— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Pistlingur - 3/11/03
Bókmenntir og ekki bókmenntir

Sumir vilja meina að aðeins "hámenningarlegar bækur" geti talist bókmenntir. Ég er ekki sammála.

Það hefur alltaf farið rækilega í taugarnar á mér hvað sumt fólk lítur niður á það sem þeir kalla stundum "lágbókmenntir" eða jafnvel "sorpbókmenntir". Að flokka bókmenntir eftir því hversu "fínar" þær þykja (þá aðallega í leiðinlegum kaffiboðum hjá (h)eldri frænkum) finnst mér vera argasta snobb.

Víst er að sumar bækur eru betur skrifaðar eða bjóða upp á meiri túlkun og allt svoleiðis dótarí. En bækur sem eru hreinlega skrifaðar með afþreyingu í huga, og eru alls ekki ætlaðar til að varpa nýju ljósi á mannlífið eða leysa lífsgátuna, þær eru líka ágætis bókmenntir. Bara öðruvísi.

Þessar afþreyingarbókmenntir eru nefnilega ágætar til síns brúks: Semsé til afþreyingar. Dæmi um ágætis afþreyingarbókmenntir eru Ísfólkið og Rauðu ástarsögurnar. Sömuleiðis Morgan Kane, bækur Birgittu Halldórs og Hammond Innes. Það er nefnilega alveg drepleiðinlegt að lesa einhverjar verðlaunabækur út í eitt. Það væri eins og að hafa steik á hverjum degi. Stundum langar mann bara í samloku...

Einu sinni þegar ég var að læra enskar bókmenntir við virðulega menntastofnun, þá las ég yfir mig af "góðum" bókmenntum. Þegar leið að prófum keypti ég mér bók eftir uppáhaldshöfundinn minn, Terry Pratchett, og geymdi hana sem gulrót yfir prófatörnina. Ég hlakkaði alveg rosalega til að lesa hana þegar prófin væru búin. En vitiði hvað gerðist? Eftir síðasta prófið gat ég ekki hugsað mér að lesa eitt einasta orð á ensku. Ekki einusinni Pratchett... ég hélt ég myndi fara að gráta.

Þá kom Ísfólkið mér til bjargar. Ég las allar 47 bækurnar í einum rykk (í guðmávitahvaðasta skipti) og viti menn - ég var læknuð! Nú gat ég lesið Pratchett og var ósköp kát.

Undanfarið árið hef ég ósköp lítið getað lesið annað en rauðu ástarsögurnar og soldið af Ísfólkinu. Einstaka aðrar bækur hafa fengið að fljóta með, t.d. bækur eftir Dan Brown og Arnald Indriðason. Þær teljast samt varla til "hámenningarlegra" bóka. Kannski er ég búin að lesa nóg af afþreyingu til að geta skellt mér í "heimsbókmenntir af hæsta klassa". Þangað til ætla ég að njóta þess að lesa "millistigsbækur" og pjúra afþreyingarbækur. Til þess eru þær!

Ég fæ mér kannski steik inn á milli allra samlokanna. En ekki samloku á milli allra steikanna, það er bara öfugsnúið.

   (28 af 32)  
3/11/03 06:02

Heiðglyrnir

Miss Trix, já, það er töluverður munur á gæða bókmentum og dægur bókmenntum, og ætti aldrei að
gera tilraun til að dæma þær saman.

3/11/03 06:02

Hexia de Trix

Það er bara svo sárt að vera dæmdur sem 2. flokks þjóðfélagsþegn ef maður viðurkennir lestur á Ísfólkinu. Ef betur er að gáð, er það ekkert verra en að horfa á James Bond. Myndir, það er að segja...

3/11/03 06:02

Heiðglyrnir

Trixy baby las allt ísfólkið eins og það lagði sig, vantaði eitthvað að lesa, og fyrir utan hrikalegan kynferðislegan pirring (unglingur) var það bara í góðu lagi, þó hefði þýðing mátt vera vandaðri og betri.

