— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Sálmur - 1/11/06
Svanasöngur feminista.

Á mínu heimili ríkir fullkomið jafnrétti.
Við höfum hrist af okkur okinu, helsinu.
Engin hefðbundin kynjahlutverk.
Karlinn gerir það sem hann vill og konan það sem hún vill.
Við erum ekki föst í þessu ,,karl" og ,,kona" fangelsi.

Hins vegar trúum við á hagræðingu.
Þroska einstaklingsins til að fullnýta hæfileikana.
Trúum á verkaskiptingu.
Að hver aðili geri það sem hann gerir best.
Þannig næst toppurinn í framleiðnikúrfu heimilisins.

Þannig helst fórnarkostnaðurinn í lágmarki.
Og allt er eins og best verður á kosið.

Þannig er jafnvægi.
Allir ánægðir.
Það er nútímafeminismi.
Frelsi hinnar upplýstu konu sem veit hvað hún getur og getur ekki.

Enn sem komið er
vill það þó þannig til að hér á heimilinu er það ég sem er flinkust í að
elda mat
taka til
ganga frá þvottinum
borga reikningana
skúra
þrífa
hugsa um krakkann
uppeldið
þurrka rykið
sjá um bókhaldið
þrífa klósettið
skipta um rúmfötin
setja upp gardínur
þrífa ísskápinn
tína upp draslið
skipta um perur
versla inn
fara út með ruslið.

Svo ég geri það.
Fyrir jafnréttið.
Framleiðnina.
Fyrir fullkomið jafnvægi á heimili jafnréttisins.

Það á svo bara eftir að finna
eitthvað sem er hagkvæmt að láta kallinn gera!

   (17 af 114)  
1/11/06 13:02

Upprifinn

Þetta er einmitt svipað og á mínu heimili, værirðu til í að láta mig vita ef þú finnur eitthvað sem við gætum ráðið við án þess að þið farist úr áhyggjum á meðan. [starir þegjandi út í loftið]

1/11/06 13:02

krumpa

(starir þegjandi á móti) í mínu tilviki er þetta reyndar oft spurning um að þurfa ekki að ,,finna eitthvað." Örlítið frumkvæði gæti fleytt ykkur langt.

1/11/06 13:02

Upprifinn

úbbs.

1/11/06 13:02

krumpa

jamm - það er ekki alltaf ég sem dæmi mig ,,flinkasta" sko...aðrir koma einnig að þeim dómnefndarstörfum.

1/11/06 13:02

Tigra

Hah.
Tvisvar hef ég búið beð karli og það kæmi ekki til greina að ég ætti að gera allt. Það skal eldað og þvegið jafnt og allt eftir því.
Hinsvegar er ég sammála með það að það er oft ansi erfitt að fá frumkvæði í þá.

1/11/06 13:02

Upprifinn

úbbs!

1/11/06 13:02

krumpa

Já - það er þetta með frumkvæðið og svo ákveðna blindu á það sem þarf að gera. Þegar maður er búinn að jagast lengi í krakkanum um að setja í vaskinn eftir sig eða ruslið þá er eiginlega einfaldara að gera hlutina sjálfur en að fara að jagast í kallinum líka...

Fyrirgefðu svo forvitnina Tígra, en mig grunar að þetta hafi ekki verið mjög langar sambúðir? Þetta byrjar nefnilega yfirleitt ekki svona...

1/11/06 13:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Ég get hugsað mér að þettað vandamál sé til staðar jafnvel á bestu bæjumm þó svo að þég þekki það ekki
að eigin raun.

1/11/06 13:02

Upprifinn

við göngum á lagið, það er ómeðvitað en við bara gerum það. einn daginn vaknar maður upp við að óréttlætið á heimilinu er fullkomnað og það versta er að þegar svo er komið hefur hlutverkaskiptinginn síast inn í börnin og þau taka svo þessar ranghugmyndir með sér inn í framtíðarsambönd sín.
þetta er því vítahringur af verstu gerð og ég hvet ykkur öll til að reyna að brjóta hann upp.

1/11/06 13:02

krumpa

Takk fyrir þetta Upprifinn, gáfulega mælt, og já, ég veit að þetta er ekki illa meint, sumir bara fatta stundum ekki hvað það er mikið að gera hjá sumum öðrum. Ég reikna með að þú farir annars beint í það núna að þrífa klósettið?

