— GESTAPÓ —
Ísdrottningin
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 1/11/04
Þvílíkt hneyksli að vera með ekkert bindi!

Það er best að taka það fram að ég tel mig ekki vera neinn sérfræðing í íslensku. Ég er ágæt í stafsetningu en hef aldrei verið nema sæmileg í málfræði og ekki er ég langskólagengin. Ég er heldur ekki eins gömul og ætla má af skrifum mínum heldur var ég svo lánssöm að alast upp með eldra fólki sem talaði íslensku og hef ég alla tíð reynt að leggja áherslu á að vanda málfar mitt þó ég þurfi að vanda um við aðra til að ná og halda því markmiði.

Titillinn skal lesinn í hæðnistón (það er, ef þú skilur aðfinnsluna).

Ung kona fullyrti í kvöld í Ísland í dag á Stöð 2 að Stefán Jón Hafstein hefði verið með ekkert bindi.
Með EKKERT bindi!
Hvað varð af þeirri staðreynd að hann var ekki með neitt bindi?

Á þessu er reginmunur, rétt eins og á því að segja að klukkan sé fimm mínútur í sjö þegar hana vantar fimm mínútur í sjö.

Ungur maður sem kallaður er Auddi og kemur fram í þættinum Strákarnir, spurði í gær í innslagi sem kallast Allt fyrir aurinn ,,Hverjum vantar pening?"
Ef þú sérð ekkert athugavert við þetta þá ert þú líka haldinn þágufallssýki því spurningin er: Hvern vantar....

Ungur maður sagði nýlega í sjónvarpi af mikilli alvöru ,,það fer eftir því hvort að það sé uppselt á hótelinu" Hvað er þetta eiginlega með landann og séveikina???
Ég hélt að reglan væri sú að nota ekki sé í setningu ef hægt er að setja er í staðinn.

,,Tvö skæri" stóð skýrum stöfum í auglýsingapésa frá Ótrúlegu búðinni um daginn.
Og sama villuhugsun hrjáði ungu konurnar sem voru að skoða buxur á ónefndum stað því þegar afgreiðsludaman sagði að þessar buxur grenntu mann sko alveg um fimm kíló, þá litu þær hvor á aðra og sögðu ,,ætli tvær grenni mann þá um tíu kíló"
Orðið er TVENN gott fólk, tvenn skæri og tvennar buxur.

Tvem hins vegar er ekki orð á íslensku neitt frekar en ristavél. Við förum út með tveimur vinum og fáum okkur ristað brauð úr brauðristinni.

Hin nefkoksmælta fyrrum fegurðardrottning í Ísland í bítið klikkar ekki, alltaf skulu velta upp úr henni nokkrar villur og/eða ambögur á hverjum morgni svo að úr verður þáttur sem ekki er horfandi á (hvað þá hlustandi...) Það má Inga Lind þó eiga að hún er vel að sér og talar góða íslensku.

Í 10/11 verslununum eru klakarnir til sölu sem mér þykir furðu sæta. Síðast þegar ég vissi var orðið klaki ekki til í fleirtölu neitt frekar en plast og fólk. Ísmolarnir eru hins vegar annars eðlis og yfirleitt betri í fleirtölu. ‹Ljómar upp›

Skartgripaskrýn stendur fallega prentað á hillunum í Rúmfatalagernum og yfsilonið gín við eins og stór brandari.

Dagblöð nútímans eru svo yfirfull af stafsetningar og málfræðivillum að þau eru á við óplægðan akur af jarðsprengjum til yfirferðar......

Útvarpsstöðvarnar eru misjafnar en meira að segja þessum ríkisreknu sem hafa hingað til verið duglegastar að gæta að málfari sinna manna, fer hnignandi.

Það er kannski ekkert skrýtið að börn í dag kunni ekki að segja neitt annað en: mér vantar, mér langar, það var sagt mér og svo framvegis o.s.fr....

Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé glæst framtíð sem bíður barnanna okkar.
‹Þau kunna ekki eigið tungumál því þau eru orðin samdauna síbyljunni.
Þau kunna ekki ensku nema sem slangur. Það er staðreynd að enskuslettur ungdómsins okkar eru ekki tilkomnar af enskukunnáttu þó þau séu kannski slarkfær ef í harðbakkann slær.
Þau eru ofdekruð og agalaus af foreldrum sem meina vel en hafa ekki tíma til að sinna þeim. Sem aftur skilar sér í eigingjörnum einstaklingum með litla siðferðiskennd og litla sem enga samkennd með öðrum.
Þau eru siðferðislega skemmd eftir mötun þjóðfélagsins í gegn um tónlist, myndbönd og auglýsingar en það er efni í annan pistil........›

Látum gott heita, góðar stundir.
Ísdrottningin.

