— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 3/12/08
Opið bréf til Borgarleikhússtjóra.

Að þora að synda móti straumnum og segja skoðun sína. Þeir sem hafa aðrar skoðanir eiga að sjálfsögðu rétt á þeim en ættu samt að hafa í huga að mínar skoðanir eru yfirleitt þær réttu.

Komdu sæll Magnús Geir og til hamingju með nýja starfið og það allt.

Áramótaheitið mitt var að vera artífartí og menningarleg og njóta popúlistískra leiksýninga, fylgjast með leikdómum og rækta andann. Jújú.

Í tilefni þessa hef ég eytt tugum þúsunda í leikhúsmiða, tekið eiginmanninn, pússað hann til og dregið í leikhús (hann hefur ekki jafnauðugan artíanda og við, Magnús).

Ég hef (sem sú artífartí menningarsuga sem ég er) sannfært hann um ágæti leikhúss og þín Magnús. Sagt honum að það sé aldrei leiðinlegt í leikhúsi, heldur sé það sérstök upplifun sem auðgi líf manns og hjónabandið. Það var líka staðföst trú mín þar til í kvöld og var ég með háleitar áætlanir um árskortakaup í öllum leikhúsum landsins. Þar til nú.

Makinn hefur nú aldrei sannfærst endanlega og eftir kvöldið í kvöld er ég hrædd um að leikhúsdögum okkar sé að eilífu lokið. Þetta bréf, Magnús, er því skrifað í þeim tilgangi að innheimta hjá þér eftirfarandi: 7.900 kr. (vegna leikhúsmiða), 2.000 kr. (kílómetragjald), 12.000 kr. x3 (sem er billega áætluð útseld tímavinna okkar hjóna reiknuð miðað við mánaðarlaun), 8.000 kr. (í miskabætur fyrir að missa af bráðspennandi (aldrei þessu vant) Gettu Betur þætti), auk 30.000 kr. miskabóta vegna þeirrar leikhúsupplifunar sem ég mun fara á mis við í framtíðinni (þú færð sko feitan afslátt þar, Magnús). Þá eru ótaldar miskabætur vegna þierrar skelfilegu lífsreynslu sem ég varð fyrir í kvöld. Samtals gera þetta 83.900 kr. Magnús.

Í kvöld fórum við sumsé að sjá Fló á skinni. Þann magnaða farsa. Skemmst frá sagt þá stökk okkur ekki bros allan tímann. Raunar varð ég vör við smávægilega kippi í vinstra munnviki á einum tímapunkti en þar mun hafa verið um meltingartruflanir að ræða. Svo hló ég raunar dátt þegar tjaldið féll. Ég hef sumsé hlegið meira á dramaverkum eftir Strindberg og ámóta gleðipinna.

Mörgum leikhúsgestum virtist þó finnast gaman. Kemur þar tvennt til. Annaðhvort það að búið er að mæra þetta verk svo í fjölmiðlum (reikna með að gagnrýnendur hafi farið salavillt) og annars staðar og fólk er hrætt við að andmæla slíkum dómum. Hin skýringin gæti verið sú að sökum ,,rafmagnsleysis" hófst sýningin um 25 mínútum of seint og gafst því fólki nægur tími til að skvetta í sig fyrir tortúrinn. Ég segi það satt Magnús að sjálf hefði ég gjarnan viljað vera áfengisdauð.

Plottið var lélegt og í besta falli ákaflega fyrirsjáanlegt. Einstaka leikarar voru í lagi, aðrir ofléku og enn aðrir (sér í lagi konurnar) höfðu ámóta sterka viðveru á sviðinu og hveitipoki. Samtölin voru illa útfærð, þá sjaldan þau yfirhöfuð heyrðust almennilega (sem var raunar blessun - enn ,,rafmagnsvandræði"?). Staðfærslan (Akureyrskur lókalhúmor óskiljanlegur öðrum landsbúum?) var klúðursleg og ósannfærandi (PACAS notar PATAS?) og í heild minnti sýning helst á lélegan Spaugstofuþátt. ,,Misskilningurinn" mikli náði því aldrei að vera fyndinn heldur var hann í besta falli þreytandi. Brandarar voru svo ákaflega barnalegir, grunnir, hálfvitalegir, einfaldir og á köflum bara ósmekklegir (Þjóðverji=nasisti, bleikur dildó, o.s.frv.). Allar persónur voru ákaflega grunnar og ósympatískar og hefði farið vel á fjöldasjálfsmorði þeirra í fyrsta þætti. Í stuttu máli þá hef ég skemmt mér betur hjá tannsa, Magnús.

