— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 2/12/06
Partíið mitt

Ástandið í pólitíkinni íslensku er vægast sagt undarlegt. Flokkar klofna eins og hrökkbrauð, og nýir flokkar spretta upp eins og gorkúlur. Sumir verða fúlir yfir lélegu gengi í prófkjöri og skipta bara um flokk. Nýir leiðtogar hafa tekið við hjá stjórnarflokkunum. Næststærsti flokkurinn er núna dottinn niður í þriðja sætið.

Já, það er því ekkert sérlega auðvelt að fóta sig á þessu stóra svelli sem eru íslensk stjórnmál þessa dagana. Ekki furða að óvenjumargir séu óákveðnir. Stórum hluta þeirra er auðvitað alveg sama hvernig fer; margir segja sem svo að þetta sé allt sama tóbakið og því skipti litlu máli hvað er kosið, þegar allt kemur til alls. Sá hópur hefur ýmislegt til síns máls.

Undanfarið hef ég verið að velta því fyrir mér hvað það er sem ég myndi vilja breyta í íslenskri pólitík. Ef ég ætti að setja fram minn draumaflokk, hverjar yrðu þá áherslur hans?

Eftir að hafa legið undir feldi í nótt spratt þetta loksins fram fullmótað í hugskoti mínu. Því kemur hér ...

Stefnuskrá flokksins míns

1) Tafarlaus aðskilnaður ríkis og kirkju

Ríkisrekin þjóðkirkja er tímaskekkja og aðför að sönnu trúfrelsi.

2) Afnám ríkisstyrkja

Hér myndu styrkir til landbúnaðar hafa forgang, og restina mætti skoða vandlega. Þetta er óréttlætanlegt í viðskiptaumhverfi nútímans.

3) Einkavæðing RÚV, eða því meinað að auglýsa

Þetta þarf tæpast að rökstyðja. Ríkið ætti ekki að vera í samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Í allra versta falli þyrfti að meina RÚV að auglýsa, þar sem ríkisstyrk fyrirtæki sem hefur tekjur af auglýsingum sem það keppir við aðra um er ekkert annað en ljótur bastarður.

4) Umtalsverð hækkun örorku- og ellilífeyris

Löngu tímabært mál. Félagslegur jöfnuður til handa þeirra verst settu er grundvallaratriði í réttlátu þjóðfélagi.

5) Hækkun fjármagnstekjuskatts; lækkun tekjuskatts af launum

Það er ólíðandi að þeir sem hagnast af verslun með fé (lesist: þeir sem hafa nægilegt fé fyrir til að leika sér með) skuli greiða jafn lítinn skatt af slíkum hagnaði og raunin er, á meðan meðaljóninn er skattpíndur grimmilega fyrir það eitt að reyna að hafa í sig og á.

6) Einkavæðing ÁTVR; lækkun áfengisskatts

Forræðishyggja er orð sem frjálshyggjupostular nota mikið til að fordæma það sem þeim mislíkar. Það á sannarlega við þegar ÁTVR er annars vegar. Þó að viðmót og viðhorf þeirrar verslunar hafi sannarlega breyst mikið til batnaðar er það ekki nóg. Það er ekkert annað en móðgun við þegna landins að þeim sé ekki treystandi til að kaupa áfengi nema í gegnum ríkisvaldið.

7) Algjör endurskoðun eftirlaunakerfis opinberra starfsmanna

Eins og kerfið er núna þá fá til að mynda þeir sem störfuðu bæði sem alþingismenn og ráðherrar tvöfaldan ellilífeyri; einn fyrir hvort starf. Ef þeir síðan gerast til að mynda seðlabankastjórar þá leggst sá ellilífeyrir ofaná. Þetta er ólíðandi sóun sem þarf að taka alveg í gegn.

8) Afnám ráðherraráðninga

Það er ekkert annað en rugl að ráðherrar skuli enn skipa í störf á borð við stöður hæstaréttadómara. Skandalarnir í kringum það hafa einfaldlega verið of miklir og augljósir. Þessar stöðuveitingar eiga að vera í höndum fagmanna, en ekki pólitískra seppa.

9) Ný regla: Ef þingmaður vill hætta í flokki sínum skal hann drullast til að segja af sér!

Það hefur gerst alloft að þingmaður hefur fengið leiða á flokki sínum á miðju kjörtímabili og ákveðið að skipta bara um flokk. Gamli flokkurinn missir þá þingsæti á kostnað þess nýja. Þetta er ekkert annað en ömurlegt kjaftæði - það eru flokkarnir sem fá atkvæði og umboð kjósanda, en ekki þingmenn. Hér þyrfti að setja lög til að stöðva þetta rugl.

10) Afnám laga gegn áfengisauglýsingum eða harðari eftirfylgni á þeim

Hér á landi eru skýr lög sem kveða á um að refsivert er að auglýsa áfengi í fjölmiðlum. Engu að síður er það orðin venja að áfengi, þá aðallega bjór, sé auglýst á ýmsan hátt. Þrátt fyrir það gera yfirvöld ekki neitt. Að hafa lög sem eru margbrotin á svo opinberan hátt án afleiðinga gerir ekkert annað en að grafa undir trausti til löggjafans. Úr þessu þarf að bæta, annað hvort með því að afnema lögin eða fylgja þeim eftir af hörku.

