— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Nermal
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 2/11/06
Út með Guð

Hátt baula fáir á stundum

Núna virðist svo vera komið að kristin fræði séu á útleið í íslenskum skólum. Helstu rökin fyrir þessu er að þetta sé orðið svo fjölmenningalegt samfélag að það sé ekki réttlátt gagnvart þeim sem ekki eru kristinar trúar að kenna þetta. Ég held að þarna séu menn á töluverðum villigötum. Ég hef heyrt að nú til dags sé trúarbragðakennsla með töluvert öðrum hætti en áður fyrr. Þetta er meira orðin trúarbragðafræðsla, þar sem fjallað er um ýmis trúarbrögð, kaþólsku, heiðni og allur pakkinn. Einnig er reynt að kenna almennt siðgæði. Ekki veitir af.

Sumir virðast vilja jafnvel ganga lengra. Taka Guð útúr þjóðsöngnum og það fáránlegasta af öllu... TAKA KROSSINN ÚR ÞJÓÐFÁNANUM. Ég held að þessir einstaklingar séu að reykja eitthvað undarlegt. Næst verður bannað að vera með krossgötur og krossgátur verða að heita eitthvað annnað.

Ég er nú engin sérstakur Jésúkall, hef t.d ekki farið í almenna messu síðan 1986,en mér finnst þetta allt vera voðalega asnalegt. 80% þjóðarinnar eru í þjóðkirkjunni og 95% eru kristin. Trúrækni eða trúarbrögð annara fara nú ekkert í mínar pyrrursvo fremi að ekki sé verið að reyna að breyta minni "trú"

   (35 af 97)  
2/11/06 12:01

Aulinn

Ég er samt alveg sammála því að kristinfræði ætti að vera kölluð trúarbragðafræði. Mér finnst að börn ættu að fá að vita jafnt um öll trúarbrögð svo að þau geti valið sér sjálf trú eða valið að hafa enga trú.

2/11/06 12:01

Jarmi

Fólk er orðið svo veruleikafirrt að það nær engri átt.
Fjarlægjum líka alla krossa af öllum kirkjum, því það er hætt við að ókristnir gætu séð þá á leið sinni í Kringluna að kaupa drasl sem þeir hafa ekkert við að gera.

2/11/06 12:02

U K Kekkonen

Bölvað rugl er þetta í fólki. Segir ekki einhver viska að þegar í Róm gerið eins og rómverjar. Ísland er og hefur verið Evang. Lúterskt, hvers vegna eigum við sem trúum og okkar börn að líða fyrir þröngsýni minnuhlutans? Þvert á móti almennilega kristnifræði og gleðileg jól!

2/11/06 12:02

Hexia de Trix

Ef allir gætu verið sammála um línuna milli fræðslu annars vegar og trúboðs hins vegar, væri þetta lítið vandamál. Það vantar að allir séu með sömu skilgreininguna þarna á milli.

Já og þetta með þjóðsönginn og fánann og allt það... eigum við ekki bara líka að nefna Þingvelli eitthvað annað, fyrst það er ekki lengur þing þar?
Það sem ég á við er, að það er gott og blessað að vera umburðarlynd í trúarbragðamálum og öllu slíku, en óþarfi að afneita sögunni í leiðinni.

Munum eftir talíbönunum sem sprengdu upp mörgþúsundára gamlar styttur því þær „hentuðu ekki“ stefnu þeirra. Ef Íslendingar hefðu verið jafn strangir á þessum málum þegar þeir tóku kristni árið 1000, hefðu fjölmörg mannanöfn sem vísa beint í ásatrú horfið fyrir fullt og allt. Og allir hétu biblíunöfnum. Mikið er ég nú þakklát fyrir að það gerðist ekki, því raunheimaleikarinn minn ber einmitt „rammheiðið“ nafn.

Þetta var svosem útúrdúr. Fyrir mér má kenna kristinfræði umfram önnur trúarbrögð í skólunum, svo framarlega sem:
a) Ekki sé um trúboð að ræða, heldur fjallað um kristni í sögulegu og menningarlegu samhengi
b) Önnur trúarbrögð fái sanngjarna og ítarlega umfjöllun

2/11/06 12:02

Lopi

Gott félagsrit og það má segja að sé bara allveg sammála þér.

2/11/06 12:02

Jóakim Aðalönd

Ég er alveg sammála fyrirsögninni. Þessi ,,þjóðsöngur" er ekki neitt annað en lofsöngur um guð. Það er varla minnst á Ísland í textanum. Nýjan þjóðsöng takk, en fáninn má alveg halda sér.

2/11/06 12:02

Skabbi skrumari

Út með allt röfl um Guð - með og á móti... Kúmen...

2/11/06 12:02

Tigra

Mér finnst í góðu lagi að kennd sé kristinfræði í skólum.
Hinsvegar finnst mér vanta almennilega fræðslu á öðrum trúarbrögðum.
Þegar ég var í grunnskóla man ég ekki eftir að hafa lært neitt um önnur trúarbrögð fyrr en í 8. bekk... og þá var hálft árið tekið í að stikla á stóru á stærstu trúarbrögðum heims.
Við lærðum reyndar um ásatrú fyrir 8. bekk, en ég get ekki sagt að það hafi verið kennsla um trúarbragðið.
Sögurnar af æsunum voru sagðar jú, - líklega sem menningararfur, en þeim var sagt mjög skýrt frá sem sögum - yfirleitt gaman sögum sbr Þrymskviðu... og lítið sagt í raun frá út á hvað trúin sjálf gengur. Siði og venjur - blót, vetrar og sólstöður osfrv.
Það finnst mér vanta.
Við lærum dönsku því við vorum einu sinni undir Dönum... ættum að læra meira um þetta trúarbragð sem eitt sinn var okkar þjóðtrú.

2/11/06 12:02

Þarfagreinir

95% þjóðarinnar er ekki kristin.

51% þjóðarinnar er kristin, samkvæmt nýjustu könnunum.

Vildi bara leiðrétta þetta.

Að lokum legg ég til að ríki og kirkja verði aðskilin með öllu. Gjöldum keisaranum það sem keisarans er, og Guði það sem Guðs er. Alvöru kirkja þarf ekki á aumingjaölmusum úr ríkiskassanum að halda. Ef Ísland er svona kristið land ætti ekki að vera erfitt að halda uppi einni stykki kirkju án ríkisframlaga.

2/11/06 12:02

Lopi

Þarfagreinir. Ef ríkiskirkjan verður lögð niður verður allt vaðandi í kolrugluðum sértrúarsöfnuðum.

2/11/06 12:02

Furðuvera

Það er ekki langt síðan ég losnaði frá þeirri skyldu að læra kristnifræði og ég man alveg eftir því hvernig þetta var. Maður var ungur og nánast ekki búinn að fá sjálfstæðan vilja, og kristnin er kennd svona ungum börnum alveg eins og um trúboð sé að ræða. Allar þessar biblíusögur, þetta bara gerðist og þetta er allt saman satt. Lítil börn hafa ekki vit til þess að efast um svona hluti!
Hinsvegar, seinna meir, þegar norræn goðafræði var kennd þá var þetta kennt sem eintómar sögur, og ekki minnst á það að margir á Íslandi eru ásaTRÚAR. Svo í áttunda bekk eins og Tigra minntist á er stiklað á stóru um önnur helstu trúarbrögð heimsins, frekar lauslega að mér fannst.
Ég vil að kristni sé kennd samhliða öðrum trúarbrögðum, ekki kennd sem staðreyndir, og ekki kennd litlum krökkum sem trúa hverju sem þeim er sagt!
Svo vil ég ekki þjóðsöng sem er bara sálmur og ekkert annað. Ég, sem stend ekki einu sinni upp í kirkju(þau örfáu skipti sem ég neyðist til að fara þangað), vil geta sungið þjóðsönginn minn með góðri samvisku.

Annað mál með fánann, það er bara helvítis rugl.

2/11/06 12:02

Þarfagreinir

Það er reyndar góður praktískur punktur, Lopi. Kannski er betra að halda bara í gömlu góðu og öruggu þjóðkirkjuna sem fáa angrar.

2/11/06 12:02

Nermal

Tölurnar pikkaði ég bara uppúr fréttatímanum. Svo er líka kanski túlkunaratriði hver er kristinn og hver er ekki kristinn.

2/11/06 12:02

Þarfagreinir

Og já Furða - það er ekki einu sinni hægt að syngja þennan þjóðsöng, hvað þá með góðri samvisku. Oft hefur hann verið gagnrýndur á þeim forsendum. Hitt er reyndar annað mál að Glúmur orti sálminn, þannig að eitthvað hlýtur nú að vera gott við hann.

