— GESTAPÓ —
Günther Zimmermann
Heiðursgestur.
Dagbók - 1/12/09
Á einmanalegum stað

[Lesist rámri röddu, í anda Sams Spades eða Philips Marlowes.]

Að endingu rann stundin upp. Opnunartími Þjóðarbókhlöðunnar var lengdur fram yfir hefðbundinn vinnutíma að áliðnum janúar. Nú gat ég hafist handa. Hafist handa við verkefnið.
Það var undarlegur náungi sem fól mér það. Íslendingur í Hollandi. Hvern hefði grunað það, eins og nú er fyrir okkur komið? En hann borgaði vel og ég skil peninga. Verst hvað þeir tolla illa í vist hjá mér. Líklega er það af því að ég skil líka viskí. En það er önnur saga.
Ég vissi að þetta yrði ekki létt verk, en einhver varð að vinna það. Bíhaga. Það lætur ekki mikið yfir sér þetta orð, en það er hálla en áll og kann öll trikkin í bókinni. Líka þau sem ekki eru í henni.
Klukkan var korter gengin í sex. Ef ég ætti að ná ásnum niður í Vatnsmýri kl. 17:20 yrði ég að flýta mér út. Ég snaraði hattinum á hausinn og fór í frakkann. Kastaði kveðju á vinnufélagana og stormaði út. Það var myrkur. En það er líka alltaf myrkur, þessa dagana. Ég rétt náði vagninum. Nú var framvindan komin úr mínum höndum, forlögin hlytu að ráða för héðan af.
Vagnferðin niður á Mela gekk betur en ég þorði að vona. Ég arkaði yfir Hringbraut, framhjá Þjóðminjasafninu og yfir Suðurgötu. Þjóðarbókhlaðan blasti við eins og kastali. Virki, óárennilegt vígi.
Ég strunsaði upp á fjórðu hæð, atlagan varð að vera fumlaus og hröð. Ég arkaði fram hjá afgreiðsluborðinu, framhjá guðfræðihillunum og beygði til hægri inn að tölvusalnum. Handan hans var hilla sem ég þekkti vel. Jafnvel of vel.
Fyrir framan mig var á sínum venjubundna stað röð af bókum. Bibliotheca arnamagnæana. Eins og ég þekkti hana ekki, svikul og flóttaleg.
Þá kom áfallið. Það vantaði aftan við hana! Hún náði bara fram undir nr. 25 og ég þurfti númer 43. Sjitt. Einhver hafði verið á undan mér. Málið varð sífellt flóknara.
Ég rauk í tölvu, sló upp Gegni. Gegnir er gamall vinur minn, uppljóstrari sem veit lengra en nef hans nær. Hann sagði mér að ég væri að leita á vitlausum stað. Nr. 43 væri ekki hér uppi. Ha, spurði ég, hvernig má það vera? Jú, Bibliotheca arnamagnæana er ekki í náðinni. Hún er geymd í kjallaranum. Nú voru góð ráð dýr. Ég spurðist fyrir í afgreiðslunni, getur þetta verið? Er nr. 43 ekki frjáls ferða sinna á almannafæri? Daman sem varð fyrir svörum leit hægt upp. Augnaráðið sagði mér að ég fengi engar ókeypis upplýsingar hjá henni.
Hún spurði hvað mig varðaði um nr. 43. Ég ákvað að vera svalur, ekki láta á neinu bera. Umbjóðandann í Hollandi yrði ég að verja. Ekki neitt svosem, sagði ég að lokum. Við gengum í sama skóla, ég hef ekki heyrt í honum lengi. Það var þá líklegt sagði daman og gerði sig líklega til að snúa sér að öðru. Ég sá að ég yrði að beita annari taktík. Ég þekki dömur eins og þig, sagði ég. Láta ekkert uppi, eru svalari en ís í vískíi. Láttu mig hafa upplýsingarnar sem mig vantar, eða þú gætir bráðnað fyrr en þú hafðir hugsað þér.
Nr. 43 er niðri. Þú nærð honum ef þú flýtir þér. Svona eru þær allar, ískaldar á yfirborðinu en bráðna um leið og gengið er á þær.
Ég þusti niður, skyldi vera opið í kjallaranum? Jú, til sjö. Eins gott. Starfsmaðurinn niðri var tregur til, en ég sá við honum. Hlaupvídd .44 getur haft þessi áhrif á menn.
Niðrí í kjallara var bókin. Loksins hafði ég hana í hendi mér. Í þetta sinn skyldi nr. 43 ekki sleppa, ég hafði lært mína lexíu frá síðustu viðskiptum okkar. En hann var erfiður, vildi ekki tala. Sagðist ekki geta sagt mér neitt. Ég kann lagið á svona náungum. Eftir nokkur snör handtök var hann meyr sem lamb. Sagði mér hvað sem ég vita vildi.