11) 'Atvinnustefnu' og 'byggðastefnu' verði hætt

Það á ekki að vera á ábyrgð ríkisvaldsins að skapa atvinnu handa fólki eða halda uppi byggð á einstökum stöðum. Stóriðjustefnan er eitt sorglegt dæmi um afleiðingar þessa hugsanahátts. Ríkisfjárfestingar upp á hundruðir milljarða til að skapa atvinnu handa nokkrum þúsundum og tryggja þeim búsetu er afvegaleidd stefna sem Stalín hefði verið stoltur af, en fáir aðrir.

12) Uppstokkun kvótakerfisins

Kvótakerfið hefur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér á borð við að kvóti hefur horfið úr heilu byggðarlögunum í hendur stórfyrirtækja. Einnig þekkjast þess mörg dæmi að menn hafi selt kvóta sem þeir fengu endurgjaldslaust fyrir stórfé. Þetta er óréttlátt kerfi sem þyrfti að endurskoða ítarlega. Nota bene: Þessi liður er ekki í mótsögn við lið 11) - hér er verið að tala um almennar og sanngjarnar leikreglur, en ekki beinar aðgerðir og fjárfestingu til að reyna að rétta upp byggðarlög.

13) Lögleiðing kannabisefna

Tilviljun einn og geðþótti ræður því að löggjafinn fordæmir þennan vímugjafa, á meðan tóbak og áfengi eru lögleg (hið síðarnefnda í hálfgerðri mýflugumynd, sbr. lið 6)). Það er óvefengjanleg staðreynd að neytendur kannabisefna eru miklu mun rólegri og skaðlausari almennt séð í vímu sinni en neytendur áfengis. Einnig er nánst óvefengjanlegt að heilsuáhrifin af kannabisefnum eru ekki verri en heilsuáhrifin af tóbaki. Að kannabis sé ólöglegt en áfengi og tóbak lögleg er í hæsta máta órökrétt.

---

Það er örugglega eitthvað sem ég gleymdi, en þetta nægir í bili. Ef mér dettur eitthvað fleira í hug mun ég henda því í orðabelg.

   (21 af 49)  
2/12/06 07:01

Salka

Velkominn í VG kæri Þarfagreinir!
Að flestu leyti ert þú að skrifa stefnuskrá VG samt er ýmislegt sem mætti ræða betur við þig. Sérstaklega þá stefnu 3) og 11) og stefna 13) er umhugsunarverð.

2/12/06 07:01

krumpa

Er alfarið og eindregið á móti 6 - það eru fyrst og fresmt rónarnir sem kaupa bjóra og annað létt í stykkjatali - ég vil geta sent barnið mitt út í búð án þess að óttast að það verði drepið.
Það er skoplegur misskilningur að halda að þeir sem komi til með að kaupa áfengi í búðunum séu lekkerir stuttbuxnastrákar að fá sér bordeaux með ostunum....Í vínbúðinni við Austurvöll er öryggisvörður í fullu starfi - sjáum við í anda 14 ára bólugrafna bónussstarfsmenn með spangir sinna því starfi?
Auk þess sé ég ekki að þessi hálfmeðvitundarlausu smábörn sem eru á búðarkössunum séu því starfi vaxin að spyrja um skilríki.
Auk þess finnst mér nóg um hangs unglinga fyrir utan búðirnar betlandi sígarettur þó þau séu ekki líka biðjandi um áfengi...
Ef maður á annað borð kann drykkju sinni hóf þá ætti maður að geta ákveðið á opnunartímum átvr hvort maður ætlar að hrynja í það heima við....annars er bara hægt að fara á pöbbinn...

Þú færð sumsé ekki mitt atkvæði...

2/12/06 07:01

Dula

Vá, ég hélt að þú værir að bjóða í partý [flissar]

2/12/06 07:01

Jarmi

Ég vil bara leggja af flokka. Allir sem vilja á þing eru settir á lista og svo fá allir að kjósa. Kosning fer þá þannig fram að fólk þarf hreinlega að raða fólki inn á þing. Staða fólks á þeim lista gefur þeim svo stig, þeir sem fá flest stig komast á þing og sá sem er með allra flest stig er Forseti þingsins. Síðan þurfa mennirnir sem eru á þingi að kjósa sér Forsætisráðherra og hann eða hún kýs sér svo ráðherra.

Gæti ekki verið betra. Allir jafnir, allir sáttir.

2/12/06 07:01

Þarfagreinir

Salka: Já þú segir nokkuð ...

Krumpa: Reyndar gleymdi ég alveg að fjalla um lækkun áfengisskatts, sem er auðvitað aðalforræðishyggjan. Ég yrði vel sáttur við lækkun á honum eingöngu; ég er ekki alveg jafn ástríðufullur stuðningsmaður einkasölu á áfengi eins og ég gaf mig líklega út fyrir að vera í pistlingnum. Mótrök þín eru sannarlega mjög góð og umhugsunarverð.

Dula: Já er það? Aldrei datt mér í hug sú mögulega túlkun á titlinum. [Glottir]

Jarmi: Þetta er nú bara ansi góð hugmynd sem væri alveg vel framkvæmanleg á Íslandi. Mætti skoða það alvarlega.

2/12/06 07:01

Herbjörn Hafralóns

Ég sem hélt að þetta væri boð í partý.

