— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
hvurslags
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 31/10/06
Kveðskapur og vísnagerð í hættu!

Hér á Gestapó er ljúft að vera. Á þessu spjallsvæði eru þræðir af þvílíkri lengd að erfitt væri að ímynda sér þá öðruvísi en vandlega skipt niður í hundruðir (og jafnvel þúsundir) blaðsíðna.

Hér er jafnframt, án efa, stærsta magn íslenskra ljóða og vísna á internetinu samankomið í kveðskaparstofunni. Sumt sem þar má finna er af óviðjafnanlegum gæðum á meðan annað er ekki eins vel ort, en það er samt gott að vita af því að hérna þrífist enn þá skáld sem, þökk sé internetinu, þurfa ekki að yrkja ofan í skúffu og geta leyft öðrum að njóta kveðskaparins, ef til vill vegna þess að þau geta komið fram undir ákveðnu dulnefni.

Undanfarið hefur það valdið mér áhyggjum hvernig aldursskipting Gestapóa sem þjóna Braga stendur. Raunar ekki aðeins Gestapóa heldur einnig fólki... Íslendingum. Á þessu þrjú hundruð þúsund manna skeri er aðeins hluti fólks sem kann virkilega að meta kveðskap, sem getur lesið hin meitluðu verk þjóðskáldanna og fengið gæsahúð, eða rennt yfir félagsrit valinna Gestapóa hér og hugsað með sjálfum sér "Þetta er snilldarlega ort."

Það er dýrmætt, virkilega dýrmætt að geta notið þessara fjársjóða. Og þar komum við að kjarna þessa félagsrits, þeirri staðreynd að þeim sem njóta fjársjóðanna fer fækkandi, og það hratt.

Ég er tvítugur, svo ég skafi ekkert utan af því. Einhverjir Gestapóar hér hafa hitt mig á einu Þarfaþinginu sem var haldið í sumar þegar ég var nýkominn frá Kína. Vinir mínir á svipuðum aldri sem geta farið með vísur og kunna að yrkja eru örfáir, tveir eða þrír, og enginn af þeim stundar það reglulega. Í fljótu bragði sé ég aðeins einn Gestapóa hér sem ég veit að er á svipuðum aldri sem hefur gott bragareyra (endilega leiðréttið mig ef ég fer með fleipur), allir hinir eru eldri. Mér finnst ég stundum vera síðasti móhíkaninn, ég velti því oft fyrir mér hvers vegna þetta yndislega leiktæki sem við höfum í tungumálinu sé ekki vinsælla meðal jafnaldra minna.

Ég verð smeykur við að vísnagerð Íslendinga verði einhvern tímann gerð að mikilvægum safngrip sem allir eru sammála um að þurfi að varðveita en enginn nennir að stunda lengur. Kvæði Þórarins Eldjárns verði sett á safn og fólk muni njóta þeirra eins og tómats sem hefur verið þurrkaður upp svo hann geymist betur, í staðinn fyrir að fólk geti tínt þá ferska af nýortum greinum.

Kvæðagerð á, að ég held, ekki í eins harðri samkeppni við aðra afþreyingu á borð við kvikmyndir og tölvuleiki vegna þess að hún getur verið gagnvirk(eins og við sjáum á Fullyrðingamóti o.fl.), hún er inngreypt í tungumálið, sem er gríðarstór hluti af okkur sjálfum, og síðast en ekki síst getur hún lifað þótt tungumálið taki gagngerum breytingum. Það mætti líkja því við að súpugerð dæi ekki út þótt innihaldið sem notað er í hana breyttist.

Ég verð stundum hræddur við að þetta endi sem eitthvert týnt menningarverðmæti. Íslendingar hafa ort ódauðleg kvæði allt frá landnámi og það er mín dýpsta ósk að þeir muni gera það áfram, meðan land byggist. Þess vegna skulum við öll halda vörð um þennan mjög svo sérstaka fjársjóð þótt það þýði ekki að auðæfin í honum þurfi einungis að vera til sýnis. Lifi íslensk vísnagerð!

   (22 af 51)  
31/10/06 21:01

blóðugt

Ég segi sama og þú, af mínum vinum er ég ein sem hef gaman að kveðskap, og er ég litlu eldri en þú.

Mjög gott félagsrit!

31/10/06 21:01

Þarfagreinir

Já, þetta er áhyggjuefni. Kannski maður fari að spreyta sig aftur til að halda arfinum á lofti.

