— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Rattati
Heiðursgestur.
Dagbók - 2/12/07
Meira af þrælsótta

Fyrir nokkru síðan skrifaði ég pistil um þrælsótta. Þetta er framhald af honum.

Ég þvælist nokkuð oft á sömu staðina, stundum með stuttu millibili, stundum líður lengra á milli. Af því leiðir að ég á nokkuð auðvelt með að bera saman, fyrir og eftir ef svo má segja. Í fyrri pistli minntist ég á að mér væri það til efs að þrælahald væri með öllu afnumið, slíkar voru aðstæðurnar sem að þetta blessaða fólk bjó við.

Ég er aftur á sama stað og ég var á þegar ég skrifaði þá færslu, uppfullur af þótta og hneykslan. En nú er hún Snorrabúð stekkur. Vegna þess að þetta er gersamlega óþekkjanlegt frá því sem var þá. Munurinn er svo sláandi að það nær engu tali. Hér ganga flestir hreinlega brosandi til verka, maturinn hefur lagast gríðarlega og allt í allt er þetta óþekkjanlegt frá því sem var síðast þegar ég var hérna. Galgopaháttur ýmiskonar var víða á ferð og köll eins og "Jó, moððerfokker" þegar menn voru að heilsast voru ekki óalgeng. En eins og ég minntist á í fyrri greininni þá jaðraði við að fólk gengi meðfram veggjum og baðst samstundis afsökunar ef það rakst utan í hvítan mann. Núna, þá grínaðist það í verkstjórunum en samt var allt undir gríðarlegum aga, en þetta þvingaða andrúmsloft sem ég fann svo vel fyrir áður var hreinlega hvergi til staðar.

Ég fór að inna eftir því af hverju þessi gríðarlega breyting hefði átt sér stað. Félagi minn hérna sagði mér það að eftir að eigandinn veiktist nokkuð hastarlega þá hefði orðið einhverskonar viðhorfsbreyting hjá honum. Stuttu seinna átti kallinn sjálfur hér leið um og þar sem að við erum aðeins málkunnugir og ég er frekar úthverfur og ófyrirleitinn oft á tíðum, þá spurði ég hann hreinlega hvað hefði gerst.
"Tja, það var nú svosem ekkert merkilegt sem slíkt, ég greindist með skæðan sjúkdóm og það einhvernveginn breytti aðeins hugarfarinu hjá mér".
"Hvernig þá", spurði ég.
Hann dró seyminn. "Ja, ég á nógan pening. Það er ekki minnsta hætta á að ég nái að eyða nokkrum sköpuðum hlut af honum áður en ég hrekk upp af. Betra að láta starfsfólkið njóta einhvers af honum, það er jú það sem að skapar þetta allt".
"Og hvenær heldurðu að þú geyspir golunni", spurði ég, ósvífinn að vanda.
"eftir svona hálft til eitt og hálft ár" svaraði gamli alveg pollrólegur og horfði á mig.

Mig setti hljóðann.

Ég horfði á kallinn þarna þar sem hann stóð hálfglottandi þarna fyrir framan mig og fylgdist með viðbrögðum mínum, var greinilega skemmt. Hann var ekki hræddur við framtíðina, það var á hreinu. Ég hugsaði málið um stund.
"Er það þá ekki helvíti hart að það þurfi svona atburð til að þú setjir meiri pening í að láta starfsfólkinu líða vel"?
Gamli hló. "Jú, það er satt. En ég get ekki breytt fortíðinni. Það eina sem að ég get gert er að láta gott af mér leiða núna, þetta er bara peningur og ekki mikill peningur í þokkabót. það er ekki það langur tími í að ég láti af störfum og gangi næsta stjóra vel að draga þetta allt til baka," sagði gamli og skríkti af kátínu.

Þegar ég hitti þennan karl síðast var hann svo samansaumaður að hann hefði varla drullað án þess að rukka einhvern fyrir það.

Það er gaman að sjá að menn geta breyst og það svo um munar. En það er engu að síður viss eigingirni að það voru aðstæður hans sjálfs sem ollu breytingunum, ekki aðstæðurnar hjá fólkinu. En, það er kannski eins og hann sagði, maður getyr ekki breytt fortíðinni, en maður getur haft áhrif á framtíðina.

Bara að fleiri gerðu það á þennan mátann.

PS. Ég kem seinna með pistilinn um heimsku og tilætlunarsemi sem ég er oft rukkaður um.

   (12 af 25)  
2/12/07 07:00

Regína

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

2/12/07 07:00

Dula

Já og maður getur engu breytt nema sjálfum sér. Þarna kemur það ljóslifandi fram.

2/12/07 07:01

Grágrímur

Ég vildi að mínir yfirmenn fengju allir skæðan sjúkdóm og dræðust...

2/12/07 07:01

B. Ewing

Það er hverju orði sannara Dula. Gott að karlinn fann leið til að gera ekki bara sig hamingjusaman heldur alla í kringum sig líka.

2/12/07 07:01

krossgata

Ætli Sirrý myndi ekki vilja fá þennan í Örlagastundina? Gaman hvað karlinn virðist hafa grætt húmor, kímni og umburðarlyndi við að lenda á þessum vendipunkti... eða eru það þínir eiginleikar sem þú ert að gæða hann í frásögninni?

2/12/07 07:01

Billi bilaði

Góð frásögn.

2/12/07 07:01

Galdrameistarinn

Menn þurfa oftast að fá þetta af fullum þunga beint í fésið til að skilja að peningar eru ekki allt.

2/12/07 07:01

Garbo

Batnandi manni er best að lifa, o sei sei já.

2/12/07 07:01

Andþór

Takk fyrir mig.

2/12/07 01:00

Kondensatorinn

Merkilegt.

2/12/07 02:01

Upprifinn

Heimur batnandi fer.
Ég hef líka fundið það á sjálfum mér að það þarf ekki stór atvik til að breyta hjá manni hugsunarhættinum og get rétt ímyndað mér hvílík áhrif það hefði á mig að vita hversu marga daga ég ætti eftir.

2/12/07 02:02

Jóakim Aðalönd

Gaman að þessu. Ég ætti kannske að láta Andrés fá 300 krónur á mánuði í viðbót og sjá til hvort hann kætist ekki aðeins...

2/12/07 03:00

Rattati

Krossgata: Auðvitað er kannski minn "stíll" á frásögninni en ég fullvissa þig um það að það var þetta sem hann sagði.
Upprifinn: Ég veit ekki hvað myndi breyta meiru hjá manni. Sérsaklega hugsunarhættinum. Mér er það bara léttir að hann ákvað að nota peningana í starfsfólkið en ekki einhvern minnisvarða um sjálfan sig.
Og Kimi, hafðu það 500 kall.

Rattati:
  • Fæðing hér: 28/3/05 11:32
  • Síðast á ferli: 12/5/20 20:25
  • Innlegg: 8165
Eðli:
Fæddist á sínum tíma og er enn að. Bý um þessar mundir bakvið lyklaborð og í flugvélum. Ekki þó á sama tíma eftir þetta óheppilega atvik hér um árið. Fokking Fly-By-Wire.
Fræðasvið:
Er ágætur í Ólsen Ólsen.
Æviágrip:
Er eiginlega búinn að vera meira og minna fullur. Er þó að mestu leyti hættur því. Man samt ekki rassgat af því sem gerðist fyrir ca 2001.