2/11/06 12:02

Furðuvera

Eftir að hafa lesið félagsritið aftur vil ég benda á það að í grunnskólum er kristnifræði kennd í nokkur ár, norræn goðafræði í ca hálft ár og trúarbragðafræði sömuleiðis.
Jájá ég skil það alveg að Ísland er kristið land og allt það, en er þetta ekki aðeins of mikið? Krakkarnir hafa ekkert val, ef þeir eru íslenskir þá er bara gengið út frá því að þeir séu og verði alltaf kristnir og þess vegna verða þeir að læra allt sem hægt er um kristni. Svo er hent inn smá trúarbragðafræði seinna meir þegar búið er að troða þessu í hausinn á krökkunum. Hlutfallið á milli kristnifræði(kristniboðs), norrænnar goðafræði(sögukennslu) og trúarbragðafræði er bara alls ekki sanngjarnt.

2/11/06 12:02

Jarmi

Ég held að það sé engin tilviljun að það eru akkúrat lútersk lönd sem best er að búa í. Ég held ekki að það sé í þá áttina að þeir sem bestir eru völdu sér Lúter til að hlusta á, heldur þeir sem völdu sér Lúter urðu bestir við það... með tímanum auðvitað.
Ég held að falleg siðgæði séu að stóru leiti áunnin með því að heildin kemur sér saman um að eitthvað ákveðið sett af siðferðislegum reglum sé valið og við það skal heildin halda sig. Við erum svo heppin að forfeður okkar völdu Lúter og hans útgáfu.

Það er allavegana mín skoðun.

2/11/06 12:02

Isak Dinesen

Er hann ekki löngu farinn?

2/11/06 12:02

Ívar Sívertsen

Þjóðsöngurinn verður að standa óhreyfður. Ef farið verður að hrófla við honum gæti svipað ástand skapast og Lopi bendir á með þjóðkirkjuna. Ekki viljum við fá klisjukennt júróvisjónlag eða sirkusmars sem þjóðsöng. Kynnið ykkur nýjar reglur um þjóðsönginn, lærið bæði lag og texta og þá skal ég taka umræðuna um hversu auðvelt er að syngja hann. Í því erindi Lofsöngsins sem skilgreint er sem þjóðsöngur þá er ítrekað rætt um guð en aldrei Drottin, Allah, Buddha eða Óðinn. Mestar líkur eru á að um Drottinn sé að ræða en það er aldrei sagt beinum orðum. Og eitt enn. Ef einhver dirfist að stinga upp á Ísland er land þitt sem þjóðsöng þá stjakset ég viðkomandi!

2/11/06 12:02

Furðuvera

Málið er að allt of margir Íslendingar myndu aldrei voga sér að syngja lofsöng um guð sem þeir trúa ekki á, ég þar með talin! Þjóðsöngvar annarra landa snúast um stolt, við erum bestir og okkar land er yndislegt, hins vegar er okkar lag ekkert nema "væl væl lítið blóm, guð þetta og hitt, Ísland lítið, guð stór, væl væl lítið blóm".

2/11/06 12:02

Starri

Ég vil stinga upp á því að lagið Ísland er land þitt verði gert að okkar þjóðsöng. <Lætur staksetja sig>

2/11/06 12:02

Billi bilaði

Þjóðsöngurinn er a.m.k. æðislegt lag. Ljóðið er líka frábærlega ort.

En, alveg sammála Furðu með skólafræðsluna - mín börn eru að læra þessar "staðreindir" mér til mikils efa.

2/11/06 12:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Ekki er ég alveg sammála Hexíu um að kristninn á Íslandi hafi farið svo snyrtilega fram . Eða hvort þeir hafi tekið kristnina af fúsum og frjálsum vilja allir árið þúsund ekki heldur voru Lúters menn svo vingjarnlegir í garð hans Jóns frænda Arasonar. Anars megið þið bara eiga guðina ykkar fyrir mér Trúinn er ópíum fyrir fólkið sagði hann kalli gamli og ég er hjartanlega sammála honum

2/11/06 12:02

Jóakim Aðalönd

Ég finn miklu meira fyrir þjóðarstolti þegar ég heyri ,,Ísland er land þitt" fremur en þegar ,,lofsöngur" er spilaður.

Ég hef því ákveðið að útskúfa ,,lofsöng" sem mínum þjóðsöng.

Klisjukennt júróvisjónlag eða sirkusmars, það væri bæði betra en þetta óhræsi sem í dag er kallaður þjóðsöngur.

2/11/06 13:00

Kondensatorinn

Það er engin skylda að syngja þjóðsönginn.
Þeir sem ekki vilja syngja þjóðsönginn geta einfaldlega haldið kjafti svona eins og til tilbreytingar.

Hætta að væla yfir því sem þeim finnst ekki skemmtilegt.

2/11/06 13:00

Hóras

Ér ekki rétt hjá mér að Íslendingar tóku kristni en máttu blóta á laun? Er það kannski upphaf hins íslenska sérákvæðis?

2/11/06 13:00

Jarmi

Við að lesa þetta röfl um þjóðsönginn þá fatta ég hvað mér er svakalega mikið sama um það mál. Mín vegna mætti það vera gamli nói, bara svo lengi sem það er ekki eitthvað með Nylon.

2/11/06 13:00

Grágrímur

Ég trúi á Guð en er tel biblíuna og kristni bull... er það skrítið?

2/11/06 13:00

Jarmi

Nei nei. Ég trúi ekki á guð, en ég trúi á Jesú. Það er kannski skrítið?

2/11/06 13:00

Hakuchi

Mér verður flökurt þegar ég heyri Ísland er land þitt, yfirgengilega væmið þjóðrembuógeð í anda bandarískra miðríkjaþjóðrembulaga eins og þau gerast verst. Ég verð aðallega syfjaður þegar ég heyri núverandi þjóðsöng. Seinni kosturinn hugnast mér betur.

Reyndar kemur mér á óvart að nokkur skuli heyra hvað fólk syngur þegar þjóðsöngurinn er sunginn. Mér er lífsins ómögulegt að nema textann, af söngi amk. Ég held ég kunni meira af þeim bandaríska.

2/11/06 13:00

Regína

Ég er svo hjartanlega sammála Ívari og Hakuci varðandi ,,Ísland er land þitt". Mörgum finnst það fallegt og það getur stundum átt vel við að syngja það, en að taka það upp sem þjóðsöng! Nei, ekki.

2/11/06 13:00

Andþór

Guð blessi ykkur, sama hver/hvað Hann er.

2/11/06 13:00

Rattati

Ef menn ætla að breyta þjóðfánanum þá er mér að mæta, rétt áður en ég gerist Grænlenskur ríkisborgari. Um restina er mér svosem sama.

2/11/06 13:00

Jarmi

Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur Rattati, fánanum verður ekki breytt meðan Íslendingar ráða yfir Íslandi.

2/11/06 13:01

Vladimir Fuckov

Vjer erum í þeim (minnihluta?)hópi sem algjörlega sammála Hakuchi um Ísland er land þitt. Bæði lag og texti hefur af einhverjum ástæðum alltaf farið í mjög taugarnar á oss og virkað á oss sem óþolandi væmið.

Vjer höfum hinsvegar aldrei verið sjerlega hrifnir af þjóðsöngnum, hann virkar frekar á oss sem trúarsálmur og er reyndar mjög góður sem slíkur.

2/11/06 13:01

Ívar Sívertsen

Lofsöngur er lag sem fyllir mig miklu stolti. Í framhaldi af orðum mínum hér að framan vil ég enn fremur nefna að guð sem rætt er um í lofsöngnum getur líka verið myndlíking fyrir náttúru. Ó náttúra vors lands, ó land vorrar náttúru. En í þessu tilviki hafi skáldið notast við guð til að hægt væri að myndgera náttúruna sem eitthvað æðra vald sem fólk á að bera virðingu fyrir.

Svo tek ég undir þau orð Kondensatorsins að þeir sem ekki kæra sig um að syngja þjóðsönginn geti bara haldið kjafti svona til tilbreytingar.

Enn fremur vil ég benda Jarma á að Gamli Nói er lag eftir svíann Bellman og byggir á hátrúarlegum texta. Gamli Nói er nefnilega sá sem fleytti örkinni á sínum tíma samkvæmt bókstaf biblíunnar.