Að lokum vil ég taka það fram, Magnús, að ég hef alveg húmor. M.a.s. góðan að sumra mati. Mér finnst margt fyndið, alveg satt, Magnús, og ég hef haft gaman af försum í leikhúsi. Til þessa. Þetta var bara ekki fyndið, það vantaði bara neistann. Var þetta í alvöru farsi? Ekki æfingaleikhús, leikið, skrifað og leikstýrt af áhugaleikhópi 10. bekkinga? Í það minnsta er ljóst að þú verður af sölu áskriftarkorta til mín í framtíðinni.

Keisarinn var einfaldlega ekki í neinum fötum!

Ps. Kæri Magnús, er ,,fjöllin hafa vakað" í alvöru viðeigandi intrótónlist þegar 90% leikhúsgesta eru 55plús...?

   (11 af 114)  
3/12/08 07:02

Billi bilaði

Mig minnir að þetta hafi verið skemmtilegt þegar maður var u.þ.b. 10 ára. Ekki ætla ég samt að borga fyrir að komast að því hvort að þar hafi bara verið um aldursskort að ræða.

3/12/08 07:02

Upprifinn

Þetta var leitt að heyra mín kæra.
En skaðabótakröfur þínar eru alltof háar að mínu mati.
má ég ekki frekar bjóða þér að koma aftur?
Kannski kanntu betur að meta verkið í annari tilraun.

3/12/08 07:02

krumpa

Varla - yrði þá að vera á góðum skammti af hláturgasi eða dáleidd. Heittelskuðum leiddist enn meira en mér svo þetta eru bótakröfur fyrir okkur bæði - varlega áætlaðar að mínu mati - Gettu betur var víst í alvöru mjög spennandi!

3/12/08 08:00

Grágrímur

Ég hef ekki farið í leikhús síðan ég fór nauðugur vegna skólaferðar að sjá Hamlet slátrað í nútíma uppfærslu fyrir... bíddu nú við... 11 árum síðan... Byssur og Prodigy í Hamlet... ég fæ enþá kjánahroll við tilhuxunina.... og já það var í borgarleikhúsinu ef ég man rétt.

3/12/08 08:00

Huxi

Hvers vegna að fara í leikhús þegar það er svo miklu huggulegra heima...? Ekki fer ég í leikhús og skemmti ég mér samt ágætlega flest kvöld.

3/12/08 08:00

Ívar Sívertsen

Ég sá Fló á skinni fyrir all mörgum árum síðan. Það var bráðfyndin sýning. Mér skilst að sýningin sem nú er til boða sé afskaplega peningamiðuð og grunn uppsetning. Það vill oft brenna við að leikhúsfólk á Íslandi hugsar þannig að farsi sé grunn leiksmíð. Ef eitthvað er þá er mun erfiðara að útfæra, framleiða og leikstýra farsa en að gera slíkt hið sama við drama. Ég ætla ekki að sjá þessa sýningu einfaldlega vegna þess að ég hef heyrt að á öllum sýningum hlægji bara helmingur viðstaddra. Ég tek mark á því ef það eru meginhluti viðstaddra sem framkvæma hlátrarsköll.

3/12/08 08:01

Skabbi skrumari

Svipuð upplifun hjá mér... ég fór eitthvert föstudags eða laugardagskvöldið og jú ég glotti eitthvað, en mér þótti frekar vandræðalegt þegar fólk í salnum hló, að því er virtist af því að það var búist við því en mér stökk ekki bros á vör, mér fannst ég vera húmorslaus og kom niðurbrotinn út úr sýningunni...

