— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 3/12/05
TMF

Tengdamóðurfræði 101<br /> <br /> Skrif þessi eru tileinkuð góðri vinkonu minni, konu sem ég dái umfram flestar aðrar; tengdó.

Tengdamömmur eru gagnleg verkfæri sem finnast á flestum skrifstofum. Oddhvass kjaftur þeirra nýtist vel ef leysa á hefti - nú eða ef þig langar að skera vinnufélagana á hol.

Hins vegar er til önnur tegund af tengdamömmum, sú tegund getur verið mun skaðlegri, en jafnframt sakleysislegri. Tengdamæður minna um margt á Nornirnar eftir Roald Dahl sem ég las ekki fyrr en um tvítugt, og hef verið myrkfælin síðan. Þú sérð ekki á konu hvort hún er tengdamamma, tengdamömmur eru nefnilega af öllum stærðum og gerðum, þær geta verið litlar, stórar, feitar, mjóar, ríkar, menntaðar, ómenntaðar, vingjarnlegar, ruddalegar, heimskar, gáfaðar o.s.frv. Hið eina sem þessar konur eiga sameiginlegt er að hafa alið af sér goðumlík sveinbörn. Sveinbörn þessi eru afbragð annarra, gullfalleg, klár, tilitssöm, alger tryllitæki í rúminu, góðir kokkar, snyrtipinnar og góðir skaffarar. Eina ógæfa þeirra í lífinu er makinn, þ.e.a.s. ÞÚ, sem gerir sér enga grein fyrir heppni sinni að hafa landað þessum herlegheitum.

Ég á gamla frænku sem er tengdamamma. Árum saman var ég búin að heyra sögur af tengdadótturinni, þessu óverðuga, sóðalega ferlíki sem tældi saklausan drenginn í net sitt, net spunnið af kvenlegum klækjum og blekkingum, sem enginn nema tengdamamman sá í gegnum. Það var bara hreinlega ekkert gott um þetta eintak að segja. Hún var sóðaleg, léleg húsmóðir, afleitur kokkur og afskiptalaus móðir. Þegar kom loks að því að ég skyldi hitta þennan óskapnað mætti ég með handsprengjur og hnífa innan klæða, enda albúin því að þurfa að forða mér með líf og limi frá þessu slóttuga skrímsli. ,,Hittingurinn" kom því vægast sagt á óvart. Ófreskjan var einhver ljúfasta, skemmtilegasta og yndislegasta stelpa sem ég hef hitt.

En það eru ekki allar tengdamæður svona. Sumar vilja vera ,,vinkona" þín. Það er versta tegundin. Þær eru sosem nógu ljúfar, kyssa þig og kjassa, hringja að tilefnislausu til að spjalla og vilja allt fyrir þig gera. En varaðu þig! Þetta er gildra!

Aldrei Aldrei Aldrei segja tengdamömmu að það sé eitthvað að í sambandinu. Hún reynir með klækjum sínum að blekkja þig til þess, hún segir ljótar sögur af sínum manni og ætlast til að fá borgað í sama frá þér. Ekki falla fyrir þessu! Þó að maki þinn elskulegur hafi ekki vaskað upp síðan 1975, sé varla kassavanur, liggi og horfi á fótbolta allan sólarhringinn lyktandi af bjór og sjoppumat, steli úr buddunni þinni og viti varla hvað börnin heiti.... þá máttu aldrei, aldrei gefa í skyn við tengdamömmu að hann sé eitthvað annað en fullkomnunin holdi klædd.

Hann er þrátt fyrir allt litli strákurinn HENNAR, var það áður en þú komst til og verður það út yfir gröf og dauða. Þú ert bara tilgangslítið viðhengi sem hún verður af illri nauðsyn að þola. Þú ert ástæðan - eina ástæðan - fyrir því að litli gullmolinn hennar náði sér ekki í prinsessu eða stórerfingja. Þú ert það versta sem fyrir hana gat komið og því er erfitt að kyngja.

Aldrei gefa í skyn nokkuð annað en að þú hafir verið hrein mey þegar þú varst svo óumræðilega heppin að hitta þennan kostagrip. Annað er hreinlega móðgun við erfingja þessarar merkilegu konu. Fyrir okkur sem eigum börn fyrir getur þetta verið snúið en þá er snjallt að gefa í skyn gerfifrjóvgun eða einfaldlega göngutúr í pilsi í of mikilli golu.

Annað sem þarf að varast er að þú mátt aldrei, aldrei, andmæla tengdamömmu, þú mátt aldrei segja henni til eða gera eitthvað betur en hún. Og þú MÁTT ALDREI svo mikið sem ýja að því að þú þekkir maka þinn betur en hún. Hún var þarna fyrst og þú, hæfileikalausi ódámurinn þinn, stalst plássinu hennar!

Enn fremur máttu aldrei kvarta við þetta gríska goð sem þú býrð með yfir tengdamömmu, ekki gagnrýna hana á neinn hátt og helst bara ekki tala um hana að fyrra bragði. Þú ert nefnilega laglega úti að aka ef þú heldur að hann þurfi að hugsa sig um áður en hann tekur afstöðu...með henni!