1/11/06 13:02

Tigra

Hehe nei það er rétt hjá þér. Hvorug sambúðin entist lengi.
Hinsvegar sé ég ekki fram á að ég eigi nokkurntíman eftir að hafa nennu í að þrífa upp eftir heila fjölskyldu.
Ég veit það vel að ég yrði svo reið og pirruð ef öllu yrði hellt á mig að mjög fljótlega myndi sjóða upp úr og ef ekkert breyttist myndi sú sambúð líklega ekki heldur endast lengi.
Þess ber þó að geta að fyrrum sambúðum mínum lauk engan vegin út af heimilisstörfum.

Hvernig verður þetta samt svona? Svona svo ég geti reynt að spyrna við því næst þegar ég fer í sambúð?
Afhverju taka konurnar alltaf á sig meiri og meiri vinnu, þegar þær eru kannski að vinna alveg jafn lengi úti og karlarnir?

1/11/06 13:02

Tigra

Ég hugsa að þetta sé að mörgu leiti út af því að þeir komast upp með þetta. Auðvitað myndi ég sleppa því að þrífa ef ég kæmist upp með það. Held að allir myndu gera það.

1/11/06 13:02

Upprifinn

í mínu tilfelli gerðist þetta þannig að við áttum barn þegar við byrjuðum að búa saman, og svo fyrlgdu fleiri í kjölfarið þannig að fyrstu árinn var ég einfaldlega úti og hún heima. þegar hún fór að vinna utan heimilis ætlaði ég svo sannarlega að standa mig vel en ég bara stóð mig ekki vel af einhverjum ástæðum.

1/11/06 13:02

krumpa

ég veit það nú ekki alveg - þá væri ég ekki í þessu rugli. Held annars að konur hafi bara meiri metnað í að hafa fínt og hreint hjá sér - annars eru þær líka (sér í lagi þær sem eiga börn) litnar hornauga. Þannig að þetta er samfélagslegt vandamál. Piparsveinar eiga að vera frekar óduglegir að taka til meðan piparjúnkur eiga að eýða síðkvöldum í afþurrk. Svo virðast karlmenn ekki sjá draslið - ef ég þrifi ekki þá væri bara ekki þrifið ... annars eru það ekki þrifin sem ég þoli verst heldur allt hitt stússið.

Og meðan ég man strákar - blóm eru ekki sjálfvökvandi!

1/11/06 13:02

krossgata

Ég elda sjaldan, þvæ þvottana sjaldnar, hvoru tveggja kemur þó fyrir að ég geri. Ég tek til og þríf að mestu, það kemur þó fyrir að hann taki þátt í því. Börnin eða sá ungi sem enn er í hreiðrinu, ætli það sé bara ekki nokkuð jafnt sem við sinnum honum. Fjármál , foreldrafundir, húsfélagsfundir og svona félagslegt sá ég um fyrsta rúma áratuginn, nú er hans tími, kem ekki nálægt því, nema skattaskýrslan hana hef ég alltaf séð um alla tíð.

Ætli við megum ekki bara vel við una.

1/11/06 13:02

Huxi

Skítaþröskuldur karlmanna er oftast hærri en kvenfólks, og því er það yfirleitt konan sem finnst hún vera nauðbeygð til að hefja klósettþrifin. Svo er það þannig að ef karlinn finnur einhverja óútskýranlega þörf til að gera eitthvað á heimilinu, t.d. raða í uppþvottavél eð skúra gólfið , þá er það oftar en ekki stöðvað af konunni vegna þess að verkið er ekki rétt unnið. (Lesist: Eins og konan er vön að gera). Og það að finna að við karlmann sem hefur framið þá miklu hetjudáð að setja sjálfur og óumbeðinn í þvottavél, er einfaldlega það versta sem konan getur gert í stöðunni. Það er árás á karlmennsku hans og gerir það að verkum að hann mun aldrei, aldrei finna hjá sér hvöt til að gera nokkuð í þá veruna aftur, að fara inn á svið konunnar í heimilisstörfunum. Karlmenn geta að sjálfsögðu gert alla hluti ef þeir fá að nálgast þá á sínum forsendum. Helst þannig að þeim finnist að þeir hafi gert einhverja mikla uppgötvun eða framið mikið afrek. Annars erum við bara sinnulaus sófadýr með fótbolta eða kynlíf á heilanum...

