— GESTAPÓ —
Herbjörn Hafralóns
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 9/12/06
Jethro Tull

Hin fornfræga hljómsveit Jethro Tull hélt tvenna tónleika í Háskólabíói, 14. og 15. september. Ég var þar.

Ég man ennþá eftir því þegar ég kynntist tónlist Jethro Tull í fyrsta sinn. Það var árið 1970 þegar vinnufélagi minn í sumarvinnu lánaði mér plötuna Benefit og sagði að ég skyldi kynna mér hana. Ég man að mér þótti platan nokkuð tormelt í fyrstu en eftir nokkra daga hafði innihald hennar náð tökum á mér og allar götur síðan hef ég verið aðdáandi Ians Andersons og hljómsveitar hans.

Hefði þessi sami vinnufélagi minn eða einhver annar hins vegar sagt við mig á þessum tíma að 37 árum síðar myndi ég sjá Jethro Tull á tónleikum í Reykjavík, hefði ég örugglega bara hlegið og síðan leitt allt slíkt tal hjá mér. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er og nú um helgina gerðist það að ég fór á tónleika með Jethro Tull í Háskólabíói og það ekki bara einu sinni heldur tvisvar, föstudag og laugardag.

Í fyrra fór ég reyndar líka á tónleika Ians Andersons í Laugardalshöllinni þar sem hann lék ásamt hljómsveit og félögum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands nokkur vel valin lög af ferli sínum og hljómsveitarinnar. Ég skrifaði pistil um þá tónleika á sínum tíma.

Þegar leið að tónleikum helgarinnar vissi ég svo sem ekki alveg við hverju ég ætti að búast, þ.e. hverjir skipuðu hljómsveitina, hvort þetta yrðu alvöru Jethro Tull tónleikar eða órafmögnuð útgáfa til að fylgja eftir nýjustu plötu sveitarinnar. Ég verð að játa að ég varð fyrir smá vonbrigðum þegar ég sá í Kastljósi fimmtudagsins að Martin Barre, gítarleikari Tull frá 1969 var ekki með en í hans stað var ungur Þjóðverji, Florian Opahle, sem reyndar lék einnig með Ian í fyrra.

Vonbrigði mín hurfu þó sem dögg fyrir sólu strax í upphafi fyrri tónleikanna. Frá upphafi til enda voru þessir tvennir tónleikar það besta, sem ég hef upplifað á tónlistarsviðinu. Hljómsveitin lék mörg af bestu lögum Jethro Tull svo sem Aqualung, Thick As A Brick, Locomotiv Breath, Budapest, Bouré, Sweet Dreams, Nothing Is Easy og fleiri og fleiri. Einnig léku kapparnir bráðskemmtilega syrpu af amerískum lögum, aðallega eftir Leonard Bernstein þar sem aðaluppistaðan var lagið America, sem hljómsveitin Nice með Keith Emerson gerði frægt á sínum tíma.

Hljóðfæraleikararnir voru hver öðrum betri, Doane Perry lamdi húðirnar af stakri snilld eins og hann er búinn að gera í nærri 30 ár með Jethro Tull. David Goodier plokkaði bassann og John O’Hara lék á hljómborð, harmonikku og blokkflautu. Florian Opahle er snillingur á gítarinn þótt ungur sé en hann hefur m.a. verið í læri hjá Al DiMeola þeim frábæra gítarleikara.

Þrátt fyrir 37 ára aldursmun náðu þeir Ian og Florian ótrúlega vel saman og það var frábært að fylgjast með þeim á sviðinu. Florian fékk svo að eiga sviðið einn um stund og fór þá hamförum á gítarinn.

Stjarna tónleikanna var þó óneitanlega Ian sjálfur, sem heillaði áheyrendur með hreint ótrúlegum flautuleik. Það var hrein unun að heyra hvernig tónar flautunnar fylltu sal Háskólabíós. Það má vera að rödd Ians sé ekki jafn sterk og hún var fyrir 30 árum (enda kallinn nýorðinn sextugur), en magnaður flautuleikurinn bætir það margfalt upp.
Svo er maðurinn einstaklega skemmtilegur á sviði, reytir af sér brandara á milli laga og eins og einhver sagði í útvarpinu, þá hefur hann ótrúlega útgeislun og góða nærveru. Það var því ekki amalegt að fylgjast með honum úr aðeins nokkurra metra fjarlægð bæði kvöldin.