31/10/06 21:01

Regína

Mér finnst samt að undanfarin 10 ár eða svo sé meira um kveðskap hér og þar í þjóðfélaginu heldur en síðustu 20 ár á undan.

31/10/06 21:01

Nermal

Ég er nú aðeins eldri en 20 ára, ég veit nú ekki hvessu artarlegir mínir jafnaldrar eru í að glíma við skáldskapargyðjuna. Ég hefði örugglega ekkert farið að spá í vísnagerð ef ég hefði ekki dottið hér inná Baggalút. Ég er nú heldur engin stórkanóna í þessu, en reyni að vera með. Fínt félagsrit.

31/10/06 21:01

Galdrameistarinn

Fínt félagsrit og mjööööög góð ábending. En ég held að ég taki undir það sem Regína segir hér að ofan.
Ég þekki þó nokkuð af fólki sem hefur gaman af því að semja ljóð og vísur og má jafnvel vera að eitthvað af því sé hér mér óafvitandi.
Sjálfur kann ég að meta góðan kveðskap en mér er lífsins ómögulegt að læra bragfræðina hvað sem ég rembist við það.

31/10/06 21:01

Vímus

Það er kannske ekki að marka gamalmennið mig en ég varð samt mjög undrandi þegar ég mætti á fyrstu árshátíðina og sá þá að mörg bestu skáldin hérna voru kornung. 25-35 ára. Ég kunni ekkert í bragfræði þegar ég skráði mig hér fyrir rúmum 3 árum og vissi ekki hvar stuðlar og höfuðstafir áttu að standa en það voru mér mikið yngri menn sem voru og eru enn alltaf reiðubúnir að leiðbeina þeim sem það vilja þiggja.
Annars tek ég undir allt sem stendur í þessum ágæta pistli en ég hlusta ekki á ruglið í honum Galdra að hann geti ekki lært undirstöðuatriðin í bragfræði. Ég held að hann flæki málið of mikið. Ég þekki ágætis skáld sem hefur samið fjöldann allan af ljóðum og nokkra söngleiki en hefur aldrei stúderað bragfræði. Hann lærði sem krakki að eftir 4. sérhljóða kemur stuðull og þá má hinn stuðullinn standa hvar sem er..

31/10/06 21:01

Huxi

Það kemur mér mjög á óvart hversu ungur þú ert, miðað við þann þroska og hæfileika sem þú sýnir við vísnagerðina. Þessi ábending er alveg klárlega orð í tímatöluð og þó fyrr hefði verið. Það er vonandi að bragfræði sé kennd á framhaldssólastiginu. (Ég hef aldrei í menntaskóla gengið, svo ekki veit ég það). Það er samt alltaf einn og einn sem finnur lífsfyllingu í skáldskapnum, og við verðum bara að vona að svo verði um ókomin ár.
Galdri: Ekki vera að spila þig heimskari en þú ert. Þú skalt bara byrja á einföldum bragarháttum og þá kemur restin af sjálfu sér.

31/10/06 21:02

Dula

Hvurslags, þú ert gull.

31/10/06 21:02

Lopi

Ég byrjaði einmitt hér á Gestapó til þess að æfa mig í bragfræði. Nokkrir kunningjar mínir eru afar færir á því sviði og þeir sögðu mér að þetta væri nú lítið annað en æfing og kannski eitthvað meðfætt innsæi. Gestapó á Baggalúti er kjörin staður til þess að æfa sig og ekki er verra að fá svona fína hjálp og ábendingar frá póum eins og Skabba og fleiri. Þeim er ég afar þakklátur.

Fyrstu vísurnar mínar hérna eru afar klénar. Fyrst gerði ég tóma steypu, þá næst einbeitti ég mér að hafa bragfræðina rétta en innihaldið var enn hálfgert bull. Svo eftir skammir tók ég mig á og gaf mér virkilegan tíma til þess að láta ekkert frá mér nema að bragfræðin og innihaldið væri viðunandi eða betra. í dag er ég of tímabundinn í öðru til þess að vanda mig við kvæðagerð á Baggalút svo ég sleppi því frekar.

Ég tek það fram að ég er nokkuð eldri en t.d. hvurslags. Mér leiddist kvæðalærdómur í skóla eins og svo mörgum öðrum, en samt finnst mér að það hafi blundað í mér löngun til þess að geta ort gott ljóð eða kvæði. Stórskáldin sem okkur var kynnt fyrir í skóla eru miklu meiri fyrirmyndir til að líta upp til í okkar lífi heldur en við gerum okkur grein fyrir.