Einhverjir hafa bent á að ágætt væri að eiga lofsönginn við hátíðleg tækifæri en eiga síðan annað til afnota við íþróttakappleiki. Í því tilviki hafa verið nefnd lögin Hver á sér fegra föðurland, Ísland ögrum skorið og Rís þú unga íslands merki. Öll eru þessi lög góð og gild og innihalda ekki neina trúarskírskotun. Hins vegar eru þessi lög alveg álíka erfið til söngs og lofsöngurinn.

Ef það stæði til að fá eitthvert tónskáld til að semja nýjan þjóðsöng þá yrði niðurstaðan skelfileg smjörklessa og sykurhúðuð vella sem myndi komast í flokk með Ísland er land þitt hjá okkur Hakuchi sem lag flökurleika.

2/11/06 13:01

Grágrímur

Guð getur sem sagt þytt hvað sem manni finnst? jafnvel Ostur ef manni finnst það við hæfi.
kommon, hvað heldurðu að orðið Guð merki hjá íslensku sálmaskáldi á 19. öld? Held að það þurfi engar vangaveltur.

2/11/06 13:01

Regína

Ég hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér. Hvað myndi ég gera ef ég byggi í landi þar sem mest væri um múslima, og börnin mín væru í almennum skóla. það kæmi prestur (eða hvað það nú heitir hjá þeim) reglulega í skólann. Myndi ég amast við því? Myndi ég ekki bara segja börnunum að þetta væri partur af menningu þessa lands sem við byggjum í og við værum annarrar trúar og úr annarri menningu, og ræða síðan mismuninn áfram?
Jú, ég myndi gera það þannig.

Börn eru nefnilega ekki heimsk, eins og sumir virðast halda.

2/11/06 13:01

Tigra

Regína: Þetta er kannski ekki endilega bara spurningin um krakka af öðrum trúarbrögðum, heldur líka krakka með ómótaðar trúarskoðanir. Eiga kannski foreldra sem stendur nett á sama hvort þau trúi eða ekki, en þá er kristni mötuð ofan í þau með skeið.
Auðvitað hefur þetta alltaf verið svona, en í dag er heimurinn alltaf að minnka... ég hefði t.d. kosið að fá að læra um fleiri trúarbörgð þegar ég var að móta mínar trúarskoðanir. Ég hef alltaf verið trúuð, en áttaði mig á því á unglingsárunum að kristni hentaði mér ekki.

Þú talar um að þú myndir ræða við börnin þín að þú værir úr annarri menningu - en hvað ef þú værir Íslendingur sem byggir á Íslandi en værir ásatrúar?
Ég þekki mann sem er ásatrúar og sonur hans lærði kristinfræði í grunnskóla eins og önnur börn.
Börnin áttu að teikna mynd af Jesú... og hann teiknaði Jesú og tvo fugla. Kennarinn spurði hvaða fuglar þetta væru þarna, en strákurinn sagði jú að þetta væru hrafnar Jesú. Huginn og Muninn.
Þarna var strákgreyið búið að rugla algjörlega saman trúarbrögðum, enda mataður á því í skólanum að kristni væri rétta trúin, en heima að ásatrú væri rétta trúin.
Börn eru ekki heimsk, en þetta eru hlutir sem þau (eða við) skiljum ekki alveg og það er ekki hægt að búast við öðru en að þetta rugli þau svolítið.

2/11/06 13:01

Skabbi skrumari

Hvað er guð annað en trú... trúi ég á trú? trúlega ekki... en trúlaus er ég ekki á trúleysi mitt gagnvart trúnni á guð... guð hjálpi mér...

2/11/06 13:01

Ívar Sívertsen

Grágrímur minn, í ensku var allt frá miðöldum og langt fram á tuttugustu öldina ort þannig að deyja væri myndlíking fyrir kynferðislega fullnægingu. Í mörgum ljóðum fyrri alda er myndlíking afskaplega algeng í hvaða formi sem er.

2/11/06 13:01

krossgata

Hvað er svona agalega slæmt við trúarbragðafræðslu þó barnið alist upp við önnur trúarbrögð en það sem verið er að kenna einhverju sinni? Fyrir börnum er þetta ekki vandamál, þetta er vandamál foreldra/fullorðinna sem í einstrengingshætti vilja ráða hvað börnin heyra.

Ég er alin upp af trúlausum foreldrum, sem var sama um trú en líka sama hvort aðrir trúðu eður ei (blessunarlega). Ég kunni ekki faðir-vorið fyrr en 9 ára. Ég velti fyrir mér hvers konar dýr skuldunaut væru og af hverju Guð ætti að gefa okkur brauð á hverjum degi. Komst ekki að niðurstöðu fyrr en á gamals aldri, en ekki truflaði það mig né varð mér til mikils skaða. Kennsla um ásatrú skaðaði mig ekki né truflaði eða ruglaði, hvað þá kristinfræði (eins og það hét þá). Í kristinfræðikennslunni var ekki sagt að þetta væri heilagur sannleikur, frekar en þegar fræðslan var um ásatrú. Það var ekki heldur tekið fram að þetta væru sögur, nema hvað kristinfræðibækurnar hétu Biblíusögur.

Börnunum mínum hefur ekki verið sagt af kennurum í skólanum að það sem sagt er um kristin fræði í trúarbragðakennslunni sé sannleikur hvað þá sá eini. Það hefur þeim ekki heldur verið sagt um önnur trúarbrögð sem tekin hafa verið fyrir í trúarbragðafræði. Sonur minn fór í gegnum fag sem hét trúarbragðafræði í 10-13 ára bekkjum og las ég námsefnið, sem var bara alveg hreint ágætt, um öll helstu trúarbrögð heims.

Öll mín reynsla segir mér bara eitt um þetta mál, þetta er vandamál stjórnsamra foreldra, sem vilja þröngva sínu upp á börnin sín og núna upp á alla aðra líka.

2/11/06 13:01

Skabbi skrumari

Það er trúlega trúgjarnt fólk sem trúir því að trúleysi sé meiri trú en trú... trúi ég... en hvort ég trúi því að trúlaust trúsamfélag sé trúlegra en trú þykir mér ekki trúlegt, ég er allavega trúlaus á það að trú sé trúleysinu trúlegra í trúnni... en ég get bara trútt um talað, því ég trúi hvorki á trúleysi eða trú og því trúlega ótrúr trúnni og trúleysinu... en hver veit... kannske trúi ég á trúleysið á trúnna, þó ég trúi því vart.. en ég er trúgjarn verð ég að segja...

2/11/06 13:01

Þarfagreinir

Þetta er ekki trúverðugur málflutningur hjá þér Skabbi ... hehe.

PissuStopp: Þú ert nú meiri trúðurinn.

2/11/06 13:01

Jarmi

Síðustu innlegg Regínu og krossgötu eru bæði gjörsamlega eftir minni skoðun. Þær tvær hitta naglann rækilega á höfuðið.

Ég vil svo bara bæta við að ef þetta er svona svakalega skelfilegt mál sem gerir börnunum illt þá er það ábyrgð foreldranna að fjarlægja börnin sín úr kristinfræðitímunum. Það þarf enginn að segja mér að það væri nokkuð vandamál. Svo þegar 51% af börnunum hafa verið fjarlægð þá eru þau orðin meirihluti og við vitum hvernig í pottinn er búið. Akkúrat núna er þetta handfylli af háværum foreldrum og ungu fólki sem líklega á ekki börn en hefur svakalega sterkar skoðanir á því hvernig eigi að ala þau upp.

2/11/06 13:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Gamli Nói sem Bellman skrifadi Heitir Gubbe Noak
eda Fredmans sðng nr 35 .Fjallar að vísu um Nóa með örkina enn textinn i þeirri vísu er drykkju vísa eins og nánast alt sem fyllibittan og sjeníið Belman lét frá sér fara Nokkur vers úr söngnum á frum málinu :
Gubben Noak
var en heders man
När hann gick ur arken
plantera han på marken
mycet vin ja mycket vin, ja
detta gjorde han

Noak rodde
ur sin gamla ark
köpte sig buteljer
sådana man säljar
för att dricka för att drycka
på vår nya park

Han väl viste
att en mänska var
torstig av naturen
som de andra djuren
därför han ock därför han ock
vin planterat har

Gumman Noak
var en heders fru
Hon gaf man sin drycka;
fick jag sådan flicka
gifte jag mig, gifte jag mig
just på stunden nu.

Osfr

2/11/06 13:01

Nermal

Þjóðsöngurinn okkar er vissulega fallegur, en að syngja hann skikkannlega er ekki fært nema þjálfuðu söngfólki. Ég efast ekkert um að Ívar geti sungið hann, já og bara allur kórinn.... En ekki svona tóndauðir jólar eins og ég...

