— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 4/12/05
Biblía ljóta fólksins

Gárungar hafa gefið bókinni Draumalandið: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð aukanafnið Biblía ljóta fólksins, með tilvísun í bók Egils Gilzenegger; en hún heitir Biblía fallega fólksins. Um réttmæti þessa nafns skal ekki dæmt hér - það er bókin sjálf sem er viðfangsefni mitt.

Ég ætla að hefja pistil þennan á því að taka fram að Draumalandið er að mínu mati án nokkurs vafa tímamótaverk í hugmyndasögu Íslands. Andri Snær leggur reyndar þó nokkrar af fyrstu blaðsíðum bókarinnar undir vangaveltur þess efnis að hugmyndir séu nokkuð sem hver sem er getur fengið, og að ef tími ákveðinnar hugmyndar er kominn, þá skýtur hún upp kollinum einhvern veginn. Oft fá margar manneskjur meira að segja sömu hugmyndina á svipuðum tíma, eins og sagan geymir mörg dæmi um. Þessu held ég að ég geti verið sammála. Að minnsta kosti er það óvefengjanleg og merkileg staðreynd að í þessari bók hans koma fram einstaklega margar hugmyndir sem hafa mallað í kolli míns sjálfs í töluverðan tíma, þó ég hafi aldrei haft fyrir því að hugsa þær til enda, hvað þá að setja þær fram á skipulegan hátt.

Hverjar eru þessar hugmyndir? Ein hugmyndin er sú að það er leiður misskilningur að ríkisstjórnum beri skylda og nauðsyn til að grípa til stórvægilegra aðgerða til að tryggja þegnum sínum lífsgæði. Við lestur Draumalandsins verður lesandanum þó ljóst að þessi misskilningur er samt sem áður því miður mjög svo útbreiddur meðal hinnar hræddu íslensku þjóðar. Þjóðin er hrædd við að hér gæti allt fyrirvaralaust farið til andskotans. Erum við ekki líka tiltölulega nýlega skriðin upp úr torfkofunum? Byggjum við ekki afkomu okkar algjörlega á fiskveiðum, sem eru hættar að geta borið okkur öll uppi? Og hvað á þá að koma í staðinn?

Stjórnmálamennirnir okkar hafa svörin. Auðvitað hafa þeir svörin. Voru þeir ekki kosnir til að finna svörin og bjarga okkur frá bráðri verðbólgu og viðskiptahalla? Reyndar er það smávægileg staðreyndavilla hjá mér að segja að þeir hafi svör, þar sem þeir hafa í raun eitt svar, en það er það stórt að það dugir vel til að svara hverjum þeim spurningum sem meðalhræddur Íslendingur kann að setja fram. Svarið stóra ber hið viðeigandi nafn stóriðja. Stóriðjan er það sem mun 'bjarga' okkur, og stóriðjan er það sem Andri Snær gagnrýnir hvað harðast í þessari beinskeittu bók, á yfirvegaðan, vandaðan, en fyrst og fremst umhyggjusaman hátt. Höfundurinn ber umhyggju fyrir hinni íslensku þjóð, og vill henni jafn vel og stjórnmálamennirnir vilja henni án efa. Munurinn felst hins vegar í því að Andri Snær hefur mun meiri trú á þjóðinni en hinir kjörnu fulltrúar hennar. Hann hefur trú á mátti hugmyndanna, sjálfsbjargarviðleitni mannsins, og óendanlegri getu hans til að skapa verðmæti úr hverju sem er, óháð stórframkvæmdum stjórnvalda.