2/12/06 07:01

Tina St.Sebastian

Ef þú hættir við reykingabann á skemmtistöðum færðu mitt atkvæði. Það er auðvitað forræðishyggja af verstu sort að taka þessa ákvörðun úr höndum sjálfstæðra atvinnurekenda. Meirihluti þjóðarinnar er reyklaus, svo maður héldi nú að hér gæti verið markaður fyrir reyklaus kaffihús, eins og Súfistann...bíddu...óóóó!

2/12/06 07:01

krumpa

oh, jæja, ef þú endurorðar nr. 6 þá er aldrei að vita nema ég endurskoði afstöðu mína...

2/12/06 07:01

krumpa

Sammála Tinu - mun hætta að sækja kaffihús í sumar og verð þess í stað með partí öll þriðjudag- og fimmtudagskvöld...það er alla vega það sem hefur gerst erlendis - búllurnar tæmast og fólk búsar heima hjá sér - óbeinar reykingar úr sögunni og flestir veitingastaðir líka...

2/12/06 07:01

Dula

Hvenær verður næsta partý, og verður það reyklaust eða verða bara heilsubætandi rettur í boði [glottir]

2/12/06 07:01

Vladimir Fuckov

Vjer hjeldum að þetta væri auglýsing um Þarfaþing.

Eflaust eigið þjer síðan eftir að [hrökklast langt afturábak og hrasa við] vegna þess sem vjer segjum núna en vjer getum ei stillt oss:

Þjer eigið heilmikla samleið með samtökum á borð við Heimdall, sbr. sjer í lagi liði á borð við 1,2,3,6,11,13 (og líklega einhverja í viðbót).

Líklega segir þetta þó meira um hið sjerkennilega íslenska flokkakerfi heldur en um yður...

2/12/06 07:01

Grágrítið

Þarfagreinir þú ert snillingur!
Ég vill endilega stofna með þér stjórnmálaflokk ekki seinna en fyrir 12 árum. Ég ætla að skirifa félagsrit og bæta aðeins í.

2/12/06 07:01

B. Ewing

1) Tafarlaus aðskilnaður ríkis og kirkju
Styð það

2) Afnám ríkisstyrkja
Styð það en vil á sama tíma sjá tolla og gjöld af innfluttum vörum felld niður alfarið

3) Einkavæðing RÚV, eða því meinað að auglýsa
Hvorugt gegnur upp samkvæmt skandinavíska módelinu og sérstalega núna þar sem auglýsingahæfir ljósvakamiðlar og allir helstu vefmiðlar og útvarpsstöðvar landsins eru einungis í höndum þriggja aðilla (þá er ríkið meðtalið).
Að fækka þeim niður í tvo er eins og að segja við Shell, Esso eða Olís að hypja sig af landinu, það sé nóg að hafa tvær bensínstöðvakeðjur sem okra á öllum.

4) Umtalsverð hækkun örorku- og ellilífeyris
Styð það

5) Hækkun fjármagnstekjuskatts; lækkun tekjuskatts af launum
Þarna ertu kominn með tvíeggja sverð í hendur Þarfi. Þeir sem eiga peningana vilja borga sem minnsta skatta af þeim. Nú þegar eru stærstu kaupahéðnar landsins að flytja gríðarlegar upphæðir á bankareikninga í Hollandi og Guernsey til að komast hjá háum skattagreiðslum hér á landi, þó þær séu bara 10%.
Ég teldi skömminni skárra að fá minni % -tölu af einhverju rosalega miklu en háa %-tölu af engu. Það er hinsvegar löngu kominn tími til að gera verulega gangskör í að lækka allar álögur á almenning.

6) Einkavæðing ÁTVR; lækkun áfengisskatts
Styð það ekki á meðan starfsfólk verslana hefur hvorki aldur áhuga né þekkingu á þeirri vöru sem það er að selja. Ég vil vita hvort rauðvínið/ hvítvínið og kampavínið harmoneri vel saman svo ég sendi ekki frá mér heila hersingu af veislugestum með magakrampa

7) Algjör endurskoðun eftirlaunakerfis opinberra starfsmanna
Styð það

8) Afnám ráðherraráðninga
Styð það verulega

9) Ný regla: Ef þingmaður vill hætta í flokki sínum skal hann drullast til að segja af sér!
Styð það

10) Afnám laga gegn áfengisauglýsingum eða harðari eftirfylgni á þeim
Styð það en bara með þeim hætti að herða viðurlögin. Þannig er þróunin í kringum okkur og ættum við að vera í fararbroddi þegar kemur að þessum málaflokki

11) 'Atvinnustefnu' og 'byggðastefnu' verði hætt
Hlutlaus. Hef enga skoðun myndað á þessu sviði

12) Uppstokkun kvótakerfisins
Styð niðurlagningu þess

13) Lögleiðing kannabisefna
Styð það ekki

2/12/06 07:01

Tina St.Sebastian

Í sambandi við Nr. 11...leggjast þá ekki einhver byggðarlög nánast af, svo við getum lagt undir okkur einhvern draugabæ eftir nokkur ár og byggt þar upp útópíska kommúnu?

Tja, eða eins útópíska og hægt er miðað við veðurfar...

2/12/06 07:01

Heiðglyrnir

Svei mér þá bara ef ekki....2 11 og 13 þarf að skoða frá öllum sjónarhornum og setja jafnvel í farveg til lengri tíma.
.
2) T.d. ef að landbúnaður leggst af í landinu og verður allur innfluttur, þá höfum við tapað þar ákveðnu frelsi og öryggi ef e-ð kæmi upp í heiminum sem hindraði innfluttning: stríð, drepsóttir o.s.fv.
.
3) Missum alltof stóran hlut atkvæða ef ekki er tekið rólega á þessum málum.
.
13) Þetta þarf að skoða hlutlaust og yfirvegað.
.
Annars er þetta bara framboð.