2/11/06 13:01

Hakuchi

Forsætisráðuneytið var reyndar nýlega að breyta söngnum lítillega með því að lækka um tóntegund. Hver veit nema að nú geti fleiri en geldingar og stúlkubörn sungið þetta svefnmeðal.

2/11/06 13:01

Nornin

Ég nenni ekki að lesa allt sem þið eruð búin að segja áður en ég tjái mig.

Ég er heiðin og á eftir að gera allt vitlaust í þeim skóla sem Bebe endar á að fara í, því ég vil ekki hafa það að honum séu kend kristinfræði í meira mæli en ásatrúin.

Ég hef marg oft heyrt kristið fólk segja að við sem erum ekki í þjóðkirkjunni eigum bara að kenna okkar börnum um okkar trú heima hjá okkur.
Afhverju eiga kristnir ekki að gera slíkt hið sama?
Afhverju nýtið þið ekki þessi forláta hús sem RÍKIÐ byggir yfir rassgatið á ykkur og drullist til að fara með börn ykkar í kirkju til að fræðast um ykkar trú?
Afhverju eyðið þið MÍNUM skattpeningum í að halda uppi kennslu í kristnumfræðum í skólum landsins?

Ég myndi vilja að það væri jafnrétti meðal trúarbragða í skólunum, en ég veit að það er óskhyggja.

Aðskilja ríki og kirkju strax, breyta þjóðsöngnum (Ísland er land þitt er eini sanni þjóðsöngurinn í mínum augum) en láta fánann vera... skítt með krossinn í honum.

2/11/06 13:01

hvurslags

Í sambandi við innlegg Lopa og Þarfagreinis um að hér myndu spretta upp sértrúarsöfnuðir væri Þjóðkirkjan aðskilin hef ég engar áhyggjur af því. Í t.d. Hollandi og Frakklandi hefur aðskilnaður ríkis og kirkju farið snurðulaust fyrir sig og engin ástæða hér til að óttast eitthvað ástand svipað BNA þó þar sé engin feit og löt ríkiskirkja á spenanum.

Síðan er kristinfræðikennsla í skólum meingölluð og þyrfti stórlega að bæta hana. Ég hef undanfarið skoðað þar námsbækur sem börnin nota og rekist á spurningar á borð við "Hvað telur Jesú að skipti máli þegar þú biður til Guðs?" ásamt Biblíusögum sem kenndar eru eins og sagnfræðileg sannindi.

Síðan er þar frásögn af flótta Gyðinga úr Egyptalandi með tilheyrandi plágum og fjöldamorðum Guðs á Egyptum - en í lok kaflans er ekkert spurt út í hvort það sé í lagi að algóður Guð drepi tugþúsundir saklauss fólks, heldur hvort Ísraelslýður hafi átt skilið að losna undan ánauð Faraós. Hér er á ferðinni meingallaður siðaboðskapur sem þarf nauðsynlega að breyta.

Síðan hef ég alltaf viljað breyta um þjóðsöng og fá í staðinn Ísland ögrum skorið eða Land míns föður, og þá helst hið síðarnefnda. Þar er á ferðinni meitlað og fallegt ljóð Jóhannesar úr Kötlum við vel sönghæft lag Þórarins Guðmundssonar og ég held að allir landsmenn - kristnir, múslimskir, heiðnir eða trúlausir gætu sungið hann skammlaust.

Trúarbragðafræðslu á að sjálfsögðu að auka - en það hlutlausa trúarbragðafræðslu!

2/11/06 13:01

Grágrímur

Amen Norn. Alveg sammála þér. Nema kannski með þjóðsönginn.

2/11/06 13:01

Upprifinn

ég veit ekki betur en að við þetta fólk sem býr í þessu landi séum bísna léttkristinn og samt máttu prestarnir gera það sem þeim sýndist í skólunum þegar við vorum lítil, ekki satt?
ég held að börnunum okkar veiti ekkert af að fá smá kristilegan siferðisboðskap.
og haldiði svo kjafti.

2/11/06 13:02

Goggurinn

Eitt sem mér finnst undarlegt. Hvaða tenging er milli siðferðis og trúar? Þurfum við virkilega að haga okkur vel vegna þess að einhver ósýnilegur og almáttugur guð skammar okkur ef við gerum það ekki? Þarf að hræða fólk til þess að haga sér vel?

Mikið afskaplega hafði Nietzche rétt fyrir sér þegar hann sagði að guð væri dauður... þessi fjárans árátta í að halda í einhvern kjánalegan ósýnilegan andakall er mér með öllu óskiljanleg...

2/11/06 13:02

Jarmi

Við þurfum þess ekki. En fólk trúir og ef það hentar ekki sumum þá verða þeir sömu bara að eiga það við sjálfa sig að þeir passa ekki inn í samfélagið sem þeir búa í. Staðreyndin er svo sú að allstaðar þar sem Lúterstrúin er fremst í flokki, þar hefur fólk það best í heildina séð. Heldur fólk að það sé tilviljun? Nei, það er þannig að þeir sem hafa það fyrir börnum sínum að það sé rangt að drepa og berja og slá ala upp heilbrigðari börn sem leiðir af sér heilbrigðara samfélag. Sögurnar af Jesú eru svo bara þægileg umgjörð til að koma þessum boðskap í börnin.
En núna nenni ég ekki að pikka meira en ég get sagt ykkur að ég mun ekki skipta um skoðun varðandi það að trúa því að Jesúsögurnar séu góð aðferð til að fá börnin til að virkilega trúa því að maður eigi að vera góður hvor við annan.

2/11/06 13:02

kolfinnur Kvaran

Hvaða hvaða....

Hvað er biblían og það sem upp úr henni er kennt í grunnskólum? Biblían hefur frá því að hún var fyrst rist í einhverjar steinhellur verið gerð sem eins konar siðfræðibók. Allar þessar sögur sem við sjáum í gamla testamentinu eru boðskapur á það rétta og að breyta rétt. Trúin á guð eða Drottinn, er trúin á það góða, að gera rétta hluti. Þið látið hérna eins og verið sé að troða ofan í kokið á krökkum þá staðreynd að það sé Guð upp á himnum sem ræður öllu og við eigum öll að trúa á hann og tilbiðja, þetta er rangt.
Trúleysingjar (þar með talin ég) mega prísa sig sæla að fá að alast upp í lúthersku landi þar sem að bókstafstrú er ekki í hávegum höfð, heldur frelsi einstaklingsins. Ímyndið ykkur ef þið hefðuð alist upp í kaþólsku eða múhameðstrú, þar er ekki mikið val. Það væri náttúrulega ekkert betra en að krakkarnir ykkar gætu rölt út í skóla og tileinkað sér boðskap Múhammeðs spámanns, konur eiga að vera heima, klæddar í lak og til einskins annars nýtar en að sjá um heimilisstörf og ala upp börn. Er þá ekki betra að læra siðfræði gamla testamentsins í skólanum?
Flestir gera sér nú grein fyrir því á unglinsárum (ef þeir eru ekki þeim mun heimskari) hvernig málin standa. Hvort þau trúa á guð, eitthvað annað eða ekki neitt. Þið fóruð líklegast öll í grunnskóla á sínum tíma og lærðu þessa bölvuðu kristinfræði. Berið varanlega skaða af þeim heilaþvott sem þar fór fram. :
Þvílíkt og annað eins, það er ekkert annað en hrein heppni að við höfum öll komist til manns. Við 14 ára aldur getur maður síðan gengið til liðs við Jesú og félaga og látið ferma sig. Þar er einblínt meira á trúnna á sjálfan Drottinn og Jesú. Þeir sem trú ekki á félagana ber engin skylda til að ferma sig og geta gert það sem þeim sýnist í þeim málum.
Samkvæmt fréttum er Ísland besta land til að búa í. Það sem gerir lískjör á Íslandi góð er t.a.m. lág glæpatíðni. Íslendingar hljóta gott uppeldi og ég held að kristinfræði sé einn af þeim þáttum sem eru vanmettnir í því samhengi. A.m.k. held ég að þeir sem saka kristinfræðikennslu í grunnskólum um heilaþvott og annað verra hafi aldrei nokkurntíma kynnst því hvernig slík starfsemi fer fram.

2/11/06 13:02

Jarmi

Herra Kvaran kemur hér inn á sérlega sterkan hátt. Sammála honum í einu og öllu og hann mér (sýnist mér).

