— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 3/12/06
Ferðasaga

Sú er þetta ritar er stödd í Brussel. Þegar hún var búin að gráta þaðí heilan dag hversu dapurlegt það væri að vera ein í útlöndum ákvað hún að herða upp hugann og njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Frá því verður ekki sagt hér heldur verður hér einungis tæpt á þeim mistökum sem hún hefur gert svo að aðrir geti forðast þau...

1. Ahhh. Gamli miðbærinn í Brussel er mestmegnis lagður tígulsteinum svo að hælaskór....EKKI SVO GÓÐ HUGMYND, eins og ég hef fengið að reyna festandi mig milli steina og í göturistum, dettandi á gesti og gangandi og snúandi ökklana.

2. Það er rigning. Ef þið haldið að rigningin hér sé eitthvað öðru vísi en heima þá getið þið bara gleymt því. Úfið, rennblautt hár, blautir skór og sokkar, maskari niðrá kinnar. Allur pakkinn! Og - ef þið kaupið regnhlíf, splæsið þá í regnhlíf sem virkar en ekkert útsöludrasl. Regnhlífin mín brotnaði semsagt við fyrstu vindhviðu.

3. Þeldökku mennirnir sem brosa til ykkar og bjóða bon soir eða bonjour ætla ekkert endilega að nauðga ykkur, búta niður og henda í ánna. Þetta er bara þeirra leið til að auðsýna kurteisi - held ég...þangað til annað kemur í ljós.

4. Þrátt fyrir hið augljósa er GARE MIDI ekki sama og GARE CENTRALE. Gare midi er raunar í ákfalega skuggalegu hverfi og best að koma sér þaðan sem fyrst - ehhh....lendi maður þar fyrir misskilning.

5. Í Brussel er óþarfi að kaupa mat. Maður bara gengur milli súkkulaðibúða og fær að prófa. Raunar ekki sniðugt fyrir þá sem eru í megrun eða öðrum kjánaskap...

6. Flugvöllurinn í Brussel er viðurstyggilegasti staður á jarðríki. Þar má HVERGI og ALLS EKKI og ALDREI reykja. Og það sem verra er, það er ekki tilkynnt fyrr en maður er á leiðinni út. Undirrituð var búin að rangla um völlinn í hartnær klukkutíma, svitnandi í fráhvarfskasti, bölvandi og ragnandi... Á tímum hryðjuverka og almenns pirrings er þetta bara alls ekki sniðugt. Sér í lagi fyrir flughrædda sem mega nú varla við aukaálaginu...

7. Kanntu frönsku væni? í Brussel tala allir ensku (raunar umdeilanlegt hvaða tungumál það er en þeir kalla það ensku...) og eru líka mjög viljugir að skilja frönskuafbrigði málheftra útlendinga. Hins vegar eru öll skilti, allar leiðbeiningar, auglýsingar, og jafnvel upplýsingar á söfnum bara á frönsku og flæmsku. Meira að segja í lestinni frá flugvellinum er ekki tilkynnt um stoppistöðvar nema á þessum tungum...þannig að, ef lágmarksfrösnkukunnátta er ekki fyrir hendi (eða þýsku sem getur hjálpað við flæmskuna) þá er betra að halda sig heima.

Annars er þetta yndisleg borg. Svipuð París nema án helv.... Parísarbúanna. Hvað gæti verið betra en það?

Lifið heil.

ps. vöfflur eru góðar. Vöfflur með perlusykri, ís og heitri súkkulaðisósu eru MJÖG GÓÐAR...

   (22 af 114)  
3/12/06 06:02

krossgata

Vöfflur mmmmmm.

[Er afar glöð að heyra af hversu háir hælar reynast illa]
Ég mæli með flatbotna skóm á öllum ferðalögum, reyndar alltaf.
[Glottir]

En góða skemmtun og njóttu Belgíu.

3/12/06 06:02

krumpa

ahh...þetta er raunar þannig ferð að ég þarf að líta virðulega út og þá eru hælarnir mesta þarfaþing, enda ekkert mál að labba á þeim ef ekki væru tígulsteinar og endalausar göturistir...
Annars er ég auðvitað á strigaskóm þegar ég þarf ekki að líta vel út...
En takk fyrir góðar óskir.

3/12/06 06:02

Grágrítið

Úff, ég eyðilagði á mér fæturnar þegar ég fór til Brussel, það var ómögulegt að labba á þessum steinum. Eftir 2 daga labb var gott að komast á Finnskann hokkíbar, þar var horft á júróvísjón og fagnað með finnum sem voru nýbúnir að vinna eitthverja deild og allir drukku bjór úr bikarnum... En ég er kominn eitthvað útfyrir ætlað umræðuefni. Vöflur eru góðar.

3/12/06 06:02

Ísdrottningin

mmm ákveður að baka speltvöfflur á morgun....