Semsagt, farðu varlega! Sama hvað þú heldur að allt gangi vel, að allt sé með felldu, sama hvað þér líkar vel við tengdó, sama hvað hún er boðin og búin að hjálpa og rabba, hún er ekki vinur þinn, heldur keppinautur í blóðugri baráttu sem aðeins getur endað með dauða annarrar ykkar!

Þrátt fyrir allt væri lífið litlausara án tengdamömmu - og ef við erum heppnar getum við hefnt okkar síðar - þegar goðumlíku drengirnir okkar ganga út...

   (53 af 114)  
3/12/05 16:01

Texi Everto

Góður pistill að vanda en ég hnaut samt um eina staðreindarvillu.

"Hið eina sem þessar konur eiga sameiginlegt er að hafa alið af sér goðumlík sveinbörn."
Þú þekkir greininlega ekki hann mág minn.

3/12/05 16:01

krumpa

Ekki goðumlíkur semsagt?
En ertu dómbær um það? Ert þú tengdamamma?

3/12/05 16:01

Skabbi skrumari

Þarf tengdamóðir mín að hafa alið sveinbarn?

3/12/05 16:01

krumpa

Nei - um tengdamæður ljótu kallanna sem hrifsa frá þeim góðu stelpurnar þeirra gilda aðrar reglur...hér var bara átt við tengdamæður kvenna. Sem eru reyndar mun illskeyttari þó þær séu betri á yfirborðinu.

3/12/05 16:01

Skabbi skrumari

Mig grunaði það... varð bara að snúa útúr... hehe... Skál...

3/12/05 16:01

krumpa

Hehe...held það séu reyndar frekar tengdafeðurnir sem þið þurfið að óttast. Í það minnsta ætti ég mun færri fyrrverandi á lífi ef pabbi ætti haglara...

3/12/05 16:01

Ugla

Stórkostlegur pistill!

3/12/05 16:01

blóðugt

Frábær pistill. Jeminn, ég ætla sko að verða svona tengdamamma!

3/12/05 16:01

Nornin

Tengdamóðir mín fyrrverandi er dásamleg kona. Ég hef ekkert nema hið besta að segja um hana og óska þess innilega að ef ég eignast aðra tengdamömmu í framtíðinni þá verði hún engin eftirbátur þeirrar fyrri.
Þær eru nefnilega af öllum gerðum, líka dásamlegar.

3/12/05 16:01

feministi

Þetta þótti mér frábær pistill. Allt þangað til ég hafði hringt í vinkonu mína, hana tengdó, og lesið hann fyrir hana. Krumpa [snökt] þú veist ekki hvað þú hefur gert.

3/12/05 16:02

krumpa

Ég elska mína tengdamömmu líka Norn, - en það er aldrei of varlega farið. Þær eru mömmur fyrst og fremst - tengdamömmur og vinkonur síðar. Feministi - hvað get ég sagt?

3/12/05 16:02

sphinxx

Yður er í dag frelsari fæddur, Guð hjálpi tilvonandi konunni hans.

3/12/05 16:02

Offari

Mamma veit alltaf hvaða dama hentar sínum dreng. Hún lét mig alltaf skila þeim gölluðu.

3/12/05 16:02

Ívar Sívertsen

Núna vitum við af hverju María Magdalena og Jesús náðu aldrei saman... María Mey hefur verið svona líka hrikaleg tík...

3/12/05 17:00

Jenna Djamm

Elskan!
Tengdamömmurnar eru bestu mömmurnar.

3/12/05 17:01

Trölli

Kærar þakkir fyrir tilsögnina Krumpa. Ég mun hafa nánari gætur á flagðinu henni tengdamömmu í framtíðinni.

3/12/05 17:01

Isak Dinesen

Þú ert makalaus penni.

3/12/05 17:01

ZiM

Frábær pistlingur hjá þér Krumpa.
Verð samt að segja að fyrrum tengdamamma mín er gullmoli og við erum enn vinkonur, við vorum reyndar stundum ósammála.

Verður Tengdamóðurfræði 201 þá um tengdamæður karla?

3/12/05 17:02

krumpa

Þakka fallegt og sennilega, amk að nokkru, óverðskuldað hrós (roðnar niður í tær)... í það minnsta hafa ekki allir kennarar mínir í gegnum tíðina verið sammála Isak. (En mikið er hrósið gott!)

Veit ekki með 201-kúrsinn, kannske einhver vilji taka hann að sér? En það er aldrei að vita hvað gerist. . .

3/12/05 17:02

Kargur

Afar fróðlegt rit. Ég get vart beðið eftir TMF 201.

3/12/05 17:02

Nermal

Móðir mín á bara tengdasyni... Við strákarnir erum sennilega ekki nógu goðumlíkir...

3/12/05 18:01

Ívar Sívertsen

Hafið þið tekið eftir því hvað tengdamæður makanna eru betri en manns eigin?

3/12/05 18:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Frábær lesning & sérlega vandaður pistill.
Hafðu beztu þakkir fyrir.

3/12/05 19:00

Jóakim Aðalönd

Stórfínt! Hvenaer kemur svo fyrirlestur um TMF 201?

3/12/05 19:01

krumpa

Takk fyrir mig.
Jóakim, það er aldrei að vita, þarf að sofa á því og viða að mér frekari heimildum...

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.