1/11/06 13:02

Upprifinn

nokkuð sammála Huxa nema að mér leiðist fótbolti.

1/11/06 13:02

Jarmi

Tilbúið dæmi í ímynduðum heimi:

Allar konur neita að þrífa.
Allir karlar neita að þrífa.
Allar konur þverneita að vera í sambandi með manni sem ekki þrífur.
Allir karlmenn þverneita að vera í sambandi með konu sem ekki þrífur.
Enginn býr þar af leiðandi með öðrum.
Karlmenn halda áfram að búa í skít.
Kvenmenn byrja að þrífa fyrir sjálfar sig.

Geimverur sem voru að fylgjast með þessu í stjörnukíki sínum átta sig fljótt á því að það er konum í eðli lagt að vilja hafa hreint í kringum sig og þar með setja það í framkvæmd. Það eina sem er karlmönnum virðist vera í eðli lagt er að komast hjá því að setja það í framkvæmd.

1/11/06 13:02

feministi

Fínt rit Krumpa, ég hygg að margir þekki sig þarna.
Eins og hjá mörgum byrjaði sambúiðn hjá mér og hr. feminista með jafnrétti og réttlátri verkaskiptingu. En jafnréttið minnkaði eftir því sem börnunum fjölgaði. það var eins og við festumst bæði í fúlum pitti og það tók mörg ár, þrætur, verkföll og rifrildi að koma hlutunum aftur á rétt ról. Bæði þurftum við að gefa eftir og venja okkur á nýja siði. Ég þurfti að gefa eftir völd innanhúss og ábyrgð á börnum, hann þurfti að læra að taka ákvarðanir og ábyrgð. Ekkert gerist að sjálfu sér, en það er okkar reynsla að því meira jafnréttii sem við búum við því betri er heimilisfriðurinn.

1/11/06 13:02

krumpa

En kæri feministi, þetta byrjaði sem hið fullkomna nútímalega jafnrétti. Er ekki eðlilegt að hver geri það sem hann skarar fram úr í ? Ég fer ekki á heimsmeistaramót í golfi og maðurinn minn gengur ekki með börn. Þetta var því hið fullkomna kerfi - sá sem er bestur í að þrífa þrífur, sá sem er bestur í að elda eldar, o.s.frv.
Það tók mig ansi langan tíma að sjá að ég var greinilega best í öllu! Sem er raunar nokkuð til að vera stoltur af en er ekki mjög skemmtilegt.
En sumsé, það var lagt upp með fullkomið jafnrétti! Skrítið hvernig hlutirnir hafa svo þróast...

1/11/06 13:02

Tigra

Þá þarf bara að næla sér í kall sem er góður að elda... og eitthvað svoleiðis.

1/11/06 13:02

krumpa

já - þú skalt gera það, held að það sé slatti af hommum á lausu.

Er annars yfir mig ánægð og lukkuleg með minn kall - nema þegar ég er þreytt og pirruð...

1/11/06 13:02

feministi

Í grunnatriðum var þetta þannig að þegar ég var í barneignarfríum bar ég hita og þunga af allri vinnu inn á heimilinu. Þegar ég fór síðan aftur á vinnumarkaðinn minnkaði heimavinnan lítið. Það gekk ekki til baka af sjálfu sér.

1/11/06 13:02

Jarmi

Þær kvensur sem eru ósáttar við sófakeppina sína eiga bara að losa sig við þá eða hætta að þrífa... og þá losa þeir sig við þær í staðinn.

1/11/06 13:02

Jóakim Aðalönd

Textinn í félaxritinu lítur út eins og kona með stórt höfuð, mjótt mitti og risastóran bakka af mat.

Konur eru hentugri í barnauppeldi og slíkt. Þær eru með brjóst. Þær hafa ,,tilfinningar".

Annars er eitt óbrigðult ráð fyrir karlinn að dömpa þessu öllu á kellinguna: Gera húsverkin með glöðu geði, en gera þau svo illa að konan hættir að biðja...

Pehehe...

1/11/06 13:02

Kargur

Væl er þetta í ykkur kerlingunum. Ég geri örugglega 3/4 af því sem gert er á mínu heimili þó frúin sé heimavinnandi. Ekki er ég vælandi yfir því á netinu.