Draumalandið fjallar líka um þá orðræðu sem beitt er til að kæfa umræðuna og beina henni út á einstefnubrautir. Hagvöxtur er eitt hugtakið sem tekið er fyrir. Stjórnmálamennirnir verða að tryggja hagvöxt, ekki satt? Ef þeir gera það ekki, þá kemur kreppa. Og hagvöxtur er góður. Mjög góður. Þeir sem eru á móti stóriðju eru á móti hagvexti, eða gera sér í það minnsta ekki grein fyrir mikilvægi hans. Stjórnmálamennirnir lofa hagvexti, nýjum störfum, og betri tíð með blóm í haga. Hins vegar er hagvöxtur, eins og Andri Snær bendir réttilega á, ekkert annað en árleg aukning á framleiðslu þjóðar. Hagvöxtur getur þess vegna komið til einfaldlega vegna fólksfjölgunnar. Hann getur líka orðið vegna aukinnar menntunar, sem veldur því að til verða hátæknifyrirtæki sem flytja út fleiri, betri og dýrari afurðir en áður - stoðtæki, fiskvinnsluvélar, hugbúnað. Hagvöxtur hefur ekki endilega neitt með efnislega framleiðslu að gera. Hagvöxtur getur sveiflast til út frá jafn óefnislegum hlutum og því hvaða hugmyndir fólk fær, hvað það gerir við þær, og hvernig það selur það. Og þetta gerist líka svo sannarlega, á hverjum degi, algjörlega óháð reddingaraðgerðum pólitíkusa.

En við verðum samt að byggja afkomu okkar á einhverju. Við verðum að framleiða. Við verðum að virkja landið. Við verðum að uppfylla þá siðferðilegu skyldu að nýta fallvötnin í framleiðslu hreinnar orku. Skítt með það þó að það kosti milljarða í skattfé, skapi vinnu og arð á við meðalútrásarfyrirtæki, og þeim mun meiri mengun og náttúrurask. Skítt með það þó að það gefi okkur á vald risafyrirtækja sem eiga sér oftar en ekki vafasama sögu. Við eigum að vera þakklát því að þessi fyrirtæki hafi yfir höfuð áhuga á að reisa hér álver og aðrar verksmiðjur. Annars myndum við auðvitað öll fara á hausinn. Stórfyrirtækin munu bjarga okkur öllum, allt þökk sé pólitíkusunum okkar sem voru nógu duglegir og hagsýnir að nota skattfé okkar til að laða þau hingað að með verksmiðjur sínar og umsvif.

Við verðum auðvitað að lifa á einhverju.

Ertu kannski á móti hagvexti?

Ég biðst afsökunnar á því að þessi pistill virðist ekki lengur vera sá ritdómur sem ég ætlaði honum að verða í upphafi. Ég kenni smithættu hugmyndanna um. Líklega eru þetta bestu meðmæli sem ég get gefið Draumalandinu, að sýna að ég hafi smitast af krafti hennar með því að herma ómeðvitað eftir henni. Þessi bók hafði áhrif á mig, og ég mun seint gleyma þeim hugmyndum og hugsjónum sem þar koma fram. Eftir lestur hennar geri ég mér enn betur grein fyrir því að mér gremst ráðamenn þessarar þjóðar, og ég geri mér betur grein fyrir ástæðum þess.

En bókin fyllir mig líka von. Von um að fólkið í landinu yfirstígi ótta sinn og öðlist trú á sjálft sig; og hætti þá í kjölfarið að ætlast til þess að pólitíkusar og erlend stórfyrirtæki reddi vandamálum sem í rauninni eru ekki til staðar.

Besta leiðin til að hefja það ferli væri að allir Íslendingar sem vettlingi geta valdið læsu Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason.

   (29 af 49)  
4/12/05 02:01

sphinxx

Búin að setja á þarf(i) að gera listann minn. :)

4/12/05 02:01

Bangsímon

Þetta er mjög gott félagsrit. Þessi bók virðist vera skyldulestning.

4/12/05 02:01

Nornin

Gott rit og ég les þessa bók hið fyrsta.
Annars langar mig að segja að þetta tal um stóriðju er einmitt það sem mikið er búið að ræða í tímum hjá mér undanfarið. Stóriðja og hnattvæðing.
Rússland og Kína byggðu afkomu sína um áratugaskeið á stóriðju, en það skilaði þeim ekki þeim hagnaði sem vænst var.
Þessi tvö Stórveldi gáfust upp á að beintengja framtíð landsins við stóriðju, því það skilar ekki til baka því sem vænst er... aldrei.
Stóriðja og vinnsla á þungamálmum er ekki framtíðin hjá okkur fremur en hjá Kínverjum og Sóvétmönnum. Það er kominn tími á að Íslenska ríkisstjórnin hætti að bora í rassinn á sér og komi með RAUNHÆFA stefnu í atvinnumálum landsbyggðarinnar.
Ef að bók Andra Snæs hristir upp í fólki, þá skal ég kaupa hana í stóru upplagi og þvinga vini og vandamenn til að lesa hana.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Ætli maður neyðist ekki til að lesa þetta fyrr eða síðar. Það er þó ágætt að sjá rithöfund koma fram með skoðun, þó hún sé ekki ýkja frumleg úr hans klíku.

