— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
hvurslags
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 2/11/07
Þegar ég bjargaði mannslífi

Þetta félagsrit er langt en vonandi ekki leiðinlegt. Veturinn 2006-2007 átti ég heima í Beijing úti í Kína. Eitt föstudagskvöldið bjargaði ég Kanadabúa frá því að frjósa úti um miðja nótt. Frásögnin er ekki sögð með nostalgíu-sjarma og ekki heldur með einhverri sjálfs-upphafningu.

Það var kominn föstudagur og við þrír félagarnir hlökkuðum til helgarinnar því á stúdentagörðum BLCU var aldrei lognmolla eftir föstudag. Klukkan var orðinn eitt og Ting-li-hlustunartímanum var lokið. Ásamt tveimur stúlkum frá Belgíu og náunga frá Kóreu fengum við okkur unaðslegan hádegismat á kínverskum stað hinum megin við götuna þar sem skólinn stóð. Það var komið fram í desember og meginlandskuldinn gegnsýrði allt - í raun var miklu kaldara en á Íslandi því oft kom norðanvindur frá Mongólíu ofan í 10 gráðu frostið og ég þurfti að kaupa mun hlýjari húfu og vettlinga en það sem ég tók með mér að heiman.

Við hjóluðum heim og skruppum í "melónubúðina" svokölluðu, sem var staðsett tveimur blokkum frá okkar fjölbýlishúsi og var opin allan sólarhringinn. Kassi af tuttugu og fjórum 630ml. bjórum var keyptur og borinn inn í hús því við ætluðum að skemmta okkur ærlega um kvöldið og þá dugði ekkert minna. (Síðan kostaði hann aðeins 300 kr...)

Um kvöldið stillti ég á Young Americans með Bowie og við spjölluðum um Wittgenstein, stelpur og tónlist. Klukkan hálfellefu komu belgísku vinkonur okkar í heimsókn ásamt þremur Íslendingum og tveimur Rússum sem voru öll í sama skóla og við. (Þá hættum við nörda-talinu og snerum okkur að almennara spjalli...)

Korter yfir eitt langaði okkur "niður í bæ", Wodaokou hverfið rétt hjá skólanum þar sem voru, og eru enn, haugur af skemmtistöðum og börum. Leigubíllinn þangað kostaði 140 krónur, ca. 30 kall á mann og það þrátt fyrir traffík. Við skemmtum okkur ekkert smá vel og það er eiginlega synd hvað manni þótti bjór á 15 kuai (130 kall) dýr á bar eftir að hafa drukkið 18 krónu bjór allt kvöldið.

Ég hafði ekki sofið mikið nóttina áður og fann fyrir töluverðri þreytu þegar klukkan var að verða þrjú. Ég sagði fólkinu að ég væri að leka niður vegna áfengisneyslu og svefnþreytu og ætlaði að taka "rándýran" leigubíl heim á leið. Blokkin okkar lá nokkur hundruð metrum fyrir innan aðal umferðargötuna sem lá norður eftir borginni og vegna þess hvað blokkarhverfið var stórt lá engin gata þar inn af. Þess vegna báðum við alltaf leigubílinn um að stoppa "jiao tour, ran hou dao le" við n.k. afleggjara næst blokkinni. Þegar ég stíg út sé ég furðulegt atvik. Leigubíll töluvert fyrir framan okkur stoppar, bílstjórinn stígur út, opnar hurðina og hendir vesturlandabúa út á miðja umferðareyjuna. Sá var eins og liðið lík sem hreyfði sig ekki neitt. Ég sá ælubletti á hurðinni og gat mér til þess að þessi náungi hefði "drepist" á leiðinni, ælt út allan bílinn svo leigubílstjórinn hafi fengið nóg.