3/12/06 06:02

B. Ewing

1. Þar sem ég hef aldrei gengið um götur á háhæluðum skóm þá neyðist ég til að spyrja asnalega. Er fræðilegur möguleiki á að ganga á tánum á háhæluðum skóm? Þ.e. án þess að setja þunga á hælinn?

2. Þetta kom mér á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að sérstakur vorboði á Íslandi er orðinn "útlendingurinn sem berst við ónýtu regnhlífina í Austurstræti".

3. Kaupi þetta ekki. Þeir eu bara í OF góðum felulitum.

4. Ég hefði ekki einu sinni leitað að GARE. Bara "Center" eða einhvers konar skotmarki sem hefði mátt túlka sem miðsvæðis (og helst niður brekku).

5. Mmmm... Hljómar velí mín eyru. Verst hvað Evrópubúar eru duglegir að setja kakó í súkkulaðið í staðin fyrir allan rjómann, undanrennuduftið og sykurinn sem ég er vanur.

6. Ég hef lítið álit haft á reykingum en vorkenni samt þeim sem ekki geta svalað þessari (ennþá) löglegu fíkn sinni á jafninnilokum og stressandi stöðum og flugvellir eru.
7. Kann varla að segja Bonn-abe-títt án þess að fipast. Kannski er bara best fyrir mig að skreppa frekar í næstu sjoppu og kaupa ís með dýfu.

Samt er manni farið að langa í vöfflur eftir þetta félagsrit.

3/12/06 07:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

- Bon voyage -

3/12/06 07:00

krumpa

Ewing
1. Nei - alla vega ekki meir en 2-3 skref. ÉG REYNDI!

4. Já, en hefði maður ekki haldið að central og midi væru á svipuðum slóðum?

það þarf svo að koma hingað til að fá alvöru vöfflur - eftir þetta gera íslensku vöfflurnar ekkert fyrir mig!

3/12/06 07:01

Sundlaugur Vatne

Já Brussel er yndisleg borg. Frábær matur, bjór, blúndur, vöfflur... borg í miklu uppáhaldi hjá sundkennaranum
Belgar eru í raun merkileg lítil þjóð. Þeir elda betri mat en Frakkar, þeir brugga betri bjór en Þjóðverjar og Tékkar og búa til betra súkkulaði en Svisslendingar. Þeim virðiðst þó standa á sama þó aðrir haldi hinu fram... þeir vita sjálfir betur.

3/12/06 07:01

Rattati

6. Prófaðu bandaríska flugvelli. Öryggisverðirnir upp til hópa landgönguliða-wannabees sem ekki fengu þar inni af því þeir féllu á greindarprófinu (sem segir þónokkuð) og hvergi má reykja. Reyndar hef ég komið mér upp þeim vana að ég spái bara ekkert í það, þá truflar reykleysið mig ekki. En flugvellir í heild sinni sökka.

3/12/06 07:01

Hakuchi

Ég er sammála Krumpu og Sundlaugi. Brussel er úrvals borg. Eini gallinn við hana eru bölvaðir Vallónarnir, þeir varpa skugga yfir þessa miklu höfuðborg Flæmingja. Yfirgangur hinna vampírísku Vallóna hefur verið svo mikill í gegnum tíðina að borgin er orðin hálf frönsk. Það er slæm þróun því allir vita að allt það rotna, spillta og ógeðslega við Belga í gegnum tíðina hefur komið frá Vallónum.

Frelsum Flandur!

3/12/06 07:01

krumpa

Ja sko - hvað matinn varðar þá er ég ein hérna - sem gerir mann takmarkað spenntan fyrir fínum veitingahúsum. Er núna að borða pasta úr plastbakka og sítrónuköku úr krukku. Mjög gott samt. Sama gildir um bjórinn...

Hvað varðar vallónana þá hafa þeir gersigrað og nei, hef ekki í huga að reyna ameríska flugvelli - nokkurn tímann!

Annars er þetta drullufínt fyrir utan það að eina málið sem ég hef talað undanfarna daga er franska og eina sem ég kann á frönsku er að panta kaffi! Hef sumsé drukkið ógrynni af kaffi og get óhikað mælt með því!

3/12/06 07:01

krumpa

trúi ykkur samt alveg með matinn - meira að segja krukkukökurnar hér sem maður kaupir í búðunum eru betri en flest sem maður fær á veitingahúsum heima! namminamm

3/12/06 08:00

Jóakim Aðalönd

Ég til Brüssel!

3/12/06 10:00

Kargur

Ég tek undir orð Rattata; amerískir flugvellir og heilalausu viðrinin sem fara þar með öll völd eru tól djöfulsins.

3/12/06 10:01

krumpa

Já - Jóakim - mæli með því að þú farir - átt alveg að geta lifað sparlega þar!

3/12/06 10:01

Jóakim Aðalönd

Ekki er það verra!

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.