— GESTAPÓ —
Günther Zimmermann
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 2/12/07
Um Køben og Havn

Hér er uppnefning Íslendinga á sinni öldnu höfuðborg gagnrýnd.

Ég hefi velt orðskrípinu K ø b e n ögn fyrir mér.

Ekki brúka Danir þessa styttingu, þeir tala ætíð um København.

Ekki þarf að fjölyrða um aldalanga hefð Íslendinga fyrir því að kalla borgina við Eyrarsund Höfn. Þekkist það bæði sérstætt og í samsetningum á borð við Hafnarstúdent frá elztu tíð.

Íslenzka styttingarhefðin í tengslum við heiti bæja hefur verið með áherzlu á seinni hluta samsettra orða. Dæmi:
Jónas orti:
Elt svo hina! Haltu
hugprúður til búða
Víkur. - Við þig leiki
völin á mölinni.
Og átti þar við Reykjavík.
Oft er talað um Eyrina við Akureyri.
Eyjamenn búa í Vestmannaeyjum. Þeir (og þjóðhátíðargestir) fara til Eyja.
Hluti Selfoss eru Fossbæirnir.
Hólminn kannast Stykkishólmarar við.
Margir Eyrbekkingar búa á Bakkanum.
Krókurinn er alþekkt heiti Sauðárkróks.

Dæmi um styttingar sem nýta sér fyrri part orða eru örfá. Eitt þeirra er menningarlausa orðskrípið Mosó fyrir Mosfellsbæ. Haukur Morteins færði okkur -ó hefðina, þegar hann söng um Mývatnssveitó, sællrar minningar. (Enda bannaði Ríkisútvarpið fyrst flutning þess lags.) Því er ekki löng hefð fyrir slíkum styttingum og ástæðulaust að taka hana upp nú. Þá er nær að halda sig við bráðskemmtilega þýðingarhefð sem hér hefur verið við lýði um aldir. T.d. Lundúnir, Nýja Jórvík, Jórsalir, Árósar, Óðinsvé, Kaupmannahöfn, Dyflinni o.s.frv.

Ekki tala Íslendingar um Stokk þegar þeir meina Stokkhólm eða New fyrir New York.

Líklega bera Stuðmenn ábyrgð á vinsældum þessa óæskilega orðskrípis, það kemur fyrir í kvikmynd þeirra Með allt á hreinu árið 1982 og hlaut fyrst almennar vinsældir eftir það.

Í pétrísk-íslenzkri orðabók er að finna Röben fyrir Raufarhöfn og Þöben fyrir Þórshöfn. Hér þykir mér maklegt grín gert að Køben vitleysunni.

   (24 af 25)  
2/12/07 12:00

Grágrímur

"Hluti Selfoss eru Fossbæirnir."
Reyndar eru Fossbæirnir bóndabæir sem eru fyrstu mannabústaðirnir á svæðinu og alls engin stytting... þettaeruhúsin viðkirkjuómyndina og prestsbústaðurinn er held ég Foss 1.
Hins vegar er farið að kalla Selfoss, Árborg sem mér líkar engan vegin við.

2/12/07 12:00

Dula

Ég er ALFARIÐ á móti Íslenskum heitum á erlendum borgum...ALGJÖRLEGA á móti.

En styttingar eru cool.

2/12/07 12:00

Günther Zimmermann

Það sem nefnast Fossbæirnir í daglegu tali er, eins og réttilega var bent á, sveitabærinn sem Selfoss fékk nafn sitt af. Þar er tví- eða þríbýlt (ég þekki ekki nógu vel til). En Fossbæir er stytting úr Selfossbæir, á því er enginn vafi. Ef prestbústaður hefur bæzt við síðar og hlotið nafn af styttingunni, er það allt annar handleggur og þessu óviðkomandi.

2/12/07 12:00

Upprifinn

Raufarhöfn er gjarnan kölluð Rieben og þykir bara fínt.

2/12/07 12:00

Regína

Eigum við þá að kalla Kaupmannahöfn Köbenhavn Dula?
Og Stokkhólm Stockholm?

2/12/07 12:00

Günther Zimmermann

Þú ert rassgat Raufarhöfn
ljóti fúli drullupyttur
andskotinn á enginn nöfn
yfir öll þín forarsöfn
(brot)
Eitthvað þessu líkt orti einhver einhverntíman. Enda fékk Raufarhöfn nafn sitt, Røverhavn, af dönskum höndlurum sem nefndu staðinn Rassgatshöfn. Enda þýðir røv rassgat.