Verandi undir áhrifum áfengis steig ég út úr bílnum án þess að gefa þessu mikinn gaum og fór upp í íbúð. Þar hitaði ég mér kínverska lambakjötsréttinn sem við höfðum eldað í gær, horfði á Simpsons þátt, fór í sturtu og ætlaði síðan að fara að sofa þegar ég ákvað að það sakaði svosem ekki að kíkja aftur út til að sjá hvort þessi náungi lægi enn þá þarna á umferðareyjunni - það var jú nístandi frost, mun kaldara en ég hafði nokkurn tímann upplifað á Íslandi og hef ég þó fengið að kynnast janúarfrosti á miðjum Kili í óupphituðum skála.

Þegar ég kom út að umferðareyjunni brá mér, því þarna hafði hann skv. minni klukku verið í að minnsta kosti klukkutíma, liggjandi á bakinu og klæddur í ekkert nema skyrtu, buxur, skó og jakka. Mér fannst ótrúlegt að sjá hann þarna eins og annan Reynisstaðabræðra, stífan eins og frostpinna og gat greinilega eina björg sér veitt. Ég beið eftir að traffíkina lægði og þegar hana gerði það ekki eftir fimm mínútur fór ég einfaldlega úr peysunni minni svo bílstjórarnir sæu í hvíta bolinn, færði mig varlega út á götuna og fikraði mig yfir þessar fjórar akreinar að eyjunni. Þrátt fyrir að hafa séð hinn ótrúlegasta náungakæreik há Kínverjum virtist enginn sem átti leið framhjá virtist gefa þessum manni hinn minnsta áhuga. (Enda var þetta hraðbraut og mjög erfitt var að stöðva bílinn ef einhver skyldi sjá hann í svörtu fötunum.)

Þegar ég kom að náunganum sá ég um leið að þær lýsingar um fólk sem hefur kalið og orðið virkilega blátt stæðust. Náunginn var blár og horfði eins og Morrinn í Múmínálfunum upp í himininn. Þegar ég tékkaði á hjartslættinum fann ég veika hreyfingu og skyndilega "rann af mér" vegna þessa fáránegu aðstæðna. Ég greip um öxlina á honum, setti handlegginn á honum yfir öxlina á mér og bar náungann sömu leið aftur yfir götuna, beinlínis með því að stíga hálfpartinn úr á akreinina svo bílarnir stoppuðu tímabundið. Þannig hélt ég á honum að blokkinni og bar hann upp þrjár hæðir, dröslaði honum í sófann í stofunni (ég svar í rúmi við hliðina á sófanum) og fyllti bala af heitu vatni til að setja hann í fótabað og vonandi koma honum í gang á ný.

Vinur minn er björgunarsveitarmaður og hefur sagt mér að sumt fólk sem hann hefur bjargað úr miklum kulda væri svo aðframkomið að það væri hætt að skjálfa vegna þess hve líkamshitinn væri lágt kominn. Sá sem sat núna í sófanum hjá mér fór ekki að skjálfa fyrr en eftir tuttugu mínútna fótabað! Að vísu hafði ég lesið einhvers staðar að maður ætti ekki að bjóða "hlýju" utanfrá heldur einangra þá nógu vel til að leyfa þeim að hita sig upp sjálfir en á þessum tímapunkti var mér orðið skítsama, því maðurinn var gjörsamlega blár.

Það fyrsta sem hann sagði var "meiyou pengyou, meiyou pengyou!" (Ég á enga vini, eða hvar eru vinir mínir). Ég svaraði honum á ensku og sagði að hann væri öruggur núna en hann hélt áfram að svara mér á kínversku. Það var ekki fyrr en ég prófaði að tala við hann á kínversku sem eitthvað af viti kom upp úr honum, hann sagðist hafa drukkið mikið og vildi fara að sofa.

Eftir hálftíma sýndist mér hann verða kominn í gott stand, afklæddi hann (að ofan) og vafði utan um hann hlýtt ullarteppi og sæng, setti fat fyrir neðan sófann ef hann skyldi æla, og fór svo að sofa.