Ég held að málið sé að fleiri svona netsíður þyrftu að dúkka upp og jafnvel í skólakerfinu og ítreka það stöðugt að hæfileikinn til kvæðagerðar eftir stuðlareglum er fyrst og fremst æfing.

Ég vil að lokum koma því að að eitt hrjáir mig í stökugerð en það er slælegur orðaforði. Ég nefnilega les lítið og er hugsað í framhldi að því að margir sérfræðingar eru vissir um að Harry Potter æðið hafi gert töluverðan skurk í því að Harry Potter kynslóðin verði þó nokkuð meiri bókalesarar heldur en kynslóðirnar á undan. Tíminn mun að sjálfsögðu leiða það í ljós

Ég held að við þyrftum ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessu. Fólk getur fengið áhuga á bragfræði og kvæðagerð á kvaða aldri sem er eins og dæmin hér sanna. Varðandi undgdómin ítreka ég hugmynd mína um að æfinganetsíðu í bragfæði verði komið fyrir í skólakerfinu.

31/10/06 21:02

Billi bilaði

Ég tek heils hugar undir fyrstu setninguna: [g]Hér á Gestapó er ljúft að vera.[/g] Og afgangurinn er mjög góður líka.

31/10/06 21:02

Skabbi skrumari

Ég hef engar áhyggjur... það verða alltaf slatti af stórskrítnu fólki sem nennir að spá í svona hluti... eins og við....

31/10/06 21:02

Herbjörn Hafralóns

Fínt er þetta félagsrit
færi ég þér köku.
Sjálfur reyni að sýna lit,
og sem hér eina stöku.

[Sendir hvurslags væna súkkulaðiköku]

31/10/06 22:00

krossgata

Áhugaverður pistill.
Ég er svipaðrar skoðunar og Skabbi. Ég hef ekki áhyggjur. Ég hafði ekki heldur áhyggjur þegar ég var á þínum aldri og var hreint ekki að æfa mig í kveðskap. Þá las ég fyrir barnið mitt sögur og ljóð. Öðru hvoru í gegnum tíðina hef ég fiktað við leirburð en af lítilli alvöru. Síðan smitaðist ég af einhverju og varð enn skrítnari en áður og nú fikta ég meira að staðaldri. Það verður alltaf til fólk sem vaknar svona á gamals aldri.

Ég held þetta eigi eftir að ganga svona alla tíð. Sveiflast. Regína nefnir einmitt þessar sveiflur, síðustu 10 ár líflegri en þau 20 þar á undan. En ég tek ofan fyrir ykkur sem eruð ung ræktið hæfileika ykkar frá unga aldri.

31/10/06 22:00

Sundlaugur Vatne

Já, ég byrjaði líka á Gestapó á sínum tíma vegna kveðskaparþráðanna
Blessaður, drengurinn minn, ég er nú meira en 2svar sinnum eldri en þú og ég deili ekki áhyggjum þínum. Við skáldin höfum alltaf verið í minnihluta. Þess vegna er eftir okkur tekið.

31/10/06 22:00

Glundroði

Ég held að þú sért að villa á þér heimildir góði minn. Myndin kemur upp um þig.

31/10/06 22:00

Gísli Eiríkur og Helgi

Fyrst brauð á borðið Hvort hefðbundinn ljóðagerð lifi eða ekki sliftir í mínum augum engu máli . frelsið að kunna tjá sig hvar sem er hvenær sem er á hvern þann hátt sem þú vilt er það mikilvæga bragfræði er einhverskonar lög sem vel geta breyst með tímanum
ég henti gömlum Batíkgardínum í gær frá 1975 flottar þá
. Ég er handviss um að þróun heimsins næstu hundrað árinn fari mikið eftir því hvernig stóra landið í austri sem þú bírð í haldi á málunum . þar er bragfæðinn önnur
Þettað reddast allt saman ef við heilsum vingjarnlega hvort til annars . Hvar sem við erum og án þess að líta niður á hvort annað og berum vyrðingu fyrir öllu lifandi
þá reddast heimurinn með eða án stuðla og hvað það nú heitir

31/10/06 22:00

Tina St.Sebastian

Þetta unga fólk nú til dags. Þegar ég var á þínum aldri...

...var árið 2004. Þá kunnum við sko að meta ljóðið!