Auðvitað áttu þessir Austfirðingar að hætta áratuga blindri trú á ál og fisk og gerast allir hugbúnaðarverkfræðingar, líftæknifræðingar eða rithöfundar á launum hjá ríkinu. Það liggur í augum uppi. Svoleiðis fólk fær hugmyndir.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Á Austurlandi er líka gnægð fjallagrasa til að tína og selja, þangað kemur slatti ferðamanna og Austfirðingar ættu að skiptast á að fara á hausinn í ferðabransanum og svo nottlega gæru þeir líka snúið sér að ræktun hitakærra örvera, eins og Kolbrún Halldórsdóttir lagði til hér um árið.

Eflaust les ég þessa bók einhverntíma en fyrst er það ritsafn Guðrúnar frá Lundi.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Já já. Grunnskólagengnu Austfirðingarnir, sem hingað til hafa stundað sjóinn og slíkt, gætu líka skúrað og bónað skó allra háskólamenntuðu verkfræðingana, tískusnillingana og bankabéusanna í höfuðstaðnum ef allt fer á versta veg.

Nú eða bara bónað skó líffræðinganna í fjallagrasarannsóknarmiðstöðinni sem væri eflaust hægt að koma á laggirnar.

Fullt af fínum hugmyndum í gangi sko. Svo frjó hugsun skiluru.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Það væri líka hægt að leigja allt félagslega húsnæðið sem til skamms tíma stóð tómt, einhverjum rithöfundum sem vildu ef til vill koma austur, eða vestur eða norður, og fylgjast með samfélögum deyja og skrifa um það metsölubók.

Endalausir möguleikar.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Ég sé fyrir mér stórkostlega möguleika við þörungatínslu og sútun. Ég er sannfærður um að þörungafabrík gæti orðið heitasta tískuvaran næstu ár, gætu jafnvel slegið út krókódílaskinn. Hægt væri að fá gáfaða tískufólkið úr höfuðstaðnum á Austfirði til að hanna flíkurnar. Svo gætu sjóararnir og bændurnir gömlu, saumað flíkurnar saman. Það er svo gott í höndunum þetta ómenntaða landsbyggðarfólk.

Gasalega finnst mér ég vera fullur af frjóum og góðum hugmyndum núna. Ég finn allt í einu í mér þörf til að klæða mig upp í flauelsjakka, klístra geli í hárið þannig að það líti kæruleysilega út (hálftíma vinna, lágmark) og gallabuxur, setja á mig trefil, panta mér kaffi latté á kaffihúsi í 101 og fara að ræða við vini mína um djúp málefni eins og umhverfið, menningarleysi venjulegs fólks og algeran skort á fjármagni frá Ríkinu til að halda mér á spenanum af því ég er svo hæfileikaríkur og fullur af hugmyndum.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Segðu. Þú gætir jafnvel skroppið austur, tekið nokkrar myndir og gefið út sjálfshjálparbók handa landsbyggðarpakkinu.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Sannarlega. Mundu þó að hafa meira af myndum og stórt letur. Þetta landsbyggðarlið er svo óvant því að lesa bókmenntir.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Og nú erum við búnir að leysa málið. Sjálfshjálparbók með stóru letri og mörgum myndum er akkúrat það sem hinn breiði massi þarf. Hver nennir að vinna hvort eð er? Er ekki miklu skemmtilegra að spá ög spögúlera yfir rjúkandi kaffibolla?