3/11/03 06:02

Hexia de Trix

Jú víst hefði þýðingin mátt vera betri, sem og prófarkalestur. Spurning um að þýða þetta bara upp á nýtt? [ljómar upp]

3/11/03 06:02

Heiðglyrnir

Væri dónalegt að spyrja miss Trix hvort ísfólkið hafi pirrað hana kynferðislega, ef það er dónalegt þá er Riddarin farin í felur um stundarsakir.

3/11/03 06:02

Hexia de Trix

Það fer nú eftir því hvaða merkingu þú leggur í hugtakið "pirring"...

3/11/03 07:00

Kuggz

"Dæmd sem 2. flokks þjóðfélagsþegn fyrir lestur á Ísfólkinu"... fröken, eruð þér stödd á einhverju hámenningarsvæði utan áhrifa hinnar vestrænu léttréttamenningar?

3/11/03 07:00

Nornin

Ég vill endilega fá þig í fóstsystkynalagið með okkur Þarfagreini. Við erum Discworld nörd!!!
Og ísfólkið rokkar!!! Erótík í hæsta gæðaflokki!! og galdur og spenna... allt sem Nornin vill.
*Ljómar upp og brosir hringinn*

3/11/03 07:00

Vímus

Ég er að lesa bókina Smá glæpir og morð.
Sögur úr glæpasmásagnakeppni Glæpafélagsins og Grandrokks. Andskoti hef ég það á tilfinningunni að einhver Baggalútsfíkillinn eigi þar hlut að máli

3/11/03 07:00

Tigra

Ég vil ekki hafa það að hér sé sett neitt út á ísfólkið! Gæðabókmenntir að mínu mati.. og Pratchett sömuleiðis!
Ég er alveg sammála þér með bækur, það er alltaf gott að lesa smá sér eingöngu til af þreyingar.

Höfum gaman! Lesum andrésblöð!

3/11/03 07:00

feministi

Eru ekki allar skáldsögur afþreying? Að vísu mis vel skrifaðar.

3/11/03 07:01

Ívar Sívertsen

já... eins og Önnubækur Ólafs Jóhanns... Höll MinningAnna, Slóð FiðrildAnna, Markaðstorg GuðAnna og SniglaveislanAnna... eða eitthvað

1/12/04 03:01

Skabbi skrumari

Manni langar bara að lesa ísfólkið eftir þessar lýsingar... salút... og Pratchet er snilld...

1/12/04 03:01

voff

Ég reyndi eitt sinn að lesa bók eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Held hún hafi heita Fyrirgefning syndanna. Nema hvað að skrudduskrattinn var svo ofboðaslega drepleiðinleg að eftir nokkrar blaðsíður langaði mig mest til að stinga úr mér augun til að koma í veg fyrir að ég myndi nokkurn tíma aftur slysast til að lesa verk Olafs Jóhanns Ólafssonar. Það er ljóst að hæfileikar þess mæta manns liggja einhvers staðar annars staðar en í því að smíða skáldverk. Ég held, svei mér þá, að "skáldgáfa" Ólafs Jóhanns sé stak í sama mengi og manngæska Adolf Eichmann, góðmennska Heinrich Himmler, barngæska Adolfs Hitlers, læknasiðferði Dr. Josef Mengele, siðferðiskennd Nicolai Ceaucescu Rúmeníuleiðtoga, Saddams Hussein Íraksforseta, Baby doc Duvalier á Haiti og dr. Roberts Mugabe og umburðarlyndi þeirra Pols Pots, Idi Amins, Mao formanns og Josefs Stalin.

1/12/04 04:00

litlanorn

heill svonefndum lágmenningarbókmenntum! þær hafa bjargað minni geðheilsu oftar en ekki. pratchett, arnaldur, ísfólkið, bridget jones..svo má lengi telja. ég vil benda þér á flottustu afþreyingarsápuóperu sem skrifuð hefuð verið á íslensku: Dalalíf Guðrúnar frá Lundi. dallas hvað!

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.