— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 1/11/03
Um feitar konur, furðulegt sjálfsmat og óraunhæfar væntingar

Ég vil hafa mína karlmenn soldið mjúka og klípulega, horaðir karlar höfða engan veginn til mín. Ég vil geta klipið í þrýstna rassa og þétt læri...En samt...

Ég er ekki feit (sjá mynd), ekki þannig, ég kemst áreynslulítið uppúr sófanum og upp og niður stiga. Ég gæti líka alveg gengið á Esjuna sæi ég einhvern tilgang í því (ég meina sko, maður fer strax aftur niður - sömu leið meira að segja...). Ég er hins vegar mjúk kona, með rass og brjóst og læri - eins og konur eiga að vera.

Ég er bara nokkuð sátt - þangað til ég fer að kaupa föt !

Í gær sá ég þessi líka fínu útsöluföt hangandi á slám fyrir utan tískubúð, buxur allt niður í fimmhundruð krónur ! Hugði ég mér gott til glóðarinnar og ætlaði nú aldeilis að spara með því að eyða (af hverju virkar sú röksemdarfærsla aðeins á konur ?).
Tók nokkrar flíkur af handahófi og fór inn í búðina. Þar tók á móti mér stúlka sem leit út eins og ég ímynda mér að fangarnir í H-blokkinni hafi litið út undir það síðast. Ég hefði væntanlega getað gleypt hana í einum bita þótt ég léti það nú ógert. En þetta langhungraða grey vísaði mér í það minnsta á mátunarklefana.

Ef sú kenning að helvíti sé persónubundið hverjum og einum stenst þá er mitt helvíti alveg örugglega mátunarklefi. Um leið og ég er komin inn fyllist ég innilokunarkennd, verður óglatt og byrja að svitna.

En þarna var ég semsagt stödd með fangið fullt af þessum fínu buxum og þá upphófst nú fjörið fyrir alvöru. Þrátt fyrir barneignir, gegndarlaust majónessukk, skipulagt hreyfingarleysi, og það að vigtin sé á öðru máli en fyrir nokkrum árum þá virðist það nefnilega ætla seint að síast inn að ég er ekki lengur í stærð 34 !

Ég mátaði þessar líka fínu buxur og komst að raun um að ef ég hneppti ekki efstu tölunni, andaði ekki, borðaði ekki og settist ekki í þeim þá pössuðu þær nú bara skrambi vel.
Sömu sögu var að segja um restina af þessum fataplöggum. Þegar bíafrabarnið kom svo og spurði hvernig mátaðist sagði ég á innsoginu ,,hahhh mjhér barah hlíkar ekkih alvegh við lithinn..." Þekkir þetta eitthver ?

Þarna var ég sumsé að máta stærstu buxurnar í búðinni og það gekk svona líka glymrandi vel. Ég er samt bara meðalmanneskja. Af hverju látum við bjóða okkur þetta ? Af hverju verslum við í búðum sem hafa á boðstólum föt í stærð 34 - 38 (fyrir títlur og minni títlur ?) þegar staðreyndin er að flestar konur eru í stærð 40 eða þar fyrir ofan? SVEI. Ég neita að fara í Stórar Stelpur eða óléttufatabúðir. Ég er fullkomnlega eðlileg í vextinum ! Ég neita að láta niðurlægja mig svona lengur !
Hér eftir geng ég nakin....

Ákvað að slaufa öllum sparnaði í þetta skiptið og fór í staðinn á næsta kaffihús og fékk mér feita kökusneið.
Er hvort eð er fallegust nakin.

Mótmælum öll ! Étum horrenglurnar og göngum nakin !

   (99 af 114)  
1/11/03 10:01

Von Strandir

Ekki gott að éta horrenglur held ég, þarf að vera smá ket og fita. Örugglega betra að sökkva þeim.

1/11/03 10:01

Júlía

Eins og talað út úr mínu hjarta, Krumpa!
Einhverntíman las ég að áður fyrr hafi fötin átt að passa á manneskjuna, en nú á manneskjan að passa í fötin.

1/11/03 10:01

Tigra

Heppin er ég að feldurinn vex með mér... aldrei þarf ég að pæla neitt í þessu.
En ég skal alveg borða horrenglurnar fyrir þig.

1/11/03 10:01

bauv

Hehehe.

