— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Nermal
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 2/11/04
Orðskrípi

Óþörf notkun á ensku.

Einn er það sem mér finnst afskaplega hvimleitt í íslenskum auglýsingum, en það er orðið season. Það er verið að auglýsa hinar ýmsustu þáttaraðir t.d Simpsons season 6 og 7, Seinfeld season 2 og 3. Það er alveg hægt að nota íslenkuna þarna. T.d væri hægt að nota orðið Þáttaröð. Simpsons þáttaröð 5 og 6. Engu verra að mínu mati. Eða orðið tímabil. Íslenska er fallegt mál og alveg óþarfi að troða inn óþarfa enskum slettum.

   (87 af 97)  
2/11/04 18:00

dordingull

Nermal, er líka falleg íslenska.

2/11/04 18:00

Jóakim Aðalönd

Sammála þér í þessu Nermal. Það eru svo sannarlega mörg orðskrípi þarna úti. Nefna má Stígvél, Lech Wáwensa, þúsöld, peningaþvætti og fleira. Þetta þarf að stöðva, sérstaklega hjá RÚV!

2/11/04 18:00

Nafni

Ske!!!!

2/11/04 18:01

albin

Jóakim Aðalönd, Stígvél er ekkert orðskrípi... ef þú notar það yfir reiðhjól [Ljómar til vinstri]

2/11/04 18:01

hlewagastiR

Það er rétt og satt að síson er útlenska. En satt að segja þykir mér jafnvel verra þegar allur andskotinn er kenndur til vertíða. Jólabókavertíðin. Knattspyrnuvertíðin. Og er þó enginn í verum.

Hvað sísonið varðar og sjónvarpsþætti hef ég heyrt talað um þáttaraðir. Er það ekki fyrirtak?

Jóakim: Stígvél er auðvitað eitt skemmtilegasta og fallegasta orð tungunnar þrátt fyrir vafasaman uppruna. Hitt er rétt að orðið myndi hæfa betur því sem annars er kallað hlaupabretti.

Jóakim talar um Lech Walesa (frb. Wáwensa). Hvernig getur nafn útlendings verið orðskrípi? Og úr því nafn hans er borið fram Wáwensa ("en" stendur fyrir raddað e) - hví skyldum við þá afbaka það? Orðið þúsöld er myndað eins og orðið þúsund. Það er fullkomlega flott. En kannski ekki sem götuheiti, ekki fremur en þúsund. Þvætti er myndað af þvottur því að bæta við -i endingu sem veldur i-hljóðvarpi og fellur orðið þá í flokki hvorugkyns ija-stofna. Þetta er algengt. Sbr band->bindi, maður->menni (eins og í illmenni).

Nafni hrópar ske með fleiri upphrópunarmerkjum en mönnum af hans gáfnastigi sæmir (þótt Hakuchi geri svona er það engin fyrirmynd). Nafni á væntanlega við að hann telji oðið ske verst orðskrípa. Þar veður hann í villu. Orðið er notað í miðaldabókmenntum, löngu áður en danska varð áhrifavaldur hér. (Danska þess tíma var reyndar líkari íslensku en nútímadönsku.) Ske er ekkert verra orð í fé og hné. Einkvæð sagnorð enda aldrei á -a heldur ýmsum sérhljóðum (fá, þvo, ske).

2/11/04 18:01

Jóakim Aðalönd

albin: Þetta hafði ég ekki huxað út í. [Hlær dátt]

hlebbi: Látum stígvél þá liggja á milli hluta. Ég man að fréttaþulir RÚV báru nafn Lech Walesa á þennan hátt og ég heyrði pólska vinkonu mína alltaf blóta því í sand og ösku, því nafnið er borið fram eins og það er skrifað og fréttaþulirnir voru þarna einungis að búa til framburð. Hvað það var sem knúði þá til þess, er mér hulin ráðgáta.

Orðskrípið þúsöld er líka dæmi um orð sem einhver ,,snillingurinn" fann upp rétt fyrir síðustu árþúsundamót. Hvers vegna ekki að nota gamla góða orðið árþúsund? Hvað þýðir öld? Venjulega er það orð notað um árhundrað, en getur líka þýtt lengra eða skemra tímabil, t.d. Sturlungaöld o.s.fr. Þúsöld væri því nær því að vera 100.000 ár. Mér finnst orðið auk þess ljótt og ætti að kýla þann sem fann það upp.

Það er líka alveg rétt að þvætti er myndað af þvottur, en af hverju ekki nota gamla orðið ,,peningaþvottur"? Hvað knýr fréttaþuli RÚV til að mynda svona orð og ofnota þau? Peningaþvættingur.

2/11/04 18:01

hundinginn

Sammála ykkur fjelagar. Og svo jeg reyni að láta ljós mitt skína, þá má nefna svolítið sem farið hefur í taugarnar á mjer lengi. "Öðru hverju" í stað öðru hvoru. Öldungis óþolandi.

2/11/04 18:01

Litli Múi

Ég get nefnt dæmi um þetta sem mér fannst frekar asnalegt. Land of the dead, sombíarnir eru komnir aftur.
Væri ekki sniðugra og bara fallegra að nota orðið uppvakningar.

2/11/04 18:01

hlewagastiR

Jói. Pólskumælandi maður hefur tjáð mér að framburður nafnsins Walesa sé nú bara víst nær því sem þeir breyttu þessu í hjá Rúv. Það sem vinkona þín hefur væntanlega hneysklast á var það að þrátt fyrir þessa leiðréttingu eru íslensk hljóðkerif ólíkt hinu pólska. Þannig mun L-ið hvorki vera íslenskt L né hið enska W sem sett var í staðinn, heldur eitthvert hljóð þar á milli. -ES- mun vera bori fram með rödduðu e-i, líkt og margir þekkja úr frönsku. Svo má deila um hvort fer nær réttum framburði að sleppa nefjun eða skjóta inn n-i. E.t.v. best að læra bara nefjun.