2/11/06 13:02

Furðuvera

Þarna kemur dáldið annað upp, ég er nokkuð viss um að það ef fermingaraldurinn yrði hækkaður þá myndi prósenta fermdra unglinga lækka talsvert. 14 ára unglingar eru sko ekki nógu þroskaðir til að geta verið alveg vissir um að þeir vilji fermast. T.d. þegar ég spurði systur mína af hverju hún vildi fermast, þá sagði hún bara "Öhhh... ég veit það ekkert...", og systir mín er alls ekki ein um sinn hugsunarhátt.
Margir af þessum krökkum líta bara á fermingu sem tilefni til að fá gjafir og athygli, þeim er mörgum slétt sama um hvað athöfnin þýðir.

2/11/06 13:02

Lopi

Er til einhvers staðar ríki þar sem engin trú og trúarbrögð er í gangi?

2/11/06 13:02

kolfinnur Kvaran

Það er engan vegin skylda að fermast við 14 ára aldur, það er bara sá aldur sem kirkjan setur sem aldursþröskuld, þ.e.a.s. Þeir sem eru yngri en 14 mega ekki fermast. Maður getur hinsvegar fermst hvenær sem maður vill. Það getur vel verið að hækka eigi þennan fermingaaldur, en það hefur lítið með kristnifræðikennslu í grunnskólum að gera.

2/11/06 13:02

Kargur

Fermingarfræðslan er eins og hvur önnur vinna. Maður mætir, gerir eins og manni er sagt og svo fær maður launin. Einfalt dæmi.
Ef engar væru gjafirngar tel ég að fæst ungmenni vildu láta ferma sig.

2/11/06 13:02

Tigra

Það eru fleiri trúarbrögð en bara Kristnimeð siðfræði og boðskap um rétta hegðun.
Hvað með t.d. hávamálin?
Það er ágætur siðaboðskapur.
Það stendur svo t.d. orðrétt á síðu ásatrúarfélagsins: "Ásatrú eða heiðinn siður byggir á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir náttúrunni og öllu lífi. "
En þetta er ekki kennt í grunnskólum er það?
Eina sem kennt er um ásatrú eru sögurnar um æsina, en ásatrú er svo miklu miklu meira en það. Trú á og virðingu fyrir náttúrunni osfrv.
Ég sé ekki að siðaboðskapur ásatrúnnar sé eitthvað verri en siðaboðskapur krisni. Siðaboðskap á bara að kenna óháð trú.

2/11/06 14:00

Jarmi

Það er ekki það sem málið er með kristinfræði. Það snýst ekki um að lofa guð og hrópa haleluja eða útiloka önnur trúarbrögð sem villu eða í raun nokkuð sem neikvætt er fyrir nokkur önnur trúarbrögð. Kristinfræði er bara sú umgjörð sem hefur sannað sig til að vera besta og auðveldasta aðferðin til að kenna börnunum að þau eiga að vera góðar manneskjur. Eitt kerfi er valið og það er þetta.

2/11/06 14:00

Nornin

Ég segi það sama og Kargur.
Afnema allt þetta gjafaflóð og peningaaustur í fermingabörn og sjá hversu mörg þeirra staðfesta skírnina þá!

Auðvitað á ekki að láta krakka rassgötin fermast 14 ára... þau geta ekki hugsað um neitt nema fílapenslana á nefinu á sér og hvort flasa sé smitandi, hvaða þroska hafa þau til að ákveða svona lagað?

Ef fermt væri við 16 ára aldur hefði ég t.d. ekki fermst.
14 ára vissi ég alveg hvað ég væri að gera, en unglingsheilinn minn bauð mér bara upp á að gera eins og allir hinir... ef fermt hefði verið tveim árum seinna hefði HEIÐIN SIÐFERÐISKENND mín ekki leyft mér að taka þessa ákvörðun svo létt.

Það að trúarbrögð séu kennd í skólum er tímaskekkja og ætti að vera bannað.

Regína segir hér að ofan að ef hún byggi í múslimskuríki þá myndi hún kenna börnum sínum að "þau væru annarar trúar".
Hvað ef börnin hennar myndu allt í einu bara mæta heim og vera múslimir?
Myndi henni bara finnast það æðislegt og ótrúlega grúví að börnin hennar væru allt í einu komin með aðrar lífsskoðanir en hún? Vegna einhvers sem þeim er kennt í skólanum?

Held ekki.

2/11/06 14:00

Jarmi

Ég hef alltaf verið á móti öfgafullum trúarskoðunum. Og sumir hérna eru öfgafullir.
Ég segi ekki annað.

2/11/06 14:00

Vigdís

Guð er góður önnur trúarbrögð eru verk djöfullsins. Ef íslenskir skólar ætla að fara kenna hér djöfladýrkum mun ég ekki senda börn mín í skóla.

2/11/06 14:00

Dula

Andskotans bull er þetta, hagið ykkur vel , verið góð við hvort annað annars verðið þið rasskellt og grýla kemur og étur ykkur, virkar bara nokkuð vel.

2/11/06 14:00

Andþór

Eigum við að ræða þetta eitthvað?

2/11/06 14:00

Regína

Hvað meinar þú Norn? Ertu að segja að ég eigi alfarið að stjórna börnunum mínum í hverri smæstu hugsun? Ertu að segja að Islam sé að öllu leiti slæm trúarbrögð? (Kvenfyrirlitningin sem ríkir í múslimalöndum er ekkert minni en var í kristnum heimi fyrir ca 500 -1000 árum, og þurfum jafnvel ekki að leita svo langt.) Ég býst við að ég myndi halda mínu striki og sjá til hverju fram vindur.

Hvað í ósköpunum er að því að gefa 14 ára börnum gjafir? Það má alltaf deila um stærð gjafanna og tilefnið, en við gefum þeim gjafir ekki bara af skyldurækni, heldur vegna þess að okkur þykir vænt um þau og erum stolt af þeim. Þau eru ekki farin að vinna fyrir sér og þetta er ævintýri fyrir þau, að fá óþolandi óþarfa eins og orðabækur og ljóðabækur og fullt af peningum. Ég get svo mikið unnt þeim þess þó flest séu farin að hugsa öðruvísi bara eftir hálft ár.

Tigra: þú segir frá krakka sem teiknað Jesú með Huginn og Muninn. Bar barnið mikinn skaða af þessum misskiningi? Er þetta nokkuð verra en svo margt annað sem börn eru sífellt að reka sig á með?

Kolfinnur Kvaran kom með ágætt innlegg. (Ég skil ekki hvers vegna svo ritfær maður er með lítinn staf í nafninu sínu.)

Mér sýnist Nornin vera öfgafyllri í trúarskoðunum en t.d. Vottar Jehóva, sem ég veit ekki til að hafi tekið börnin sín úr tímum. Leiðréttið mig ef þið vitið betur.

2/11/06 14:01

J. Stalín

Ek er alfarið á móti þessari breytingu og finnst að þeir sem ekki eru kristnir geti farið í sérkennslu, vegna þess að langstærsti hluti þjóðarinnar er kristinn og því þykir mér það ósanngjarnt að þeir einstaklingar fái ekki kristinfræðikennslu.
Mér finnst að þeir útlendingar er eigi eru kristnir geti sætt sig við að þeir hafi verið að flytjast í kristið samfélag og geti ekki breytt því. Aftur á móti mega þeir mín vegna iðka sín eigin trúabrögð í friði.

2/11/06 14:01

Texi Everto

Hér eftir verða börn sem heita Kristján og Kristín kölluð Ján og Ín á meðan þau eru innan veggja skólans

2/11/06 14:01

Billi bilaði

Stjáni er betra en Ján.

ES: Ekki alhæfa um múslímalönd. Í Indónesíu er ekki þetta kvennaofstæki eins og mér sýnist vera í arabalöndum það sem ég þekki til.

2/11/06 14:02

Nornin

Ég er ekki öfgafull nema þegar kemur að kristni í skólum og "þjóð"kirkjunni.

Mér finnst að það eigi ekki að kenna nein trúarbrögð í skólum, ekki ásatrú heldur, nema sem hluta af sögukennslu.
Sama á við um kristni.

Mér finnst bara að öll trúarbrögð eigi að sjá fyrir sér og sínum, að kennsla í trúarbragðinu eigi að fara fram innan veggja þeirra helgu húsa er tilheyra hverju trúarbragði fyrir sig.

Engin trú er annari æðri, engin trú er annari betri.
Því þá að hafa þjóðkirkju og þar með mismuna fólki?

Ég verð bara svo reið þegar fólki finnst eitt vera réttara og betra en annað...
Ég er umburðarlynd gagnvart kristni, en ekki gagnvart kristnum.

