— GESTAPÓ —
Herbjörn Hafralóns
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/12/05
Réttritun og málfar

Um daginn skrifaði ég pistling um vægast sagt ömurlegt málfar í „Blaðinu“. Ég lét þá að því liggja að fleiri pistlingar um réttritun og málfar kynnu að fylgja í kjölfarið. Hér kemur annar og aftur er það „Blaðið“, sem ég beini spjótum mínum að.

Ég leit aðeins á Blaðið í dag og hnaut um þrjú atriði á forsíðunni einni. Þar má sjá flennistóra mynd af Björgvini Franz þar sem vísað er í viðtal við hann innar í blaðinu. Á myndina er prentuð þessi setning: „Má ekki hlægja að pabba“. Blaðamaðurinn veit sem sagt ekki að það á að skrifa hlæja en ekki hlægja.
Neðar á forsíðunni er önnur snilldarsetning: „Frábært ár framundan hjá Ragnhildur.“ Eitthvað hefur nú fallbeygingarkunnáttan skolast til hjá þeim, sem þetta skrifaði.
Vinstra megin á sömu forsíðu er vísað í frétt um Ariel Sharon og þar stendur: „Fjölskyldan sökuð um að þyggja mútur.“
Maður skrifar ekki þyggja með y heldur þiggja.
Þarna eru komnar þrjár villur á forsíðunni og að auki er nafn þessa snepils skrifað með litlum staf, þ.e. blaðið í stað þess að skrifa Blaðið eða jafnvel BLAÐIÐ.
Eftir að hafa rekist á allar þessar villur á forsíðunni, fletti ég mjög hratt í gegnum það, sem eftir var. Ég kærði mig eiginlega ekki um að rekast á fleiri ambögur í einu og sama tölublaðinu.
Lifið heil.

   (19 af 32)  
1/12/05 06:00

Ívar Sívertsen

Láttu ekki svona Herbjörn... Þyggja er komið af orðinu Þaugg, sem er gamalt og gott íslenskt orð yfir það þegar menn ætluðu sér að fá eitthvað en óvitað var hvort af varð.

Svo helypur þú á þig kæri minn. Að hlægja er að halda sig til hlés, þegar bannað er að hlægja að pabba þá er bannað að fela sig fyrir honum.

Og hvað nafnið á blaðinu varðar þá er það ekki þess virði að vera að bruðla með stóra stafi í það... það er hvort eð er svo ómerkilegt og leiðinlegt. Eini ljósi punkturinn þar er Herman.

1/12/05 06:01

hlewagastiR

Ívar ef svo væri hlyti nafnhátturinn að vera þeyggja en ekki þyggja.

1/12/05 06:01

Litli Múi

Maður á ekki að vera að ergja sig útaf mistökum hjá blaðinu, það vita allir að þetta er bara skeinipappír. Maður ætti kannski frekar að kvarta yfir því að það sé ekki nógu mjúkt fyrir rassgatið.

1/12/05 06:01

fagri

Stórkostlegt. Og svo er dýrðin líka ókeypis.
Slær þó ekki út rjúpnastytturnar.

1/12/05 06:01

krumpa

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég les aldrei blöðin... bara hættulegt fyrir skapið og blóðþrýstinginn.

1/12/05 06:01

Vladimir Fuckov

Og undarlegt orðalag má sjá eða heyra mjög víða. Er t.d. einhver sammála því að Baggalútur sje stærsta vefsetur í heimi ? Eða að 'Alexander stóri' sje þekkt nafn í mannkynssögunni ?

1/12/05 06:01

Bölverkur

Gott innlegg, forsíðan var víða aðhlátursefni!

1/12/05 06:01

Amelia

Ég hélt reyndar að það væri gömul stafsetning að segja „hlægja“. Sjálfri finnst mér skrýtið að sjá orðið stafsett á þennan hátt, en ég held ekki að það sé beinlínis rangt. Ég býst við að það séu margir sérvitringar af eldri kynslóðinni sem skrifa orðið svona. Líklega þeir hinir sömu og halda hvað fastast í zetuna blessaða.

1/12/05 06:01

hlewagastiR

Það kann þó að<b> hlægja</b> okkur (önnur sögn, ekki stafsetningarvilla) að komast að því að hinn germanski stofn sem orðið <i>hlæja</i> er komið af inniheldur svo sannarlega <i>g</i>. Í handritum er þessi ritháttur síst óalgengari en sá sem nú heitir réttur.

Í stafsetningarkveri Freysteins Gunnarssonar frá 1929 er skýrt út hvers vegna við ritum <i>g</i> í orðum eins og <i>drógum</i> og <i>þegjum</i>. Freysteinn klykkir út með því að so. <i>hlæja</i> sé undantekning sem byggist á hefð. Í beygingarmyndunum <i>hlógum</i> og <i>hlegið</i> kemur hið upprunalega <i>g</i> fram.