Annars gekk ég aldrei almennilega í gegnum þetta desperat únglingaljóðagerðarstig sem mér virðist vinsælt í dag (og raunar undanfarna áratugi); Why don't nice girls like me og allt það. Hins vegar held ég að mitt fyrsta bragfræðilega rétta verk hafi komið fremur seint (miðað við mína ætt a.m.k.) því fram að átta-níu ára orti ég nær eingöngu afar framúrstefnuleg ljóð. Mig minnir að eitt hafi verið um eineygða kind og gott ef það birtist ekki á síðum Barna-DV.

Þessi athugsemd er birt með fyrirvara. Ég er nývöknuð. Og fokkitt að ég geti skrifað eitthvað gáfulegt.

P.s. Flest það sem birtist í Barna-DV og aftan á mjólkurfernum í dag er gagnvart ljóðlist eins og ljósmyndasamkeppni Séðs&Heyrðs er gagnvart verkum Ansel Adams. (Neisko! Hundur með sólgleraugu! Hahaha!) [Finnur aulahrollinn hríslast niður eftir hryggnum]

31/10/06 22:00

Skabbi skrumari

Það er ótal blöð sem hafa hagyrðingahorn... margar vefsíður sveitafélaga hafa slíkt... svo er þáttur í útvarpi þar sem menn geta botnað fyrriparta (birtist í morgunblaðinu líka)... til er kvæðaspjallborð (frekar lítið virkt að vísu)... þá eru hagyrðingamót í hverri sveit allavega einu sinni á ári að því er virðist... menn tala í vísum á alþingi og fullt af vefsíðum til þar sem hagyrðingar eru að koma með vísur (þó gæðin séu ekki alltaf upp á marga fiska) ... ég sé ekki betur en að áhuginn sé nokkuð mikill á kveðskap...

31/10/06 22:00

hvurslags

Takk fyrir viðbrögðin. [hámar í sig súkkulaðiköku] Já það er rétt hjá þér Skabbi að það eru hér og þar frjóir jarðvegir fyrir kveðskapinn. Inntakið í greininni var einmitt það að halda þessum jarðvegum áfram frjóum og finna nýja "ræktunarstaði". [fær einnig aulahroll við tilhugsun um ljósmyndasamkeppni ónefnds dagblaðs]

31/10/06 23:00

Offari

Takk fyrir þennan frábæra pistil kæri Hvurslags. Þegar ég rak hér augun inn fyrst kunni ég ekkert í bragfræðinni en fékk góða tilsögn hér og fór að geta hnoðað einhverju úr mér án þess að fá skammir. Þannig að ég fór að æfa mig hér en vandamálið er að ég hef ekkert vit á þessar listgrei þannig að ég veit ekki hvaða ljóð hjá mér eru birtingarhæf og hver eru það ekki þannig að ég hef hrúað þessu öllu inn án þess að gera mér grein fyrir hvort þetta sé ætt. Mér hefur hinsvegar ekkert farið fram í þessu þrátt fyrir að hafa dælt út úr mér heilu tonni af kvæðum sem vel væri hægt að setja á stimpilinn ,,made in China" Því hefur kvæðagerð mín slaknað þó ég geri stundum skúffukvæði í minni vinnu og láti örfá flakka hér til að reyna að halda í þekkinguna. Ég hef prófað önnur kvæðasvæði en finn mig ekki þar og jafnvel berið beðinn um að fara. En ég hef samt trú á því að ég muni halda áfram að grípa í þetta tjáningarform þótt ég hafi dregið tölvert úr því.

31/10/06 23:00

Hakuchi

Mín tilfinning er sú að þessari íþrótt hafi vaxið ásmegin meðal ungs fólks síðastliðinn áratug eða svo. Það þykir í það minnsta ekki eins skelfilega lummó að kveða vísur og þegar ég var yngri (á níunda áratugnum).

Sjálfur hef ég þó aldrei hnoðað saman svo mikið sem einni vísu. Það orsakast einkum af því að ég er húðlatur og duttlungar forvitni minnar hafa tilhneigingu til að leita á aðrar slóðir. Ég bíð eftir bragfræðilega réttu skáldapillunni.

31/10/06 23:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Góður pistill um þarflegt málefni. Ég vildi helzt leggja hér meir til málanna, en hef þvímiður ekki tíma til þess aðsvostöddu

hvurslags:
  • Fæðing hér: 21/8/03 19:36
  • Síðast á ferli: 11/6/23 18:21
  • Innlegg: 7684
Eðli:
Fræðasvið:
Ég er nú sosum ágætur að bakka með kerru.
Æviágrip:
Það rættist bærilega úr okfrumunni.