2/11/06 15:00

Ívar Sívertsen

Hvurslags bendir á Land míns föður sem bærilegan þjóðsöng. Ef við miðum við það sem fólk hefur verið að segja þá er það líka ákall á Guð. Faðirinn er víst í því hlutverki. Annars þá er það svínslegt fyrir þá sem eru ekki þjálfaðir söngfuglar. "Laug að bláum straumiiii..." þarna er farið all djúpt miðað við "Ævi vor á jörðu héééér". Má ég þá frekar biðja um guðvorslansinn.

2/11/06 15:00

Jóakim Aðalönd

Mér sýnist enginn hér umburðarlyndið uppmálað. Enda boðar kristni ekki umburðarlyndi (frekar en önnur trúarbrögð). Málið er bara það að ef foreldrar ætla sér að ala börn sín upp í einhverri trú, er þeim í lófa lagið að gera það UTAN SKÓLATÍMA. Söguleg umfjöllun um trúarbrögð hvers konar í skólum er lógísk; ekki kristin fræði.

Það er af sama meiði sprottið hjá þeim sem segja að Íslendingar séu að meirihluta kristnir og því eigi að kenna kristin fræði í almennum skólum landsins og hjá þeim sem segja að þeir sem ekki líkar við þjóðsönginn geti haldið kjafti til tilbreytingar: Þið ætlið ykkur að traðka á minnihlutanum í krafti meirihlutans. Af því að þið eruð í meirihluta, skiptir engu máli hvað minnihlutinn vill.

Sem betur fer á ég ekki börn og þarf því ekki að hafa áhyggjur af þessu.

Á svona umræða svo ekki betur heima á einhverjum þráðum, eða jafnvel utan Gestapó? Ég vil bara drekka ákavíti hér og semja vísur...

Skál og prump!

2/11/06 15:00

Jóakim Aðalönd

Svo er ég alls ekki sammála þér Ívar. Að halda að Glúmur (sem var ekki bara sálmaskáld, heldur líka PRESTUR) skyldi vera að yrkja til náttúrunnar þegar hann orti: ,,Ó Guð vors lands", er í bezta falli barnalegt.

Svo finnst mér einmitt ,,Land míns föður" vera ljóð umburðarlyndis, sérstaklega lokavísan:

Hvort sem krýnist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögur, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki,ung og frjáls,
undir norðurljósum.

2/11/06 15:00

Jarmi

Ég sé reyndar ekki að minnihlutinn hafi neitt frekar rétt á að taka af meirihlutanum það sem meirihlutinn vill hafa. Get ekki séð að það gangi neitt betur í þá áttina, að minnihlutinn skipi meirihlutanum fyrir.

2/11/06 15:00

Jóakim Aðalönd

Hver er að biðja um það? Hvers vegna eiga börn annarra en kristinna að sitja undir því að þeim sé innrætt kristni, eða að þeim sé smalað út í horn? Það er hægt að fara bil beggja. Það er enginn að ,,taka" kristnina frá þeim sem eru kristnir. Þeim er einfaldlega uppálagt að gera það fyrir sína peninga á sínum tíma, rétt eins og hinum.

2/11/06 15:01

Jarmi

Lýðræði 101: Meirihlutinn ræður.

En annars get ég lofað þér að það er ekki meira vandamál en svo að bara mæta í skólann einu sinni og segja "ég vil ekki að barnið mitt sitji kristinfræðitíma".
Ef foreldrar telja í alvöru að það sé verið að gera börnunum þeirra eitthvað illt þá ætti fólk að gera meira en nöldra á bloggsvæðum. En þar sem næstum ENGINN börn eru tekin úr kristinfræði þá getum við dregið þá ályktun að þetta séu örfáir háværir einstaklingar sem í raun hafa litla sem engan vilja til að gera nokkuð, hafa bara gaman af að taka afstöðu í málum sem vekja athygli.
Nornin hefur sagst muni koma til með að banna Bebe að sitja kristinfræði, gott og vel, hún ætlar sér þá að gera eitthvað meira en kvarta. En ég verð að segja að ég er alls ekki viss um að börn vilji enda sem miðpunktur slíkrar athygli að mega ekki hlusta á sögur af Jesú með bekkjarfélögum sínum vegna þess að mamma eða pabbi trúa á Allah eða Óðinn eða ekkert. Allavegana hefði ég ekki verið ánægður með það. (Fyrir utan svo líka staðreyndina ef ég hefði skynjað að þarna væri eitthvað sem foreldrar mínir vildu ekki að ég heyrði, þá hefði ég verið enn æstari í að fá að heyra.)

2/11/06 15:01

Regína

Ég er farin að hallast að því að fordómaleysi sé líka skoðanaleysi.

Þeir skoðanalausu tjá sig ekki (og líklega margir hinna líka). Þeir fordómalausu eru hreinlega ekki til.
Fordómar er ekkert annað en nafn sem við gefum því sem okkur finnst asnaleg skoðun, eða viðhorf, hjá öðrum (og jafnvel okkur sjálfum ef við erum nógu víðsýn).
Getum við virt skoðanir annarra en agnúast út í fordómana?

Meirihluta fólks er slétt sama um trúarfræðslu. Afsakið, trúarbragðafræðslu ætlaði ég að segja. þeim finnst núverandi ástand bara fínt.
Ég tek það fram að ég er alger vingull í trúmálum, og er afskaplega ánægð með það.

2/11/06 15:01

Jarmi

(Biðst afsökunar á málfræði- og stafsetningarvillum í síðasta innleggi, ég var extra myglaður þegar ég hamraði þetta á lyklaborðið.)

2/11/06 15:02

Jóakim Aðalönd

Lýðræði 101 er meira en bara þessi setning. Annars er það ekki lýðræði.

Það, að fáir einstaklingar dragi börnin úr kennslu í kristinni fræði, er ekki ávísun á að það sé endilega rosalega sniðugt að kenna kristna fræði. Ekki frekar en önnur trúarbrögð. Það er einmitt mergur málsins, að það á að kenna vísindagreinar í skólum; ekki trúarbrögð. Það er í góðu lagi að fjalla sögulega um hin ýmsu trúarbrögð og ekki sízt kristni, en að kenna kristna fræði sérstaklega er grábölvað. Hefurðu heyrt um foreldra sem vilja ekki að börnum þeirra sé kennd stærðfræði? Líffræði? Mannkynssaga? Nei, það er einfaldlega ekki deilt um að börn hafi gott af því að læra þessar greinar. Hins vegar er deilt um hvort kristin fræði (eða önnur trúarbrögð) sé kennd börnum, sérstaklega á þeim aldri sem þau hafa ekki þroska til að mynda sér sína sjálfstæðu skoðun.

Eins og áður sagði: Foreldrar sem vilja ala sín börn upp í einhverri trú, geta gert það á sínum tíma fyrir sinn eigin pening.

2/11/06 15:02

Jarmi

Hvernig er saga vísindi? Hvernig er ljóðatíminn í íslensku vísindi? Hvernig er myndlist vísindi? Hvernig er handment eða smíði vísindi? Hvernig er heimilisfræði vísindi? Hvernig er leikfimi vísindi?

Málið er einfalt í mínum huga. Flestir vilja að börnin þeirra geti lært um Jesú í skólanum. Flestir ráða og flestir eru því ánægðir.

Ég vek svo athygli á því að öfgafullar trúarskoðanir ná líka yfir þá sem á öfgafullan hátt setja sig á móti trúarbrögðum og því samfélagslega kerfi sem þau hafa komið sér fyrir í. Þó svo þú* trúir ekki á guð þá hefur þú engan rétt til að krefjast þess að þú og þínar skoðanir fái að taka fyrir hendurnar á meirihlutanum og því kerfi sem meirihlutinn óskar að hafa í gangi í samfélaginu.

Ef hópur A óskar að hafa kerfi X í gangi og hópur B óskar að hafa kerfi Y þá getur þú ekki sagt að það heiti bara stjórnsemi/yfirgangur/frekja ef það er stærri hópurinn sem fær sínu framgengt. Það heitir aftur á móti mun frekar lýðræði ef við þurfum að gefa því nafn. Það að halda því fram að skoðanir þínar séu réttari bara vegna þess að þú ert í minnihlutahóp hreinlega öskrar á að þú þurfir að skoða þinn gang aðeins og velta fyrir þér hvers vegna þú ert í minnihlutanum.