Til sönnunar um <i>g</i> í hinum germanska stofni er svo auðvitað enska orðið <i>laugh</i> og þýska orðið <i>lachen</i>. Nútímaenska hefur reyndar tapað önghljóðs-géi en stafsetningin varðveitir gamla framburðinn.

Hér er því rétt rangt en rangt rétt eins og svo oft vill vera í samfélagi okkar mannanna. Hlæ(g)ilegt.

1/12/05 06:01

Isak Dinesen

Fínn pistlingur.

Síðasta innlegg var mjög fróðlegt. HlewagastiR mætti mín vegna skrifa eins og einn pistling um önnur atriði í íslenskunni þar sem hið rétta er rangt en hið ranga rétt. (Eða eitthvað annað í íslenskri tungu sem hann vill fræða okkur um.)

1/12/05 06:02

Herbjörn Hafralóns

Það hlægir mig að lesa athugasemd Ívars við pistling minn. Ég veit ekki hver hefur eiginlega séð um íslenskukennslu í Ristilfirði, en þaðan mun kauði vera ættaður.
Sögnin að hlægja er vissulega til í merkingunni að kæta eða vekja hlátur þannig að ef vel tekst til, gæti maður farið að hlæja.
Svo þakka ég hlewagastiR fyrir gott innlegg í þessa umræðu.

1/12/05 06:02

Ívar Sívertsen

Maður má ekki einu sinni snúa all rækilega út úr hlutunum án þess að menn fari að skæla og taka mig alvarlega... fyrr má nú aldeilis fyrr vera...

1/12/05 06:02

Gísli Eiríkur og Helgi

orð í tíma töluð

1/12/05 06:02

Herbjörn Hafralóns

Láttu nú ekki svona Ívar, auðvitað vissi ég að þú værir að gera grín. Komdu á Næturgöltinn á eftir og ég býð þér í glas og Hexíu líka.
Svo skulum við bara hlæja saman.

1/12/05 06:02

Bölverkur

Það hlægir mig mágur, saggggði Skarphéðinn, en alls ekki hlægjandi.

1/12/05 06:02

Haraldur Austmann

Þeim hefur farið aftur, blaðamönnunum, síðan ég var á Ísafold forðum.

1/12/05 06:02

Herbjörn Hafralóns

Já, og ekki ríða Fjölnismenn lengur um héruð.

1/12/05 07:00

Jóakim Aðalönd

[Hlægr hástöfum]

1/12/05 07:00

Bölverkur

Ég hlæG nú bara að þessu öllu saman og et fil vill hlæ_ir það einhvern!

1/12/05 07:01

Ívar Sívertsen

Mér er nú bara hlágtur í hug núna...

1/12/05 07:01

Herbjörn Hafralóns

Já, þið eruð gamansamir piltar og hlægið mig oft, þannig að ég fer að skellihlæja.

1/12/05 07:01

Nermal

Íslenska er slungið og margþætt tungumál. Giska vandmeðfarið.

1/12/05 08:00

Ívar Sívertsen

Jægja vignur. Þág þagð.

2/12/05 05:02

Nördinn

Ég er sjálf búin að fá nóg af Blaðinu. Ég er blaðberi hjá Morgunblaðinu og dreifi því Blaðinu á Laugardögum sem er ,,pain in the ass" Ég hef því ortið smá ljóð um Blaðið.

Fylli eigi póstkassa yður,
því það er ekki mannasiður.

Blaðið má eiga sig.
Hjökkum ekki í sama farinu
heldur segjum við.
"Hættum að dreifa Blaðinu,,

Herbjörn Hafralóns:
  • Fæðing hér: 15/8/03 18:28
  • Síðast á ferli: 13/7/21 13:54
  • Innlegg: 35350
Eðli:
Vammlaus miðaldra gáfumaður, sem ann sannleikanum í fréttum Baggalúts, er með stafsetningu á hreinu og hefur næmt skopskyn. Vinur Færeyinga.
Fræðasvið:
Ohmslögmál. Hópatferli rafeinda í torleiðurum.
Æviágrip:
Herbjörn fæddist í sjávarplássi við Faxaflóa um miðja öldina sem leið og telst því líklega með eldri gestum Baggalúts. Alinn á þverskorinni ýsu, kjötsúpu og fleira góðmeti og fékk lýsispillur í skóla. Var samt pasturslítill og horaður í æsku en hefur nú náð kjörþyngd. Tekur lýsi daglega. Sótti framhaldsskóla og stundaði ýmis störf á sumrin. Byrjaði frekar seint að drekka og telur sig hófdrykkjumann. Herbjörn vinnur tæknistörf í þágu hins opinbera en eftir að hann ánetjaðist Baggalúti hafa vinnuafköst stórminnkað. Hefur þó enn ekki fengið áminningu í starfi.