2/12/06 07:01

krossgata

Samkvæmt þessu áttu samleið með öllum núverandi flokkum og engum. En það er nú bara eins og íslensk pólitík er, svo er það furða þó ekkert breytist.

2/12/06 07:01

Þarfagreinir

Já Vlad, ég geri mér fulla grein fyrir þeirri leiðu staðreynd að ég á sitthvað sameiginlegt með Heimdellingum. Hins vegar finnst mér allt of mikið algjör della (haha) hjá þeim. Svo á ég mjög erfitt með að líta á þetta en annað sem uppeldisstöð fyrir atvinnupólitíkusa Sjálfstæðisflokksins, sem hverfa frá frjálshyggjusjónarmiðum sínum um leið og þeir fá völd í hendur. Argaþras þeirra og málflutningur er einum of oft barnalegur og snýst um uppnefningar og skæting í garð 'andstæðinganna'.

Þar að auki er ég, eins og þú gefur í skyn, alls ekki frjálshyggjumaður þó ég styðji einkavæðingu og samdrátt í ríkisumsvifum á mörgum sviðum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að óheft viðskipta- og einstaklingsfrelsi sé lausnin á öllum vanda. Stjórnvöld hafa að mínu mati fleiri hlutverkum að gegna en löggæslu eingöngu.

2/12/06 07:01

Jóakim Aðalönd

Og þú kallar þig vinstrimann, ekki satt Þarfi? Híhíhí.

Ég er sammála öllu nema:

Liður 2: Förum varlega í það. Er sammála um að það sé rétt að ríkið hafi sem minnst af styrkjum, en að klippa algerlega strax á styrki til landbúnaðar væri dauðadómur yfir honum öllum. Það þýðir ekki að afnema styrki og verndartolla á landbúnaðinn meðan löndin í kring um okkur gera ekki slíkt hið sama.

Liður 3: Ég myndi vilja fara brezku leiðina hér, þ.e. skipta ríkisútvarpinu í annars vegar ríkisrekstur sem auglýsir ekki og sér bara um menningarlegt efni og hins vegar afþreyingarstöð sem auglýsir, en innheimtir ekki afnotagjöld.

Liður 5: Förum líka varlega í þetta. Danir eru með eitthvað þessu líkt á prjónunum og dönsk fyrirtæki hóta að flytja höfuðstöðvarnar úr landi. Lækkum frekar skattinn á alla, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar. Það mun skila sér til baka.

Liður 9: Þessu er ég algerlega ósammála. Flokksræði er ekki lýðræði. Ef þingmaður verður ósammála flokknum sínum, á hann fullan rétt á að segja sig úr honum, en halda áfram sem þingmaður á Alþingi, enda kosinn þangað. Hitt kallar á ofurvald flokksins yfir þingmönnum.

Liður 13: Mér finnst að lögleiða ætti ÖLL fíkni- og vímuefni, þ.e.a.s. fyrir 18 ára og eldri. Ef fólk vill skemma sig á þessu, má það það fyrir mér. Þegar áfengi er bannað, sjá bófar sér leik á borði og sjá fólki fyrir sprútti með ólöglegum leiðum, með ófyrirséðum afleiðingum. Það nákvæmlega sama gerist með önnur vímuefni. Stríðið gegn fíkniefnum er jafn tapað og stríðið gegn hryðjuverkum: Þeir sem tapa á því eru hinir löghlýðnu og góðu; ekki bófarnir.

Skál!

2/12/06 07:01

B. Ewing

Jóki. Mér lýst vel á bresku leiðina [ljómar upp]

2/12/06 07:01

Gíslason

Góð stefnusksrá liður 6 og 13 vefjast þó fyrir mér
Ég vil þó bæta við að sænska sé gerð að openberu tungumáli jafnhliða Íslenskunni , að rýkisstyrktur verði heimfluttningur Íslendinga frá Svíþjóð þar sem helstu sómamenn landsins sytja fastir í bjúrókratíuklóm Svía.

2/12/06 07:01

Offari

Ég hefði viljað umbreyta lið 2 og ríkisstyrkja bari til að bjóða upp á niðurgreiddan bjór.

2/12/06 07:01

Carrie

Ég er flokksbundin annars fengirðu hugsanlega mitt atkvæði.

Hverju ertu annars að velta fyrir þér í sambandi menntunar- og jafnréttismál? Og heilbrigðismál? Fáum við nýtt sjúkrahús?

2/12/06 07:01

Lopi

Ég þarf ekki að púnkta mikið niður hér. Er sammála athugasemdum Jóakims í einu og öllu nema með fíkniefnin. Fíkniefnin eru þónokkuð meira ávanabindandi en áfengi og ég tel að allt of margir þjóðfélagsþegnar muni gera sig óstarfshæfa ef það þykir ekkert tiltökummál að prófa fíkneiefni.

2/12/06 07:01

Þarfagreinir

Tja, sjáum til Carrie ...

Menntunarmál:

Hækkun námslána, hugsanlega samhliða pínulítilli vaxtahækkun ef bráðnauðsynlegt þykir.