   (17 af 33)  
1/11/04 05:00

Heiðglyrnir

[Hún heitir sko „Ristabrauðsvél" heima hjá Riddaranum] Góð gagnrýni kæra Ísdrottning. Ekki gefast upp á okkur og skammaðu okkur miskunarlaust..!..
.
.
Ísdrottning um íslenskt mál
ískalt sendir tóninn
kyngimögnuð kóbalt skál
komin er frá hennar sál
.
.
Riddaraskál fyrir
Ísdrottningunni.

1/11/04 05:00

Ísdrottningin

Vá, kærar þakkir fyrir flotta vísu. [Ljómar eins og sól í heiði á fallegum frostavetri] Takk fyrir mig.

1/11/04 05:00

albin

Víst er ristavél alíslenskt orð. Alþekkt yfir vélar þær er búa til ristar líkar þeim sem notaðar séu á göturæsum borgarinnar.
Annars fannst mig þetta hið allra besta félagsrit, enda sé hægt að læra mikið á því.

1/11/04 05:00

Kargur

Ljótt er ef satt er. Er Íslenskukunnátta ungdómsins virkilega svona slæm? Annars er þetta varla séríslenskt fyrirbrigði. Hér í Bandaríkjashreppi eru börn og unglingar varla mælandi. Þó ég sé ekki langskólagenginn virðist ég vera betri í stafsetningu og málfræði enskrar tungu en innfæddir.

1/11/04 05:00

Gunnar H. Mundason

Þörf áminning. Ég tek undir með Riddaranum, góð gagnrýni og ekki gefast upp á okkur og skammaðu okkur miskunarlaust.

1/11/04 05:00

Nermal

Þágufallssýki er alveg agalega slæm og útbreidd. Það er samt tvennt sem mér finnst vera ömurlegt málfarsrugl... Annarsvegar orðið maísbaunir... maís er korn, ekki baun. Maískorn er því það eina rétta. Svo opnar maður ekki hurðir, maður opnar DYR... Góðar stundir

1/11/04 05:00

Limbri

Sérstaklega vel til fundið félaxrit. Innihald þess á svo sannarlega rétt á sér þegar litið er á málfæri hins almenna borgara í samfélaginu þessa dagana. Verð ég þó að játa að ég er vafalítið orðinn temmilega smitaður af dönskum áhrifum, hvað viðkemur daglegu málfari og er það miður. En ég reyni mitt besta og varla er hægt að biðja um meira.

En já... ritið er gott og fær það fullt hús stiga í mínum bókum.

-

1/11/04 05:00

Offari

offari er síbrotamaður hér og skammast sín tekur því þó vel c bent á villur hans á vingjarnlegan hátt

1/11/04 05:01

Steinríkur

Nermal - það er víst hægt að opna hurðir, t.d. ef það er gluggi eða kattalúga á þeim.

1/11/04 05:01

hlewagastiR

Allt fyrir aurinn ,,Hverjum vantar pening?"

Verra en þágufallssýkin hér er hin ranga beyging orðsins EYRIR.

1/11/04 05:01

hlewagastiR

Eins notar Ísdrottining orðið ÞVÍLÍKUR í fyrirsögn ranglega. Þarna átti að slanda HVÍLÍKT hneyksli.

1/11/04 05:01

hlewagastiR

Þegar klaki táknar teljanleg stykki er orðið vissulega til í fleirtölu. Ekkert að því.

1/11/04 05:01

Ugla

Amma mín blessuð yrði þeirri stundu fegnust þegar kvalafullar dauðarefsingar yrðu teknar upp til að refsa þeim sem tala ekki nógu fínt mál.
Ekki að ég sé að líkja nokkrum manni hér við ömmu mína, það er af og frá!
Sennilega er það til komið vegna hennar þetta ofnæmi mitt fyrir umvöndunum um íslenskt mál.

1/11/04 05:01

hlewagastiR

Gleymdi að bæta við: annars fínn pistill.

