— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
hvurslags
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 3/12/07
Anarkismi á Íslandi

Víða um heim eru risavaxin samtök og félagsgerðir sem byggja ekki á neinu ríkisvaldi heldur hafa komið sér upp ákveðnu kerfi og reglum sem langflestir innan þess fallast á og fylgja, t.d. FIFA, Rauði krossinn, ýmiss konar trúarsamtök ofl. Í þessu félagsriti ætla ég að víkka hugtakið.

Undanfarna mánuði hef ég fengið nokkurn áhuga á stjórnmálastefnu, ef "stjórnmála"stefna væri rétta orðið, á því sem að mínu mati hefur aldrei fengið að njóta sannmælis. Það er anarkismi. Íslenska þýðingin, "stjórnleysi" finnst mér vera óheppilegt því anarkískt þjóðfélag verður alltaf skipulagt að einhverju leyti, munurinn er sá að skipulagningin verður til neðan frá en ekki að ofan. "Andríkisstefna" nær kannski betur yfir þetta hugtak þar sem það samrýmist grunnstefnu an-arkisma ef þið skiljið hvað ég meina. Það hefur þó alltaf einhvern neikvæðan blæ á sér sem ég kann ekki við.

Þetta félagsrit er skrifað vegna þess að ég hef áttað mig betur og betur á því að anarkismi er eitthvað sem ég tel að gæti í raun virkað á Íslandi í framtíðinni. Gagnrýnisraddir á lýðræðið verða sífellt háværari, kröfur um beint lýðræði fá aukinn hljómgrunn og satt best að segja er ég ekki viss um hvort að núverandi þjóðskipulag verði við lýði á meðan ég lifi. Íslendingar fyrir örfáum kynslóðum upplifðu gríðarlegar stjórnbreytingar frá konungseinveldi yfir í frjálslynt lýðræði og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þjóðfélagið fái að dafna undir öðrum formerkjum.

Margir anarkistar stefna að sama markmiði og kommúnistar - munurinn er aðeins sá að kommúnistar vilja ná jafnrétti gegnum byltingu og ríkisframkvæmdum til að geta síðan losað sig við það svo allir menn geti lifað jafnir, á meðan anarkistar vilja ná þeim markmiðum með friðsamlegri hætti.

Í raun finnst mér slíkar bollaleggingar heldur óstyrkar og hef fengið meiri áhuga á því sem er kallað "mutualismi" eða samhjálparstefna og er einn angi anarkisma. Hún gengur út á að þegnar samfélagsins geti skipulagt grunnstoðir þess af eigin rammleik án þess að hafa ríkisvald sem gangi fyrir skattfé.

Á Íslandi höfum við þá sérstöðu að hér er til staðar einn þáttur þjóðfélagsins sem gengur fullkomlega út á þetta hugtak; það eru björgunarsveitirnar. Daglega þurfa björgunarsveitarmenn að bjarga fólki í nauðum upp á hálendi, aðstoða sjómenn í háska og ýmislegt fleira sem er bráðnauðsynlegt samfélaginu. En þeir gera það án þess að ríkið komi þar nokkuð nærri, heldur afla sér fjár með flugeldasölu og fá styrki frá hinum og þessum.


Í raun kæmi mér það ekkert á óvart ef ég hefði alist upp í samfélagi þar sem "Björgunarsveitir ríkisins" væru til. Það hljómar fullkomlega rökrétt í samhengi við slökkvilið, lögreglu og fleiri þætti ríkisvaldsins sem mörgum fyndist ómögulegt að gætu þrifist ef þeir fengu ekki fjármagn þaðan. En hér virkar þetta á einhvern undarlegan hátt. Enginn sakar björgunarsveitirnar um að vera hliðhollir hinum eða þessum - þeir eru fullkomlega hlutlausir þegar um mannslíf er að ræða. Þetta er nokkuð sem vel menntað og upplýst samfélag eins og Ísland getur ráðið við.

Verður Ísland einhvern tímann það þroskað og mannúðarsamt að landsmenn gætu ráðið við t.d. slökkvilið, landhelgisgæslu, vegagerð o.fl. án þess að ríkið þyrfti að koma við?
Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Það eina sem ég sé skyggja á þessa framtíðasýn er birtingarmynd yfirvaldskúgunar í dómstólum, lögreglu, fangelsum og fleira sem samhjálparstefnan í raun hafnar. Það þyrfti að endurskoða hugtök á borð við glæpamenn þar sem enginn fastmótaður lagabókstafur væri til staðar annar en almenn óskrifuð lög. Mútúalisminn fríar sig ábyrgð á þessum vandamálum og það er í raun það sem stendur í vegi fyrir að ég geti stimplað mig sem anarkista annað en heimspekilegan. Samhjálparstefnan myndi líklegast ekki virka á Íslandi í dag 2008, en ég er orðinn nær fullviss um að Ísland gæti verið tilbúið undir það fyrr en marga grunar.

