— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Pistlingur - 9/12/05
Ökuskírteini: EKKI prófskírteini!

Þetta bleika þarna... það er traustsyfirlýsing

Þegar ég fékk ökuskírteinið mitt fyrir margt löngu síðan var ég óskaplega stolt. Eftir marga skriflega og verklega ökutíma, að ógleymdum skriflegum og verklegum prófum, var ég loksins komin með ökupróf! Víhííí! Ég mátti keyra bíl!

Ég held að þarna sé komin grundvallarhugsanavillan í umferðar(ó)menningunni okkar. Ökuskírteinið er ekki bevís upp á það að maður kunni að keyra. Ekki frekar en skotvopnaleyfi er bevís upp á að maður kunni að skjóta.

Ég ætla rétt að vona að enginn fái leyfi fyrir skotvopni ef hann hefur lýst því yfir að hann hafi gaman af að veifa hlaðinni byssu fyrir framan fólk. „Svona aðeins til að stríða, ha!“
Á sama hátt vona ég að enginn fái ökuskírteini sem lýsir því yfir að hann hlakki til að fara í kappakstur á vegum úti. Það er rétt eins og að veifa hlaðinni byssu fyrir framan fólk. Maður ætlar ekki að skjóta, en það getur óvart hlaupið skot úr byssunni.

Sá sem afhendir nýbökuðum ökumanni bleika skírteinið, hann er í raun að segja: „Ég treysti þér, prívat og persónulega, til að haga þér eins og maður í umferðinni. Ég treysti þér fyrir lífi og limum ástvina minna sem gætu verið á sömu slóðum og þú.“

Ímyndið ykkur að þið séuð í þeirri stöðu að setja undirskriftina ykkar á öll ný ökuskírteini. Horfið á myndina á hverju skírteini fyrir sig og hugsið um möguleikann á því að akkúrat þessi ökumaður eigi eftir að verða valdur að dauða einhvers sem ykkur þykir vænt um. Er ekki svolítið erfiðara að skrifa undir núna?

   (11 af 32)  
9/12/05 19:01

Grámann í Garðshorni

Mæl þú manna heilust Hexia !

9/12/05 19:01

Offari

Ég ætla ekki að skrifa undir láttu einhvern annan gera það.

9/12/05 19:01

Tigra

Úff.
Þetta vegur vissulega þungt Hexia.

9/12/05 19:01

Ívar Sívertsen

Ég treysti sjálfum mér alveg til að keyra eins og maður... bara klikkaður maður... en ég get líka keyrt eins og gamalmenni... þá verður líklega keyrt aftan á mig...
En svona án gríns þá finnst mér að það þurfti að endurskoða frá a-ö alla löggjöf varðandi ökuréttindi. Maður þarf að taka örfáa tíma á vörubíl, rútu og trailer til að mega keyra svoleiðis tæki. Mér finnst það (svona eftir að hafa reynt þetta) vera alger skandall!

9/12/05 19:01

Gvendur Skrítni

Allir sem keyra hraðar en maður sjálfur eru brjálæðingar.
Allir sem keyra hægar en maður sjálfur eru heimsk fífl.
Svo ákveður maður sinn eigin hraða í samræmi við hvort maður vill vera umkringdur brjálæðingum eða fólki sem er heimskara en maður sjálfur.

9/12/05 19:01

Húmbaba

Ég vil tvímælalaust vera umkringdur fólki sem er heimskara en ég, þá sjaldan sem það gerist.

9/12/05 19:01

B. Ewing

Ívar - Þú hefur líklega fengið meiraprófið á undan mér. Í fyrra var þessu öllu breytt. (sem betur fer "slapp" ég líka, hehe en hvað um það). nú eru teknir lágmark 10 verklegir tímar á vörubíl og annað eins á leigu- og langferðabíl. Er námið orðið um 350-400þús. krónur. Það ætti að fæla frá þá sem fara í þetta "til að vera með".

9/12/05 19:01

Heiðglyrnir

Þörf hugleiðing Hexia...Setja allt heila málið í stóra endurskoðun...Hugsanlega hækka aldur, auka við þjálfunartíma í umferð, þá má bæta við aksturstíma utan höfuðborgarsvæðis. Þessi mál eru ekki í lagi eins og þeim er fyrirkomið í dag.

9/12/05 19:01

Gaz

Það þarf að stoppa alla Kelloggs ökumenn. Þið vitið hvað ég meina. Einstaklingar sem keyra eins og þeir hafi fundið ökuskírteinið í KornFlakes pakka.

9/12/05 19:01

Ívar Sívertsen

SNILLDAR HUGTAK GAZ! Kelloggs ökumenn...
Ökuskóli Kelloggs góðan dag...

9/12/05 19:02

Rýtinga Ræningjadóttir

ég held samt að í flestum tilfellum eigi ótti bílstjórans um eigin æru að sjá til þess að hann keyri a.m.k. eins og hann hafi e-ð á milli eyrnanna, þ.e. að hann reyni að halda sér og sínum öryggis-megin á meðan hann er undir stýri. Hinsvegar sýnir hegðun fólks í umferðinni fram á það að það virðast flestir vera í sjálfs- eða jafnvel fjöldamorðshugleiðingum.

9/12/05 20:00

Jóakim Aðalönd

Það á að vera semíkomma á eftir ökuskírteini; ekki tvípunktur. Athugaðu það Hexía mín...

Þó er þetta sannarlega fínn pistlingur hjá þér og er ég sammála hverju orði. Ætli vinur minn Gvendur hafi svo ekki hitt naglann á svarhöfuðið?

9/12/05 20:01

krumpa

Góður pistill - verð samt að viðurkenna að þegar ég er ein í bíl þá á ég til að hækka vel í græjunum og gefa vel inn.....munurinn á mér og þessum sautján ára sem gera eins er svo sá að ég er ekki sautján og þekki núorðið - vonandi - mín takmörk og akstursgetu....
Finnst annars að enginn eigi að keyra yfirleitt...

9/12/05 20:01

Tigra

Eigum við ekki bara að taka aftur upp hestvagna?

9/12/05 21:00

Jarmi

Keeeeeeellingar!

Brrrrmmmmbrrrrmmmmmbrrrrrmmmm.

9/12/05 21:02

Nermal

Ég er nú búinn að hafa ökuleyfi í all nokkur ár, og sennilega búinn að aka yfir 200 þús kílómetra og hef aldrei valdið tjóni. Eitt er líka undarlegt hér á landi. Ef menn missa prófið t.d vegna hraðaksturs þá fá þeir leyfið kanski aftur eftir 3 mánuði... og það jafnvel aftur og aftur... Menn sem missa prófið t.d oftar en 4 - 5 sinnum ættu að missa prófið VARANLEGA !!

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.