Stytting stúdentspróf niður í alla vega þrjú ár samhliða því að komið verður á sameiginlegu fyrsta ári á háskólastigi þar sem kennslan verður þverfagleg og tekur á hlutum eins og ritgerðarskrifum, málbeitingu, heimspekki, siðferði, og gagnrýnni hugsun.

Hækkun launa kennurum til handa, sérstaklega grunnskólakennurum.

Endurskoðun kennsluaðferða - ég hef þó fáar töfralausnir þar og hef lítið pælt í því, en margt mætti betur fara þar til að auka áhuga nemenda á náminu og því 'að hugsa' almennt. Virkja þarf forvitnina hjá þessum gríslingum, sem því miður missa langoftast niður allan áhuga á menntun löngu fyrir útskrift úr grunnskóla.

Jafnréttismál:

Stefnt skal að því að útrýma launamun kynjanna með virku eftirliti og sektum.

Jafnréttismálin eru annars með þeim flóknustu og ekki auðséð hvaða aðgerðir stjórnvöld þurfa eða ættu að grípa þar til. Þó er ljóst að mörgu er ábótavant, til dæmis þegar kemur að skammarlega lágum fjölda kvenna í stjórnunarstöðum hjá fyrirtækjum.

Heilbrigðismál:

Innflytjendum sem eru menntaðir erlendis á heilbrigðissviði verði gert auðveldara að fá störf við hæfi hér. Eins og er þá er slíkt þeim nánast ómögulegt, sem er synd og skömm í þeirri manneklu sem hefur verið viðloðandi þennan geira.

Fundnar verði leiðir til að reyna að lækka lyfjaverð, t.d. með meiri innflutningi samheitalyfja í samstarfi við önnur lönd. Einnig mætti falla frá því að hafa umbúðir og leiðbeiningar alltaf á íslensku þar sem það veldur umtalsverðum aukakostnaði (spurning þó hvort það væri í samræmi við gildandi lög; þarf að skoða það og hugsanlega breyta lögum).

Enga einkavæðingu né aukainnheimtu í heilbrigðisstofnanir, takk.

2/12/06 07:01

krumpa

jájá - finnst mjög hæpið að falla frá íslenskum þýðingum á lyfjaleiðbeiningum - og vil alls ekki lagabreytingu þess efnis. Líst illa á níræðan afa minn stautandi sig fram úr leiðbeiningum með hjartalyfinu sínu á pólsku eða ensku!
Auk þess er það bara húmbúkk ef þessum þýðingum er kennt um lyfjaverðið - lyfjarisarnir eru bara alþjóðlegir glæpahringir og ég get ekki séð að actavis og hvað þetta nú allt heitir rambi á vonarvöl vegna mikils kostnaðar við þýðingar... betra væri að setja þak á álagningu eða eitthvað slíkt...

2/12/06 07:01

Þarfagreinir

Eða það. [Roðnar aulalega]

Allar umvandanir eru vel þegnar. Sumt þekkir maður bara ekki nógu vel.

2/12/06 07:01

krumpa

Fallegt að sjá samt hvað þú vilt vel - gaman að fá loksins hugsjónapólítíkus....hvenær á svo að tilkynna framboð?

2/12/06 07:01

U K Kekkonen

Stefnuskrá flokksins míns

1) Tafarlaus aðskilnaður ríkis og kirkju

Ekki sammála þer þar félagi. Luterstrú er einn af hornsteinum þjóðfélags okkar. Trúfrelsi er til staðar á Íslandi í dag og ég sé ekki að það breytist með aðskilnaði ríkis og kyrkju.

2) Afnám ríkisstyrkja

Hér myndu styrkir til landbúnaðar hafa forgang, og restina mætti skoða vandlega. Þetta er óréttlætanlegt í viðskiptaumhverfi nútímans.

Ísland er of lítið til að virka í viðskiptakerfi nútímans, við erum hvaa 300þús hræður. Fyrst hverfur landbúnaður sem og íslenskur matvæla iðnaður. jú eitthvað gæti matvara og annað lækkað með lækkandi tollum. en það hjálpar lítið atvinnuleisingunum úr íðnaði og labúnaði.

3) Einkavæðing RÚV, eða því meinað að auglýsa

Til þess að þetta sé gjörlegt verður að breyta löggjæf landsinsins um ríkisútvarpið. Rúv hefur skyldum að gegna gagvart þegnum landsins í sambandi við fréttaflutning, svo og upplýsingar á neiðartímum.
Annað hversu frjáls er fjölmiðlamarkaðurinn, tækum sem dæmi Ítalíu.

4) Umtalsverð hækkun örorku- og ellilífeyris

Já þar er mál sem þarf að skoða.

5) Hækkun fjármagnstekjuskatts; lækkun tekjuskatts af launum

Já skatta mætti skoða reindar er ég ekki mikil vinur skattalækkana persónulega. Þar sem að skatta halda uppi velferðaríkinu Íslandi.

6) Einkavæðing ÁTVR; lækkun áfengisskatts

Nei, nei og aftur nei! Alls ekki einkavæðingu á áfengissölu. Ég hef búið í löndum þar sem allt áfengi var við hliðina á mjókini og smörinu so og nú í landi þar sem bjór cider og allt sem er undir 5% áfengnt má selja í venjulegum verslunum.
Frjáls verslun sníst um að selja sem mest með sem mestum gróða ekki satt, það er algerlega óþolandi að fara í sjoppur og minni súpermarkaði og þurfa að horfa upp á rónana meira og minna dauða út um allt, nú sá sem enn stendur er svo sendur að kaupa meiri bjór. Í frjálsri verslun er viðkomandi líka afgreidurog fær sin bjór, þó svo hann/hún geti varla borið hann út.
Lækkun á áfengi eykur drykkju og meðfylgjandi vandamál. Það er rétt að stór hluti þjóðarinnað breytir drykkjuvenjum sínum ekkert þó kippan eða rauðvínsflaskan lækki, en það er einnig stór hluti þjóðarinnar sem eykur drykkju sína verulega.

