— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 2/12/04
Faðir minn prófessorinn

Sönn saga af sannri klisju.

Hann faðir minn er prófessor. Mjög klár maður, auðvitað, en hann er stundum viðutan eins og sonur hans. Hér er saga af því.

Fyrir eigi svo löngu síðan, sama kvöld og þessi pistill er skrifaður, var ég að hanga í lappanum mínum góða þegar þráðlaus sími hringdi. Þetta er pirrandi helvíti sem þarf oftast að gera langa og stranga leit að í hvert sinn sem hann hringir.

Jæja, þar sem ég er latur bastarður og Gestapófíkill þá datt mér ekki í hug að standa upp til að svara. Þessi sími foreldrahúsanna er hvort eð er aldrei notaður til að hafa samband við mig. Ég lét því móður minni eftir það leiða verk að leita apparatið uppi. Þetta tók hins vegar, eftir því sem mér sýndist í mínu annarlega Gestapófíknarástandi, óvenjulangan tíma í þetta skipti.

Að lokum hætti síminn að hringja án þess að móður minni tækist að hafa uppi á skrapatólinu. Von bráðar hringdi hann þó aftur, og sama ferlið endurtók sig, með sömu niðurstöðu.

Líður nú nokkur tími á meðan móðirin heldur áfram róti sínu. Í miðjum klíðum opnast útidyradyrnar og inn stígur faðir vor. Hann kemur færandi hendi - nánar til tekið er hann með símann góða í farteskinu. Hvaða þörf hann þóttist hafa fyrir því að nema þetta tiltekna heimilistæki á brott með sér veit sá er þetta ritar ekki, en hann hafði án efa sínar órannsakanlegu ástæður. Urðu að vonum miklir fagnaðarfundir með móður minni og símtækinu.

Lýkur hér með að þessu sinni sögu minni af prófessornum viðutan, föður mínum. Hann er æðislegur.

   (43 af 49)  
2/12/04 00:02

Smábaggi

Láttu ekki svona Guðjón þótt ég taki óvart með mér í vinnuna eitt símtæki. Ekki er ég að skrifa pistla um þegar þú gleymdir að loka frystinum!

2/12/04 00:02

Skoffín

*brestur í grát af hlátri*

2/12/04 00:02

Tinni

Skondin saga og ekki spillir fyrir að ég kannast nú við hann föður þinn...já, já það má nú segja...og það held ég nú...

2/12/04 00:02

Steinríkur

Af hverju hringir síminn ef prófessorinn tók hann með sér ?

*Hlær að Þarfa fyrir að búa í foreldrahúsum*

2/12/04 00:02

Þarfagreinir

Sko Steinríkur, þetta er einfalt. Það er svona hleðsluapparat sem hringir líka. Sem gerir það auðvitað ennþá erfiðara að finna helvítis símann.

*Ullar á Steinrík*

2/12/04 00:02

Kuggz

*knús*

2/12/04 01:00

kolfinnur Kvaran

Kannast við þetta helvítis þráðlausa apparat

2/12/04 01:01

Nornin

Já kannski ekki skrítið að þú sért einkennilegur elskan!!

2/12/04 01:01

Lómagnúpur

Uss, ég þarf greinilega að skrifa félagsrit um það þegar ég missti út úr mér pípuna.

2/12/04 01:01

Vímus

Þetta minnir mig óneitanlega á það þegar ég bjó sem kvæntur maður og tveggja barna faðir í Eyjum og vann þar á vöktum í loðnubræðslu. Eina nótt var ég að fara á vakt og ákvað að henda ruslapokanum í leiðinni. Það kom heldur betur svipur á vinnufélagana og reyndar mig sjálfan líka þegar ég opnaði ruslpokann minn í kaffitímanum. Nestispokinn var hinsvegar í ruslatunnunni heima.

2/12/04 01:01

Montessori

Já einmitt og þegar ég stóð í flutningum úr einni íbúð í aðra, nánast í sömu götu í vesturbænum. ég stóð í málningarvinnu í nýju íbúðinni og bjó í þeirri gömlu. Einn daginn ætlaði ég að fara að mála en fann hvergi lyklana af nýju íbúðinni. Leitaði og leitaði um allt í gömlu íbúðinni, úti í garði, inni á baði, alls staðar, uns ég þurfti að fá hjálp frá lásaopnara sem mætti á staðinn með loftbyssu og vildi nokkra þúsundkalla fyrir vikið enda helgidagur. Þegar málningardeginum var lokið ákvað ég að ná mér í kaldan vökva inni í ísskáp og viti menn, blöstu ekki lyklarnir við mér í neðstu hillunni, hrísluðust þar, ískaldir greyin. Hvernig í ósköpunum þeir lentu þar má almáttugur vita. Skemmtilegar svona sögur.

2/12/04 06:02

St. Plastik

Þetta minnir mig á sögu sem ég heyrði einu sinni. Það var menntaskólastrákur sem var að fara í lokapróf í stærðfræði. Þegar hann var kominn í prófið og ætlaði að fara að leysa dæmin, þá fattaði hann sér til mikillar skelfingar að hann hafði gleymt reiknivélinni sinni. Hann fékk að hringja heim í móðir sína og bað hana að koma með reiknivélina í prófið. Móðir hans samþykkti það og mætti svo móð á staðinn og rétti honum fjarstýringuna af sjónvarpinu.

4/12/04 03:01

Seiðkona Irmundrygils

Ég þjáðist einmitt af þungun ekki langt fyrir löngu. Þá dagana þótti ekki óvenjulegt á mínu heimili að finna mjólk í diskaskápum og fjarstýringar í sokkaskúffum.

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.