— GESTAPÓ —
Z. Natan Ó. Jónatanz
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur.
Sálmur - 5/12/09
TIL EINSKIS

Eilítil hugleiðing um tilgangsleysi & mögulega skaðsemi margvíslegra hluta, einkum þó íþróttaiðkunar... Form- & uppbygging vitaskuld margstolin & stæld, en vonandi hefur sálmurinn þó eitthvert forvarnargildi.

Tólf menn í tómstundum
tíðkuðu handknattleik.
Einn þeirra féll í ómegin;
fór aldrei meir á kreik.

Ellefu fóru í fótbolta
fullir óráðsíu.
Einn hlaut banvænt höfuðhögg,
en halda áfram tíu.

Tíu menn í maraþon
mjög ákveðnir lögðu.
Varð einn fyrir vörubíl,
en vinir níu þögðu.

Níu manns í ninjitsu
nokkuð fóru að þrátta.
Einn með sverði veginn var
víst af hinum átta.

Átta næst í eróbikk
álpuðust klukkan tvö.
Einn fékk hjartaáfall,
en eftir standa sjö.

Sjö menn á sjóskíðum
sér mjög skemmtu vel,
þartil hákarl át svo einn.
Eftir sex nú tel.

Sex fóru á sundæfingu;
sú er íþrótt grimm.
Einn sig drap við dýfingar,
drukkna þó ekki fimm.

Fimm manns í fimleika
fljótlega sig skráðu.
Á hestinum einn hálsbraut sig,
heim þó fjórir náðu.

Fjórir menn í fjallgöngu
fóru, góð ráð dýr;
einn fór að skoða eldgosið.
Eftir lifa þrír.

Þrír fóru þá í golf
– þarf að segja meir?
Lést þá einn úr leiðindum,
en lifðu áfram tveir.

Tveggjamanna taflfélag
tæpt var mjög á geði.
Annar dó er drottning hans
drepin var af peði.

Einn maður eftir stóð
í undarlegri ró.
Settist þá við tölvuna
& sat, þartil hann dó.

- - - - - - - - - - - -

[ 6.5. 2010 /Breytt 17.5.]

   (4 af 18)  
5/12/09 06:01

Billi bilaði

Dó dó og dumma...

Takk fyrir. c",

5/12/09 06:01

Grágrímur

[Veltist um af hlátri]
Takk! þetta var æði.

5/12/09 06:01

Regína

Úff, og ég sem hélt að snoppublaðaleikirnir væru örugg íþrótt.

5/12/09 06:01

Jarmi

Endirinn er svoddan gargandi snilld að elstu menn muna ekki hvar þeir lögðu bílnum sínum!

5/12/09 06:01

hlewagastiR

Ég er enn að hlæja að golfvísunni.

5/12/09 06:02

Útvarpsstjóri

Stórkostlegt!

[kafnar nærri úr hlátri]

5/12/09 06:02

Heimskautafroskur

Takk. Eldgosið maður, eldgosið. Takk

5/12/09 06:02

Garbo

Frábært!

5/12/09 06:02

Golíat

Tek undir allt framansagt!
Takk, takk.

5/12/09 06:02

Fergesji

Glæsilegt. Mun skárra en ljóðið um negrastrákana. Heldur væri að kalla það ljóð en ljóð.

5/12/09 07:01

Þetta bjargar deginum.

5/12/09 07:01

Jafnvel helginni!

5/12/09 07:01

krossgata

Skemmtilegt. Sérstaklega 3 síðustu. Golfið er svo meinlega fyndið og átök peðs og drottningar líka. Síðasta vísan er finnst mér síðan svo vinalega heimilisleg.
[Brosir út að hvítasunnu]

5/12/09 08:01

Huxi

Það er þér að þakka að ég frussaði kókómjólk yfr mig allan. Þetta er frábær sálmur og ég hyggst læra hann utanbókar svo ég geti sungið hann fyrir barnabörnin, (hvenær sem ég eignast þau).

5/12/09 08:02

Kífinn

Jú mikil hamingja að lesa þessar ófarir íþróttaálfana. Best er vitaskuld að þurfa ekki að drepast úr leiðindum.

5/12/09 09:01

Grýta

Flottur að vanda, Z.Natan!
Tveggjamanna taflfélagið finnst mér besta vísan. Stígandinn er einstaklega góður...

5/12/09 11:00

Galdrameistarinn

Urrandi snilld bara.

5/12/09 16:00

Barbapabbi

Skál fyrir þessu barasta!

5/12/09 17:00

Goggurinn

Enginn lítill íþróttamaður
alltaf var of seinn.
Lést hann svo, en lengi áfram
lifði mínus einn.

5/12/09 17:01

Billi bilaði

Mínus einn víst mætti ey
á marga viðburði.
Aldrey deyr þó aumt það grey
í endaleysunni.

5/12/09 17:02

Vladimir Fuckov

Einhvernveginn tókst oss að komast hjá að lesa þetta fyrr en nú en þetta er frábært skemmtiefni.

PS Oss fannst samt gaman að skoða eldgosið á Fimmvörðuhálsi í návígi.

2/12/11 06:00

Grágrímur

Ad Vanía.

Z. Natan Ó. Jónatanz:
  • Fæðing hér: 15/10/04 11:00
  • Síðast á ferli: 18/2/24 17:31
  • Innlegg: 2312
Eðli:
Gerir margt betur en að gera margt.
Gerir fátt betur en að gera fátt.
(Betra að gera fátt vel en margt illa)
Fræðasvið:
Kvæðafúsk & fræðagrúsk
Æviágrip:
Fæddist & fræddist.
Fæðir & fræðir.