7) Algjör endurskoðun eftirlaunakerfis opinberra starfsmanna

Alveg hjartanlega sammála þér þarna

8) Afnám ráðherraráðninga

Nokkuð til í því já

9) Ný regla: Ef þingmaður vill hætta í flokki sínum skal hann drullast til að segja af sér!

Alls ekki þingmaður er ekki bundin af flokki sínum, hann /hún hefur eingöngu skyldur gegn kjósendu sinna. Aftur á móti mætti breyta kerfinu þannig að kosið væri á milli frambjóðenda, sem eru á listum flokkanna. Fólk mun að öllum líkindum stiðja áfram sama flokk en þingmenn hvers floks væru í alvöru kosnir af kjósendum en ekki valdir fyrirfram.

10) Afnám laga gegn áfengisauglýsingum eða harðari eftirfylgni á þeim

Hörð eftirfylgni, ekki spurning.

11) 'Atvinnustefnu' og 'byggðastefnu' verði hætt

Já flytjum alla til Reykjavíkur! Þú veist að þetta er ekki rétt hjá þér Þarfagreinir.

12) Uppstokkun kvótakerfisins

Hérna átti ekki að flytja alla til Reykjavíkur? Annars er ég sammála þer að kvóta ætti ekki að vera hægt að selja, og ef hann væri seldur ættu peningarnir að fara í ríkiskassan, til okkar þjóðarinnar sem kvótan á.

13) Lögleiðing kannabisefna

Als ekki! í raun mætti banna tóbak líka, hvorutveggja eru verulega ávanabyndandi fíkniefni. Ef tóbak kæmi á markaðinn í dag væri það líklega bannað með lögum á sömu forsendum og Kanabis.
Kanabis hefur þó góð áhrif í umönun sjúklinga með taugaskemdir og ég er á þeirri skoðun að það ætti að vera notað meira, eins og td morfin osf sem eru notuð undir eftiliti lækna.

2/12/06 07:01

Tigra

Þetta er samt alveg það sem þarf.
Maður sem í raun hlustar á sampóa sína.

2/12/06 07:02

Hakuchi

Kosningaskráin mín:
Einræðisvöld í mínar hendur. Ég veit hreinlega betur en allir aðrir.

2/12/06 07:02

Tina St.Sebastian

Ein aðalástæðan fyrir ömurlegum drykkjuvenjum hér á landi er sú staðreynd að áfengi er fokdýrt, og því tíðkaðist að sturta bara í sig einhverju nógu helvíti sterku, svo maður gæti nú fundið á sér, en ekki að sötra eitthvað gutl eins og þessir útlendingar. Þetta er sem betur fer að breytast, sjáið bara Þarfa, sem sötrar rauðvín eins og honum sé borgað fyrir.

2/12/06 07:02

Jóakim Aðalönd

Smá athugasemdir fyrir Finnlandsforsetann:

,,Luterstrú er einn af hornsteinum þjóðfélags okkar".

Össs... það er þá ljóti horngrýtissteinninn. Ég á mjög bágt með að sjá þennan hornstein þjóðfélaxins.

,,Já skatta mætti skoða reindar er ég ekki mikil vinur skattalækkana persónulega. Þar sem að skatta halda uppi velferðaríkinu Íslandi".

Helztu velferðarríki Evrópu og heimsins alls eru skattaparadísir, þar sem skattur er mjög lágr. Ástæðan: Meiri umsvif fyrirtækja og þar af leiðandi meiri tekjur. Lækkun skatta hefur alla tíð verið gæfuspor; ekki hækkun.

,,--Langur pistill um áfengisneyzlu--"

Ég er svolítið á báðum áttum. Ég hef líka verið mikið í löndum sem selja áfengi í venjulegum verzlunum (jafnvel sterk vín) og þetta er hreint ekkert vandamál. Það ætti að vera tiltölulega einfalt að semja reglugerð um þessa hluti og vera með eftirlit með að henni sé fylgt.

,,Ef tóbak kæmi á markaðinn í dag væri það líklega bannað með lögum á sömu forsendum og Kanabis".

Söngur sem heyrist oft og er tómt rugl. Af hverju þarf tóbak endilega að vera nýtt á markaðnum til að hægt sé að banna það? Það er marg sannað að tóbaksreykingar eru skaðlegri en nánast öll fíkniefni sem þekkjast. Á hvaða forsendum þarf síðan endilega að banna kannabisefni? Nú eða önnur fíkniefni yfir höfuð? Má fullorðið fólk ekki ráða hvað það gerir og setur í sig, svo framarlega sem það bitnar ekki á öðrum?

Ég læt Bill Hicks eiga síðasta orðið:

[url]http://youtube.com/watch?v=fntiAF3OSts[/url]

2/12/06 07:02

Upprifinn

Þarfi, ég hef alltaf haldið að þú værir eldri!

