— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Isak Dinesen
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur.
Pistlingur - 8/12/04
Raunir pistlingshöfundar

Isak Dinesen segir frá raunum sínum við gerð fyrsta félagsritsins fyrir Gestapó

Undanfarna daga og nætur hef ég legið í svitakasti, óvinnufær og miður mín, þar sem ég var að reyna að skella saman mínum fyrsta pistling hér á Gestapó. Lengi vel hugðist ég skrifa einhverja bráðsmellna gagnrýni, til dæmis í anda “Loksins, loksins”, greinarinnar sem birtist í prjónablaðinu um árið og vakti mikla lukku eins og þekkt er. Það er hins vegar ekki auðvelt að stíga í fótspor snillinga og hvarf ég fljótt frá því, minnugur afleiðinganna sem háflug Íkarusar hafði á líf hans og útlit.

Til að lina þjáningar mínar og losa eitthvað af þeirri spennu sem í mér hafði safnast fór ég að hripa niður hugleiðingar mínar um undangengin ritstörf. Þá fékk ég þá hugmynd að skrifa um nákvæmlega þessar raunir. Slík skrif eru hins vegar svo hrikalega ófrumleg að ég skammaðist mín fyrir hugsunina eina. Ég vissi að lesendur Gestapó væru engir fábjánar – eða að minnsta kosti flestir. Þetta yrði ekki eins og að skrifa í Skírni eða eitthvað því um líkt sorprit. Þetta varð hins vegar að duga. Ég skyldi skrifa þvílíkan pistling að allir sem læsu sæu strax að þar færi snillingur orða og hugsana.

Marga tíma skrifaði ég og gaf flestu öðru lítinn gaum. Inn á milli stakk ég nýrri hljómplötu á fóninn. Brahms, Shostakovich, Bach, Kim Larsen; allir þessir menn hjálpuðu til við að fleyta hugmyndafluginu áfram. Sextán tímum seinna áttaði ég mig á því að ég hafði alls ekki farið til vinnu þann daginn. Ég hringdi í yfirmann minn sem tjáði mér að ef ég kæmi ekki daginn eftir skyldi ég ekki láta mér detta í hug að koma á mánudaginn. Þetta var gott, fjögurra daga frí var einmitt það sem ég þurfti. Ég skyldi klára pistlinginn yfir helgina og hreinskrifa í vikunni á eftir.

Aðfaranótt sunnudagsins fékk ég vonda martröð þar sem ég sá fyrir mér viðbrögð Bagglýtinga við grein minni. Ég sannfærðist um að draumurinn væri fyrirboði um hluti sem ættu eftir að rætast. Mér sýndist nokkrir safnast saman og gera mikinn aðsúg að mér með pennann að vopni. Þesskonar var brussugangurinn að mér leist heldur betur ekki á blikuna. Í ofboði hljóp að skrifborðsskúffunni minni og reif snyrtilega samansett minnisblöðin mín. Henti öllu á arininn og orgaði og veinaði um stund. Hálfnakinn hljóp út á götu og öskraði á morgunskokkara sem þar var einhver ókvæðisorð. Sá orðrómur komst á kreik að Emmínemm væri í bænum. Nokkrum tímum seinna fannst ég, skjálfandi í skurði og var komið heim af góðu fólki.

Þegar heim var komið ákvað ég að reyna að byrja aftur en lítið gekk. Þá kom vitrunin - markaðssetning! Ég skyldi markaðssetja pistlinginn betur en nokkur hafði áður gert og minnast á hana í flestum mínum innleggjum frá þeirri stundu. Þannig myndi ég kasta ryki í augu greindustu Bagglýtinga, sem yrðu svo spenntir fyrir lesturinn að innihaldsleysi textans myndi fara fram hjá þeim. Þetta trikk hefur verið leikið oftsinnis áður og mun ég seint taka hrósi fyrir að hafa fundið það upp. Ritsjórn Baggalútíu lék til að mynda þennan leik til að auglýsa "Sannleikinn um Ísland". Öllum er líka í fersku minni þegar Ólafur Ragnar auglýsti fyrstu breiðskífu sína "Taxman II" með því að bjóða sig fram sem forseta – auðvitað í tómu gríni.

Ég þakka þeim sem lásu.

   (42 af 42)  
4/12/04 10:02

Litla Laufblaðið

Æðislegt! Til hamingju með sveindómsmissinn

4/12/04 10:02

Isak Dinesen

Takk fyrir það! Skemmtilega orðað hjá þér.

4/12/04 10:02

Smábaggi

Ég efast ekki um að þetta hafi verið góður pistill, þótt ég hafi ekki nennt að lesa hann.

4/12/04 10:02

Isak Dinesen

Ég þakka þér þá bara fyrir að hafa ekki lesið pistilinn.

4/12/04 10:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

Það er deginum ljósara að þú ert vel ritfær & átt klárlega eftir að skrifa frábær félagsrit í framtíðinni.
Frágangur & stíll hvorttveggja velheppnað & öðrum til eftirbreytni.

4/12/04 10:02

Steinríkur

Þú átt örugglega ekki eftir að þakka mörgum - þetta er svo hrikalega langt að ég las bara fyrstu og síðustu málsgreinina...

4/12/04 10:02

Isak Dinesen

Ég þakka bæði þeim sem lesa og lesa ekki.

4/12/04 10:02

Isak Dinesen

Þá þakka ég herra Jónatanz fyrir fögur orð í minn garð.