4/12/05 02:02

Skabbi skrumari

Þakka þér fyrir Þarfagreinir að skrifa þennan pistil/gagnrýni, því þá þarf ég ekki að gera það þegar ég er búinn að lesa bókina... ég er sem sagt byrjaður á henni og er hún prýðis lesning, enda góður penni á ferð og réttmætar skoðanir á ferð að mínu mati... úrvalsbók og ég mæli með henni... þó ég sé ekki búinn með hana... skál.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Nákvæmlega! Það verður að ná til hjálparlauss lýðsins, sem hefur verið heilaþvegið í gegnum árin af makkíavellískum stjórnmálamönnum sem geta leitt svona fólk á asnaeyrunum í hvaða stóriðjubrjálæði sem er. Það er annað en við menntafólk sem erum svo gáfuð og frjó í hugsun, það nær sko ekkert að festa okkur í einhverjum klisjum. Við sjáum í gegnum þetta, ekki greyið landsbyggðarsauðirnir. Enda er slíkt fólk svo laust við yfirsýn út af því þau eru ekki í tengslum við fágaða yfirsýn fólks í okkar gæðaflokki. Þú færð engar hugmyndir þegar þú ert svo illa farinn að vera á kafi í að halda lífi í þér og þínum, annað en við, sem sitjum með góðan frappótsínó og látum okkur dreyma um heildarkonseptið fyrir litla fólkið, og getum þannig bjargað því frá sjálfu sér.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Líklega les ég þessa bók því ekki veitir mér af allri þeirri aðstoð sem í boði er til að koma hugsunum mínum á rétta braut.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Já. Þínar hugsanir eru örugglega í öngstrætum, svona í ljósi þess að þú hefur eflaust varla bragðað Sviss Mokka þarna í Austri og ert ekki á ríkisstyrkjum af því þú ert svo frjór í hugsun og svo listrænn.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Það fæst Swiss Miss í kaupfélaginu? Dugar það?

4/12/05 02:02

Hakuchi

Varla, ekki ef það er ekki til kaffihús sem hefur verið innréttað samkvæmt nýjustu straumum í skandinavískum innanhúsarkítektúr.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Mér finnst ég samt vera voðalega artífartí ef ég sest á plaststólana í bensínsjoppunni, drekk Swiss Miss og les tveggja daga gamalt Fréttablað.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Það er nógu nálægt. Mundu bara að binda réttan hnút á trefilinn þinn, nota síðan vönduð menningarleg föt í jarðarlitum en blanda þeim saman við eldgömul notuð föt keypt í Spútnikk (gömul afgangsföt á lager í kaupfélaginu ætti að duga ef það klikkar) til að undirstrika hversu flippaður og óhefðbundinn þú ert (sem gefur til kynna að þú sért spes og fullur af hugmyndum). Þetta ásamt réttri kæruleysishárgreiðslu ætti að tryggja að þú verðir amk. helmingi gáfaðari, dýpri og samfélagslega þenkjandi.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Gott. Ég á nefnilega flottan Liverpool trefil sem ég ætla að vera með um hálsinn héðan í frá og lopapeysan mín er í jarðlitum. A.m.k. núna eftir að ég var að stinga upp kartöflugarðinn.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Gott. Nú ætti fólk að geta litið upp til þín, verandi svo artí og frumlegur. Landsbyggðarsauðirnir munu kasta sér fram fyrir hverju spakmæli sem lekur af vörum þínum. Þau munu þiggja með virtum hvert þitt ráð sem bjarga mun þeirra lifibrauði frá rotnun.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Þá er maður bara orðinn menningarvitinn í pleisinu. Kannski ég fari að yrkja ljóð og lesa þau fyrir fávíst liðið á kvöldvökum í samkomuhúsinu. Óhefðbundin ljóð að sjálfsögðu.

4/12/05 02:02

Hakuchi

Já. Engir stuðlar. Atóm og helst hækur. Svo skaltu hneykslast reglulega yfir menningarleysi og heimsku fólksins sem fattar ekki snilldina þína.

4/12/05 02:02

Haraldur Austmann

Hvar sæki ég svo um ríkisstyrk? Hjá sýslumanni eða Tryggingastofnun?

4/12/05 02:02

Heiðglyrnir

Gúmmiskór, örlítið gras í vasa og tveir eða þrír merkingafullir kækir..Sko bara til og nú er Haraldur orðin stíliseraður, kaffíhúsa-heimspekingur.

4/12/05 02:02

Þarfagreinir

Haraldur og Hakuchi, samræður ykkar eru ófyndnar og eiga lítið skylt við efni pistils míns. Þið hafið ekki einu sinni lesið umrædda bók. Öðrum þakka ég innlegg þeirra.

