetta sýnir nú bara hve innrásin var vel undirbúin og gáfulega framkvæmd.

10/12/06 00:01

krossgata

Mæl þú kvenna heilsut Regína. Ég segi eins og allar konur hér og margir karlmenn, ég hef gaman af vel ortri tvíræðri vísu - undir rós. Það er ekki öllum gefið að gera vel. Æfingin skapar meistarann og það er kannski fullmikið af æfingum á Gestapó. Sumir verða líka aldrei góðir.

Það er líka rétt að það verður mjög leiðigjarnt að lesa kvæðaþræði sem er bara hormónaflæði. Staðreyndin er sú að tvíræðnu vísurnar eru skemmtilegri þegar þær koma sjaldnar fyrir. Ef maður býr á árbakkanum þá hættir maður að heyra lækjarniðinn.

10/12/06 00:01

B. Ewing

Ég tek undir með þér Regína, ég var hættur að nenna að skoða marga Kveðist á þræði vegna þess að allar ´visurnar sneru um sama efnið (eða andan).

p.s. Er Huxi breytir titlinum í innrásarþræðinum þá má hann allt eins búast við því að friðargæsluliðar muni breyta "leiðréttingunni til baka. Þráðurinn hófst með innrás í meinta Bagalútíu og mun að öllum líkindum halda því áfram. [Glottir]

10/12/06 01:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Illa kveðin vísa er yfirleitt hörmung, alveg burtséð frá inntaki & efnistökum... en það er nú tæpast aðalatriðið í sambandi við það sem hér ber á góma.

Í þessu þarflega félagsriti er vakin athygli á ýmsu sem vert er að taka undir. Málið sem reifað er héraðofan er sannarlega býsna margbrotið - reyndar fullmargbrotið tilað ég nái hér að tjá mig um það að nokkru gagni í bili a.m.k. - & læt því staðarnumið, að sinni.

10/12/06 01:00

hvurslags

Hér er ég sammála Vladimir, krossgötu og Z.Natan. Sjálfur hef ég hina bestu skemmtun af klámvísum, einkum ef engin dónaorð koma fyrir í henni sem eyðileggja grínið.

Þessu má líkja við hryllingsmynd þar sem óvætturin sést varla en heldur áhorfandanum föngnum í spennu óvissunnar. Hinn duldi ótti er í þessu tilviki jafn spennandi og hinn duldi perraskapur sem maður hylur með tvíræðum orðum undir rós. Eða eins og í Unndórsrímum Eldjárns forseta:

Skakast búkar, titrar tré,
teygðar lúkur fálma,
akast mjúkum kviði kné,
kveða hnjúkar sálma.

10/12/06 02:00

Regína

Þessi tilvitnun hjá hvurslags finnst mér góð. Takk.

10/12/06 03:00

Jóakim Aðalönd

NEI! Þetta er tómt rugl. Klám á hvern þráð segi ég.fddslæalf´d

[Bandar Andrési frá lyklaborðinu]

Svona, snáfaðu fram í tank og haltu áfram að pússa!

Afsakið kæru Póar. Andrés kemst stundum í tölvuna hér á skrifstofunni minni þegar hann á að vera AÐ GERA EITTHVAÐ ANNAÐ! [Þrusar bakarofni í hausinn á Andrési]

En, þetta er alveg rétt. Það er allt of mikið af illa ígrunduðum klámvísum hér sem eru framleiddar á færibandi hins illa. Það er kominn tími til að kveða þessa klámhunda í kútinn.

[Skellir köku í ofninn]

10/12/06 04:02

Herbjörn Hafralóns

Hafralónsættin klæmist aldrei.

10/12/06 04:02

Texi Everto

Texi klæmist. A.m.k. öðru hverju.

10/12/06 05:00

Texi Everto

Ég? Aldrei!

10/12/06 05:01

Texi Everto

[Syngur við banjóundirleik]
Klám, klám, klám og aftur klám,
það eina sem ég hugsa um er bara klám.
Frá erótík í sóðaklám,
sje ekkert nema klám, klám, klám
klám, klám klám og aftur klám.

10/12/06 06:00

Regína

Texi virðist vera sá eini sem kemur fram af sóðakjöftunum (fyrir utan Offara ).

10/12/06 06:00

Isak Dinesen

Ég hef raunar rætt þetta annars staðar. Nenni helst ekki að fjalla um þetta hér - enda flókið og of langt mál eins og Z. Natan nefnir. Hann hefur þó einnig ritað klámvísur. Sem og t.d. blóðugt, Bölverkur, Enter, Barbapabbi, Gimlé, Hlewagastir, Haraldur Austmann, Vímus, Kynjólfur úr Keri, Tina og eflaust margir aðrir.