Undrun félaga minna var ekki lítil daginn eftir þegar þeir komu inn í stofuna um morguninn og sáu æluspýjuna liggja um allan sófann, gólfið, stofuborðið og fataskápinn minn. Sjálfur vaknaði hann stuttu seinna, spurði mig fyrst "what happened to the bowling?", mér til mikillar undrunar þangað til hann útskýrði að hann hefði farið í keilu með félögum sínum og nokkrum vodkaflöskum, sem endaði á því að hann hefði drepist í leigubíl á leiðinni heim. Við buðum honum upp á instant-kaffi og spurðum hann um nafn - þá kom í ljós að hann var að læra kínversku í sama skóla og við, hét Chris og var frá Kanada (sem er kómíst í ljósi þess að úti í Nanjing var einn besti vinur minn Kanadabúi að nafni Chris).

Hann þakkaði mér óendanlega fyrir að hafa komið sér heim til okkar og var augljóslega í sjokki þegar ég sagði honum að í viðlíka frosti hefðu ófáir menn orðið úti heima á Íslandi.

Ég heyrði reyndar aldrei frá honum eftir þetta. Reyndar á ég mynd af honum liggjandi í sófanum með æluna út um allt. Kannski þyrfti ég að grafa hann upp í kanadísku símaskránni og senda honum viðeigandi póstkort.

Annars þakka ég lesturinn

Ykkar Hvurslags

   (16 af 51)  
2/11/07 02:02

Villimey Kalebsdóttir

Já það er ekkert annað. Þú ert greinilega mjög góður maður. Knús.

2/11/07 02:02

Herbjörn Hafralóns

Athyglisverð frásögn um náungakærleik, sem er sem betur fer ekki úr sögunni. Þér verður örugglega umbunað þegar þú kemur að Gullna hliðinu eftir marga áratugi.

2/11/07 02:02

hvurslags

Ég vil þó geta þess, að margir aðrir hefðu gert það sama í mínum sporum, enda varð ég vitni að gervallri atburðarásinni. Þetta félagsrit er því hugsað sem skemmtileg frásögn frekar en einhver meint upphafning af náungakærleik. Ég þakka þó góð viðbrögð.

2/11/07 02:02

Fergesji

Stór hetjudáð, Hvurslags. Ein spurning brennur þó á oss: Var þetta í Beijing eður Nanjing?

2/11/07 02:02

hvurslags

Þetta gerðist í Beijing eins og ég sagði frá. Hinum Kanada-Chris kynntist ég úti í Nanjing.

2/11/07 02:02

Anna Panna

Þú ert alveg stórkostlegur Hvurslags, einn af þeim sem aðrir ættu að taka sér til fyrirmyndar...

2/11/07 02:02

Einn gamall en nettur

Já þessu get ég trúað þér upp á!
Skemmtileg lesning!

2/11/07 03:00

Sundlaugur Vatne

Hetjudáð, eins og við var að búst, kæri hvurslags. Segður mér: Þreif hann upp eftir sig sjálfur?

2/11/07 03:00

Vladimir Fuckov

Þetta var athyglisverðasta fjelagsrit sem vjer höfum lesið hjer nokkuð lengi. Skál !

2/11/07 03:00

Útvarpsstjóri

Hvurslags mikill kappi er og köldum bjargar
hverjum þeim er Kína fargar.

2/11/07 03:00

Þarfagreinir

Helmögnuð frásögn. Vissi alltaf að þú værir sannkallað eðalmenni, hvurslags.

2/11/07 03:00

Lopi

Takk fyrir þessa frásögn. Þér hefði nú ekki liðið vel ef þú hefðir ekkert gert og frétt svo af láti hans daginn eftir.

2/11/07 03:00

Lokka Lokbrá

Góð saga, hetjan þín hvurslags.
Þessi Chris er nú undarlegur náungi og illa upp alinn fyrir það að hafa ekki meira og betra samband við þig og launa þér lífgjöfina.
Þín vegna má hann þakka fyrir það að lifa nóttina af og það að vera enn á lífi.
Er hann hættur í skólanum? Getur verið að hann hafi reynt að hafa upp á þér en ekki tekist það?

Lífi sínu launa skal
lífgjafanum góða.
og bjóða uppá matar mal,
margbrotinn og karla hjal.