3/12/08 08:01

Dula

Já það verður bara að láta vodkaflösku fylgja með hverjum einasta miða og láta rafmagnsleysið um restina.

3/12/08 08:01

krumpa

Takk fyrir þetta Skabbi, ég hafði einmitt áhyggjur af eigin húmor. En þetta var í það minnsta ekki gott.

3/12/08 08:01

Hexia de Trix

Krumpa mín, ég verð að vera sammála þér. Almennt séð er ég hrifin af försum, þá sjaldan sem mér gefst tækifæri til að sjá þá. En þeir verða einmitt að vera pródúseraðir eins og dramaverk, öðruvísi verða þeir bara ekki fyndnir.
Maður átti fullt í fangi með að skilja leikarana. Eins og það sé ekki nóg að eitt hlutverkið á að vera holgóma - þarf endilega að skella inn stereótýpískum pólverja og tælendingi með of litla íslenskukunnáttu, ofan á þjóðverjann sem babblaði heimatilbúna þýsku? Þar að auki var ég í fullri vinnu að reyna að skilja þá leikara sem áttu hvorki að leika holgóma einstakling né útlending. Í stuttu máli: framsögn var verulega ábótavant.

Að auki hafði ég ekki gaman af stereótýpunum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að farsi gengur akkúrat út á stereótýpur, en þarna var bara einhvernveginn ekki rétt farið með það. Í staðinn fékk ég á tilfinninguna að það væri verið að ala á fordómum, ekki bara í garð útlendinga heldur líka fatlaðra, áfengissjúkra, fátækra og guðmávitahvað.

Það eina sem ég er ekki allskostar sammála Krumpu um, er Akureyrska staðfærslan. Mér fannst þvert á móti hressandi að sjá stykki sem snerist ekki um rassgatið á Reykavík. [Glottir eins og fífl]

3/12/08 08:01

krossgata

Ég sá Fló á skinni fyrir mörgum árum, önnur uppfærsla, samt í Borgarleikhúsinu. Ég skemmti mér ágætlega. Ég ætla ekki á þessa uppfærslu. Fer ekki í leikhús nema á farsa og tími ómögulega að eyða peningum í stykki sem ég er búin að sjá, þó það sé ný uppfærsla, nýir leikarar og allt það. Svo er ég hvort sem er að fara til tannlæknis síðar í mánuðinum.

3/12/08 08:01

krumpa

Kæra Hexía - Akureyrarstaðfærslan hefði verið í lagi (hef ekkert á móti Keflvíkingum, Akureyringum, Ísfirðingum, Austfirðingum eða öðru sveitahyski) ef hún hefði verið sæmilega unnin. En mikið er ég sammála þér með framsögnina - sá holgóma var eiginlega sá skiljanlegasti af liðinu.

3/12/08 08:02

hlewagastiR

Takk fyrir þetta. Ég ætlaði að fara en sýnist nú að mér hafi verið bjargað frá því að borga fyrir leiðindi. Ég geri nóg af því fyrir.

3/12/08 09:02

Ég sá umrædda sýningu seint á síðasta ári. Mín upplifun var eigi allósvipuð krumpu og Skabba - sjaldan hló ég óuppgerðum hlátri. Það sem situr fastast í minninu frá þessari sýningu er nú hversu hratt biskupssonurinn skipti um föt og hversu skelfilega leiðinlegur Randver Þorláksson var. Og hversu skelfilega ljóta og lélega, íslenska (í besta falli menntaskóla-) -þýsku hann talaði, verandi að leika Þjóðverja.

3/12/08 09:02

krumpa

Já fataskiptin voru það flotta(sta) við þetta verk - en það er nú fremur aumt að borga morðfjár í leikhús og svona tæknilegt atriði er það eina sem situr eftir. En mikið er ég annars fegin að það eru fleiri fúlir og húmorslausir en ég. Af hverju hefur engin viðrað þessar skoðanir opinberlega svo bjarga megi grunlausum frá illri reynslu?