   (19 af 51)  
3/12/07 10:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Jú Víst

3/12/07 10:01

Texi Everto

Ég er lifandi dæmi um anarkisma.

Hafið þið annars séð vin Blesa? Hann hefur ekki sést síðan á þriðjudaginn og lögreglan neitar að lýsa eftir honum. Bara af því hann er hestur!

3/12/07 10:01

Grágrímur

Ég pælsi mikið í þessu fyrir nokkrum árum, þökk sé Sigga Pönk úr Forgarði Helvítis sem sá eitt árið um skólablaðið í Fjölbrautinni sem ég gekk í og skrifaði óspart um anarkisma og vantrú ogantisportisma. Maður beið alltaf spenntur eftir næsta blaði...
En þvímiður komst ég að því að þetta er falleg hugmynd en myndi aldrei virka því það er eðli mannsins að notfæra sér aðstæður til að koma sér og sínum áfram. Það yrðu alltaf einhverjir Gunnarar Birgissynir sem myndu skemma fyrir heildinni....

Því miður

3/12/07 10:01

hvurslags

Í rauninni er alltaf auðvelt að segja svona. Íslendingar á 17. öld myndu seint trúa lýsingum okkar af lýðræði og vera fljótir að afgreiða það kannski á einhvern veg að það yrði alltaf nóg af hálfvitum sem myndu kjósa einhverja aðra hálfvita yfir sig.

3/12/07 10:01

Kargur

Þú meinar þá sem kjósa Árna Johnsen, er það ekki?
Þetta er prýðilega skrifað félaxrit. Um innihaldið get ég lítið tjáð mig sökum eigin fávizku. Ég held satt að segja að ég sé með ofnæmi fyrir stjórnmálum.

3/12/07 10:01

Lopi

Björgunarsveitarmernn starfa í sjálfboðavinnu og peningarnir sem þeir safna eru notaðir við kaup tækjum og tólum. Því miður ganga þessar pælingar ekki upp því að veið erum of nísk ef við eigum að fara að láta fé af hendi rakna til að borga laun sníkjudýra líka.

3/12/07 10:01

krossgata

Skemmtilegt rit. Ég hallast á að Grágrímur hafi mikið til síns máls. Það verða alltaf einstaklingar sem eru gráðugir hvort sem það er í völd eða peninga eða bæði. Nóg er af þeim á Íslandi. Ætli það þyrfti ekki að henda út gjaldmiðlum í þeirri mynd sem eru í dag og ætli það myndi virka að eitt land í heiminum væri utan við gjaldmiðla/fjármálakerfi? Og ætli við verðum ekki komin inn í Evrópubandalagið áður en það næðist að skapa grundvöll fyrir þessu og þar með búið að kippa stoðunum undan.

3/12/07 10:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Sníkjudýr Lopans eru ekki flærnar í ullini á honum heldur fólk útí holti hinna áfengissjúku og krakkarnir þeirra . Kanski eru það líka þroskaheftir asnar sem nenna ekki að vinni í Seðlabankanum eða negrar sem passa ekki í þjóðbúninginn og geta ekki beigt orðið graðhestur hver veit ?

3/12/07 10:02

Kiddi Finni

'Eg á nú erfitt að trúa á fullu anarkisma en anarkisminn eða sérstaklega mutualisminn hefur verið í fullum blóma á litlum stöðum á Íslandi, þar sem menn hafa gert eins og þeim sýnist og hjálpast að hvor öðrum. Mig grunar að Ísland hefur verið að fjarlægast frá anarkismanum undanfarin ár.

3/12/07 10:02

Lopi

Samt gott félagsrit og kemur af stað pælingum um það hvernig samfélög/þjóðfélög virka best fyrir heildina. Maður getur hugsað: ef allir eru sammála um Andríkisstefnuna, hver einasti maður að þá mundum við lifa í einhverskonar útópíu.

3/12/07 10:02

Günther Zimmermann

Kiddi Finni mælti: ,,Mig grunar að Ísland hefur verið að fjarlægast frá anarkismanum undanfarin ár."

Viðtengingarhátturinn hefur semsé fylgt í kjölfarið?