1/11/06 14:00

Þarfagreinir

Taktu eftir því að Huxi sagði "fótbolta eða kynlíf" Upprifinn, þannig að þú ættir að geta verið sammála þessu að öllu leyti þó þú útilokir fótboltann. [Glottir eins og fífl]

Annars hef ég tekið eftir því í minni fyrstu sambúð að já, ég er mun latari við heimilisstörf og finn minni hvöt hjá mér til að halda hlutunum hreinum og skikkanlegum en betri helmingurinn. Ég þoli merkilega vel ljóta og jafnvel hálfbilaða hluti svo lengi sem þeir virka (þetta á til dæmis líka við um bílinn). Þó hef ég gaman til dæmis af matseld, þegar ég nenni. Ég er nú að reyna að taka mig á og vera ekki svona mikill slúbbert samt ... það gengur svona upp og ofan.

Ef mér er hins vegar sýndur ljótur kóði þá kasta ég næstum þvi upp. Magnað.

1/11/06 14:00

Upprifinn

ég var einmitt sammála öllu

1/11/06 14:01

Útvarpsstjóri

Þó svo að kona mín sé án efa færari við öll innistörfin þá byrjaði ég daginn á að vaska upp í klukkutíma (matarboð í gærkvöldi), setja í þvottavél og vökva blómin (sem hún reyndar myndi alrei gera). Einnig held ég að Kargur sé ekki sá eini af okkur bræðrum sem sér um flest heimilisverkin þó konan sé, eða hafi verið, heima við.

Mikið ofboðslega tókst móður okkar vel til.

1/11/06 14:01

Skabbi skrumari

Jál... ég er ekki frá því að það sé eingöngu ég sem vökvi blómin (mér hefur tekist að halda þeim á lífi í nokkur ár), oftast nær elda ég og í meirihluta tilvika þá vaska ég upp og fer út með ruslið, við þrífum jafnt og þvoum þvottinn jafnt og hingað til höfum við hugsað jafnt um börnin okkar... mér finnst þetta fínt, því ég elska mína frú og svo koma tímar þegar ég nenni þessu ómögulega og þá tekur hún við... þannig að ég held að það sé bara nokkuð góð sátt um hlutina á okkar heimili... en þetta er náttúrulega bara mín sýn á hlutina... hvort frúin sér það öðruvísi veit ég ekki...

1/11/06 14:01

blóðugt

Ég var svokölluð ,,grasekkja" til margra ára og þá var auðvitað ekki um annað að ræða en að ég gerði hlutina. Svo er karlfyglið nú í vinnu þar sem hann kemur alltaf heim á kvöldin (utan stöku sinnum). Þegar hann byrjaði í nýju vinnunni var gerður samningur - ég sé um þvottinn og hann um uppvaskið, nema þegar ég er að rusla óvenju mikið til þá set ég í uppþvottavélina og ógeðslegu vinnufötin þvær hann af sér sjálfur.
Hvað varðar tiltektir á heimilinu þá sé ég aðallega um það og þrifin að mestu leyti. Málið er að ég þoli ekki hvernig hann tekur til; ef hann á að taka til í stofunni þá verður alltaf að taka allt út úr hillusamstæðunni og þrífa hana líka, já og gluggana að innan og guð má vita hvað og hvað. Svo vinnst ekki tími til að klára og þá tek ég við stofunni í verra ásigkomulagi en hún var áður! Það hefði tekið 10 mínútur að taka upp leikföngin af stofugólfinu, blaðaruslið af stofuborðinu og ryksuga - og allt hefði litið vel út! Svo þegar nægur tími er (og alls ekki vikulega) má taka hitt í gegn. Ég er þó að reyna að temja'nn og hann vill vel. En rétt í þessu var ég að benda honum á að hann þyrfti að sýna svolítið frumkvæði. Ég er búin að láta óhreinan íþróttabol af barninu liggja kyrran á eldhúsgólfinu síðan á laugardaginn (og það var að drepa mig) - bara til þess að sjá hvort hann myndi sjá hann. Það var auðvitað hváð þegar ég benti honum á þetta.
Lengi vel sá hann um allar skúringar en það var bara vegna þess að ég hafði farið í misheppnaða aðgerð á úlnlið og gat ekki skúrað - mér er hinsvegar að mestu batnað [Dæsir]
Það væri óskandi að þetta gæti verið alveg jafnt og að karlfyglið hefði sense fyrir skítnum.

