— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 1/12/05
Bravó Bravó Bravissimó!

Það er í sjálfu sér dapurlegt að maður skuli vera edrú, heima og á netinu á þessum tíma. Ég uppgötvaði nebbilega fyrir nokkrum árum að fyllerí á gamlárskvöld standast sjaldan væntingar og þess vegna er ég bara heima – ég nýt þess að horfa á blessað skaupið, borða nammi og skála í dæetkóki. Alveg eins og ég vil hafa það!

Skaupið er eiginlega hápunktur kvöldsins hjá mér og ákveðin tilhlökkun og eftirvænting sem myndast í kringum það. Oftast stenst það væntingar þeirra kröfuhörðustu og skaupið í kvöld var engin undantekning. Hreint út sagt stórfengleg skemmtun!

Hvað var svona frábært við skaupið? Jú – ég ætla að teyna að telja upp það sem mér fannst helst standa upp úr:

- Það var svo skemmtilegt hvernig sneytt var framhjá öllum atburðum ársins! Það var ekkert verið að þreyta almúgann með leiðinlegum og langdregnum bröndurum um stjórnmál, baugsmálið eða yfirleitt nokkra aðra atburði líðandi stundar. Frábært!
- Líka yndislegt hvernig þessum mögnuðu húmoristum tókst að koma sama Ædol-brandaranum fyrir átján sinnum á fjörutíu mínútum. Og alltaf jafnfyndinn! Mér fannst kúkogpiss-lagið best – og þetta sem var um æl og smokka! Magnaður húmor!
- Það var frábært hvað húmorinn var skemmtilega einfaldur – ekkert verið að gera ráð fyrir að áhorfendur væru að hugsa eitthvað mikið – yndislega einfalt og tært í allri fyndninni. Niður með mennta- og menningarsnobbið!
- Alveg magnað líka hvernig RÚV er ekkert að setja sig á háan hest! Þannig var allt skaupið miðað við það að gera grín að þáttum annarra sjónvarpsstöðva! Ekkert verið að líta stórt á sig á þessum bænum – enda þættir RÚV svo frábærir og vandaðir í alla staði að það þarf að líta af hlaðinu heima til að finna eitthvað sem gera má grín að!
- Svo var alveg æði hvernig ekki var verið að nauðga bröndurum. Því fyndna sem gerðist á árinu var bara gerð skil á stuttan – og afar einfaldan hátt! Ekkert heldur verið að flækja málin með hæðni eða djúpum húmor (hann er líka bara fyrir hrokagikki), heldur bara gamli, góði KÚK OG PISS!
- Svo var sniðugt hvernig gert var grín að sveppasýkingum (ég (ásamt flestum konum sem átt hafa börn) hef fengið svoleiðis sýkingu og hún er sko BARA fyndin), líka snilld að gera grín að gömlu fólki - ég meina gamlir menn á mótorhjólum! HAHAHA! Á næsta ári er kannski hægt að gera grín að krabbameinssjúklingum (ég meina - þeir eru sköllóttir! HAHA) eða MS-sjuklingum (þeir hreyfa sig á svo fyndinn hátt og eiga það meira að segja til að pissa í sig. Hvað er fyndnara en það?).
- Uppáhaldið mitt voru samt brandararnir um tölvurnar! VÁ! Hvað er annað hægt að segja - ég meina ,,bréfklemma sem hoppar" og ,,hundur sem pissar yfir skjölin"! Hélt ég yrði bara ekki eldri! Frábært að til skuli vera fólk sem sér fyndnina í litlu hlutunum! ÆÐI!

Það besta við skaupið er samt það að þangað til í kvöld var ég vinstrisinnuð. Ég var hlynnt ríkisreknum fjölmiðlum sem öryggis- og menningartæki (reyndar var svæðisútvarp nemenda í grunnskólanum á Egilstöðum á undan RÚV að segja okkur frá Suðurlandsskjálftanum sællar minningar, en það geta nú allir klikkað).
Núna er ég alveg á öndverðri skoðun, þessa snilld á að einkavæða! Og selja áskriftina á lágmark tíu þúsund á mánuði! Þetta er sko alveg þess virði.

Ég er rosalega fegin að mér tókst að taka þessa guðdómlegu snilld upp á vídeó – ætla strax eftir helgina að láta fjölfalda bandið – spólur geta flækst og svona svo að það er nauðsynlegt að eiga aukaeintak...

Bravó! Verð með harðsperrur í kinnum og magavöðvum fram í febrúar! Magnað! Stórkostleg meðferð á ríkisfjármunum! Takk fyrir að leyfa mér að taka þátt í að borga!
GO RÚV! Þið hafið náð nýjum hæðum í menningarstarfi!

Lifið heil og gleðilegt ár!

   (60 af 114)  
1/12/05 01:00

Hildisþorsti

Ég er bara í meginatriðum sammála þér. Skaupið var bara nokkuð gott.
Verst að þú skulir hætt að vera vinstrisinnuð.
[Skálar (í Malti og Appelsíni)]

1/12/05 01:00

Jóakim Aðalönd

Úff, ég mun ekki hafa miklar væntingar þegar ég sé skaupið í júní, upptekið af ömmu...

1/12/05 01:00

Bangsímon

Já ég er sammála þér að skaupið kom skemmtilega á óvart. Ég býst alltaf við einhverju drepleiðinlegu skaupi sem ég skil aldrei afhverju er verið að búa til.

En þetta skaup kom mér að óvörum og alltíeinu var ég farinn að hlæga vel og oft. Þó ég hafi verið búinn að setja mig í stellingar að sjá eitthvað árlegt ógeð, sem minnir hellst á lélegan spaugstofuþátt. Það var kannski ekki allt sem höfðaði til mín en það var þó óvenju mikið af bröndurum sem ég hló. Það var líka gaman hvernig skautið gerði grín af skaupum almennt.

