— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Pistlingur - 31/10/04
Þori, get - en vil ekki!

Amma mín blessunin, hún Draumþrúður de Trix, sagði mér frá því um daginn að á kvennafrídaginn fyrir 30 árum hefði hún farið heim að baka smákökur. Á morgun ætla ég að taka ömmu mína til fyrirmyndar, en sleppa þessu með smákökurnar.

Ég vinn á vinnustað þar sem konur eru í yfirgnæfandi meirihluta. Flestar eru um það bil kynslóðinni eldri en ég og muna vel kvennabaráttuna sem bar hvað hæst fyrir um það bil 30 árum. Ég segi kvennabaráttuna, því í mínum augum var ekki um jafnréttisbaráttu að ræða á þeim tíma.

Vinnustað mínum verður lokað kl. 14:08 á morgun eins og svo mörgum öðrum. Einn af hinum fáu karlmönnum sem vinnur þar mun nýta sér tækifærið og fara að sækja börnin í leikskóla og skóla, svo konan hans komist nú niður í bæ. Gaman fyrir hann. Þegar ég tjáði samstarfsfólki mínu að það yrði í mínum verkahring að sækja börnin mín, var mér tjáð að það ætti að vera hlutverk Ívars. Ég ætti að vera í allsherjarfríi. Ég benti þeim á þá staðreynd að líklega yrði nú allt meira og minna brjálað ef allir strætisvagnabílstjórar leggðu niður störf til að sækja börnin, svo konur þeirra gætu farið niður á Lækjartorg. Hvernig ættu allar konurnar að komast niður í bæ ef engir væru strætóarnir? Á bíl? Hvað með bílastæði? Og þyrftu pabbarnir ekki að hafa bílinn til að sækja börnin? Samstarfskonur mínar urðu kjaftstopp.

Þetta litla dæmi mitt má heimfæra á mjög margar atvinnugreinar. Ef allir pabbar fara úr vinnunni til að sinna börnunum og allar mömmur fara niður á Lækjartorg, þá er allt lamað. Tilgangurinn með kvennafrídeginum er þar með horfinn niður um niðurfallið, enda fá þá kallarnir jafnmikið frí frá vinnunni sinni og við kellingarnar. Það verður ekkert um það að kallarnir vinni sín 100%. Og í alvöru, er einhver svo barnalegur að halda að einn kvennafrídagur leiðrétti launaseðla kvenna? Góðir hlutir gerast hægt.

Þó að enn eigi eftir að lagfæra sumt í jafnréttinu okkar, þá hefur mjög margt breyst á undanförnum 30 árum. Það þykir ekki lengur tiltökumál þó pabbar eða afar sæki börn í skóla og leikskóla. Það þykir ekki tiltökumál þó þeir skeini börnunum, snýti þeim, setji útgubbuð sængurver í þvottavél og eldi hollan og góðan heimilismat. Fyrir 30 árum voru karlar bjargarlausir þegar þeim var dembt í þetta hlutverk. Núna er þetta daglegt brauð og enginn lítur niður á karlmenn þó þeir sinni heimilisverkunum. Við þurfum engan 24. október lengur til að segja köllunum að hjálpa til á heimilinu. Þeir gera það flestir hvort eð er, sumir meira að segja alveg án þess að það þurfi að hnippa í þá.

Jafnrétti - og þar með talið launajafnrétti - þarf að innræta á heimilunum. Við erum enn föst í þeirri klisju að stelpur séu prúðar og það sé allt í lagi að strákar séu með svolítil læti því þetta séu nú einusinni strákar.
Ég var einhverntíma að býsnast yfir því hvað dætur mínar, þær Prímadonna og Díva, ættu það til að vera erfiðar. Alltaf að slást og rífast og almennt að vera með „stráka“pör. Kunningjakona mín (sem á strák) hneykslaðist ótrúlega á mér, ég las það á milli línanna að henni þætti ég vera óhæfur uppalandi. Hún sagði orðrétt „Hexia þú ert alltaf að tala um hvað það sé erfitt að vera með börn - og þú ert með stelpur!“
Hvers konar jafnrétti getum við búist við að ná fram í þjóðfélaginu ef þetta er viðhorfið?

Ég mun taka mér frí kl. 14:08 á morgun til að sýna samstöðu með þeim konum sem eiga enn í basli með að fá jafnmikið útborgað og karlmennirnir. En þar með endar mín samstaða. Ég ætla ekki að fara að taka þátt í hysterískum kellingafundi niðri á Lækjartorgi. Ég ætla ekki að fara að láta eins og jafnréttisbaráttan hafi litlu sem engu skilað. Það er ekki nema rétt rúm öld síðan konur fengu að kjósa - ef þær voru orðnar 40 ára! Nú mega allar konur kjósa og þær eru meira að segja kjörgengar. Það þýðir samt ekki að allar konur þurfi að fara í framboð, bara af því að þær mega það! Stundum finnst mér umræðan vera farin að snúast um það að konur eigi að gera eitthvað, bara af því að þær mega það. Í hverju er þá valið fólgið?

Ég vel að vera heima á morgun og eiga góða stund með dætrunum mínum. Þær eiga það skilið að hitta mömmu sína stundum, enda er einn slæmur fylgikvilli jafnréttisbaráttunnar sá að konur (og líka menn) hafa ekki lengur það val að vera heimavinnandi. Laun einnar fyrirvinnu duga bara ekki lengur.

Munum að góðir hlutir gerast hægt.