4/12/04 11:00

Jóakim Aðalönd

Ég las þetta allt og hafðu þökk fyrir. Endilega ritaðu meira.

4/12/04 11:00

Isak Dinesen

Þakka þér kærlega Jóakim, jákvæðni þín er mér mikils virði.

Staðan er þá þrjú tvö:
Þeir sem ekki lásu: Smábaggi og Steinríkur
Þau sem lásu: Litla laufblaðið, Z. Natan Ó. Jónatanz og Jóakim Aðalönd

Ég mun þó hafa gagnrýni Steinríks bak við eyrað við næstu skrif mín.

4/12/04 11:00

Ísdrottningin

Ég las, leist vel á og þurfti ekki að leiðrétta. Það er hrós.

4/12/04 11:00

Isak Dinesen

Takk fyrir það Ísdrottning, hrós frá sjálfri drottningunni. Maður veit varla hvernig maður á að haga sér.

4/12/04 11:00

Tina St.Sebastian

Reyndar hefur mér yfirleitt þótt fara betur að segja 'Sannleikann' frekar en 'Sannleikinn'...en það er sjálfsagt bara smekksatriði...
Gott félagsrit.

4/12/04 11:00

Þarfagreinir

Ég las þetta allt og hafði gaman af.

4/12/04 11:00

Nornin

Hrós frá sjálfri drottningunni... ekki láta Júlíu sjá þetta!

En annars var gaman að lesa þennan pistling frá þér. Þú ert vel skrifandi og skemmtilegur penni.

4/12/04 11:00

Vestfirðingur

Það bjargar nú ekki akkúrat deginum að lesa þetta. Uppskrúfað, þú rembist allt of mikið, bara láta þetta flæða. Eins og Austmann. Malar alltaf um heima og geima. Kemur manni aldrei á óvart. Dettur aldrei neitt nýtt úr úr honum. Samt er þetta helvíti skemmtilegur karl. Vill öllum vel, jafnvel gimlé sem afhjúpaði hann sem keðjureykjandi staðreyndafalsara.

4/12/04 11:00

Vímus

Þar sem ég er á sveimi allan sólarhringinn gaf ég mér tíma til að lesa þetta í rólegheitum og hafði gaman af. Ég er að spá í að skrifa heila skáldsögu um ekki neitt. Það væri hægt að magna upp hrikalega spennu með réttu orðunum án þess að nokkuð mundi gerast.

4/12/04 11:01

Júlía

Isak, þú ert nafninu til sóma. Sérlega metnaðarfullur og skemmtilegur pistlingur. Ég hlakka til að lesa meira af þínum skrifum.

4/12/04 11:01

Isak Dinesen

Þakka ykkur öllum kærlega fyrir. Ég verð að segja að fögur orð Júlíu skipta mig gríðarlegu máli, slíkur penni sem hún er. Alla gagnrýni tek ég þó til greina, einnig þá neikvæðu og mun reyna að þroska ritfærni mína enn frekar. Nú mun ég leggjast í skriftardvala um stund og innbyrða meira en ég framleiði, enda er hið gagnstæða hið sanna merki leikmanns.

4/12/04 11:01

Vladimir Fuckov

Það tilkynnist hjer með opinberlega að pistlingur þessi er algjörlega misheppnaður því það mistókst að hafa hann misheppnaðan og innihaldslausan eins og til stóð ef vjer skildum lokakafla hans rjett.

4/12/04 11:01

Hakuchi

Sérlega vandaður og smellinn pistlingur.

4/12/04 11:02

hundinginn

GO Isak!

4/12/04 12:00

Skabbi skrumari

Smellið... Skál

4/12/04 12:01

voff

Shostakovich og Kim Larsen, lambaket og radísur. Það að nefna þá tvo í sömu andrá er sérstakt, svo ekki sé meira sagt. Kim Larsen og Svend Ingvars, það hefði gengið upp. Sama á við um Shosta og Rachmaninov eða Khatcaturian. En Kim og Shosti, that does not make sense.

4/12/04 12:01

Isak Dinesen

En ef þú hugsar aðeins meira um það?

4/12/04 12:01

Litla Laufblaðið

Mér finnst allveg passa að hlusta kannski á Rchmaninov og svo Halla&Ladda á eftir

4/12/04 12:01

Ég sjálfur

Til lukku með pistlinginn. Skemmtileg lesning og góður stíll.

4/12/04 12:01

Isak Dinesen

Ég þakka kærlega Ég sjálfur, hundingjanum, Hakuchi, Skabba og ykkur öllum hinum. Fuckov er náttúrulega bara of snjall fyrir eigið ágæti (e. too clever for his own good) og voff vill ekki að maður sé með neitt kjaftæði. Kann ég þeim líka þökk fyrir innlegg þeirra.

5/12/06 04:00

Billi bilaði

Las allan pistilinn, þannig að þú mátt uppfæra skorið.

Isak Dinesen:
  • Fæðing hér: 15/3/05 17:21
  • Síðast á ferli: 9/6/14 14:10
  • Innlegg: 1593
Eðli:
(Það skal árétt að þetta er athvarf Isaks Dinesens hins íslenska.)

Heldur að hann viti að hann viti ekkert.

Lærisveinn Þorgríms Þráinssonar.

Uppáhalds tónlistarmenn: Sara Vohan og Dissy Gelle-Spy.
Fræðasvið:
Lesblinda og einkirningasótt.
Æviágrip:
Lifir eins og hann mun deyja - stífur.