Það er sem sagt lágmarks krafa að hann hafi samband við þig og bjóði þér í mat.
Matur er mannsins meginn og ekki spillir spjallið fyrir.

2/11/07 03:00

Golíat

Athyglisverð saga. Góður hvurslags.

2/11/07 03:00

Tigra

Frábært rit. Einmitt á tímum sem þessum á maður að hugsa um aðra en sjálfan sig, þótt flestum þyki þeir eiga nóg með sjálfan sig.
Ef allir gerðu það, þá væri heimurinn töluvert betri staður.

2/11/07 03:01

Nornin

Held að flestir sem ég þekki, bæði hér og í svk. raunheimum, hefuð gert slíkt hið sama, sem rýrir þó ekki góðmennskuna og samkenndina.

Að eiga líf sitt einhverjum að launa er sennilegasta stærsta "hönk upp í bakið" sem hægt er að burðast með. Kannski aumingja Kanada-Kriss hafi ekki þolað skuldbindinguna sem það gæti kostað.

Þetta er góð frásögn svona fyrir jólin... vekur upp í manni góðmennskuna.

2/11/07 03:01

Jarmi

Já þessu trúi ég sko alveg upp á þig.
(Og ég kannast alltof vel við þetta að pirrast yfir verðlaginu á ódýrum barnum eingöngu vegna þess búðin er ennþá ódýrari.)

2/11/07 03:01

Garbo

Skemmtileg frásögn.

2/11/07 03:01

Kiddi Finni

Góð frásögn og vel gert.

2/11/07 03:01

Glúmur

Takk fyrir frásögnina hvurslags. Þú ert lukkulegur að hafa þessa lífsreynslu í farteskinu, það er ekki laust við að ég finni fyrir ofurlítilli öfund. Þetta er engu minni hetjudáð en að bjarga manni úr brennandi húsi því þú lagðir þig sjálfan sannarlega í hættu með þessu. Ég vona að þú munir fá góðverkið margfalt til baka.

2/11/07 03:01

Wayne Gretzky

Gott rit - en viltu gera það fyrir mig að tala ekki um bjór.

2/11/07 03:01

Nermal

Magnaður ertu hvurslags. Svona menn eru ekki á hverju strái.

2/11/07 03:01

Regína

Maður veltir fyrir sér af hverju maðurinn hefur ekki haft samband. Hugsanlega týndi hann heimilisfanginu eða fékk það aldrei, kannski skilur hann ekki að hann hafi verið við dauðans dyr, kannski veit hann ekki hvað í ósköpunum hann getur fullþakkað og er enn að hugsa hvernig (konfektkassi er í rauninni alveg nóg) eða þá að hann er asni.

2/11/07 03:01

Dula

Takk fyrir að minna okkur á að það eru ekki eignirnar sem skipta máli, heldur hugulsemi, náungakærleikur og tillitssemi.
Ég held svei mér þá að ef þetta hefði verið hér á landi þá hefði hann orðið úti. Hér eru of margir alltof fínir með sig og vandir að virðingunni til að vera eitthvað að púkka uppá ókunnugt fólk hvað þá draga einhverja ofdrykkubolta inn til sín. Þeir hefðu kannski spanderað einu símtali í lögguna.

2/11/07 03:01

Kiddi Finni

Það er samt ekki ónytt að hringja í lögguna ef einhver er sofnaður úti kuldanum. Getur líka bjargað mannslifi.

2/11/07 03:02

Offari

Það er alltaf betra að gera eitthvað en að gera ekki neitt. Takk fyrir hvurslags Chris er þér örugglega líka þakklátur þótt hann hafi ekki sagt þér það.

hvurslags:
  • Fæðing hér: 21/8/03 19:36
  • Síðast á ferli: 11/6/23 18:21
  • Innlegg: 7684
Eðli:
Fræðasvið:
Ég er nú sosum ágætur að bakka með kerru.
Æviágrip:
Það rættist bærilega úr okfrumunni.