   (14 af 32)  
31/10/04 23:01

Tigra

Ég er hjartanlega sammála þér.
Mér finnst t.d. lögin um að blabla margar konur VERÐI að vera á þingi.. mjög röng!
Konur bjóða sig fram ef þær vilja.. það neyðir þær enginn til þess.. en bannar það ekki heldur.
Þær virðast bara ekki hafa sama áhugann.
Auk þess finnst mér þessi lög vera að segja að konur geti ekki komist á þing nema með tilstilli þessara laga.
Ef konan er nógu hæf, er hún kosin.
Lögin ættu að vera óþörf.

31/10/04 23:01

Hexia de Trix

Einmitt!

31/10/04 23:01

Hundslappadrífa í neðra

Reyndar finnst mér það að allir myndu þurfa að leggja niður vinnu myndi sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaðinum.

31/10/04 23:01

Hexia de Trix

Eins og ég sagði: Þá er tilgangurinn farinn, þetta með að konur vinni aðeins hlutfallið af vinnu karla í samhengi við launamuninn.

31/10/04 23:01

Hundslappadrífa í neðra

Er ekki tilgangurinn líka að sýna fram á að það að konur hætti vinnu hafi áhrif? (Vísa samt í svar mitt á Kvennafrídagurinn þræðinum, tel það þinn fulla rétt að VELJA að vera með krakkana, gott fyrir þá líka að sjá gönguna, skelltu þér bara með þau með þér:)

31/10/04 23:01

Offari

Konur hafa sömu möguleika og karlar:
Til að komast á þing.
Til að komast í stjórnunarstöður.
Til Náms.
Til að vera heimavinnandi.
Vantar bara að þær geri það!

31/10/04 23:01

Hundslappadrífa í neðra

Konur hafa sömu HÆFILEIKA til ofangreinds, en ekki alltaf möguleika. Loglega hafa þær sömu möguleika, en raunin er að þær fá oft ekki sömu laun, ekki vegna þess að þær vilji það ekki, heldur vegna launaleyndar. Einnig er því miður til staðar samfélagsfordómar sem sjást best í því að VR sá ástæðu til nýlegrar auglýsingar.

Og þetta með að vera heimavinnandi, held að enginn hafi jafna möguleika til þess í tveggjafyrirvinnu samfélagi nútímans.

31/10/04 23:01

Hexia de Trix

Offari: Þær gera það. Nema að vera heimavinnandi. Það þarf að vera vel stæð fjölskylda sem hefur efni á slíkum munaði.

Hundslappadrífa: Mér dettur ekki í hug að fara með börnin mín í þvöguna í miðbæ Reykjavíkur á morgun. Að fara þannig með lítil börn ætti að varða við lög. Ég vil að börnin mín geti verið nálægt klósetti, mat, drykk, rólegheitum og mjúkum sófa til að hvíla sig í.

31/10/04 23:01

Hundslappadrífa í neðra

Ég er móðir líka, rök þín fyrir heimaveru eru fullgild. Færð hvorteð að sjá gönguna í kvöldfréttunum.

31/10/04 23:01

Hexia de Trix

Mér er slétt sama hvort ég sjái gönguna eða ekki. Ég hef oft séð margar kellingar samankomnar. Mér finnst þessi samkoma niðri í bæ bara vera húmbúkk, ef ég má orða það þannig. Það að fara heim kl. 14:08 er feykinógu sterk yfirlýsing. Það fer alvarlega í taugarnar á mér hvað þarf alltaf að gera alla hluti „grand“!

Minna er meira.

31/10/04 23:01

Hundslappadrífa í neðra

Jamm.

31/10/04 23:01

feministi

Hvaða lög ertu að tala um Tigra mín?

Ég ætla að ganga út á morgun, vinnustaður minn gefur ekki frí. Ég er ekki að ganga út til að reka Hexíu eða neinn á þing eða í einhvert starf sem hún kærir sig um. Ég er að ganga út ásamt fjölda annara kvenna til að vekja athygli á því að þrátt fyrir að margt hafi áunnist er enn langt í land.

31/10/04 23:01

Nermal

Ég held varla að þessar aðgerðir skili mikklu. Ég er t.d einn af þessum dæmigerðu láglaunamönnum, held að konurnar sem vinna með mér séu bara á mjög hliðstæðum launum. En auðvitað ætti ekki að vera til kynbundinn launamunur árið 2005.

31/10/04 23:01

Galdrameistarinn

Hexía. Ég tek ofan fyrir þér og þessum snilldarpistli þínum. Gæti ekki verið þér meira sammála.

31/10/04 23:02

Jóakim Aðalönd

Sammála Galdra. Frú Hraðrita ætlar niður í bæ, en ég læt Jón Reiknings sinna ritarastörfunum á meðan. Það þarf varla að taka fram að frú Hraðrita verður ekki á launum niðri í bæ.

1/11/04 00:00

Ívar Sívertsen

En hvernig verður þar, ætli allar þessar kellingar fái nokkuð laun fyrir þann tíma sem eftir er dagsins? Og ef ekki hefðu þær þá ekki átt að hætta klukkan hálf tólf til að vera búnar að vinna fyrir launum til jafns við karlmenn? En þá hefðu þær ekki fengið borgað til nema hálf tólf... og þá hefðu þær átt að hætta klukkan tíu til að ... æ þið fattið hvað ég er að fara. En svo er annað, fæ ég þá ekki afslátt í leikskólanum fyrir tapaðar stundir þar? Og í heilsdagsskólanum?

1/11/04 00:01

Grýta

Það er ekkert að því Hexia að þú verðir heima með dætrum þínum. Samvera foreldra og barna er mikilvæg.
Það eiga ekki allar konur heimangengt í dag. Fjöldi kvenna mun mæta niðrí bæ til að minna á að fullt jafnrétti er ekki komið á, á milli kynja.
Við mætum til að tryggja dætrum þessa lands bjartari og öruggari framtíð.

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.