Ekki spillti svo fyrir að seinni tónleikana bar upp á afmælisdag minn í raunheimum og það verð ég að segja að þetta var einn besti afmælisdagur, sem ég hef upplifað og eru þeir þó orðnir nokkuð margir.

   (9 af 32)  
9/12/06 17:00

Billi bilaði

Til hamingju bæði með það, og afmælið. [Ljómar upp]

9/12/06 17:00

Dula

Heillandi og skemmtilegur pistill, til hamingju með afmælið Herbjörn , Þá ertu líka meyja einsog þorri gestapóa.

9/12/06 17:00

Offari

Ertu semsagt 8 dögum yngri en ég?

Ég vildi að ég hefði verið með þér þarna líka.

9/12/06 17:00

Herbjörn Hafralóns

Já, ég er hreinræktuð meyja með allri þeirri smámunasemi og fullkomnunaráráttu, sem því fylgir.

9/12/06 17:00

Dula

Já þar er ekta meyju rétt lýst. Ótrúlegir karakterar.

9/12/06 17:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Magnað, alveghreint . . .

Skál !

9/12/06 17:00

Herbjörn Hafralóns

Merkilegt nokk, þá hef ég ekki séð neina umfjöllun um tónleikana í falsmiðlunum. Kannski eru skríbentar þeirra allir af MTV kynslóðinni. [Starir þegjandi út í loftið]

9/12/06 17:00

Kondensatorinn

Tullið er sígild snilld en hefur reyndar ekki verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér frekar en önnur tónlist.

Þessi uppákoma fór algjorlega framhjá mér.

9/12/06 17:00

Grágrímur

Til hamingju með daginn! Ég hef ætlað að reyna að kynnast Tull en aldreg gefið mér nægilegan tíma í það en það sem ég hef heyrt hefur flest verið gott.

9/12/06 17:01

Nornin

Til hamingju Herbjörn.
Ég ólst upp við Jethro Tull og hef alltaf fílað þessa hljómsveit. Ég veit ekki mikið um þá, en mér finnst Ian Anderson æði [ljómar upp].
Hefði verið til í að fara, en skortur á raunheimafé hindraði slíkar áætlanir í þetta sinn. Vonum bara að Anderson hafi fílað landið það vel að hann komi aftur innan 10 ára.

9/12/06 17:01

Grýta

Góð gagnrýni þar sem maður skynjar vel sterka upplifun þína á tónleikunum.
Innilega til hamingju með það og afmælið þitt.

9/12/06 17:01

Nermal

Ég vildi að ég hefði komist, en landfræðilegir annmarkar komu í veg fyrir slíkt. Ég er frekar nýlega búinn að kynnast Jethro Tull og finnst þetta öndvegis fín tónlist. Og til hamingju með raunheimaafmælið. Það er gott að vera meyja.

9/12/06 17:02

krossgata

Til hamingju með afmælið. Skál!
[Skálar]

9/12/06 17:02

Herbjörn Hafralóns

Þakka góðar afmæliskveðjur. Skál!

9/12/06 18:01

Mosa frænka

Hamingjuóskir og smá afbrýðisemi, því ég missti af tónleikunum öllum. Ég á erfitt með að ímynda mér Barre-laust Tull, en það var gaman að heyra að ungi maðurinn hefur staðið sér vel í skuggi meistarans.

Herbjörn Hafralóns:
  • Fæðing hér: 15/8/03 18:28
  • Síðast á ferli: 13/7/21 13:54
  • Innlegg: 35350
Eðli:
Vammlaus miðaldra gáfumaður, sem ann sannleikanum í fréttum Baggalúts, er með stafsetningu á hreinu og hefur næmt skopskyn. Vinur Færeyinga.
Fræðasvið:
Ohmslögmál. Hópatferli rafeinda í torleiðurum.
Æviágrip:
Herbjörn fæddist í sjávarplássi við Faxaflóa um miðja öldina sem leið og telst því líklega með eldri gestum Baggalúts. Alinn á þverskorinni ýsu, kjötsúpu og fleira góðmeti og fékk lýsispillur í skóla. Var samt pasturslítill og horaður í æsku en hefur nú náð kjörþyngd. Tekur lýsi daglega. Sótti framhaldsskóla og stundaði ýmis störf á sumrin. Byrjaði frekar seint að drekka og telur sig hófdrykkjumann. Herbjörn vinnur tæknistörf í þágu hins opinbera en eftir að hann ánetjaðist Baggalúti hafa vinnuafköst stórminnkað. Hefur þó enn ekki fengið áminningu í starfi.