— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Pistlingur - 5/12/06
Hafnfirskar mállýskur

Á Vísinda-akademíunni er þráður um hafnfirskar mállýskur. Ég var á góðri leið með að bæta eftirfarandi við þann þráð þegar það rann upp fyrir mér að þetta myndi sóma sér betur sem félagsrit.

[Á þræðinum Hafnfirskar mállýskur útskýrði ég hið fræga, hafnfirska iiiiii eftir bestu getu og deildi því jafnframt með umheiminum að í Hafnarfirði heitir "vegasalt" ramba eða rambelta, og sögnin fyrir að "vega salt" er að ramba. Ég held áfram að deila kenjum hafnfirskunnar með umheiminum, af því mér þykir svo gaman að hafa fundið eitthvert efni til að besservisserast um. Hér fylgja sem sagt fleiri orðskýringar fyrir þá sem hugsanlega slysast til að fara inn í Hafnarfjörð (Já, það heitir "inn í Hafnarfjörð", ekki "til Hafnarfjarðar")]

„Tjörnin“ í Hafnarfirði er ekki tjörn. Þetta er Lækurinn.

Norðurbærinn, Suðurbærinn, Vesturbærinn og Miðbærinn eru til í Hafnarfirði. Austurbærinn hefur aldrei í Fjörðinn komið.
Það sem aðkomufólki finnst nærtækast að kalla "Austurbæ" heitir Setbergið, eða hugsanlega Ásland eða Vellirnir. Ekki Austurbær - aldrei Austurbær!

Þegar innfæddur Hafnfirðingur er staddur í Hafnarfirði og talar um að "fara niður í bæ" þá er hann að tala um miðbæ Hafnarfjarðar. "Niður í bæ" þýðir aldrei miðbær Reykjavíkur nema viðkomandi Hafnfirðingur sé staddur í Reykjavík. Og jafnvel ekki einu sinni þá.

Hafnfirðingar fara ekki "til Reykjavíkur", þeir fara "inn í Reykjavík" eða bara "inneftir" - sömuleiðis er til eitthvað sem heitir "úteftir", ég er bara búin að gleyma hvaða átt það er. Það er líklega því um að kenna að ég fór að stunda nám fyrir utan Hafnarfjörð um 16 ára aldurinn og hefur hafnfirskan mín því miður skolast aðeins til.

„Kaupfélagsblokkin“ er eitt helsta kennileiti bæjarins, gott ef hún var ekki hæsta bygging bæjarins þar til stóra blokkin kom á Hvaleyrarholtið. Fyrir þá sem eru að leita að Kaupfélagsblokkinni, þá bendi ég hinum sömu að finna verslunina Samkaup í Norðurbænum. Stóra blokkin fyrir aftan Samkaup er Kaupfélagsblokkin.

Fyrir nokkrum árum ákvað einhver að viðbótin við Setbergshverfið skyldi hafa götunöfn sem enda á -hlíð. Aðkomufólk ætti því að hugsa sig tvisvar um áður en það rýkur inn í Reykjavík til að leita að Hlíðunum.

Í Hafnarfirði þýðir „Skúli rafvirki“ ekki bara karakter sem Laddi lék. Hafnfirðingar eiga nefnilega sinn eigin Skúla rafvirkja, og hann rekur rafvöruverslun á horni Smyrlahrauns og Álfaskeiðs.

Og síðast en ekki síst: Hellisgerði er ekki bara frasi úr jólalagi með Glámi og Skrám. Það er lystigarður okkar Hafnfirðinga, sómi okkar, sverð og skjöldur. Eða... já.

Ég læt þetta gott heita í bili en læt ykkur kannski vita ef ég man eftir fleiri fróðleiksmolum um þetta efni. Góðar stundir.

   (25 af 32)  
1/12/04 10:02

SlipknotFan13

,,Mæti ég hýrum Hafnfirðing,
í Hellisgerði.
Aftan,
framan,
og allt um kring!
Ég er á verði! Haha!"
-Úr Hinum Ómótstæðilegu eftir hafnfirsku stórsveitina Káta Pilta.

1/12/04 10:02

Hexia de Trix

Nei reyndar orti Flosi þetta í hagyrðingahorninu á einhverjum millibyggða-spurningaþætti sem Ómar Ragnarson var með á 9. áratugnum. Og síðasta línan er held ég "Er ég á verði"
Leitt að þurfa að leiðrétta þig... *knúsar Slip*

1/12/04 10:02

SlipknotFan13

Nú, Flosi flutti þetta í það minnsta í Hellisgerði í kvikmynd þeirra Kátra Pilta sem frumsýnd var í þættinum Popp & Kók einhverntíma um miðjan níunda áratuginn.

1/12/04 10:02

Skabbi skrumari

Magnað að þeir skuli segja inn í Hafnarfjörð og líka inn í Reykjavík... en allavega takk fyrir upplýsingarnar...

1/12/04 10:02

Hexia de Trix

Ja, reyndar segja Hafnfirðingarnir sjálfir kannski bara "heim" *glottir*

1/12/04 10:02

Limbri

1/12/04 10:02

Goggurinn

Furðulegir þessir Hafnfirðingar...

1/12/04 11:00

Ívar Sívertsen

Segðu... ég er að bilast á þessu öllu saman... maður má ekki misstíga sig í málinu - þá verður maður fyrir einelti!

1/12/04 11:01

Ívar Sívertsen

Ég held svei mér að Frelli sé Hafnfirðingur! Hann hefur ekkert rætt um mikilfengleik sinn hér...

1/12/04 11:01

Hakuchi

Fróðlegur pistill um þessar undarlegu verur.

1/12/04 11:02

Tigra

Hversvegna haldiði að hafnfirðingabrandararnir séu komnir?

1/12/04 12:01

Albert Yggarz

Eina Hafnfyrskamálýskan sem ég man eftir í svipinn er þýska.

1/12/04 12:01

Ívar Sívertsen

þú segir nokkuð

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.