(* "þú" er hér notað almennt)

2/11/06 15:02

Jarmi

Mig langar svo benda á að ég trúi ekki á guð. (Svona ef einhver var að velta því fyrir sér.)

2/11/06 15:02

Jóakim Aðalönd

Saga og íslenzka eru alveg klárlega vísindi. Það er trúarbragðasaga líka. Hitt sem þú nefnir eru annað hvort listir eða nytsamleg þekking, nema leikfimi. Kristin fræði er aftur á móti alls ekki ,,fræði" eða vísindi, ef ég miða við þá kristnu fræði sem ég lærði í skóla sem barn. Þar var klárlega gengið útfrá því sem heilögum sannleik að biflían væri sönn og rétt og að guð væri til. Þetta var kennt eins og ekkert væri sjálfsagðara og varð til þess að innræta mér og samnemendum kristna trú sem ég hélt allt til unglingsáranna, þegar ég fór að huxa aðeins sjálfstætt.

Ég frábið mér því algjörlega að það sem farið er fram á, þ.e. að hætt verði að innræta börnum kristna trú í skólum og leikskólum, sé eitthvað öfgakennt. Hvaða öfgar eru við það að ætlazt til þess af foreldrum að þeir sjái um trúmál barna sinna utan skólans? Ég kalla það meðalhóf.

Svo man ég ekki eftir að farið hafi fram einhver könnun á vilja almennings um jesúkennslu skólanna. Þú virðizt ganga út frá því sem vísu að flestir vilji kenna kristna fræði í grunnskólum. Hvað með að láta trúfélögin um trúarbrögðin? Ég ætla hér með að halda því fram að flestir séu sammála því, þ.e. að krökkum sé kennd kristin fræði í kirkjum eða safnaðarheimilum eftir skóla eða um helgar. Eins með börn ásatrúarfólks og allra hinna.

Þó meirihluti þjóðarinnar sé á einhverri skoðun, er algjörlega út í hött að ætla hinum líka að hafa þá sömu skoðun. Þú segir: ,,Þó svo þú* trúir ekki á guð þá hefur þú engan rétt til að krefjast þess að þú og þínar skoðanir fái að taka fyrir hendurnar á meirihlutanum og því kerfi sem meirihlutinn óskar að hafa í gangi í samfélaginu".

Hvaða rétt hefur þá meirihlutinn til að taka fyrir hendurnar á minnihlutanum? Að kalla það lýðræði er skrumskæling á því ,,fína" orði.

Hvað svo með lítinn meirihluta? Ef t.d. 54% eru fylgjandi lífsmunstri A, en 46% lífsmunstri B, á þá í krafti meirihlutans lífsmunstur A að gilda í öllu samfélaginu? Það kallazt gerræði; ekki lýðræði.

Að lokum vil ég benda á eina staðreynd varðandi minnihluta og meirihluta: Meirihlutinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér. Sjáið bara mestu vísindauppgötvanir miðalda. Ekki var Kopernikus í meirihluta þegar hann setti fram sólmiðjukenningu sína. Ekki var Galíleó í meirhluta með sínar kenningar, hvað þá Darwin. Ef við hættum að huxa sjálfstætt fyrir okkur sjálf og halda skoðunum okkar bara ,,út af fyrir okkur", vegna þess að meirihlutinn er á annari skoðun, köllumst við sauðir; ekki fólk.

2/11/06 15:02

Jarmi

Þú virðist hafa fengið allt aðra kennslu en ég fékk í kristinfræði sem barn.

Og þú virðist þess vegna sjá hlutverk kristinfræði í allt öðru ljósi en ég geri. Mér virðist á því sem þú segir að þú sjáir þetta sem trúboð og einhverskonar skipan frá yfirvaldinu að börn eigi að vera kristin. Ég sé kristinfræði sem þægilega og góða aðferð til að kenna börnum grundvallar siðferði og um leið kynna þau fyrir bókinni sem er það rit sem á stærstan þátt allra bóka í að móta samfélag þeirra og samfélög landanna í kringum þau. Aldrei fékk ég að heyra það að ég ætti að trúa á guð í eitt einasta skipti sem ég sat kristinfræði, ekkert frekar en ég heyrði að ég yrði að hafa gaman af því að prjóna í handmenntum eða að mér væri það skylt að verða íþróttamaður þegar ég var látinn hlaupa tugi hringja í leikfimihúsinu. Enginn sagði við mig að guð væri herra minn og almáttugur stjórnandi heimsins, frekar en að það væri sagt við mig að mér bæri að verða listmálari eftir nokkra tíma í myndmenntum. Mér var bara kennt það sem stóð í kennslubókunum varðandi sögurnar og mér var gert skylt að hafa grundvallar þekkingu á þeim. Aðrar kröfur voru ekki gerðar.

Það er öfgakennt að ætlast til þess að sópa í burtu eina faginu sem ætlað er að kenna ungum börnum að ef þau koma að manni sem er meiddur á götunni þá eigi þau að vera eins og miskunsami samverjinn og hjálpa. Ef týndi sonurinn kemur aftur heim eigi þau að fagna. (Ég nenni ekki að telja upp allar sögurnar og boðskap þeirra en fólk ætti að skilja hvert ég er að fara með þessu.) Það er öfgakennt að ætla að sópa því fagi í burtu bara vegna þess að nafnið Jesú er notað við að kenna þær.

Hvað með að láta smíðaverkstæðum um smíðakennslu, hvað með að láta listasöfnum um myndmennt, hvað með að láta íþróttafélögunum um leikfimina? Ég ætla að halda því fram að flestir séu einmitt ekki sammála um að kristni eigi bara að vera læst inni í kirkjum. Eins er með ásatrú og öll hin trúarbrögðin.

Það ætlar enginn minnihlutanum að hafa sömu skoðun. Meirihlutinn hefur sína skoðun, minnihlutinn sína og svo þarf að leysa það mál. Það er hægt að gera með kosningu eða spyrja þá ráðamenn sem þjóðin hefur valið til að tala fyrir sig í alþingiskosningum.

Meirihlutinn hefur einmitt réttinn til að taka fyrir hendurnar á minnihlutanum. Öðruvísi virkar kerfið ekki. Nema jú ef kerfið heitir anarkismi.

Og já, ef 54% vilja eitthvað þá á það að gilda. Þeas ef það eru bara tveir möguleikar í stöðunni, annaðhvort að gera það sem 46% vilja eða það sem 54% vilja. Og varðandi "öllu samfélaginu" þá virkar skólakerfið á Íslandi bara þannig já. Það er allt eða ekkert.

Varðandi það hverjir hafa rétt fyrir sér þá snýst málið um að fá meirihlutann til að fylgja sér og verða sammála, ekki skipa honum fyrir. Það að rífa út kristinfræði á meðan að fólk vill hafa hana inni er ekki að fá fólk með sér heldur að skipa því fyrir.

2/11/06 16:00

Jóakim Aðalönd

Góðir punktar hjá þér Jarmi og hafðu þökk fyrir fjöruga og málefnalega umræðu um strembin hugtök. Gaman að því!

Í fyrsta lagi, virðumzt við hafa fengið sitt hvora kristnu fræðina kennda sem börn. Krafan var sú að við áttum ekki að efast um tilvist guðs, enda var það bara ekki til umræðu. Einn drengur í öðrum skóla (í næsta sveitarfélagi) spurði kennarann í kristnu fræðinni óþægilegra spurninga varðandi guð og biflíuna. Kennarinn brást við með því að hringja í foreldra viðkomandi og sagði: ,,Hann vill bara vera eitthvað að rökræða alltaf".

Þú gerir (að því er virðizt) ráð fyrir því að eina fagið í skóla sem kenni börnum að vera hjálpleg og góð við náungann sé kristin fræði. Þetta er stórkostlega vanhuxað. Sú siðfræði sem kennir fólki að vera gott við hvert annað er miklu eldri en kristni. Bara sem dæmi er ritið ,,Siðfræði Níkamakkosar" eftir Platón (eða var það Aristóteles, ég man það ekki gjörla), en eftir stendur að hjálplegheit við náungann, sérstaklega þegar hann á um sárt að binda er MANNLEGT; ekki trúarlegt. Búddistar hjálpa náunganum ekkert síður en kristnir, athugaðu það. Þú hefur ekki sýnt fram á öfgar í því að hætta að innræta börnum trú í almennum skólum. Gerðu það, eða dragðu til baka að ég sýni öfga í þeim málflutningi mínum.