1/11/04 05:01

Ívar Sívertsen

Yo, Icy baby. Óxla kúl fjelaxrit...
Ég er þér hjartanlega sammála í einu og öllu. Ég vil við þetta bæta að þeir aðilar hjá ríkisfjölmiðlunum sem tala hvað verst mál að staðaldri eru oftar en ekki íþróttafréttamenn. Þeir reyna að gera mjög einhæfa pistla að einhverju málskrúði sem fer Kristni R. Ólafssyni í Madrid vel... en íþróttafréttamennirnir enda alltaf á því að vera með pistla sem enginn skilur og mikil hitalykt myndast á íþróttadeildinni þegar verið er að semja þá. Satt er það að þáttarstjórnendur þar á bæ séu líka farnir að láta undan síga og vil ég í því skyni nefna Gest Einar á rás 2, hann virðist tileinka sér málfar unga fólksins í bland við eigið unglingamál þannig að hann hljómar eins og hann hafi festst í tímavél {ætli Vlad viti af þessu?] og ambögurnar fljúga nánast í hverri setningu. Einu tilvikin sem við getum verið örugg um að fallegt íslenskt mál sé á borð borið eru þættir á borð við Kvöldgesti með Jónasi Jónassyni, miðdegissagan, orð dagsins og passíusálmarnir þegar þeir eru á dagskrá.

Hafðu þökk fyrir frábæran pistil Ísdrottning. Róm var ekki byggð á einum degi hvað þá á hverjum degi þannig að það er nauðsynlegt að beita okkur hin verulegu og reglulegu aðhaldi í málfarinu.

Það sé geggt kúl og óxla mega!

1/11/04 05:02

Hakuchi

Þessi pistill er til fyrirmyndar.

1/11/04 05:02

Ég sjálfur

Frábær pistill og athugasemdir hlégests ekki af verri endanum.

1/11/04 05:02

Hakuchi

Ég vil bæta við að það er sannarlega hneyksli að fullorðinn karlmaður skuli ekki vera með bindi. Slíkt er skýr vísbending um lausung og ræfilshátt.

1/11/04 06:01

Vímus

Þetta er góður og þarfur pistill.
Ég hef grun um að íslenskukennarar grunnskólanna hafi sjálfir það takmarkað vald á málinu að þeir geti varla kennt nemendum sínum íslensku svo vel fari.

1/11/04 06:01

Ívar Sívertsen

Það ætti að gera þennan pistil að skyldunámsefni bæði til handa kennurum sem og nemendum!

1/11/04 06:02

Golíat

Orð í tíma töluð Ísdrottning.

1/11/04 06:02

Sundlaugur Vatne

Þörf orð og löngu tímabær. Bíddu aðeins meðan ég næ mér í húfu svo ég geti tekið ofan fyrir þér.
[Flýtir sér að ná í höfuðfat og tekur svo ofan fyrir Ísdrottningunni]

1/11/04 06:02

Herbjörn Hafralóns

Góður pistill hjá þér Ísdrottning. Ekki veitir af að benda á ambögur og málvillur, sem vaða uppi í fjölmiðlum. Þetta minnir mig á að um daginn heyrði ég dagskrárgerðarmann á Rás 2 rekja feril hljómsveitar einnar, sem ég man ekki nafnið á lengur en í einni setningunni sagði hann: „Þeir áttu velgengni að fagna fyrstu árin, en síðan fór að halla undir flatt hjá þeim.“
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég heyri útvarpsmenn fara vitlaust með orðtök og málshætti. Þarna var auðvitað átt við að það hefði farið að halla undan fæti hjá téðri hljómsveit.

1/11/04 07:00

Jóakim Aðalönd

Amma mín sem vann sem adstodarkennari í 30 ár, heyrdi kennarann segja, um leid og hann hélt á verkefnisbladi: ,,Hverjum vantar svona?". Hneyksli!

1/11/04 07:00

Ísdrottningin

Ég vil þakka fyrir góðar viðtökur á gagnrýni minni. Ég er greinilega ekki ein um að vilja heyra vandað mál. Takk elskurnar mínar [ljómar upp]

1/11/04 07:00

Litli Múi

Já endilega leiðréttu okkur, ég vil bara þakka þér aftur fyrir að leiðrétta félagsritið mitt um daginn.

1/11/04 07:01

Sæmi Fróði

Prýðilegt, þörf umræða.

1/11/04 07:01

voff

Takk PoppTíVí!

Ísdrottningin:
  • Fæðing hér: 29/1/05 23:15
  • Síðast á ferli: 22/3/19 23:37
  • Innlegg: 1261
Eðli:
Virkur hálendisfíkill, símálandi og föndrandi söngfugl og mikil áhugamanneskja um það ástkæra ylhýra.
Fræðasvið:
Allt og ekkert að sveitamannasið