En allt um það. Ég hef alltaf verið hrifinn af öfgunum í hina áttina, þ.e. menntuðu einveldi. Undir slíkum formerkjum hagnast þegnarnir því valdið hugsar ekki í fjögurra ára kjörtímabilum, heldur allri sinni ævi og ævum afkomenda sinna. Þá er spillingin líka kyrfilega sett efst þar sem allir sjá hana, en ekki falin í skúmaskotum 'baklanda' stjórnmálaflokkana (valdagræðgisfélaganna), nepotismi er ekki vandamál í slíku samfélagi, þar sem hann er eðlilegur fylgifiskur fyrirkomulagsins &c &c.

En gera verður skýran greinarmun á kjörkonungi bundnum aðli og einvöldum (þ.e. án aðals) arfakonungi. Í hinu síðarnefnda hefur hvur sem er möguleika á að komast til embætta beri hann til þess gáfur og hæfileik. Dæmi um slíkan framgang má nefna Griffenfeld næstráðanda við Kristján V. Danakonung (og Íslands), en Griffenfeld var fæddur með nafnið Schumacher (þ.e. af iðnaðarmannaættum) og faðir hans var þýzkur vínhöndlari. (Síðar var Griffenfeld reyndar settur út af sakramentinu, og mátti vera feginn að halda haus, í orðsins fyllstu.)

3/12/07 10:02

hvurslags

Ég er ekki sammála Kidda Finna að Ísland hafi verið að fjarlægjast anarkismann. Ríkið hefur minnkað umsvif sín undanfarin 70 ár eða svo. Auk þess er t.d. internetið í raun algerlega anarkískt hvað uppbyggingu og samhengi varðar. Við sjáum alfræðiorðabækur á borð við wikipedia verða til þar sem allir eru sammála um að leggjast á eitt og koma sér upp gagnagrunni sem allir geta notað. Eignarrétturinn hefur orðið æ þokukenndari á til dæmis tónlist og kvikmyndum, nokkuð sem hefur ekki gerst í sögunni síðan "höfundurinn" kom til sögunnar.

Í sambandi við "gráðugu einstaklingana" þá tel ég mikilvægara að líta á þá sem eru ekki gráðugir, því þeir eru miklu mikilvægari fyrir anarkískt samfélag. Þetta er svipað og að hugsa "það verða alltaf til heimskir kjósendur" eða "ráðamenn munu alltaf bara hugsa um sitt eigið skinn". Þjóðfélag okkar er lýsandi dæmi um að svo sé ekki (þó á því séu náttúrulega undantekningar eins og á öllu).

3/12/07 11:01

Jarmi

Erum við þá að segja:

Fullkominn anarkismi er betri en fullkomið lýðræði.
Ófullkominn anarkismi er verri en ófullkomið lýðræði.

?

3/12/07 11:01

Kiddi Finni

Ég meinti anarkismann í daglegu lífi og hversdagsverkum. Þegar kvotakerfið var ekki búinn að drepa niður sjávarplássin útá landi og samgöngur voru ekki of góðar, menn gerðu það sem þeim syndist og tóku ekki of allvarlega það sem yfirvaldið fyrir sunnan var að röfla. Aðskipti rikisvalda leit út að vera meiri á pappirnum, en sveigrúm einstaklingsins var meiri í daglegu lífi.
Annars er ég sammála þér Hvurslags að mikilvægara er að líta á þá sem standa sig, aumingjar og svikahrappar eru alltaf til en kannski sumir þeirra geta líka breyst.

3/12/07 11:01

Kiddi Finni

Günther: viðtengingaháttur sé málfræðihættur anarkismans. Mikið og strangt vald hatar viðtengingaháttinn, þar sem allstaðar er einhvert viðloðanði efasemd... Fyrir harðstjórann á allt að vera bara svona og ekki öðruvisi.

3/12/07 15:00

Jóakim Aðalönd

Er ekki hófið bezt í þessu sem öðru? Sambland kapítalisma með smá kommúnisma og slettu af anarkisma er líklega ein bezta blandan af þessu öllu. Ekkert af þessu virkar eitt og sér.

5/12/07 12:01

hvurslags

Það sem við teljum "hóf" hverju sinni er samt algerlega afstætt, Jóakim.

hvurslags:
  • Fæðing hér: 21/8/03 19:36
  • Síðast á ferli: 11/6/23 18:21
  • Innlegg: 7684
Eðli:
Fræðasvið:
Ég er nú sosum ágætur að bakka með kerru.
Æviágrip:
Það rættist bærilega úr okfrumunni.