— GESTAPÓ —
Gunnar H. Mundason
Óbreyttur gestur.
Gagnrýni - 1/11/04
Töfrum hlaðið kvöld

Í gærkvöldi voru haldnir tónleikar með hljómsveitinni The White Stripes í höll kennd við Laugardal. Sótti ég þá að sjálfsögðu og voru með í för tvær manneskjur mér afar kærar, Furðuvera svo og vinur minn til margra ára úr kjötheimum. Eftirfarandi er umsögn mín um kvöldið.

Þegar komið var í höllina voru sæti fundin og í þau sest. Síðan var spjallað um hitt og þetta meðan beðið var eftir upphitunarhljómsveitinni. Skömmu áður en hún steig á stokk sagði vinur minn okkur frá því að hann hefði séð upphitunarhljómsveitina, Jakobínarína (eða hvernig sem það er sagt) áður á hljómleikum og lofaði hann sviðsframkomu þeirra mjög. Áður en leið á löngu, í kringum klukkan átta, slokknuðu ljósin og lófatak brast út. Tveir hljómsveitarmeðlimir gengu á svið og setti annar þeirra gítar á sig og lét hann gefa frá sér hljóð meðan afgangurinn af hljómsveitinni gekk inn á sviðið og kom sér fyrir. Síðan byrjuðu þeir að spila. Og hvílík sýning, hvílík sviðsframkoma, hvílík orka sem geislaði frá þeim. Söngvarinn hentist um allt svið meðan hann raulaði eitthvað í hljóðnemann. Hinir meðlimirnir fóru ekki jafn geyst, enda hamlaðir af hljóðfærum, en þeir gerðu eins og þeir gátu. Sér í lagi vakti hljómborðsleikarinn athygli mína þegar hann dansaði eins og vitleysingur bak við hljómborðið og sló á eina og eina nótu á milli. Í einu laginu fór hann meira að segja frá hljómborðinu sínu og út á mitt svið, þar sem hann hentist til eins ég veit ekki hvað. Einnig vakti trymbill hljómsveitarinnar athygli, einfaldlega fyrir gífurlegan hraða og orku. Að nokkrum lögum loknum lauk hljómsveitin sinni dagskrá og gekk af sviði.
Eftir salernisferð, bolakaup og dulitla bið, meðan fylgst var með þegar sviðinu var breytt svo hæfði aðalhljómsveit kvöldsins, allt hvítt, svart eða rautt; klukkan rúmlega níu, dofnuðu ljósin aftur, og hljómsveitarmeðlimirnir tveir gengu á svið við mikla hrifningu áhorfenda. Byrjað var strax á fyrstu smáskífu hinnar nýútgefnu plötu Get Behind Me Satan, Blue Orchid, við mikinn fögnuð viðstaddra. Síðan tók hljómsveitin hvert lagið á fætur öðru við ákaft lófaklapp áheyrenda, en það sem einkenndi tónleikana fremur en annað voru ýmis tæknileg vandamál sem riðluðu oft lagavali hljómsveitarinnar. Eftir um það bil eina og hálfa klukkustund hvarf hljómsveitin af sviðinu og beið þess að vera klöppuð upp. Nýttum við Furðuvera þá tækifærið og hlupum niður á gólf til að sjá hljómsveitina betur. Er komið var niður var visst framkvæmt sem orsakaði allnokkrar sprungnar háræðar á axlasvæði mínu, sem uppgötvaðist er heim var komið. Eftir smá tíma snéri hljómsveitin aftur og hóf þá leikinn að nýju. Tók hún þá nokkur sín vinsælustu lög og þar meðal voru t.d. nýjasta smáskífulag þeirra, The Denial Twist og svo eitt af þeirra allrafrægustu lögum, Seven Nation Army. Að nokkrum lögum loknum gekk hljómsveitin af sviðinu við dunandi lófatak tónleikagesta og ljósin voru kveikt, til merkis um að allt væri búið og að fara ætti heim (auk þess að lýsa fólki til). Og við gerðum það, þar með var kvöldinu lokið. Fínir tónleikar, frábært fólk, kvöldið fær fimm stjörnur í það heila. Ég vil innilega þakka Furðuveru, sem og vini mínum, fyrir töfrum hlaðið kvöld.

   (2 af 6)  
1/11/04 21:01

Goggurinn

Æðislegir tónleikar, Jack White er mikill snillingur.

1/11/04 21:01

Heiðglyrnir

.
.
.
.
Furðuvera frekja mest
fim hún Gunnar platar
Hún vill sjá allt sviðið best
setur sig á (h)áanhest
.
Skemmtileg gagnrýni Gunnar minn, vona að herðarnar nái sér eftir litlu frekjuna...ænei...meina Furðuna..!..

1/11/04 21:01

Furðuvera

[Slær Riddarann létt á nefið]
Hahaha!

Já, þetta voru æðislegir tónleikar. Enn fremur gaman að sjá þá í tvöfaldri venjulegri hæð. Það verður að viðurkennast að White Stripes eru með bestu hljómsveitum sem finnast í dag.
Sorrí Gunnar minn, en þú bauðst upp á þetta og ég hef það fyrir reglu að mótmæla ekki þegar fólk býður upp á fríðindi sem þessi!
Takk sömuleiðis.

1/11/04 21:01

Anna Panna

Ooooooooo vitiði hvað ég öfunda ykkur mikið?! Hefði alveg verið til í að vera þarna með ykkur sko...

1/11/04 21:01

Jóakim Aðalönd

Ekki ég. Peningasóun.

1/11/04 21:01

Gunnar H. Mundason

Þú þarft ekkert að biðjast afsökunar, ég veit vel að ég bauð uppá það og myndi hiklaust gera það aftur.

1/11/04 21:02

Hundslappadrífa í neðra

Sko, Skoffín, Rýtinga og ég vorum þarna líka og mér skilst að Aulinn hafi verið á svæðinu. Ekki nema vona að tónleikarnir hafi heppnast svona vel...

1/11/04 22:01

Litli Múi

Algjör snilld sem þessir tónleikar voru. Hljóðið var samt eitthvað að klikka á köflum en maður tók svosem ekki mikið eftir því.

Gunnar H. Mundason:
  • Fæðing hér: 19/4/05 08:38
  • Síðast á ferli: 4/9/13 03:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Hann er mikill maður að vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann heggur báðum höndum og skýtur ef hann vill og hann vegur svo skjótt með sverði að þrjú þykja á lofti sjá. Hann skýtur manna best af boga og hæfir allt það er hann skýtur til. Hann hleypur meira en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig. Hann er syndur sem selur. Og eigi er sá leikur að nokkur þarf við hann að keppa og hefur svo verið sagt að engi er hans jafningi. Hann er vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fer vel. Mann er hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann er vel auðigur að fé.
Fræðasvið:
Að vega menn með atgeirnum góða.
Æviágrip:
Fæddur fyrir einhverju. Býr að Hlíðarenda. Á tvo sonu, þá Högna og Grana, með mestu tík Íslandssögunnar, Hallgerði langbrók Höskuldsdóttur.