2/12/07 12:00

Upprifinn

Nei Günther minn góði nafnið raufarhöfn er nú nokkuð mikið eldri en danska eins og hún er þekkt i dag.

2/12/07 12:00

Günther Zimmermann

Í orðsifjafræði skal ávalt hafa það sem skemmtilegra reynist!

[Hleypur um sviðið, skríkjandi eins og skólastelpa]

2/12/07 12:00

Dula

Nei ég er að tala um LUNDÚNIR...hvað þýðir það eiginlega. Ég skil alveg Stokkhólm af því að maður segir ekki Cið í Stockholm og við segjum oft köbenhavn á dönsku af því að danska var nú einusinni næstumþví okkar mál, en ég neita orðskrípinu LUNDÚNIR... vill einhver segja mér hvað Lundún er. Já ég er heimmsk og rugluð og allt það en ég skil ekki hver munurinn á London og Lundúnum er, hvað er Íslenskt við LUNDÚNIR !

2/12/07 12:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Hressandi rit hjá Zimmermanninum, & ljómandi skemmtileg pæling.

Athugasemd Dulu minnir þann sem hér ritar reyndar á, að á ferðalagi ásamt góðum félögum í Boston, Massachusetts, fyrir rúmum áratug eðasvo – var gjarnan brugðið á leik með að íslenzka heiti borgarinnar með sama hætti & Lundúnir. Þannig vorum við augljóslega stödd í Bustúnum, ellegar Bustúna-borg; þótti mönnum þetta fádæmasniðugt.

Ef maður tekur pælinguna aðeins lengra, mætti e.t.v. færa rök fyrir að heppileg íslenzkun á Hong Kong yrði, skv. þessu, Hung Kúngir. Gaman að þessu.

2/12/07 12:00

Dula

[fær hroll]

2/12/07 12:00

Günther Zimmermann

Þakkir kæri herra Z. Natan!

Viðbót: Vostún hefur mér lengi þótt fegurra en Washington, þó Þvottatún væri eflaust réttara.

Stuttgart þýddi ég einhverntíman sem Stóðgerði, eða Stóðgarð.

Þýðing Fjölnismanna á Düsseldorf, Þusluþorp, er víðfræg og bráðskemmtileg.

Ef við leikum okkur með kontraktismus-kenningu Grunnavíkur-Jóns, þá má leiða að því líkur að Seattle sé orðið til úr sea-cattle. Því legg ég til að fæðingarstaður ræflarokksins (grunge-rock) nefnist héðanífrá Sækýr.

2/12/07 12:00

Upprifinn

Svo er það

Farðu í rassgat Raufarhöfn
rotni fúli drullu pollur
andskotinn á engin nöfn
yfir öll þín forarsöfn

Þó Raufarhöfn skorti þinn andlega auð
og engin sé fegurðar staður
er það að lasta þitt lifibrauð
ljótt af þér aðkomumaður.

ég vinn fyrir matnum á mannlegan hátt
og mun hann því greiða að fullu
en ég get ekki lofað þann guðlega mátt
sem gerir allt löðrandi í drullu.

og Köben má svo gjarnan heita köbeben eða bara kaupmannahöfn.

2/12/07 12:00

Günther Zimmermann

Þakkir fyrir kvæðabirtinguna, Upprifinn.

Sjálfur hef ég þetta úr bók:

,,Í sudda og kalsaveðri fór hrollur um Egil [Jónasson frá Húsavík] og hann orti undir laginu Blessuð sértu sveitin mín:

Farðu í rassgat, Raufarhöfn,
rotni fúli drullupollur.
Andskotinn á engin nöfn
yfir mörg þín forarsöfn,
þú ert versta víti jöfn,
viðmót þitt er kuldahrollur.
Farðu í rassgat, Raufarhöfn,
rotni fúli drullupollur."

Egill Jónasson: Egilsbók. Reykjavík 2001, bls. 100.

2/12/07 12:00

Kondensatorinn

Ég slapp frá Raufarhöfn.