Um þvott og þvætti: líklega þvælist fyrir mönnunum myndlíking við seðlahreinsun með sápu og skrubbu.

Rök þín gegn þúsöld halda ekki. Nefni ég þrennt:

1) Þótt öld geti þýtt lauslega skilgreindan langan tíma (sturlungaöld, ísöld) þá útilokar það ekki nákvæma merkinguna sbr. núverandi öld=100 ár.

2) Víst er til orðið árþúsund (og einnig aldatugur). Þótt fram komi nýtt samheiti þá lokar það ekki á hin. Við eigum tugi orða sem þýða hestur og það er ekki vandamál.

3) Þú skilur ekki frummerkingu orðsins þúsund. Það þýðir þús-hund = tug-hundrað. Tíu hundruð. Þús- er sem sé forskeyti sem þýðir tugur. Þess vegna er þús-öld tíu aldir.

Maðurinn sem fann þetta orð upp er Þórhallur Vilmundarson prófessor, Ingólfsstræti 14, 101 Reykjavík. Hann er reyndar orpinn að aldri karlinn og það væri ljótt af þér að lemja hann. Hann hefur samið mörg falleg nýyrði, fleiri en þú.

P.s. mér þykir þetta orð, þúsöld, reyndar ekki hljómfagurt og nota því lítt. En það er rétt myndað og algerlega gallalaust. A.m.k. gefur það ekki tilefni til líkamsmeiðinga á virtum gamalmennum.

2/11/04 18:01

bauv

,,Nefna má Stígvél, Lech Wáwensa, þúsöld, peningaþvætti og fleira. Þetta þarf að stöðva, sérstaklega hjá RÚV!"

Þetta er ekki RÚV að kenna, heldur auglýsingastofunum sem gera auglýsinguna!

2/11/04 18:02

Bölverkur

Andsvar er hræðilegt orðskrípi sem heyrist oft á hinu háa alþingi.

2/11/04 19:00

Jóakim Aðalönd

hlewagastiR: Þú ert augljóslega fróðari um þetta en ég og beygi ég mig fullkomlega undir þessi rök. Ég sagði það nú heldur ekki í alvöru að ég ætlaði að lumbra á þeim sem fann upp orðið ,,þúsöld" og lít ég það orð öðrum augum eftir útskýringar þínar. Ég verð víst bara að sætta mig við að nota þessi orð (peningaþvætti og þúsöld) ekki sjálfur, en leyfa öðrum að njóta þess. Ég skil reyndar ekki hvers vegna þú gefur upp fullt nafn og heimilisfang hjá prófessornum. Það mætti halda að þér sé í nöp við hann... [Hlær]

bauv: Þessi orð (fyrir utan stígvél) heyrði ég ekki í auglýsingum, heldur fréttum og umræðum í útvarpinu.

2/11/04 19:00

Nafni

Ég er sko ekkert að apa eftir Hakuchi !!! En takk fyrir ábendinguna um ske-ið, ég mun þó varla innleiða það aftur í mitt málfar. Það er bara svo djöfulli danskt.

2/11/04 20:00

Jóakim Aðalönd

Það er merkilegt hvað hlewagastiR hefur sett ofan í við okkur. Ég verð að huxa þessi mál nánar...

2/11/04 20:00

Skabbi skrumari

Hann er náttúrulega besserwissi dauðans í okkar ylhýra tungumáli... skál

2/11/04 20:01

Sundlaugur Vatne

Já, mörg eru orðskrípin og ekki er til fyrirmyndar sú vanvirðing sem við sýnum móðurmálinu.
Eitt af því sem mér þykir til vanza er hvernig fólk af öllum stéttum og á öllum aldri er farið að nota persónufornafnið "þú" í óeiginlegri merkinu, að hætt enskra, í stað þess að nota orðið "maður" eða óákveðna fornafnið "hver".
Sbr.: "Hver er sinnar gæfu smiður"//"Þú ert þinnar gæfu smiður"
"Maður fær sér bara að borða þegar maður er svangur"//"Þú færð þér bara að borða þegar þú ert svangur".
Að lokum: Stígvél er gott íslenzkt orð sem á vel við þann hlut sem það táknar og engin ástæða til að amast við því. Þúsöld er tilhæfulaust og hégómlegt nýyrði sem allir ættu að forðast að nota enda fer það illa í munni og væri bezt gleymt. Eldra, betra, hljómþýðara og í alla staði skiljanlegra er orðið árþúsund.

Nermal:
  • Fæðing hér: 24/9/05 16:56
  • Síðast á ferli: 16/11/15 23:37
  • Innlegg: 25038
Eðli:
Einn af örfáum sem ekki er þjáður af þágufallssýki
Fræðasvið:
Alskyns fánýtur fróðleikur, gagnslausar orðlengjur, Pub Quiz og almenn vitleysa
Æviágrip:
Ekki er margt vitað um uppruna Nermals. Þó er vitað að hann fannst í sífrera í norðanverðri Síberíu. Þar skammt frá fannst ein gjöfulasta plútoníum náma veraldar. Talið er að skrítileika Nermalsins megi rekja til óhóflegrar geislunar. Aldursgreining með geislakolsaðferð hefur ekki borið árangur.