— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Pistlingur - 2/12/04
Kaffifnykur

Um þau ósköp að geta ekki drukkið kaffi þegar samfélagið ætlast til þess - og um kaffifýluna.

Eins og margir vita þá er kaffidrykkja landlæg á Íslandi rétt eins og í Baggalútíu. Reyndar enn meira á Íslandi en í Baggalútíu, því í Baggalútíu virðist ákavítið vera drukkið eins og kaffið er á Íslandi.

Þegar ég er stödd á Íslandi og þarf að "sósíalisera" eins og það kallast á ekki-svo-góðri-íslensku, þá er mér síknt og heilagt boðið upp á kaffi. Þeir sem þekkja mig hvað best eru reyndar hættir því og sjá til þess að ég fái koffínið í öðru formi, nefnilega með drykkju á auðvaldsdrykknum Coca-Cola.

Mér verður nefnilega illt í maganum af kaffi. Einstaka sinnum get ég drukkið svo sem eins og einn bolla, og þá aðeins með dágóðum skammti af mjólk út í. Drekki ég meira, líður mér eins og ég hafi gleypt tvo poka af sementi og skolað niður með einu vatnsglasi.

Eins og gefur að skilja er þetta alvarleg fötlun þegar maður er hluti af eins kaffiþyrstu samfélagi og Ísland er. Hvar sem maður rekur inn nefið mætir manni kaffi-ilmur, eða öllu heldur kaffifnykur. Mér finnst nefnilega kaffilyktin ekkert sérlega góð. Jú, hún getur verið ljúf ef hún er ekki sterk, og loðir ekki lengi við. En verði kaffilyktin sterk, þá finnst mér hún jafnmikil mengun og lyktin frá sígarettureykingum.

Til að kóróna vandamálið, þá er ég gift einum mesta kaffisvelg þjóðarinnar, Ívari Sívertsen sem þið þekkið væntanlega flest. Ívari þykir kaffisopinn ekki aðeins góður, heldur leggur hann metnað sinn í að hafa kaffið sem sterkast. Og ég sem var alin upp á heimili þar sem kaffið er í þynnra lagi. Ojæja.

Sambúðin við Ívar og kaffið hefur gengið nokkuð stóráfallalaust fyrir sig hingað til. En nú eru blikur á lofti. Ívar hefur nefnilega tekið upp á þeim óskunda að vilja fara eldsnemma á fætur til að komast í kjötheima áður en allir vakna þar á bæ. Hann hefur bitið það í sig að í eina viku á þriggja vikna fresti þurfi hann endilega að vera fyrstur á fætur í kjötheimum. Til þess að honum takist að halda sér vakandi á ferðalaginu yfir í kjötheima, þarf hann að fá koffínskammt. Stóran koffínskammt.

Þannig æxlaðist það semsagt, að þar sem ég ligg í rúminu mínu einn morguninn og er hvorki stödd í Baggalútíu né kjötheimum - heldur Draumalandinu - að ég er vakin á mjög svo óþyrmilegan hátt. Ekki var það hann Ívar minn sem ýtti við mér (né heldur kveikti hann loftljósið eins og gerðist einu sinni) og ekki var það heldur önnur hvor dóttirin sem hoppaði á mér. Nei, það var lykt. Alveg hrikalega vond lykt. Kaffilykt!

Allir sem einhvern tíma hafa horft á teiknimyndir vita hvernig lyktin ferðast frá upprunastað sínum og leitar uppi nef sem þarf að vekja. Þetta var þannig lykt. Hún hafði form. Ég gat séð hana, og næstum þreifað á henni.

Blessaður kallinn minn hann Ívar hafði þá hellt upp á svo sterkt og þykkt kaffi, að ef það hefði verið einum vatnsdropanum færra í kaffinu þá hefði mixtúran verið þurrari en sjálf Sahara-eyðimörkin. Til að bæta gráu ofan á kaffibrúnsvart, þá hafði slatti af kaffinu hellst útfyrir og á eldavélarhelluna (Ívar notar svokallaða "mittiskönnu" til að matreiða kaffið sitt). Brennt, sterkt kaffi hafði semsagt verið orsökin fyrir þessari fýlu sem lagðist yfir íbúðina klukkan 5 um morguninn. Mér var ekki skemmt.

Mér var heldur ekki skemmt þegar ég uppgötvaði að ég gat ómögulega sofnað aftur (það var greinilega stór skammtur af koffíni í þessari stækju) og enn síður var mér skemmt þegar mér fór að verða illt í maganum. Alvarlega illt í maganum.

Ég ætla að fara á fund Þorgríms Þráinssonar eftir helgi og biðja hann að láta banna kaffi rétt eins og reykingar. Þetta er allt saman eitur.

   (24 af 32)  
2/12/04 04:02

Órækja

Ég er næstum því sammála öllu því sem þú segir, sérstaklega um Ívar.
Þessi kaffifíkn íslendinga er merkileg og maður er litinn hornauga þegar maður afþakkar bolla af baunasúpu með mjólk. Alltaf gaman að Íslendingum.

