— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
hvurslags
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Sálmur - 2/12/08
Um þorramat

Á mörsugi er matur góður mönnum boðinn.
Svo á þorra vís er voðinn
- viðbjóður í mysu er soðinn.

Um frystikistur fyrr á öldum flesta dreymdi.
Fólk á asnaeyrum teymdi
úrelt lag sem matinn geymdi.

Það mun heita þorramatur, þvílík sæla!
Af honum er eintóm bræla
- afsakið, ég þarf að æla.

Þjóðlegir svo þessir menn nú þykjast vera.
Óæt hrútaeistu skera
upp á disk svo hreyknir bera.

Hið gróna stef um gamlan arf er gjarnan spilað.
Leyfist mér að leggja til, að
láta þessu verða skilað.

Þegar íslenskt þjóðarbú í þrautir rekur
og stöðugt garnagaulið skekur
-gamla drauga upp það vekur.

   (13 af 51)  
2/12/08 15:01

Jarmi

Undarlegt.

2/12/08 15:01

Kífinn

Fáheyrt.

2/12/08 15:01

Grýta

Flott!

2/12/08 15:01

Útvarpsstjóri

Vel kveðið, þó ég sé ósammála þér.

2/12/08 15:01

Wayne Gretzky

aumingi

2/12/08 15:01

Vel er ort og kveðskapurinn er betri en boðskapurinn.

2/12/08 15:01

Upprifinn

Rugl og bull.
Eyddu þessu óriti nú þegar......

2/12/08 15:01

Golíat

Tek undir með Upprifnum - eyddu þessu...............

Einnig get ég samþykkt að bragurinn, þegar lokað er augunum fyrir innihaldinu, er sæmilega saman hnoðaður.

2/12/08 15:01

Regína

Þú ert einn af þessum nútímaeymingjum sem kunna ekki gott að meta.
Það vildi ég samt að allir eymingjar gætu kveðið eins vel og þú.

2/12/08 15:02

Skabbi skrumari

Þetta er frábær bragur, en ég er samt ósammála þér... Skál

2/12/08 15:02

Villimey Kalebsdóttir

Þetta er alveg frábært rit!! Mjög gott og innihaldsríkt.

hvurslags þú ert snillingur dagsins! [Ljómar]

2/12/08 15:02

albin

Sko. kvæðið er á sinn hátt ljómandi. En innihaldinu get ég ekki verið sammála.

Þeir sem ekki hafa lyst á þorramat sleppa því bara að borða hann, mjög einfalt.

Og þeir sem að rökstyðja bannfæringu þorramats á því að þetta sé úreltar geymsluaðferðir, má benda á ýmislegt.

Harðfiskur, hangikjet, saltkjet, saltfiskur, reyking og ýmsar pylsur tegundir... já og þurkað hitt og þetta. Er að mestu tilkomið vegna þess að þetta voru ákjósanlegar aðferðir þess tíma til að geyma mat.

Fyrir utan það að margir vilja borða matvæli af þessu tagi er þetta hluti af sögu okkar sem er vel þess virði að varðveita. Og það er ekkert til að skammast sín fyrir.

En, enginn pínir þig til að borða þorramat. Og ef menn eru mikið á móti "gömlum" mat má einnig benda á að flatbakan er orðin æði gömul að uppruna [Glottir hæð sína]

2/12/08 15:02

hvurslags

Ég þakka viðbrögðin, góð eður slæm. Við mótgagnrýninni vil ég segja að þeir partar skepnunnar sem þykja hvað bestir eru yfirleitt þeir sem eru skildir eftir í þorramat. Fyrir því eru lógískar sögulegar ástæður - þessi matur kom fólki geysivel fyrr á tímum en er óþarfir í dag þar sem ég tel að matarmenning sé misgóð.

2/12/08 16:00

Jarmi

Að setja út á smekk manna fyrir mat er engu skárra en að setja út á smekk manna fyrir tónlist eða hverju svo sem öðru.

Svo ég ætla að búast við að þú takir næst fyrir hvað þér finnst um ungverska þjóðlagatónlist og þar á eftir setur þú líklega út á uppáhalds teiknimyndir krakkana á Litluborg.
Eða hvað?

2/12/08 16:01

krossgata

Skemmtilega samsett kvæði, en ekki er ég sammála innihaldinu frekar en margir aðrir.

Varðandi hvort þessi matur sé þarfur eða óþarfur, er rétt að spyrja hvort fólk borði bara það sem það þarf? Því er auðsvarað - Nei. Enda yrði afar leiðinlegt að borða ef bara mætti borða það sem þarf.

En að sjálfsögðu er ágætt að skilja bestu partana eftir í þorramat, það gerir það einmitt ánægjulegra að fá tækifæri til að borða þá, gerir þörfina ríkari fyrir þorramatinn.
[Brosir dreymandi um þorrablót helgarinnar]

2/12/08 16:01

The Shrike

Fínar vísur, og það er rétt að þorramatur er ekki nærri því eins góður og Þorláksmessuskatan.

2/12/08 16:01

hvurslags

Skötunni ég skófla upp í skömmtum miklum.
Með viðeigandi vöðvahnyklum
verð ég brátt í Ómars-Stiklum.

2/12/08 16:01

Huxi

Þarna eyddirðu full miklum skáldskaparmiði í tóma vitleysu. Burtséð frá því að ég er sammála þér um margt í innihaldi ljóðsins.
Þar er bara ekki okkar að dæma...

2/12/08 17:01

gregory maggots

Með kveðskap sem þennan má hafa hvaða skoðanir sem er.

Eða svona hérumbil.

!

2/12/08 17:01

Kiddi Finni

Þú ert nú hagyrðingur mikill, hvurslags. það máttu eiga. Maður verður annars bara svangur (með vestfirsku a-i) þegar maður fer að hugsa um þorramat...

2/12/08 18:00

Bleiki ostaskerinn

Mér finnst þorramatur argasti viðbjóður og mér finnst hallærislegt og ósanngjarnt að fólk kalli mig gikk fyrir það að láta þetta ekki ofan í mig og beri því við að ég hafi ekki gaman af uppköstum sem væru óhjákvæmileg ef ég leggði þetta ómeti mér til munns. Þá finnst mér alveg jafn ósanngjarnt að ausa svívirðingum yfir þá sem kjósa að snæða súrmeti á þorranum. Auðvitað má fólk hafa þetta í friði, svo framarlega sem ég þarf ekki að borða þetta.

Burtséð frá þessari skoðun minni á þorraómeti þá finnst mér kvæðið meiriháttar.

2/12/08 18:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Glæsilega kveðið. Fyrsta flokks öfugmælavísur !

2/12/08 18:01

Lúna

Fínn kveðskapur. Kveðskapur þarf ekki að lýsa skoðunum manna. Það er þar að auki skoðunarfrelsi á Lútnum góða.

2/12/08 19:02

Skreppur seiðkarl

Bleiki Ostaskerinn fer með rétt orð eða svo.

...eða erum við ekki töff nema við getum drukkið rollugor eða jórturgras og étið mannaskít með því?

2/12/08 20:01

Garbo

Flott hjá þér hvurslags. Súru pungarnir geta bara etið það sem úti frýs.

hvurslags:
  • Fæðing hér: 21/8/03 19:36
  • Síðast á ferli: 11/6/23 18:21
  • Innlegg: 7684
Eðli:
Fræðasvið:
Ég er nú sosum ágætur að bakka með kerru.
Æviágrip:
Það rættist bærilega úr okfrumunni.