4/12/05 03:00

Skoffín

Það sést hvað best á viðbrögðum Hakuchi og Haralds að hér er um að ræða gagnrýni sem hittir á helauman stað. Þegar fólk með mismunandi skoðanir finnur sig knúið til að sk**a svo yfirgengilega yfir skoðanir annarra fer ekki á milli mála að orðin voru óþægilega sönn. Alhæfingarnar og hrokinn sem hér komu fram voru tvímælalaust sá óbaggalútískasti viðbjóður sem ég hef á á minni refa- og kattartíð lesið. En í guðanna bænum takið ekki mark á mér, ég er jú einu sinni á félagsfræðibraut í MH og þar af leiðandi latur og ómerkur ónytjungur sem mun aldrei vinna fyrir mér með heiðarlegum hætti. Troðið öllum sem eru ykkur ósammála inn í staðhæfulausar stereotýpur og afgreiðið þá sem heimskt pakk "í engum tengslum við raunveruleikann" af því við trúum á önnur framtíðartækifæri en stalíníska verksmiðjukumbalda. Gerið fyrir alla muni lífið ekki of flókið.

4/12/05 03:00

Golíat

Það er aldeilis að menn eru hörundsárir hér. Ég held nú að menn ættu að geta áttað sig á að það er hálfkæringur og ironía í gangi hjá H og H. Og mér fávísum Austfirðingnum var skemmt. Er þó stúdent af félagsfræðibraut. Það eru tvær hliðar á krónunni og báðar eru jafn sannar og raunverulegar, jafnvel þó að aðeins önnur þeirra snúi að ykkur.
Ég er það forn í hugsun að mér finnst forgangsatriði að skapa fólki lífsviðurværi áður en afkoma heiðargæsa og skógarsnípa fer að skipta máli.

4/12/05 03:01

Vladimir Fuckov

Þetta er hárrjett hjá Golíat virðist oss. Vjer efumst um að Draumalandið hafi hitt á einhvern auman punkt hjá t.d. Haraldi Austmann (og ekki Hakuchi heldur). Sje svo er Haraldur hópi mestu stóriðjusinna landsins. Og ef hann er það erum vjer einn af óvinum ríkisins [Fölnar upp við tilhugsunina og vonar að Haraldur Austmann gerist ekki allt í einu mesti stóriðjusinni landsins]. Vjer skemmtum oss konunglega við að lesa skrif Hakuchis og Haraldar þó það sje reyndar rjett að eigi tengjast þau pistlingnum með alveg beinum hætti.

Svo innlegg vort tengist efni pistlingsins ber þess að geta að bókina höfum vjer eigi lesið. Oss grunar hins vegar að vjer yrðum eigi sammála öllu þar. Að sama skapi erum vjer ósammála mörgu í málflutningi hörðustu stóriðjusinna (t.d. iðnaðarráðherra).

4/12/05 03:01

Gaz

Ég er því miður með ofnæmi. Ég þoli ekkert sem hefur orðið "sjálfshjálp" í tiltli eða umsögn.

4/12/05 03:01

hlewagastiR

Las bókina. Vond bók. Minnir á Votta Jehóva.

4/12/05 03:01

Skabbi skrumari

Ég skil vel ákafa Þarfagreinis, enda upplifi ég bókina á svipaðan hátt og hann (það sem ég er búinn að lesa)... það er oft súrt í broddi þegar umræður hér á Gestapó fara út um hvippinn og hvappinn, en við því er að búast oft á tíðum, þannig er Gestapó bara... Hakuchi og Halli hefðu svo sem getað notað tækifærið og stofnað þráð um málið... en það er ekkert við því að segja lengur... ég mæli með að fólk lesi félagsritið og kommenti á það en ekki líflega og skemmtilega umræðu Hakuchi og Halla...

4/12/05 03:01

Ugla

Mér finnst það ekki endilega skylda rithöfunda sem leyfa sér að gagnrýna samtíma sinn að koma fram með algildar lausnir á vandamálunum sem þeir gera að umfjöllunarefni...

4/12/05 03:01

Golíat

Annars er Blái hnötturinn ákaflega skemmtileg bók.

4/12/05 03:02

Nermal

Mér finnst þessi álumræða vera komin yfir alla heilbrigða skynsemi. Hvað eru mörg álver í farvatninu?

4/12/05 03:02

Hakuchi

78.

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.