1/11/03 10:01

Rýtinga Ræningjadóttir

Fötin skapa manninn. En gangi maður um í tískufötum sem eru í fáanlegum stærðum er ég hrædd um að úr því verði argasti óskapnaður.. Mér fannst það nú samt verst, þegar ég gekk inn í búð í buxum nr 38, fann buxur sem mér leist vel á sem voru til í (stærst) 38, maréraði glöð í bragði inn í mátunarklefann og tók við að reyna að koma mér í buxurnar. Mér tókst, eftir smástund og nokkra lítra af svita að koma buxunum upp fyrir hné.. er það bara ég, eða hefur stærpin 38 rýrnað?

1/11/03 10:01

krumpa

Held að stærð 38 hafi rýrnað - auk þess sem ég hef ekki rýrnað sjálf...Þetta er eins og Júlía segir - við eigum bara að gjöra svo vel að aðlagast fötunum ! Furðuleg markaðssetning líka - því ég hef keypt föt í stærð 10 bara af því ég komst í þau ! Skiljiði mig ? Þetta voru auðvitað afbrigðilegar stærðir (er engan veginn stærð tíu) en það er bara svo gaman að komast í lítil númer... Líka skrítið því að eldri konur (og búttaðri) eiga yfirleitt meiri pening heldur en vannærðar sextán ára skvísur - semsagt, allt mjög dularfullt...

1/11/03 10:01

bauv

Konur(Frussar)

1/11/03 10:01

Limbri

Nú er svo komið að það á að fara að breyta ameríska kerfinu og fella út allra lægstu númerin. Þetta á að láta konum líða betur með stærð sína og fá þær til að kaupa meira af fötum.

-

1/11/03 10:01

krumpa

Held það komi til með að virka. En ég er nota bene ekki að tala um einhverjar akfeitar amerískar suðurríkjakonur (250 pund +) heldur bara eðlilegar, kvenlegar konur, (eins og okkur hér) sem ekki geta lengur keypt sér föt í venjulegum búðum út af dýrkun á kústsköftum. Finnst einhverjum svona kústsköft falleg ?

1/11/03 10:01

Júlía

Það er skynsamlegt. Kaupmenn á Íslandi (sem og annarsstaðar) gætu grætt enn meira ef þeir drusluðust til að selja föt fyrir venjulegar konur, ekki bara brjósta- og rasslausar renglur.

1/11/03 10:01

Limbri

Markaðurinn ræður. Svo er bara spurning hversu heimskur hann er.

-

1/11/03 10:01

Órækja

Kannski stríða brjóst og rasslausu renglurnar við svo gífurleg sálfræðileg vandamál vegna brjósta og rassleysis að þær kaupa föt á við 3 venjulegar konur? En það er svosem vitað mál að föt eru ekki hönnuð á venjulegar konur, heldur smábörn og litla stelpustráka. Ef konur með áhuga á fötum færu í meira mæli að hann föt á konur myndi þetta kannski breytast, en þær virðast hafa meiri áhuga á því að kvarta en gera eitthvað í málinu. Án þess að ég sé á nokkurn hátt að gagnrýna kvennmenn, síður en svo.

1/11/03 10:01

Mosa frænka

Markarðurinn er nautheimskur. Ég upplifa mátunarklefi sem helvíti líka, þó ég sé sæmilega lítil kona þó klípuleg (a.m.k. vísindalega séð). En hér er eitt skemmtilegt í viðbót, talandi um ameríska kerfið samanborið við hitt íslenska: á XS-S-M-L-XL skala er ég S á Íslandi en L (nú, eða XL) í Ameríku. Hreint hlægilegt.

1/11/03 10:01

Limbri

Ég átti reyndar ekki við S-M-L kerfið heldur númerin. En hvað um það... já það er frekar skrítið að þú sért L (sama hvað land það er)

-

1/11/03 10:01

Júlía

HAHAHAHAHA!!! Ert ÞÚ XL?! Þá hlýtur skalinn að ná upp í X í tíunda veldi!

1/11/03 10:01

Vladimir Fuckov

Og það var í byrjun verið að tala um að íslenska kerfið væri fáránlegt !? Þ.e.a.s. ef vér skildum umræðuna rétt sem vér förum með þessu áframhaldi að efast um [Veltir fyrir sér hvort L standi e.t.v. fyrir eitthvað annað en 'large']

1/11/03 10:01

Golíat

krumpa gakk þú á Esjuna og hættu þessu væli. Þér væri nær að hreyfa eitthvað fleira en puttana á lyklaborðinu. Býð þér með mér á Hornstarndir næsta sumar, ertu með?

