— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Dagbók - 2/12/06
Ellinni sagt stríð á hendur

Hér er uppskrift sem ég nota stundum til að fresta ellinni. Athugið að uppskriftin hentar kannski ekki öllum. Mallist á eigin ábyrgð.

Efni og áhöld:
Gasgríma
Plasthanskar
Rauð plastgreiða (gróf)
Gamalt handklæði
Slitinn og blettaður bolur af Ívari
Gamall seiðpottur
Beygluð sleif
Afgangar af stórhættulegum og baneitruðum efnum úr ýmsum flöskum

Aðferð:
Tæmið allar skrýtnu flöskurnar út í pottinn og hrærið vel í með sleifinni. Hlutfallið ræðst af lit og Ph-gildi efnanna. Útkoman á að vera létt drulla sem lyktar hrikalega illa. Takmarkinu er náð þegar liturinn er orðinn eins og það sem kemur í bleyjuna hjá ungabarni sem hefur óvart borðað kíló af lakkrís, og lyktin er orðin það stæk að gasgríman dugar ekki lengur heldur þarf að fara reglulega út í glugga til að anda.
Notið plasthanska og greiðu til að bera gumsið í hárið. Nauðsynlegt er að setja allt gumsið í hárið, því sprengihættan er mikil ef gumsið er látið liggja í pottinum mjög lengi. Látið ykkur ekki bregða þó hárið líti út eins og því hafi verið dýft í tjöru. Mjög líklegt (og jafnvel æskilegt) er að í einni flasknanna hafi einmitt verið tjöru að finna.

Bíðið í tvo til þrjá stundarfjórðunga.
Þegar tíminn er liðinn (eða hársvörðurinn alveg að sviðna) er kominn tími til að skola hárið. Best er að nota handsturtuna og horfa á ógeðslegheitin renna úr hárinu niður í niðurfallið.

Þegar skolvatnið er orðið alveg tært (hugsanlega eftir 3 klukkutíma) er óhætt að skrúfa fyrir. Vindið hárið lauslega og berið í það hárnæringu, rakakrem - nú eða bara júgursmyrsl. Hverjum er ekki sama. Skolið það allavega aftur úr.

Núna ættu öll ummerki um elli að vera farin. Úr hárinu alltént.

   (8 af 32)  
2/12/06 00:02

Tæknileg mistök

Afsakið fröken, en ég taldi að hér væri Maddam Mim á ferð.

2/12/06 00:02

Ívar Sívertsen

hananú... nú er hárið á henni orðið bleikt!

2/12/06 00:02

krossgata

Þetta er greinilega ekki á færi nema allra huguðustu kvenna.

2/12/06 00:02

Tina St.Sebastian

En ég hélt alltaf að þú værir náttúrulega svarthærð! Líf mitt er lygi! Loddari! [Hleypur grátandi út af sviðinu]

2/12/06 00:02

Hexia de Trix

Sona sona. Ég er svarthærð frá náttúrunnar hendi, hafðu ekki áhyggjur af því. Hins vegar er móðir náttúra eitthvað farin að gleyma sér upp á síðkastið og er farin að lauma snjóhvítum hárum á kollinn minn, það hljóta auðvitað að vera mistök. Svo ég leiðrétti bara mistökin.

2/12/06 00:02

Dula

Það er nú bara flott og ekta fyrir svona galdranornir að hafa grásprengt hár, já mér finnst það bara virðulegt.

2/12/06 00:02

Hakuchi

Ég fagna hverju gráu hári. Þau skipa heiðurssess á kolli mínum. Öll sjö.

2/12/06 01:00

Ívar Sívertsen

Ég hef alla tíð verið andsnúinn eigin gráum hárum og því hafa þau ekki þorað að láta sjá sig. En grá hár hjá öðrum finnst mér þeirra einkamál...

2/12/06 01:00

Offari

Er hún farin að grána hjá þér.

2/12/06 01:00

krumpa

Ég fann fyrstu gráu hárin í fyrra sumar - nokkuð seint reyndar því að eins og Hexía er ég svarthærð að upplagi. Var samt gríðarlegt áfall og farið beint heim og gripið til aðgerða!
Á öðrum kollum finnst mér grá hár bara fremur sexí...