3/12/08 09:02

Isak Dinesen

Ágætur dómur þetta.

Ég ætlaði alls ekki að fara á þessa sýningu. Leit nú aldrei út fyrir frá mínum bæjardyrum að eitthvað fyndið gæti veríð í gangi á þessum slóðum, en ég sannfærðist endanlega þegar ég fékk umsögn eins leikhúsgesta sem ég treysti. Sýningunni var einmitt lýst sem algerlega ófyndnum, fordómafullum, barnalegum og fyrirlitlegum viðbjóði. Laddi væri jafnvel skárri.

Þetta minnir mig á atvik sem mikill listamaður félagi minn lenti í. Hann skellti sér á sýninguna Síkagó, þýdda og staðfærða af einmitt einum af þessum mistækari farsagrínurum landsins. Honum hafði (réttilega) þótt kvikmyndin ágæt og sýningin hafði einmitt fengið einróma lof gagnrýnenda. Þegar hann settist voru nokkur auð sæti hægra megin við hann og í eitt sætanna settist kona nokkur sem hann þóttist vita að tengdist eitthvað leikhúsinu - væri þó hugsanlega gagnrýnandi eða hér að sinna einhverskonar innra eftirliti. Sat hún þar með heldur ófrýnilegan svip lengst af og tók nú félaga mínum að leiðast jafn mikið og honum sýndist henni leiðast. Byrjaði hann að dæsa og gjóa flóttalega augum að útganginum og síðan að manneskjunni sér á hægri hönd. Svipbrigði var hinsvegar ekki að sjá á frauku. Þegar líða tók á og félaginn var alveg að missa sig af leiðindum yfir þessari ómögulegu sýningu* og eftir að hafa hrist mæðulega höfuðið í átt að skoðanasystur sinni sér við hlið, stóð hún upp og yfirgaf salinn. Eftir hlé settist hún annarsstaðar. Þetta reyndist vera leikstjórinn.

(Tekið skal fram að handrit, staðfærsla og leikur þóttu léleg, dans og tónlist góð.)

3/12/08 10:01

Heimskautafroskur

Afar trúverðugur dómur, takk fyrir hann. Hef ekki séð þetta og stendur ekki til. Fór hins vegar (af því að mér var boðið) á aðra „skemmtisýningu“ í þessu sama leikhúsi í haust, Fólkið í blokkinni. Það var ein alömurlegasa leikhúsupplifun mín til þessa og er þá langt til jafnað.

3/12/08 10:01

krumpa

Það vill nú raunar svo skringilega til að ég og Heittelskaður fórum einmitt með hið keisaralega afkvæmi á ,,Fólkið í blokkinni " fyrir stuttu og höfum við því samanburðinn. Skemmst frá að segja var Flokkið í blokkinni langtum betri sýning á allan hátt (þótt hún væri langt frá því að vera góð) - svo það segir kannski hversu slæm þessi síðasta upplifun var. Hins vegar er þessi farsi frekar miðaður við fullorðna en Fólkið ætlað börnum - svo að gæðin ættu að vera meiri - eða í það minnsta meira miðuð við fullorðna.

Kardimommubærinn hlýtur bara að vera málið!

3/12/08 11:01

Álfelgur

Hjartanlega sammála! Ömurleg sýning!

3/12/08 11:02

Bölverkur

Tjah, ekki veit ég neitt um þetta. En, "Rústað" var misheppnað. Það hitti mig meir í hjartastað að sjá myndir af börnum á Gaza eftir jólin. En, að lokum þetta: Magnús Geir má ekki ásaka um allt sem við höfum ekki smekk fyrir. Ég held að Magnús Geir muni verða leiklistarlífi höfuðborgarinnar mjög til framdráttar.

3/12/08 12:01

krumpa

Ég er alveg sammála því - að ég held að Magnús Geir muni gera leikhúslífinu gott - eins og kemur held ég raunar fram í gagnrýninni. Ég hef talsverðar væntingar til hans - og þess vegna er það enn sárara þegar boðið er upp á rusl...

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.