1/12/05 01:01

Offari

Snilldar uppákoma eg hef alltaf sagt að best sé að toppa í lokin og Kári toppaði þetta allveg Magnað.

1/12/05 01:01

hlewagastiR

Mér fannst einna snjallast hvernig þeim tókst að nýta hinn stórskemmtilega brandara um kvensjúkdómalækninn sem þekkir sjúklinga sína ekki í sjón nema að neðan. Ég heyrði hann fyrst árið 1972 og þá var hann víst gamall. Svona má halda tryggð við hið forna.

Eins er ég enn að hlægja að þöglumyndahúmornum um manninn í Kringlunni sem var alltaf næstum því að detta. Það var reglulega hlægilegt og hlýtur að tryggja þeim næstu Edduverðlaun í flokki íslenskra áramótaskaupa. A.m.k. tilnefningu.

1/12/05 01:01

Hakuchi

Sammála þér Krumpa, í einu og flestu.

1/12/05 01:01

Nornin

Enn og aftur hittir þú naglann á höfuðið Krumpa mín.
Þú tekur að þér næsta skaup í samstarfi við Óskar er það ekki?

1/12/05 01:01

krumpa

Hann getur reyndar bara séð um það einn - er ekkert sérstaklega að bjóða mig fram. En það er rétt að skaupið 2001 lyfti standardnum fyrir önnur framtíðarskaup - er að hugsa um - á næsta gamlárskvöld - að annaðhvort hella mig útúrdrukkna svo að allt sé fyndið - eða skella bara skaupinu 2001 í tækið!

1/12/05 01:01

hlewagastiR

Ég legg til að ritstjórn Baggalúts sjái um næsta skaup.

1/12/05 01:01

Hakuchi

Aldrei þessu vant er ég sammála Hlebba. [Fær hroll]

1/12/05 01:01

Offari

Áttir þú ekki við næstu skaup?

1/12/05 01:01

hlewagastiR

Jú.

1/12/05 01:01

Steinríkur

Afhverju kemur þessu umræða alltaf upp eftir að konur hafa séð um skaupið?
Tilviljun... eða samsæri?

1/12/05 01:01

krumpa

Mér þykir leiðinlegt að segja það - en konur - í það minnsta þessar tilteknu konur(kannski bara yfirleitt konur sem í fjölmiðlum trana sér fram sem miklum grínurum) - hafa bara óhemju einfeldningslegan og slappan húmor.

1/12/05 01:01

Hakuchi

Þetta kemur kvenfólki ekkert við. Þó þetta hafi verið óhemjuleiðinlegt skaup þá var skaupið hans Ágústs í fyrra eða hittífyrra enn leiðinlegra.

1/12/05 01:02

Trölli

Svo merkilegt sem það er, þá hef ég ekki fyrirhitt nokkurn karlmann sem þótti skaupið gott, þó nokkur spaugileg atriði hafi skotið upp kollinum. En allmargar konur höfðu óskaplega gaman af.

1/12/05 01:02

Hakuchi

Allmargar? Ég hef ekki orðið var við neina konu sem fannst þetta fyndið. Geymum dilkadrættina. Það er gott jafnrétti í hatri á þessu skaupi.

1/12/05 01:02

krumpa

Þetta var versta skaup - by far - sem ég man eftir - þó að þau hafi verið slæm undanfarið. Held samt að ákveðinn hópur húmorsskertra hafi haft gaman af.
En hvað kynin varðar þá held ég að það þurfi að huga að því að blanda saman kynjunum í svona starfi - í það minnsta kann það ekki góðri lukku að stýra að hafa BARA konur...

1/12/05 01:02

Offari


Hér kemur upp sá misskilningur að konur séu húmorsminni en karlar. Þetta er sá þvættingur sem ávallt tröllríður jafnréttisbaráttuna. Karlar eru betri hér og konur betri þar. Vissulega á það oft við en ekki þar með sagt að hitt kynið sé betra eða verra. Húmor kvenna getur verið öðrvísi en það eru til konur með húmorinn í lagi eins og að það eru til karlar með vonlausan húmor eins og Forsetisráðherrann. Okkur hættir til að dæma hér alla kvennþjóðina út frá gjörning þessum. Gæti ég tildæmis nefnt að Ingibjörg Sólrún er mun húmorsmeiri karakter en Haldór Ásgríms og gæti því gert skemtilegra áramóta ávarp þó að ég telji að hann stjórni betur. Hinsvegar finst mér að áramótaskaupið ætti að vera með eitthvað handa öllum óháð aldri kyni eða litarhátt. Lifi réttlátt jafnrétti.

1/12/05 02:00

Isak Dinesen

Slæmt skaup, gott rit.

1/12/05 02:00

blóðugt

Ég fór á alveg glimrandi skemmtilegt fyllerí á nýársnótt!

1/12/05 02:01

Golíat

Ótrúlegt húmorsleysi hjá þessum ágætu höfundum. Hef aldrei farið á þorrablót, árshátíð eða bekkjarskemmtun svona slappari dagskrá.
Þó höfðu þær Eggert Þorleifsson.

1/12/05 03:00

Litli Múi

Alveg sammála þér Krumpa. Frábært skaup í alla staði, allavega fyrir svona létt geggjaðar manneskjur eins og mig.

1/12/05 03:01

Skabbi skrumari

Skemmtilega kaldhæðið félagsrit... ég hló að mörgu... en alls ekki öllu...

1/12/05 03:01

Isak Dinesen

Í hvoru, ritinu eða skaupinu?

1/12/05 03:01

Skabbi skrumari

Hvoru tveggja... og þó?

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.