2/12/07 12:00

Kiddi Finni

Jahá.
Svo má bæta víð, að á norðanverðu Vestfjörðum fara sumir, ef þeir komast ekki hjá því, "úti Vík", en þá er átt við Bolungarvík.
En þar sem York og Dublin eru annars vegar, þá hétu þessar borgir fyrst Jórvík og Dyflinn, enda norrænir menn sem bjuggu þar. Og ekki er íslendingum að kenna ef seinna íbúarnir hafa ummyndað nafnið.
Annars: þið fáið þessar þýðingar til baka á ykkur, ég hef þann sið með nokkrum samlöndum minum, að vér köllum Reykjavík Sauhunperä og Akureyri Peltosäikkä. Og Frón er einfaldlega Kivi, Steininn eða Skerið.

2/12/07 12:01

krossgata

Þetta er mjög skemmtilegt félagsrit.

Þessi meinta íslenskun á borgarnöfnum eru í flestum tilvikum orðskrípi sem hafa litla sem enga merkingu og oftast virðast þau til komin af því þau hljóma líkt og nafn borganna á tungumáli innfærdra.

Hvað varðar York, þá kemur nafnið York fyrst fyrir í rituðum heimildum eitthvað í kringum 95-105 e.k. og hafa norrænir víkingar þá ekki ruðst þar yfir og nafnið Jórvík ekki til komið. Norrænir víkingar ruddust yfir borgina kringum 860 og fóru að kalla hana Jórvík. Borgin hét því ekki Jórvík fyrst.

Lundúnir: tek undir með Dulu þetta er orðskrípi sem kemur út á mér bólum og sama má segja um Dyflina og Jórsali, sem er hvað Versaille? York, Versaille og Jórvík, Jórsalir. Hvaða endemis bull er þetta eiginlega.

Árósar, Óðinsvé, Kaupmannahöfn eru aftur á móti ágætis nöfn. Aarhus þýðir væntanlega lækjarhúsin, ég veit ekki er ekki vel að mér í danskri tungu. Odense hef ég ekki glóru um raunverulega merkingu og gæti Óðinsvé þess vegna verið rétt þýðing, en orðið er ágætt og sama má segja um Kaupmannahöfn sem er ágætt orð fyrir Köben.
[Glottir púkalega]

2/12/07 12:01

Regína

Jórsalir eru Jerúsalem, tel ég víst. Versalir eru í Frakklandi.
Lundúnir er alveg ágætt nafn, vest hvað það fer í taugarnar á húmorslausu fólki. <Glottir til Dulu og krossu>
Svo förum við til Edinborgar.
Nú skulum við íslenska borgirnar Tel Aviv, Glasgow og Bombay.
Rio de Janero er nú alltaf kölluð Ríó á íslensku, rímar við hið ágæta orð bíó.

2/12/07 12:01

Günther Zimmermann

Rétt hjá Reginu, Ver(gjörnu)salir eru Versailles, og Jerúsalem Jórsalir (mikið er það annars fallegt nafn, þótt það sé samheiti við hesthús).

Rio de Janero er létt verk að þýða: Janúarfljót.
Glasgow, Glasaskógur? (Betri er einn bjór í hendi en tveir í Glasgó...)

Tel Aviv, ætli þetta sé ekki hebreska? En ef við tengjum þetta latneskum stofnum mætti ímynda sér Fjarfugl, eða eitthvað álíka.

Heitir Bombay ekki Mbai í dag? Það gæti þó verið rugl í mér. Bomsuflói segi ég.

En hvað Lundúnir varðar, þá grunar mig að uppruna þess sé að leita í orðinu Londinium, en það nefndu Rómverjar borgina, er þeir stofnuðu hana. Það gæti þó verið byggt á eldra örnefni, og latínuserað af Rómverjum.

Hins vegar finnst mér skemmtilegt að heyra það sem Kiddi finni segir, að til séu erlendar þýðingar á íslenzkum örnefnum. Gaman væri að heyra fleiri slík.

Ég vil ennfremur leggja áherzlu á meginefni félagsritsins, sem er að Køben þarf að ryðja úr íslenzku máli.

2/12/07 12:01

Regína

<Skellir sér á ýtuna með Günther>
Hér með banna ég sýningu myndarinnar ,,Með allt á hreinu" í gervöllu Gestapó. <Þorir ekki að hætta sér yfir á Baggalút>
Svo heiti ég Regína en ekki Regina.

2/12/07 12:01

Günther Zimmermann

Þakkir, Regína!
(Og afsakið innsláttarvilluna)
Hér finnst skynsamt fólk, og er það vel.

2/12/07 12:01

Anna Panna

Þetta er bráðskemmtileg umræða!

Ein spurning til ykkar sem virðist hafa þýðingarnar á hreinu, hvaðan kemur þetta undarlega heiti „Rúðuborg”?!