Ekki myndi ég túlka það sem einhvern sigur að hér skuli enginn "sóðakjaftanna/klámkjaftanna" (eins og þú orðar það svo skemmtilega) tjá sig. Ég þykist nefnilega viss um að þeir telji þetta fæstir vera svara vert. (Sjálfur er ég hundpirraður út í sjálfan mig fyrir að vera að eyða orðum í þetta skammarrit.)

Það væri í mínum huga gáfulegra ef þú einbeittir þér að klámi sem skiptir máli. T.d. því að ég þurfi að horfa upp á krufningu nýnauðgaðs líks á Ríkissjónvarpinu og *borga* fyrir það (svo dæmi sé nefnt), í stað þess að æsa þig yfir klámi sem við fáum ókeypis auk þess að geta algerlega horft fram hjá því, á spjallsvæði þar sem hefð er fyrir því. En ég get auðvitað ekki sagt þér hvað þú átt að gera - enda er ég svo skringilegur að ég ber fyrir alvöru virðingu fyrir málfrelsinu.

Ég geri ráð fyrir, eftir þennan lestur, að ég þurfi samt að endurtaka það sem ég hef áður skrifað hér að níð og einelti hverskonar er auðvitað óþolandi. Þetta eru algerlega ótengd mál og fáránlegt mælskutrikk að blanda þeim svona saman.

10/12/06 06:00

Hakuchi

Ég var orðinn leiður á brundkveðskap svona hálfu ári eftir að Gestapósvæðið vaknaði til lífsins og hef lítið nennt að fylgjast með kveðskapnum eftir það. Ég dreg hins vegar ekki í efa rétt dólgsskálda til að kveða hinn leiðinlegu sprundkvæði, það er góð og gild hefð fyrir því.

Væri ekki ráð að stofna þráð púrítansks kveðskapar?

10/12/06 06:01

Regína

Isak, þessi athugasemd hjá mér fyrir hér á undan var engan vegin meint sem eitthvert sigurhróp, heldur átti ég við að það vantaði athugasemdir frá þeim sem unna klámvísum (og mundi í þeim skrifuðum orðum ekki eftir innslagi Z. Natans).

31/10/06 01:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Þegar ég fer í kveðskapargírinn leita ég oftarenekki á súrrealískt plan - uppdikta stundum allskyns þvaður sem er langt handan míns dagfarsprúða persónuleika. Þar getur ýmislegt misjafnt dúkkað upp, en ég reyni nú yfirleitt að búa svo um hnútana að augljóslega sé um paródíska (skopstælda/skrumskælda) nálgun að ræða.
Reyndar getur slíkt vissulega misheppnast (t.d. dettur mér í hug karakter Sylvíu Nætur, sem er í augum sumra velheppnað djók, aðrir fá hland fyrir hjártað & hneykslast stórlega á uppátækjum hennar, meðan ennaðrir leyfa börnum sínum athugasemdalaust að "halda uppá" þessa fígúru rétt einsog hverja aðra dægurstjörnu, án þess að útskýra fyrir þeim hvernig í pottinn er búið).

31/10/06 01:00

Gísli Eiríkur og Helgi

Ég get ekki rímað og gæti ég það skyldi ég reina að ríma
erotík en ekki klám nema þá í líkingum. Hvimleit í klámvísum bara orðið bendir til að ekki séu hár kröfur gerðar á kveðskapinn , hver hefur heyrt talað um klámljóð ? er að oftast er þær niðurlægandi um konur og
og jafnvel ofbeldiskendar .

31/10/06 01:00

Regína

Sylvía Nótt er ekkert misheppnuð, ... er það?
Fariði nú að hnoða erótískan leir elskurnar mínar, bara ekki til mín, ég er svo gjörn á að misskilja hlutina.

Regína:
  • Fæðing hér: 17/9/06 15:56
  • Síðast á ferli: 11/3/24 15:28
  • Innlegg: 25218
Eðli:
Hlédræg, hógvær, hlýleg og virðuleg. Elskuleg kona sem man tímana tvenna, eða þrenna.
Fræðasvið:
Hallarblæti, teningaþvætti, nýliðaþjálfun.
Æviágrip:
Þið getið lesið minningargreinarnar ef þið lifið lengur en ég.
Þangað til skuluð þið bara fylgjast með.