— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
hvurslags
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 31/10/07
Plötudómur: Beck - Midnite Vultures

Útgáfutími: 23. nóvember 1999. Útgáfufyrirtæki: DGC.

Platan Midnite Vultures með tónlistarmanninum Beck er ein af þessum plötum sem fá sæmilega dóma stuttu eftir útáfu hennar, en eftir því sem árin líða nýtur æ meiri viðurkenningar og rís hærra í verkaröð tónlistarmannsins. Á mínu heimili hefur þessi diskur verið gatspilaður allt síðan árið 2000 og aðrar plötur með Beck hafa aldrei verið í viðlíka uppáhaldi.

Fyrsta lagið, Sexx laws, naut mikilla vinsælda og var (og er) spilað í ófáum partíum og böllum. Til er kostulegt myndband við lagið þar sem sjá má húsgögn hamast hvert ofan á öðru, og Sexx Laws gefur mjög ákveðinn og einkennandi greddu- og partítón sem endist út alla plötuna. Beck tekst snilldarlega að glæða hana einstökum anda sem samsvarar sig að nokkru leyti við plötuframhliðina; hún angar einhvern veginn af leðri, bjór og öðru áfengi og sveittu partíi með öllu tilheyrandi. Hann gerir stólpagrín að sjálfskipaðri elítu sem flýgur um á einkaþotum og sniffar kókaín um helgar með einstökum textum sem afhjúpa yfirborðsmennskuna við þann lífsstíl; hið kaldhæðna er að maður getur ekki annað en hrifist með glansmyndinni, sérstaklega þegar tónlistin er einstaklega vel gerð.

Hér er við hæfi að nefna lykillög eins og "Mixed Bizness"(þar sem hann verslar mestmegnis með leður), Hollywood Freaks(sem býr yfir stórkostlegum satírutexta á firringu hins ofþeytta rjóma) og að sjálfsögðu Debra, síðasta (og að mínu mati besta) lag plötunnar þar sem Beck lýsir því yfir við ónefnda stúlku að hann sé alveg til í að komast í rúmið hjá henni, nú eða systurinni sem hann minnir að heiti Debra. Lagið býr yfir sjóðandi kynþokka án þess að hið minnsta korn af væmni nái að eyðileggja húmorblönduna.

Þótt níu ár séu frá útgáfu plötunnar hefur hún elst gríðarlega vel og í raun engin leið að sjá að hún gæti ekki hafa verið gefin út í gær. Öll vinnubrögð hvað frágang hennar varðar eru óaðfinnanleg og það er skrýtið hvað Odelay diskurinn hefur alltaf fengið athyglina sem hans aðalverk þegar mér finnst þessi eiga miklu frekar þann heiður skilinn. Eftir um þrjátíu ár held ég að ekki leiki vafi á því hvaða plötu verður hampað sem hans magnum opus - hinn brjálæðislegi 80' kokteill er endurblandaður árið 1999 með Beck sem barþjón og mikið djöfull bragðast hann vel.

   (18 af 51)  
31/10/07 13:02

Andþór

Þessa á ég meira að segja. [Ljómar upp montinn]
Man samt ekki hvar hún er.

31/10/07 13:02

Skabbi skrumari

Maður verður greinilega að kíkja á gripinn við tækifæri... Skál

31/10/07 13:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

Vel til fundin gagnrýni; góð lesning svona í kre..ehah...
ah-ahaa..[Sýpur hveljur & hnerrar ógurlega] -tzhjúh !
En já, hann Beck karlinn verður sannarlega seint ofspilaður. Ég hef t.d. alltaf verið frekar hrifinn af músíkinni hans, en samt lítið sem ekkert hlustað á hana. E.t.v. væri ráð að bæta fljótlega úr því...

31/10/07 13:02

Huxi

Alveg drullufín plata. Beck Hansen er snilli.

31/10/07 13:02

hvurslags

Sem tónlistarmaður já, án nokkurs vafa. Hins vegar er hræðilegt að hann sé dottinn í það stórhættulega og snarbilaða batterí sem vísindakirkjan er...

31/10/07 14:01

Nornin

Ég er mjög sammála þessu.
Midnite Vultures er einn af mínum eftirlætis diskum og orðið gatspilaður á mjög vel við mitt eintak.

Nicotine and gravy er mitt uppáhalds á disknum.

Svo hef ég það eftir tónlistarnördi að sum lagana séu með yfir 100 rásir og þess vegna eru öll þessi aukahljóð svo einstök og hljómi svo sterk.

hvurslags:
  • Fæðing hér: 21/8/03 19:36
  • Síðast á ferli: 11/6/23 18:21
  • Innlegg: 7684
Eðli:
Fræðasvið:
Ég er nú sosum ágætur að bakka með kerru.
Æviágrip:
Það rættist bærilega úr okfrumunni.