2/12/07 12:01

Dula

RUGL segi ég RUGL !

2/12/07 12:01

Regína

Rúðuborg? Er það ekki annað hvort úr bókaflokknum um Ástrík og Steinrík, eða úr Heljarslóðarorustu?

2/12/07 12:01

Anna Panna

Neibb. Þetta er borg í Frakklandi sem heitir Rouen á máli innfæddra og kemst aðallega í umræðuna hér heima fyrir að halda úti norrænni kvikmyndahátíð sem alltaf er talað um í fjölmiðlum sem kvikmyndahátíðina í Rúðuborg!

Sjá t.d. hér: http://asgrimur.is/Forsida/Frettir/Nanar/view.aspx?.&NewsID=1215

2/12/07 12:01

Regína

Ég er handviss um að hafa líka séð þetta orð notað í Ástríksbókunum. En það gæti verið eldra.

2/12/07 12:01

Útvarpsstjóri

Ég er fylgjandi því að íslenska erlend staðarheiti, og bendi í þessu samhengi á öll þau lönd sem við nefnum í daglegu tali íslenskum nöfnum. Það er síðan hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann notar íslensku orðin eða þau erlendu. Sjálfur ætti ég í erfiðleikum með að venjast því að nota orðin Suomi og Kalaallit Nunaat en þykir Lundúnir og Kaupmannahöfn hljóma vel.

2/12/07 12:01

Hexia de Trix

Natan: Hong Kong þýðir upp á kínversku Góð Höfn. Fyrir löngu síðan, þegar Hong Kong var enn undir yfirráðum Breta (og ég tiltölulega ung enn), átti ég því láni að fagna að heimsækja þessa ágætu borg. Mér fannst auðvitað að hún ætti að heita Hafnarfjörður, því hann fékk sitt nafn vegna góðrar hafnar. [Glottir eins og fífl]
Annars er ég í grófum dráttum sammála Útvarpsstjóra, en frábið mér samt orðskrípin Lundúnir, Dyflinni, Björgvin (það er mannsnafn en ekki staðarnafn!) og Jórsalir. Mér finnst full langur vegur frá Ya-ru-sha-la-yim til Jórsala.

2/12/07 12:01

Regína

Jórsalir finnst mér ágætt.
<Gúglar> Sigurður Jórsalafari var uppi rétt upp úr þúsund, en Björn Jórsalafari um 250 árum síðar, svo ekki urðu þeir samferða.
Þetta nafn á Jerúsalem er því ekki neinn nýmóðins vitleysisgangur.

2/12/07 12:01

Útvarpsstjóri

Hvað ætli Günther vilji kalla Brimaborgarsöngvarana?

2/12/07 12:01

Kiddi Finni

Jerushalaim þýðir annars "Hús friðar" eða eitthvað svoleiðis, ef menn vilja íslenska það enn frekar. En þar sem menn hafa notað svona heiti heil lengi, þá er orðin til ákveðin hefð fyrir flest nöfn.
Ekki svo langt siðan sem skandinavar skrifuðu íslensk örnöfn á sínu máli, eins og "Siglufjord" "Grimsö" osv.
Svo var finnskur ríthöfundur Anti Tuuri sem á sinum túr snéri Njálu á finnsku, og finnskaði bara öll örnefni og staðarheiti. Og mörg þeirra hringlandi vitlaust, ef maður snyr úr þýðingum Antta merkinguna aftur á ensku, þá var þýdd "selárdalur" úti "Seal river valley" og "Hornafjörður" "Fjord of Corners".

2/12/07 12:01

Günther Zimmermann

Útvarpsstjóri: Er Brimarborg ekki prýðileg þýðing á Bremen?

En að skondnum útúrsnúningi útlenzkra á íslenzkum nöfnum, þá finnst mér alltaf fyndið að sjá konung vorn (Kristján V. þ.e., sem ríkti seint á 17. öld) tala um land sitt, Island og Vespenö. Hið síðara útleggst sem Vestmannaeyjar.

2/12/07 12:01

Rattati

Sækýr?????? SÆKÝR???????? Það mun seint gerast að ég segi að ég búi í Sækú.

Það er á hreinu.

2/12/07 12:01

Texi Everto

Er gresjan ekki örugglega enn bara gresjan?
[Íhugar að taka upp fasta búsetu á Bakbrotsfelli]

2/12/07 12:02

B. Ewing

Það þarf klárlega að gefa út íslensku alheimskortabókina þar sem öll þessu frábæru nöfn koma til staðar.

