— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 1/12/06
Að pissa standandi

HAHA - þið hélduð auðvitað að þetta væri enn ein langlokan um feminísta! Nei - þetta er sagan af því af hverju ég pissa standandi!

Fyrir fáum árum fengu nágrannar mínir þá flugu í höfuðið að gott væri að helluleggja planið að útidyrunum. Gott og blessað. Til starfsins voru fengnir miklir fagmenn, nokkur unglingsgrey sem ég sá aldrei öðru vísi en í reykpásu. En - að lokum, eftir mikið jaml, japl og fuður, komst planið í gagnið. Kostaði litlar níu millur, er ekkert voðalega hornrétt, hellurnar ekkert sérstaklega í sömu hæð svona, og þetta er fyrsta helluplanið frá því á dögum rómverja sem ekki er með hitalögn undir. Þannig að þegar það snjóar, nú þá er bara snjór á planinu. Og þegar það er hálka þá er bara hálka. Þegar það er svo glerhált og niðamyrkur eins og í morgun, nú þá detta bændur bara á hausinn.

Ég var sumsé að koma úr bílnum mínum í morgun, steig á blessað planið, skrikaði fótur, datt í allar höfuðáttirnar í einu (einn útlimur í hverja átt) og lenti á túttunum (vel fóðraðar sem betur fer) og hnjáskeljunum (verr fóðraðar því miður).
Sem betur fer sá mig enginn þar sem ég lá eins og hundur með rassinn út í loftið og útlimina eins og bilaðan áttavita.

Merkilegt annars hvað það er mikið sálrænt áfall að detta. Maður missir alla stjórn og verður viljalaust fórnarlamb aðstæðna. Ef einhver sér til manns þá flissar maður og gefur í skyn að maður sé nú meiri kjáninn að vera að detta þetta. Þetta gerir maður JAFNVEL þó maður sé höfuðkúpubrotinn og með innvortis blæðingar.

Mér tókst að skrönglast á fætur (flissaði örlítið þarna ein í myrkrinu, svona til vonar og vara) og fór inn með mitt særða stolt.
Það var ekki fyrr en nokkru seinna að ég tók eftir því að önnur hnéskelin var tvöföld og fjólublá og fossblæddi úr hinni. Sennilega brákuð hnéskel og blætt inn á lið (hefur gerst svo oft að ég get alveg sleppt þriggja tíma biðinni eftir sárabindi á slysó). Annar ökklinn snúinn og marin rist.

Nú get ég ekki beygt hægra hnéð, get ekki keyrt, varla gengið, haltra um með þjáningarsvip, og þarf að pissa standandi. Og bara svo þið vitið það, allar vonsviknu kynsystur mínar með penisöfundina; IT´S NOT ALL THAT.

Farið varlega í hálkunni og lifið heil!

   (30 af 114)  
1/12/06 05:01

krossgata

Merkilegt að þetta rit komi akkúrat núna, fyrir um 10 mínútum brá ég mér aðeins út fyrir "að taka veðrið" eins og menn segja og brenna jurtir mér til ánægju og yndisauka. Varð ég þá vitni að því að ungur maður flaug á hausinn nokkrum metrum fjær, hann reyndar lenti á botninum, en einmitt í áttavitastellingunni. Og þau flissuðu bæði hann og stúlkan sem með honum var.

En ég óska þér skjóts bata af sárum þínum bæði andlegum og líkamlegum af þessum óförum.

1/12/06 05:01

krumpa

Takk fyrir það - hálkan er ferlega lúmsk í dag. Þetta er annars allt að koma. Ætla samt ekki aftur út úr húsi fyrr en vorar.

1/12/06 05:01

Regína

Úff, þetta hlýtur að vera óþægilegt. Annars sé ég ekki hvers vegna þú ættir að þurfa að pissa standandi ef þú getur beygt vinstra hnéð, þá seturðu bara hægri fótinn upp á eitthvað sem er hæfilega lágt frá gólfi, og styður þig við vaskinn eða eitthvað á meðan þú sest. Farðu varlega og góðan bata.

1/12/06 05:01

Offari

Ég get nú migið standandi þótt ég hafi ekki verið að þvælast á plani nágrannans.. Til hamingju með að geta þetta því þetta er bara fyrir æðra fólkið. Með von um góðan bata.

1/12/06 05:01

B. Ewing

Láttu þér batna. Við strákarnir erum að kaupa einkaréttinn á standpissinu svo að þetta ætti ekki að vera langvarandi vandamál.

1/12/06 05:01

Dula

Já kannast við það að vera alltíeinu komin með lappirnar lengst fyrir ofan höfuð með öxlina á kafi í einum þeim kaldasta krapapolli í reykjavík og auðvitað stend ég upp og flissa....svo bölva ég hraustlega svo dett ég aftur. ÓGEÐSLEGT. Góðan bata og notaðu bara jeppakonutrixið í pissustandið.

1/12/06 05:01

Jarmi

Samúðarkveðjur frá mér og mínum. Vona að þú jafnir þig fljótt og hljótir engan varanlegan skaða af.

Og hættu að pissa útfyrir! Og settu setuna niður!
(Ég bara varð)

1/12/06 05:01

Gvendur Skrítni

Þér væri nær að pissa á planið hjá þér

1/12/06 05:01

Nermal

Já það er fúlt að detta. Reyndi að svífa niður tröppur fyrr í vetur. Lenti á mjöðmini og bakinu. Þurfti nokkra daga frí til að jafna mig. En látu þér batna stelpa

1/12/06 05:01

Dúlli litli

Ég veit um stelpu sem fór í keppni við bróður sinn um það hvort gæti pissað lengra.
- Hún tapaði.

1/12/06 05:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Batnaðu skjótt vina bráðum kemur sumarið með blóm í haga . Hér í Gautaborg hefur ekki verið neitt frost í allan helvítis vetur vetur bara rigning og súld Knús

1/12/06 05:01

Kondensatorinn

Vonandi ertu ekki illa haldin.
Svona flugferðir eru stórhættulegar, líka í björtu.
Megi sár þín gróa sem fyrst.

1/12/06 06:00

Barbapabbi

Mundu að .að er ekkert "gay" við að pissa í öfuga tregt ef aðstæður krefjast þess... en gangi þér vel frk. Krumpa.

1/12/06 06:00

Salka

Krumpa Keisaraynja!
Ertu nokkuð að skilja Keisara þinn eftir í kuldanum?
Vonandi grær hné þitt fljótt og vel. Konum fer það illa að pissa standandi.

1/12/06 06:01

Hakuchi

Það liggur við að ég fái samviskubit yfir að skemmta mér svo mjög yfir eymd þinni. Það er hins vegar þér að kenna þar sem þú skrifar of skemmtilegan pistil.

Megi þér batna væna.

1/12/06 06:02

krumpa

Þakka fögur orð og hlýjar kveðjur! Þetta er allt að koma...

1/12/06 09:01

Billi bilaði

[Ber gylltan sand á allar götur Gestapó sem hann getur ímyndað sér að Keisaraynjan eigi eftir að ferðast um.]

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.