2/12/04 04:02

Barbapabbi

Þið hjónin eruð á glapstigum, hann sem kaffifíkill og þú meðvirk ruglinu í afneitun... hættið meðan þið getið og snúið ykkur að ÁKAVÍTI af því leggur ljúfan angan og sætasti svefn sé nóg drukkið... Skál!!!

2/12/04 04:02

Hexia de Trix

Já ég held ég hendi bara öllu kaffinu út og setji ákavíti í staðinn. Ívar getur þambað það á meðan ég drekk kók. Og allir verða sáttir...

2/12/04 05:00

Heiðglyrnir

Ást okkar og samúð er öll þín megin í þessu máli fröken Hexia de Trix, Riddarinn á það til að drekka kaffi þannig að út um eyrun flæði, en drekkur ekki kaffi heima, aldrei.! Þó er hellt upp á kaffi fyrir gesti sem birtast og eru í kaffinauð. Þetta er góð regla og kemur í veg fyrir ánetjun.

2/12/04 05:00

B. Ewing

Sammála þessu flestu sýnist mér, annað hefur ekki reynt á að svo stöddu..

Að vera boðið uppá kaffi er landlæg plága, sá sem býður kaffi einfaldlega verður að hafa fleiri valkosti en þessar brenndu baunir. Sýrópsblandan kóka-kóla eða nærri hvaða kóla sem er þarf LÍKA að vera í boði, ÞETTA ER BARA ÓSANNGJARNT! Allir sem koma inní sjoppu eða í heimsókn eða í boð eða á fund eða í ferð þá er alltaf boðið KAFFI ekkert kók, bara kaffi!
"Þú getur líka fengið þér vatn að drekka..." er algeng afsökun... "eða mjólk.." (sem er þá búin að standa í borði í 2 daga hið minnsta)

Það vantar svona pakkakók. Eins og pakkasúpur eru.

Þú tekur glas af vatni, hellir duftinu útí, hrærir, setur kolsýrutöfluna útí, bíður í 30 sekúndur og þá er kókið tilbúið!!
Takk fyrir.

2/12/04 05:00

Hexia de Trix

Jahérna hér, ekki grunaði mig að ég ætti nokkur þjáningarsystkin, hvað þá svona mörg!
Annars má við þetta bæta að ég hef í kjötheimastarfi mínu þurft að sækja ýmsa fundi og námskeið undanfarið. Mér til mikillar ánægju hefur einn námskeiðshaldara ávallt boðið upp á almennilegt kók samhliða kaffisullinu. Megi aðrir taka sér þetta til fyrirmyndar!

2/12/04 05:00

Órækja

Megi aðrir taka sér vatnsveitendur til fyrirmyndar. Ekki eru allir jafn háðir brasilískum baunasafa og Hexía og hennar viðhengi. Vatn á diskinn minn.

2/12/04 05:00

Jóakim Aðalönd

Sjá félaxrit mitt hér ofan...

2/12/04 05:00

Ívar Sívertsen

HEY! Mér finnst kaffi gott og ég er kaffikeri eins og einhver sagði! Ég er kræsinn á hvernig kaffi ég læt oní mig! Espresso, Capuccino, Latte. Þannig vil ég hafa mitt kaffi. Svo ég geri nú grein fyrir því hvers vegna ég þarf kaffi svona snemma morguns á þriggja vikna fresti þá kemur það til af því að ég er atvinnubílstjóri og þarf að vakna fyrir allar aldir eina af hverjum þremur vikum.
<img src="http://www.mikkivefur.is/hallur/uniform.jpg>
Til þess að ég haldist vakandi frá 05.00 til 13.00 þá er nauðsynlegt að fá eitthvað í kroppinn sem heldur manni vakandi. Annars mynduð þið lesa um örlög mín í blöðunum!

En af hverju ég geri mér svona kaffi? Jú, það er sterkt og ég tek með mér einn svona hitaþolinn bolla með mér í vinnuna. Ef kaffið væri bara svona uppáhellingur eins og langflest heimili bjóða upp á þá þyrfti ég að hafa með mér stóran brúsa! Kaffið sem boðið er upp á á mínum vinnustað lítur út eins og Irish Coffee eftir að búið er að setja Whiskeyið út í... en það er ekket Whiskey í því! Eins er með uppeldiskaffi Hexiu, hjá foreldrum hennar -Lexiu og Motor de Trix. Ég hins vegar er alinn upp við kaffi sem jafnast á við góða smurolíu. Hjá foreldrum mínum, Gömlu og Gamla Sívertsen hefur alltaf verið vonlaust að sjá í gegnum kaffið og þannig vil ég hafa það.

Hvað kaffiilminn varðar þá get ég svo sem fallist á það að það kemur ekkert sérstök lykt þegar kaffið sullast óvart á heita plötuna en í þetta eina sinn sem Hexia hefur orðið fyrir þessu -að því er hún vill halda fram- áfalli þá hafði gleymst að opna gluggann á svefnherberginu.

Þetta er mín morgunfíkn. Ég fæ mér kaffi. Sumir reykja og aðrir fá sér Gingseng. Ég fæ mér kaffi. Og fariði nú að gera eitthvað uppbyggilegra! t.d. að lesa önnur fjelaxrit!

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.