Gautaborg
Lúxemborg
og allar hinar sem búið er að nefna...

2/12/07 12:02

Günther Zimmermann

Um Gautana, einnig þekktir sem Svíar (þ.e. brot úr danska konungssöngnum):

Kong Christian stod ved højen mast
i røg og damp
hans værge hamrede så fast,
at gotens hjelm og hjerne brast.

2/12/07 12:02

Furðuvera

Ég tala aldrei nokkurn tímann um Lundúnir... Nýja Jórvík og Nýja Hjörsey eru augljóslega bara grínnöfn... Dyflini? DYFLINI? Vott ðe fokk??? Það hljómar eins og innyfli, eða nýyrði yfir píparaskoru!

2/12/07 12:02

Kargur

Meðan ég bjó í bandaríkjahreppi bjó ég stundum til Íslensk heiti á þeim stöðum sem ég átti leið um. Einnig áttu bræður mínir nokkrar góðar þýðingar á staðarheitum, þá sjaldan þeir heimsóttu mig.
En að notast við þau nöfn opinberlega er jafn fáránlegt og að nota Lundúnaónefnið, Dybbblina og önnur kjánaleg nöfn sem þó hafa ratað inn í Íslenskuna.

2/12/07 13:00

hvurslags

Svo má ekki gleyma að Hereford, sem steikhúsið er kennt við er oft nefnd Herfurða. Juilliard er líka nefndur Júlígarður.

2/12/07 15:00

Regína

En Feneyjar? Svei mér þá, ég myndi þekkja orðið ef ég sæi það á einhverri útlensku, en að muna það ...

2/12/07 15:01

Texi Everto

Ér ekki líka eðlilegra að nota íslenskar þýðingar yfir erlendar borgir frekar en enskar þýðingar? Hversu margir tala um Copenhagen? En hversu margir myndu segja Florence frekar en Firenze? Eða Venice frekar en Venezia? Mér finnst að best sé að nota upprunalega heitið, næstbest sé að nota íslensku þýðinguna og síst af öllu að nota ensku þýðinguna. Þetta voru skilaboð frá Texa Everto í Reykk-ja-vikk

2/12/07 17:01

Hexia de Trix

Re-k-dja-vik?

2/12/07 19:01

Jóakim Aðalönd

Ef ég man rétt, er orðið ,,Lundúnir" einmitt upphaflegt heiti á þeirri borg. Ég þarf líklega að spyrja Fiktmund að þessu. Spænskumælandi kalla borgina ,,Londres", þannig að við Skersbúar erum ekki eina þjóðin sem þýðir nöfn borga á erlendri grundu.

Nefna mætti nokkrar borgir S. Ameríku í þessu sambandi Günthers: Janúarfljótið er þegar nefnt, Loftgæði gæti verið höfuðborg Argentínu, St. Jakob höfuðborg Sílverja, Forsenda væri höfuðborg Hliðargæja og Friður væri höfuðstaður Bólverja. Fleiri tillögur?

Einnig er ég alveg sammála höfundi um ,,Køben". Það er ljót stytting. Lundúnir eiga miklu fremur rétt á því nafni heldur en marg sem ritað hefur verið um aðrar borgir...

2/12/07 19:01

Jóakim Aðalönd

,,Margt" átti þetta auðvitað að vera.

4/12/07 14:02

albin

Skítt með Íslenskun eða ekki íslenskun á erlendum örnefnum. En stytting er alveg út úr kú!

Ég legg til að við einmitt lengjum nöfnin.

2/11/07 12:00

hvurslags

Bustúnir! [springur úr hlátri]

Günther Zimmermann:
  • Fæðing hér: 13/11/05 22:34
  • Síðast á ferli: 6/10/16 10:53
  • Innlegg: 2105
Eðli:
Fróðleiksfús fáráðlingur.
Fræðasvið:
Breytingar á hæð og breidd bókstafsins t í bakstöðu eins og specimenið lítur út komið úr penna skrifarans Jóns Bjarnasonar frá Hvammi í mið-Múlasýslu frá maí mánuði 1623 til sumarloka 1624.
Æviágrip:
Fæddur á síðustu öld. Hefur alið aldur sinn í faðmi Fjallkonunnar og Germaníu en gistir Dannebrog í Babýlón við Eyrarsund nú um stundir.