— GESTAPÓ —
Ísdrottningin
Heiðursgestur.
Dagbók - 3/12/06
Kæra dagbók

Er stóð ég í ströngu, / var að troða tölvu í / forriti var ekki troðið / nema að tölvu træðist í - Eintreður tölvu í , tvítreður tölvu í, þrítreður tölvu í..............Nei, nóg komið!

Nú er svo komið að ég hef þörf fyrir að rekja hér raunir mínar.

Þannig er að í haust fór blessaður tölvugarmurinn að endurræsa sig í tíma og ótíma og gerðist heldur betur dyntóttur.
Í byrjun var nokkuð langt á milli en styttist svo smám saman við lítinn fögnuð frá minni hálfu.
Tölvugúru ættarinnar var kallaður út til aðstoðar en það tjóaði lítið því fljótlega eftir að hann yfirgaf svæðið byrjaði sama sagan aftur.

Við frumgreiningu var talið að harði diskurinn væri að gefa sig og farið út í þá aðgerð að kaupa nýjan, hann forritaður og öllum gögnum hlaðið inn. Sú aðgerð breytti engu.

Þannig leið nú tíminn fram í janúar að endurræsing og „blue screen“ voru orðnir daglegir félagar og engu að treysta í tölvumálum.
En þá gerðist það að aflgjafinn gaf sig með flottum hvelli og rafmagnsútslætti og blessuð sé minning hennar.

Næsta skref eftir tilhlýðilegan sorgartíma var að velja arftakann og jú eftir miklar pælingar og samanburð var tekin ákvörðun og fjárfest í nýrri tölvu með fullt af skemmtilegu innvolsi, miklu fleiri innpúttum og átpúttum, diskagleypi og alltof stórum flatskjá.
Nýja apparatið var borið heim og sett í samband, jibbí jæ, nú skyldi sko tölvast. Þegar búið var að laga til og breyta umhverfi og aðlaga, bókarmerkja réttu síðurnar og svona þetta helsta sem mikilvægt þykir, þá blasir við mér ............................................... „blue screen“

En af því að ég var orðin svo vön þessu veseni þá voru viðbrögðin ekki sem skyldi og þar með var ég áfram í sama pakkanum og ég var í með gömlu tölvuna.
Það var ekki fyrr en ég var að tuða við vinkonu í símann að það rann upp fyrir mér að það væri ekki eðlilegt að borga 140 þúsund krónur fyrir eitthvað sem virkar ekki.

Og þá upphófst leiðinda-þrautagangan að röfla við lið sem ekki vildi viðurkenna að eitthvað gæti verið að, jú á endanum tóku þeir við tölvunni á verkstæðinu og sögðust hafa samband.
Svo leið vika - ekkert,
tveir dagar - „ha já ég skal athuga málið, ég hef samband við þig í dag“... -ekkert
tveir dagar - sölustjóri: „ha já ég skal athuga málið, ég hef samband við þig eftir tuttugu mínútur“ - ekkert
næsti dagur - sölustjóri „ha hringdi enginn í þig“
Daginn eftir var loksins talað um að við fengjum nýja tölvu en fyrst þurfti að fá það samþykkt. Eftir mikinn þrýsting fékkst loksins í gegn að hægt var að sækja nýja tölvu í lok dags.

Ný tölva, aftur... jibbý eða þannig sko. Endurtaka allt dæmið, ná í Firefox, hlaða inn hugbúnaði og „driverum“ fyrir öll tæki og tól og svo framvegis.
Ég finn bara fyrir þreytu og áhugaleysi, hvað ef að þessi tölva strækar líka á mig um leið og ég slaka á og fer að njóta þess að eiga hana að ‹andvarpar›

Á hinn bóginn get ég huggað mig við að ef/þegar nýja tölvan verður frágengin verður „gamli“ nýi harði diskurinn gerður að flakkara með því að skella honum í nýkeypt, þar til gert hulstur.

Eintreður tölvu í , tvítreður tölvu í, þrítreður tölvu í..............
Uss suss!

Góðar stundir

   (8 af 33)  
3/12/06 06:00

krossgata

Var þetta nokkuð Acer tölva og viðskipti hjá Svar?
[Hryllir sig]
Ef svo þá áttu alla mína samúð. Já og líka þó það sé ekki.

3/12/06 06:00

Ísdrottningin

Nei, reyndar ekki.

3/12/06 06:00

Jarmi

Skiptu út tölvugúru ættarinnar. Hann er ekki að standa sig.

Ísdrottningin:
  • Fæðing hér: 29/1/05 23:15
  • Síðast á ferli: 22/3/19 23:37
  • Innlegg: 1261
Eðli:
Virkur hálendisfíkill, símálandi og föndrandi söngfugl og mikil áhugamanneskja um það ástkæra ylhýra.
Fræðasvið:
Allt og ekkert að sveitamannasið