2/12/06 08:00

Upprifinn

Jói hvaða helstu velferðarríki eru skattaparadísir?

2/12/06 08:00

Vímus

Hvernig í andskotanum stendur á því helvíti að þessi mál skuli vera til umræðu í dag?
Hvers vegna þarf að ræða hærri bætur fyrir aldraða og öryrkja?

Hvers vegna þarf maður að hlusta á eitthvað væl um hærri laun fyrir þá sem eru lægst launaðir og hafa ekki efni á að skeina sig?

Hvers vegna þarf að amast við því að nokkrar hræður skuli hafa fengið gefins allan óveiddan fisk í sjónum og geti síðan selt eða leigt öðrum?

Hvers vegna þarf maður að ergja sig á klíkuráðningum í bestu stöðurnar? og hvers vegna þarf maður líka að ergja sig á því að sjá sömu hálfvitana rekna vegna óheiðarleika en um leið eru þeir gulltryggðir fjárhagslega það sem eftir er ævinnar?

Hvers vegna þarf maður að horfa á dauðvona fólk sem er bannað að nota cannabis í stað morphins sem veldur flökurleika en grasið eykur matarlist?

Hvers vegna er ekki búið að þessu fyrir lifandis löngu?

2/12/06 08:00

U K Kekkonen

Svar til Aðalandarinnar
"Össs... það er þá ljóti horngrýtissteinninn. Ég á mjög bágt með að sjá þennan hornstein þjóðfélaxins."
Horfðu á löggjöf okkar, þjóðfélagsuppbyggingu svo og þitt egið uppeldi. Ég er ekki að segja að við séum mest kyrkjurækin þjóð, bara að lífsín okkar er verulega Lútersk.

"Helztu velferðarríki Evrópu og heimsins alls eru skattaparadísir, þar sem skattur er mjög lágr. Ástæðan: Meiri umsvif fyrirtækja og þar af leiðandi meiri tekjur. Lækkun skatta hefur alla tíð verið gæfuspor; ekki hækkun."
Skilgreindu velferð. Með velferðarríki er oftast átt við norðurlöndin þar sem heilsugæsla er jöfn fyrir alla, svo og að samfélagið sjái um minni máttar og aðra sem hafa orðið undir.
Þetta kostar óhemju peninga, en flest erum við á þeirri skoðun að við viljum hafa þetta svona.

"Ég er svolítið á báðum áttum. Ég hef líka verið mikið í löndum sem selja áfengi í venjulegum verzlunum (jafnvel sterk vín) og þetta er hreint ekkert vandamál. Það ætti að vera tiltölulega einfalt að semja reglugerð um þessa hluti og vera með eftirlit með að henni sé fylgt."

Í löndum þar sem áfengissala hefur verið frjálsi frá því að bannárunum lauk er allt annar hugsunarháttur þegar áfengiskaup eru annars vegar. En staðreindin er sú að þegar við sem höfum vanist rándýru monopoli komumst í ódýrt vín verður fjandinn laus. Þetta er reindar alhæfing oeins og ég sagði þá hefur þetta lítil áhrif á stóran part þjóðarinnar. Því miður hefur það sínt sig (Finland/Svíþjóð) að með lækkuðum sköttum og frjálsari verslun hafa vandamál, sjúkdómar og dauðsföll sem tengjast áfengi stóraukist.

Söngur sem heyrist oft og er tómt rugl. Af hverju þarf tóbak endilega að vera nýtt á markaðnum til að hægt sé að banna það? Það er marg sannað að tóbaksreykingar eru skaðlegri en nánast öll fíkniefni sem þekkjast. Á hvaða forsendum þarf síðan endilega að banna kannabisefni? Nú eða önnur fíkniefni yfir höfuð? Má fullorðið fólk ekki ráða hvað það gerir og setur í sig, svo framarlega sem það bitnar ekki á öðrum?

Þarna er ég sammála þér Tóbak ætti að banna með lögum. Það er bara einusinni svo að erfiðara er að banna hluti sem hafa verið leyfðir en þá sem eru nýir á "markaðnum"
Hves vegna að leifa ekki bara öll fíkniefni? vegna þeirra vandamála sem því fylgja, kostnaður fyrir þjóðfélagið osf.

2/12/06 08:01

Þarfagreinir

Það er gaman að sjá áhugann sem þessum tillögum hefur verið sýndur, sem og að fá innsýn í hina pólitísku hlið Gestapóa.

Varðandi mögulegt framboð, þá veit ég ekki hvort ég myndi nenna slíku í alvöru eða yfir höfuð hafa tíma fyrir það.

Svo maður tali nú ekki um það sem kom fram hjá mér í orðabelg við rit Grágrítisins - það er einfaldlega allt of erfitt fyrir lítinn flokk að ná árangri hérlendis núorðið.

2/12/06 08:01

B. Ewing

[Grennir sig]

2/12/06 08:01

B. Ewing

Þetta var betra [Ljómar upp]

2/12/06 08:01

Jóakim Aðalönd

Ó, afsakið. Ég hef líklega gleymt að loka tagi þarna ofar...

Alla vega...
Varðandi lútherskuna kannast ég ekki við að löggjöf okkar og þjóðfélaxbygging sé neitt lúthersk. Hún byggir miklu frekar á ,,Siðfræði Níkamakkosar" eftir Aristóteles. Því miður hlaut ég uppeldi sem að hluta var ,,kristið" og ég á mjög erfitt með að fyrirgefa móður minni það og er ákveðinn í að ala mín börn upp við annað viðhorf!