„Bls. 217. bíhaga vb. i forbindelsen sem mér/honum/henni bíhagar
Fimm dæmi: bihagar, behagadhe, behaghe, behaga, behagen. Öll nema fyrsta virðast vera dansknorsksænskættuð. Fyrsta er a.m.k. úr IslDipl 317, 1434. Hin merkt Mno. d.s., glda. fsv. Hljómar skandinavískt. Hún er nefnd á fleiri stöðum, en það var ekkert gagn að því. En, bara þágufall.“

Þannig stóð þá málið. Bíhaga er kunni ekkert nema þágufall. Hvern hefði grunað það? Nú yrði ég að tala við þennan í Hollandi. Ef það er þá ekki búið að vísa honum úr landi. Vonandi er ég ekki of seinn.

Ég gekk heim í myrkri og rigningu sem lét ljósastaurana fá hroll. Ég vorkenndi þessum hávöxnu vinum mínum, þessum ljósum í myrkrinu.

   (1 af 25)  
1/12/09 11:02

Upprifinn

Ertu viss um að þetta sé bara tóbak?

1/12/09 11:02

Günther Zimmermann

Hvaða hvaða. Ég reyki ekki.

1/12/09 12:00

Blöndungur

Hvernig er það Gunnþér, varstu með parrukkið á meðan á öllu þessu stóð?

1/12/09 12:00

Huxi

Marlow einkaspæjari kominn í orðsifjafræðin... Svalt maður, verulega svalt. Ég bíð spenntur eftir fleiri sögum af þessum meiði.

1/12/09 12:00

Regína

Vú, fegin er ég að vera ekki bókasafnsfræðingur þegar þú ert á ferðinni Günther.

1/12/09 12:01

krossgata

Úff, hrikalega spennandi! Verður þetta ekki örugglega ritröð?

1/12/09 12:01

Madam Escoffier

Pant leika bókasafnsgelluna í kvikmyndinni.

1/12/09 12:02

Dula

Það koma 42 svona í viðbót, er það ekki ! [spennist upp]

1/12/09 12:02

Kífinn

Ég hélt að þetta væru bara prímtölueintökin sem vefðust fyrir mönnum. Annars hef ég sjaldan heyrt um bíræfnari hlöðuför og er það vel.

1/12/09 13:00

Valþjófur Vídalín

Þetta er skemmtilegasta saga hjá yður hr. Günther. Gaman væri að lesa aðrar í sama dúr. Hafið þökk fyrir.

1/12/09 13:01

Útvarpsstjóri

<fær gæsahúð>

1/12/09 13:02

Günther Zimmermann

Framhald! Þið eruð heldur betur kröfuharðir lesendur. Þá kýs ég frekar svívirðingar og skammir fyrir að bera svona þvælu á borð fyrir ykkur.

1/12/09 14:01

Huxi

Þetta er ömurleg þvæla. Framhald núna!

1/12/09 14:01

Ísdrottningin

*Bíður spennt eftir framvindu mála*

1/12/09 19:00

Kiddi Finni

"Lyftir upp kraganum, kveikir sér sigarettu og hverfur í rigninguna."

1/12/09 23:00

Rattati

Rusl. Meira.

2/11/09 04:00

Bægifótur

Uff, uff. (Afsakið. Verð að ræskja mig). Ákaflega myndrænt og uppfullt af tilfinningum sem augljóslega á eftir að færa í orð. ... Nema náttlega sem þú ert búinn að nefna.

Günther Zimmermann:
  • Fæðing hér: 13/11/05 22:34
  • Síðast á ferli: 6/10/16 10:53
  • Innlegg: 2105
Eðli:
Fróðleiksfús fáráðlingur.
Fræðasvið:
Breytingar á hæð og breidd bókstafsins t í bakstöðu eins og specimenið lítur út komið úr penna skrifarans Jóns Bjarnasonar frá Hvammi í mið-Múlasýslu frá maí mánuði 1623 til sumarloka 1624.
Æviágrip:
Fæddur á síðustu öld. Hefur alið aldur sinn í faðmi Fjallkonunnar og Germaníu en gistir Dannebrog í Babýlón við Eyrarsund nú um stundir.