Varðandi iðngreinar sem kenndar eru í skólum (smíði og fleira), er ekki hlaupið að því að gera slíkt, en er samt góð hugmynd engu að síður. Hins vegar er slík iðnmenntun góð fyrir börnin að læra, einfaldlega vegna þess að þau þurfa oft á því að halda að vera sæmilega fær í höndunum þegar síðar kemur. Ég lærði smíði í skóla, auk annarrar handmenntar og hef satt að segja varla nokkuð við þá menntun haft að gera. Það er spurning hvort það eigi að kenna það í skólum, heldur láta það í té foreldrum að ákveða hvað börnin eigi að læra af þeim. Það má segja að börn komist tæplega í gegnum lífið án þess að smíða eitthvað, sauma eitthvað, elda eitthvað og hreyfa sig eitthvað. Hins vegar komast þau alveg af án þess að hafa trú í sinni. Trú er alls ekki nauðsynlegur þáttur lífsins og þar liggur hundurinn grafinn.

Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að leysa deilumál minnihlutans og meirihlutans með kosningu. Það er vitað fyrirfram hvernig slík kosning endar. Hitt er annað mál að þingmennirnir og sveitarstjórnarfólkið á að leysa úr deilumálunum fyrir fólkið. Það er kjarninn í fulltrúalýðræðinu.

Ef 54% eiga að hafa sínu fram á kostnað 46% þjóðfélagsins, er það slæmt og á ekki að lýðast í þróuðu samfélagi!

Það er varla neitt vit í síðustu málsgrein í þessu innleggi þínu. Það er ekki hægt fyrir minnihlutann að skipa meirihlutanum fyrir með nokkurn skapaðan hlut. Auk þess er (svo ég endurtaki enn og aftur) enginn að ,,rífa kristna fræði burt" með því einfaldlega að fela hana trúfélögunum. Af hverju geta foreldrar ekki farið með börnin í trúfélagið til að iðka sína trú? Hvað er rangt við það? Í mörgum ríkjum (m.a. Bandaríkjunum) er engin trú kennd í skólum. Foreldrar sjá alfarið um það sjálfir.

Svo má nefna í lokin að skv. mannréttindadómstólnum, má ríki ekki ,,agitera" fyrir einni trú fram yfir aðra. Okkur er SKYLT að fara eftir því.

2/11/06 16:00

Jóakim Aðalönd

Aðeins vantaði í fjórðu málsgreinina hjá mér, en ég ætlaði að segja að ekki væri hlaupið að því að kenna iðngreinarnar á þar til gerðum verkstæðum.

2/11/06 16:00

Jarmi

Jæja, ætli þetta sé ekki búið að ganga of langt.

Ég er bara á tómu þvaðri hérna, ég hef í raun enga skoðun á biflíusögum í skólum. Það voru bara 2 fög sem mér gekk illa í sem krakki, kristinfræði og danska. Svo mín vegna mætti alveg fjarlægja þetta.

Ég á engin börn og stefni ekki á að eignast slíkt svo mér er nokkuð sama hvort annara manna börn þurfi að sitja þetta fag eða ekki.

Mig langaði bara æfa mig í rökræðum, er orðinn svo ryðgaður á seinni árum.

(es. ég hætti að trúa á guð þegar ég var 5 ára og fattaði að þetta gengi ekki upp með ósýnilegan kall uppi í skýjunum.)

2/11/06 16:00

Þarfagreinir

Þetta virðist ætla að ná í 100 orðabelgi. Ég man ekki hvenær það gerðist síðast, en ég er nokkuð viss um að það hefur gerst einhvern tímann áður.

2/11/06 16:00

Jóakim Aðalönd

Gott hjá þér að æfa þig í rökræðum og gott ef þetta er ekki einmitt góð æfing.

Hitt er annað mál að svona lagað á heima á þráðum, en Nermal er frægur fyrir svona ,,bloggsamfélgax" eða ,,þráðafélaxrit"...

2/11/06 16:01

Skabbi skrumari

Það er ekki kennd kristinfræði í skólum og hefur alldrei verið kennd og mun alldrei vera kennd... ekki efast þó ég sé kenndur...

2/11/06 16:02

Tina St.Sebastian

Fyrst mér tókst loksins að skrá mig inn verð ég að tjá mig þó seint sé.

82% þjóðarinnar eru skráð í þjóðkirkjuna. Þar af eru tuttugu prósent undir 16 ára. Hversu margir hinna ætli væru í þjóðkirkjunni ef þeir hefðu þurft að gera sér ferð niður á Hagstofu til að skrá sig í hana?
Og hversu margir þeirra ætli séu aðfluttir - og verið skráðir sjálfkrafa í báknið? Kunningi minn, Bandaríkjamaður, þarf að skrá sig úr þjóðkirkjunni í hvert skipti sem hann flytur milli íbúða.

Þróunin er reyndar í þá átt að Þjóðkirkjuskráðum fækkar (um rúmlega 1200 árið 2006, en á milli 400 og 900 ár hvert síðusta áratug þar á undan -utan 1996, en þá fækkaði þeim um 2237 á einu ári).

Ef þróunin heldur svona áfram má gera ráð fyrir því að eftir tíu ár hafi Þjóðkirkjuskráðum fækkað um a.m.k. rúm 8000.

Ef Þjóðkirkjan getur ekki staðið undir sjálfri sér líkt og önnur trúfélög á landinu verður hún einfaldlega að sætta sig við að líða undir lok eins og aðrir úreltir hlutir.

2/11/06 16:02

Hakuchi

Hún ætti hæglega að geta staðið undir sér þar sem hún á stóran hluta af landinu. Reyndar gerði hún samning við ríkið um að það tæki yfir flestar jarðirnar í skiptum fyrir laun presta og þess háttar.

2/11/06 17:01

Tigra

Það er samt pínu ósanngjarnt að fólk sem er ekki kristið - og vill því ekki borga skatt til þjóðkirkjunnar (og er þar af leiðandi í öðru eða engu trúfélagi) þurfi síðan að borga skatt sem fer í skólana að kenna kristna fræði.
Það þarf annað hvort að kenna trúarbrögð jafnt - eða ekki neitt.
Ég veit ekki hvort ég er sammála mörgum hérna um að kenna engin trúarbrögð... vegna þess að ég held að það sé mjög hollt fyrir fólk að læra um trúarbrögð.
Margar þjóðir sem við kunnum að hafa samskipti við í framtíðinni eru að mörgu uppbyggðar í kringum trúarbrögð þeirra, og ef við vitum mikið um trúarbrögð annarra þá hjálpar það okkur mikið að skilja hvort annað.
Mikið af stríðum bæði í dag og í gegnum aldirnar er til komið út af mismunandi trúarbrögðum, og einfaldlega vegna þess að fólk sá það ekki í sér að virða trúarbrögð annarra.
Ég held að það sé eitt það mikilvægasta sem fólk gerir... þótt það trúi ekki á trúarbrögð annarra og sé þeim ekki sammála (sama hvort þú trúir á e-ð sjálfur eða ert trúleysingi) að virða allavega þá sem að trúa þessu.
Trú er meira en bara skoðun.

2/11/06 18:00

Sjöleitið

Ó, suð vors lands!

2/11/06 18:01

Starri

Kemst hann ekki upp í hundrað?

2/11/06 18:01

Tina St.Sebastian

Ef Guð lofar. [Glottir]

2/11/06 18:01

Offari

Eigum við ekki að prófa?

2/11/06 18:01

Tigra

Það vantar ekki mikið upp á.

2/11/06 18:01

krossgata

Punktur.

2/11/06 18:01

Texi Everto

.

2/11/06 18:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Guð er ekki til held ég

2/11/06 18:01

Nermal

Ég er nú svo sérdeilis hissa á þessum viðtökum sem félagsritið hefur fengið. Ég þakka ykkur öllum fyrir að tjá ykkur. Munum bara að elska hvort annað hvað sem öllum trúarbrögðum og þjóðsöngvum líður.

Nermal:
  • Fæðing hér: 24/9/05 16:56
  • Síðast á ferli: 16/11/15 23:37
  • Innlegg: 25038
Eðli:
Einn af örfáum sem ekki er þjáður af þágufallssýki
Fræðasvið:
Alskyns fánýtur fróðleikur, gagnslausar orðlengjur, Pub Quiz og almenn vitleysa
Æviágrip:
Ekki er margt vitað um uppruna Nermals. Þó er vitað að hann fannst í sífrera í norðanverðri Síberíu. Þar skammt frá fannst ein gjöfulasta plútoníum náma veraldar. Talið er að skrítileika Nermalsins megi rekja til óhóflegrar geislunar. Aldursgreining með geislakolsaðferð hefur ekki borið árangur.