Helztu velferðarríki Evrópu eru Andorra, Lichtenstein, Luxemburgh og fleiri. Norðurlandamódelið er óþolandi og ég vil ekki sjá það. Enda ætla ég að flytja.

Varðandi áfengið: Þetta mun þá lagast í framtíðinni, ekki satt? Ef aðrar þjóðir geta lifað við þetta, getum við það líka! Það sama gildir um aðra vímugjafa. Í Hollandi hefur lengi verið löglegt að reykja hass og ekki er þjóðfélagið þar á vonarvöl, eða hvað? Heldur betur ekki! Ef fullorðið fólk vill skemma sig á vímuefnum, hvort sem það er áfengi, hass eða trúarbrögð, á það að fá að gera það.

Skál!

2/12/06 08:02

Hakuchi

Hmmm...ala upp börn en ert á móti hvers kyns samböndum. Ætlar þú að ættleiða Jói minn?

2/12/06 09:00

Klobbi

Sko, það vita allir að danir eru bara skakkir svíar á sandölum.
Er það það sem þið virkilega viljið?

2/12/06 09:01

Glúmur

Ég er sammála öllu ofanrituðu og vil ganga í flokkinn en að auki vil ég:

Hækka verð á íslenskum landbúnaðarafurðum um 70% eða setja á 15.000 kr nefskatt.
Banna tóbak.
Banna áfengi.
Banna sykur og salt líka.
Þjóðnýta bankana.
Einungis meðlimir þjóðkirkjunnar fái að kjósa.
Leysa upp flokkakerfið, kosnir verði einstaklingar á þing.
Einstaklingar á þingi kjósi sér ráðherra utan þingheims.
Ráðherrar og þingmenn skulu vinna allt árið eins og annað fólk.
Tekjuskattur launa verði lækkaður um 2 prósentustig á ári næstu 10 árin.
Þjóðkirkjan verði opin öllum trúarskoðunum.
Stytta vinnuvikuna í 32 stundir.
Tryggja erlendum verkamönnum jafn há lágmarkslaun og íslenskum.
Virkja Gullfoss, Dettifoss og Geysi.
Bjarga hvölunum.
Bjarga þorskinum.
Bjarga svifinu... drepa hvalina.
Frelsa Bobby Fisher.
Bjarga Vestmannaeyjum.
Skjóta apann.
Afnema tolla af umhverfisvænum ökutækjum.
Hækka raforkuverð til stóriðju.
Lækka raforkuverð til tæknifyrirtækja.
Byggja tífallt stærri flugvöll á Reykjanesi.
Gera hraðbraut yfir hálendið
- upphitaða
- með spilavítum.
Leggja koltvísýringsgjald á allt eldsneyti - afraksturinn verði notaður til framþróunar rafmagnsbílaframleiðslufyrirtækisapparats.
Fjármál þingmanna verði gerð opinber gögn.
Kynferðisglæpamenn og aðrir glæpamenn fái stífa dóma og stífa geðræna og sálfræðilega aðstoð á meðan þeir eru í afplánun - þeim skal líka skylt að hlusta á Abba allan tímann.
Ríkið skal veit geigvænlega styrki til krókódílaræktar, strútaeldis og og risarækjuveitu.
Pulsur skulu vera án endurgjalds.
Í hverjum kosningum skal vera einn gabb frambjóðandi, t.d. nýlega dæmdur fjárdráttarmaður og lygari - öllum þeim sem kjósa hann skal bannað að kjósa framar.

2/12/06 09:01

Golíat

Þarfi. ég styð lið nr 1. En restin er ýmist bull eða alvarlegur misskilningur þarfagreinis sem gerir engan greinarmun á þörf og vanþörf.
En mér líst vel á það sem Glúmur hefur fram að færa. Glúm á þing!!

2/12/06 09:01

Golíat

Salka, ég held að þú hafir misskilið verulega mikið hvað VG stendur fyrir. Gömlu Moskvukommarnir þar eru ekki að fara fella niður ríkisstyrki, selja RÚV, einkavæða ÁTVR, leggja af "atvinnu- og byggðastefnu" osfrv. Ég var rétt kafnaður úr hlátri þegar ég sá þetta og varð hugsað til stórvinar míns í VG sem er svo mikill ríkisforsjáhyggjumaður að hann vill grunnskólana aftur til ríkisins og einkavæða bankana svo dæmi sé tekið.

2/12/06 09:01

Vladimir Fuckov

Enda bentum vjer ofarlega í umræðunni á að Þarfagreinir ætti greinilega heilmikla samleið með samtökum á borð við Heimdall. Grunar oss að hann hafi [hrökklast afturábak og hrasað við] í kjölfar þeirra tíðinda.

2/12/06 09:01

Þarfagreinir

[Hrökklast afturábak og hrasar við]

Sannarlega ...

2/12/06 09:01

Tigra

Gemmér nammi.

2/12/06 10:00

Jóakim Aðalönd

Ég vil bara svara Hakuchi: Já. Helzt frá Suð-austur Asíu eða Kína.

2/12/06 10:01

Þarfagreinir

[Gefur Tigru Kúlusúkk]

50!

2/12/06 10:01

dordingull

Ég mun leyfa öllum allt þegar ég tek við ríki Köngurlóarapanna.

2/12/06 10:02

Skuggi Enters

Skrái mig hér með.

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.