Á þeim nótum langar mig að biðja annað hvort Karg eða Útvarpsstjóra að byrja með mér. Kargur er reyndar karlremba en það má lemja það úr honum með stígvélunum. [Blikkar]

1/11/06 14:01

Heiðglyrnir

Ekki klikkar okkar kæra krumpa...Stórskemmtilegur pistill...Riddarakveðja.

1/11/06 14:01

Limbri

Ég elda, vaska upp og ber 95% af öllum innkaupum heim í hús. (Við eigum auðvitað ekki bíl hér í .dk) Þar að auki ber ég ábyrgð á að drekka bjórinn og dreifa skítugum sokkum um húsið.

Það er margt á mann lagt. Og er það vel.

-

1/11/06 14:01

Garbo

Frábært rit hjá þér Krumpa. Ég ætla ekki að tjá mig mikið um þessi mál að öðru leyti en því að segja ( þeim sem ekki vissu það fyrir) að ég er konan hans Upprifins og er samsek honum í því að gera hann að ósjálfbjarga vesalingi þegar kemur að heimilisstöfum! Þeir eru bara svo hörundsárir þessir karlar og þola alls ekki að kona geti haft meira vit en þeir á nokkrum hlut, fara bara í fýlu ef reynt er að segja þeim til.

1/11/06 14:01

Kargur

Blóðugt; við Útvarpsstjóri eigum til einhleypan bróður handa þér. Þó svo það örli ofurlítið á sérvizku og karlrembu í honum þá er það ekkert sem tekur því að tala um. Hvurt á ég að senda hann?

1/11/06 14:01

Útvarpsstjóri

Væri ekki nær að senda Blóðugt til hans? Annars er eitt skilyrði sem þú verður að uppfylla, Blóðugt. Þú verður að vera smáhent.

1/11/06 14:01

blóðugt

Þar fór í verra, smáhent er ég ekki.

1/11/06 14:01

Kargur

Það er séns að hann geti litið fram hjá því ef þú lítur fram hjá smávægilegum útlits-og skapgöllum af hans hálfu.

1/11/06 14:01

blóðugt

Ef hann er liðtækur í heimilisstörfunum og slefar upp í meðalgreind þá ætti að vera hægt að líta framhjá því. Er ekki 30 daga skilaréttur?

1/11/06 14:01

Útvarpsstjóri

Tjah, hann er með stúdentspróf, meirapróf og hefur lokið við námskeið í rúningi. "Heimilisstörf" er síðan teygjanlegt hugtak í hans huga.

15 daga skilaréttur og málið er dautt, ok?

1/11/06 14:02

Gísli Eiríkur og Helgi

það er enginn andskotans munur á konum og Körlum
munurinn er á fólki . Konur eru misjafnt fólk
karlar líka einstaklyngar eru fólk með einstæða hugsun og möguleika það er okkar skylda að hvetja börnin okkar til að þróast sem einstæðar verurur og gefa þeim sjálfstæða hugsunn í nestispokan sinn hvernig sem þáu eru í laginu eða á litinn

1/11/06 14:02

Útvarpsstjóri

Ójú GEH, sama hvað hver segir, þá er eðlislægur munur á körlum og konum. Konur standa öllu jafna framar á sumum sviðum og karla á öðrum.

1/11/06 14:02

Gísli Eiríkur og Helgi

sá munur sem ekki er líkamlegur er arfur sem hægt er að breyta . Jafnvel líkamlegan arf er hægt að brjóta þó það taki lengri tíma . Ég er handviss ef allir hættu að nota hægri hendi í dag skyldi enginn fæðast með slíka eftir nógu andsotans langa n tíma og konur ryksuguðu bara í sjöhundruð þúsund ár og karlar skiftu bara um dekk skyldu konur fæðast með munstykki og karlar með skiftilykil í staðin fyrir kynfæri held ég

1/11/06 14:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Ég er líka handviss að ef allar stelpur alstaðar í öllum heiminum ættu heima á fjórðu hæð yfir allt og allir strákarnir úti í víðri veröld skyldu flauta á þær til að koma út á svalir til að stela einun kossi þá skyldu allir strákarnir eftir miljón ár fæðast þjófar með inbygða blokkflautu og vera fjögrahæða langir
í

1/11/06 16:00

Leiri

Ég geri allt á mínu heimili. Þá meina ég allt.

Félagsritið?
Fuull væmið fyrir minn smekk, satt best að segja.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.