1/11/03 10:01

krumpa

Ó Golíat - þú ert svo gjörsamlega að misskilja umræðuna hérna ...
Hvað fatastærðir varðar, Hr.Fuckov, þá eru þær flókinn heimur sem er aðeins á færi færasta kvenfólks að skilja, það er enskt kerfi, franskt kerfi, amerískt kerfi, danskt keri, gallabuxnakerfi og ítalskt kerfi en það er fáránlegast af þeim öllum ( þar er stærð 50 samsvarandi stærð 12) - semsagt flókinn heimur !

1/11/03 10:01

Mosa frænka

Já, Júlía - ég sit hér í XL peysu með rennilás sem er alveg eins og sniðin á mig. Ætla að XL þýði ekki 'extra lagleg.'

1/11/03 10:01

Skabbi skrumari

Eins og einhver minnist á, þá er líklegast að aðalmarkaðurinn sé lítt þroskaðar unglingsstúlkur (svo ég kommenti á félagsritið), að mínu mati eiga konur að vera með eitthvað til að klípa í og því er ég sammála öllum hér að ofan...
Mosa í XL, þetta er náttúrulega fyndið, það er eitthvað brenglað þetta kerfi í USA... ég er ekki að segja að þú sért of grönn Mosa mín, bara mátuleg, eins og allar þær stúlkur hérna sem ég hef séð utan tölvutíma...

1/11/03 10:01

Tannsi

Ég vil hafa konur misjafnlega vaxnar. Miklar um sig á vissum stöðum og minna ummál á öðrum.

1/11/03 10:01

Hakuchi

Mig minnir að hafa lesið að ameríska kerfið byggist enn á mælingum sem voru gerðar á konum á 5. áratugnum. Þegar þær voru allt öðruvísi í laginu að meðaltali og miklu lágvaxnari. Þess vegna hafi kerfið orðið óhentugra með hverjum áratugnum en fataframleiðendur ekki alveg fattað þetta og framleiða enn fyrir konur eins og þær voru á 5. áratugnum. Kannast einhver við þetta bull í mér?

1/11/03 10:02

Nafni

Hommarnir ráða ferðinni í tískuheiminum, konureru því miður ginkeyptar fyrir að elta strauma tískunnar og fataframleiðendur hagnast á aukinni aukinni nýtingu hráefnis. Allir eiga að vera eins af því að það er hagkvæmt og ekki er laust við að krafan um að við hugsum eins sé stutt undan. Allt til þess eins að hluthafarnir geti hámarkað hlutinn sinn. ...HÁSETINN...

1/11/03 11:00

Golíat

krumpa - ég er alls ekki að misskilja neitt nema það að ég skil ekkert í þessu númerakerfi. Hins vegar ef þú sérð engan tilgang í að ganga á Esjuna (og þar með fjöll yfirleitt og eða stunda aðra holla útiveru og hreyfingu) þá er það eitt víst að heilsa þín er ekki upp á marga fiska. Ég sé mest eftir því að hafa ekki sjálfur drullast upp á Esjuna þegar ég var í útlegð þar syðra.

1/11/03 11:00

Barbie

Það er bara vont að kaupa sér buxur. Ég hallast sífellt meira að því að ganga bara í pilsum. Verst hvað það er kalt hér á landi en það hlýtur að venjast. Hver á góðar minningar af buxnakaupum?? Þær líta alltaf vel út á slánni en þegar eitthvað annað en herðatré á að halda þessu uppi þá koma í ljós hinir ýmsu vankantar:
A) Þetta eru bölvanlegar mjaðmabuxur. Ekki með barneignaslit eða eigindlega kvenlega mýkt í huga sem dregst yfir buxnastrenginn...
B) Furðulegar útbunganir efst á lærunum ööö, hverjum finnast lærapokar sjarmerandi??
C) Cameltá... hmm skýri það ekkert nánar.
D) Passlegar yfir rassinn, hólkvíðar um mittið.
E) Passlegar um mittið, þröngar, níðníðþröngar yfir rassinn.
og að lokum
F) alltof alltof síðar. Sem er fasti, fyrir mig í það minnsta sem er í það minnsta.

P.S. Mosa ef þú ert XL þá er kerfið hreint og beint fáránlegt.

1/11/03 11:00

Barbie

Annars snilldarlegur pistill hjá þér Krumpa.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.