2/12/06 01:01

Dula

2/12/06 01:01

Amma-Kúreki

Var bæði tjörguð og fiðruð í denn .. dæmið þið svo . Ellin virðir ekki landamæri því skal ég lofa ykkur

2/12/06 01:01

Heiðglyrnir

Margan seyðin hún Hexia okkar kann...Vona að það verði aldrei neinn ruglingur á kakóinu og þessu annars ágæta glundri.,Úff..Skál.

2/12/06 02:00

Ívar Sívertsen

ég ruglaðist og varð bleikur að innan

2/12/06 02:01

Jóakim Aðalönd

Hananú! Ég sem kunni alltaf svo vel við svarta hárið á Hexíu. Svona er tízkan...

2/12/06 02:01

Upprifinn

Uss það er ekkert að því að hafa nokkur grá.

2/12/06 02:01

feministi

Ég er bleik og grá. Byrjaði að grána upp úr 25 ára aldrinum mér til mikillar undrunar. Ég er sannfærð um að hér er karlmönnum um að kenna/þakka enda ráða þeir allt of miklu í heimi hér. Í mörg ár litaði ég hárið. Mórautt, svart, gult. Í öllum hugsanlegum samsetningum. Stutt, sítt, snoð. Núna er er ég með grátt snoð og verð að viðurkenna að það fer með óskaplega vel.

2/12/06 02:01

Kondensatorinn

Þessar aðfarir kannast ég við á mínu heimili og þá er eins gott að fara varlega og vera ekki fyrir því annars gæti óvart borist á mig galdraefni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

2/12/06 02:01

Nermal

Bara skafa allt hárið af. Þá er ekkert grátt. Allaveganna ekki á höfðinu...

2/12/06 02:02

C2H5OH

Ég get útvegað efni sem er að virka 100% á móti öldrun. Svínvirkar.

2/12/06 02:02

Vladimir Fuckov

Vjer höfum þetta á bak við eyrað ef gráu hárunum fjölgar, það er gott að vita af þessu. Oss til nokkurrar undrunar höfum vjer þó einungis fundið tvö það sem af er ævi vorri. Samkvæmt forsetaembættisstaðli PRSTHGR-AC-67875-2/f um hárgránun eru tvö grá hár eigi nægjanlegt tilefni til svona róttækra aðgerða.

2/12/06 03:00

Rýtinga Ræningjadóttir

Ég litaði nú einu sinni hárið á mér grátt, og mér fannst það voða flott.

Ég mun samt ekkert verða gráhærð, held ég. Langamma mín er komin vel á tíræðisaldur, og er ennþá með kolsvart hár.

2/12/06 03:00

Tina St.Sebastian

Mér er slétt sama hvort ég grána eður ei. Haddur minn er náttúrulega músargrábrúnn, og því ávallt litaður. Einhver hélt því fram að óhófleg litun ylli ótímabærri gránun, en hvaða máli skiptir það ef hárið er alltaf litað hvort eð er?

2/12/06 03:01

Hvæsi

Fyrst gráu hárin eru örfá, Er ekki mun fljótlegra að plokka þau bara úr ?

Þetta er agalega mikil vinna.

2/12/06 04:01

Hakuchi

Ertu viss um að hún langamma liti ekki bara á sér hárið Rýtinga mín?

Mér leiðist að fara í kynjahosur en ég hef tekið eftir því að konur virðast nær undantekningalaust lita burt grátt hár (karlar líka en hlutfallslega talsvert minna). Það þykir mér miður. Gráhærðar konur eru engu síður 'virðulegri' en karlar með grátt hár. Ég lít alltaf upp til kvenna sem þora að ganga gegn þeim sterka tískuungdómsdýrkunarfasistastraum og láta bara hárið halda sínum náttúrulega lit. Það sýnir karakter.

Það er alltaf jafn fyndið (og svolítið sorglegt) að sjá eldri hjón, þar sem karlinn er orðinn nær hvíthærður en konan með jafn sterkan lit í hárinu og tvítug kona.

2/12/06 05:01

Blástakkur

Afi minn er orðinn 78 ára og hann er farinn fá nokkur grá hár hér og þar.

Annars hélt ég fyrst að þetta væri uppskriftin að Botox en ekki háralitunarmeðal.

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.