— GESTAPÓ —
Fergesji
Heiðursgestur.
Saga - 7/12/19
Draumur okkar beggja

Fyrir nokkru urðum vér fyrir því óhappi, að öðlast innblástur. Við því er lítt hægt að gera, utan að setjast niður með fjöður í hönd og fulla byttu bleks á skrifpúltinu. Útkoman varð neðangreind smásaga. Njóti þau, er lesi. Sagan birtist fyrst miðvikudag í fjórðu viku sólmánaðar 2020.

Þú vaknar þegar fuglarnir eru farnir að syngja fyrir utan. Ef einhver spyrði, myndir þú þurfa að hugsa þig um eilitla stund, áður en þú gætir sagt til um hvað klukkan væri eða hvaða dagur væri. Enda skiptir það ekki öllu máli; í fyrsta lagi áttu frí í dag, og í öðru lagi hefur farsóttin valdið því að samfélagið liggur að mestu niðri.
Eðlilegur dagur hefði hafist á léttu bakkelsi og kaffibolla áður en þú svo færir á leikvanginn og iðkaðir þína íþrótt. Metnaður þinn er enda mikill, svo þú setur ekki fyrir þig að vakna eilítið fyrr, svo tími gefist fyrir bæði æfingu og þrif áður en vinnan tekur við. Vissulega er smördeigshorn á disknum, og tíu dökkir dropar í bollanum, en þar lýkur, eins og áður sagði, líkindunum við hversdaginn. Vinir þínir, sem þú jafnan hefur dagleg samskipti við, eru ekki vaknaðir svo snemma morguns, en þú lest engu að síður inn skilaboð til þeirra. Vel valdir kunningjar, sem standa kannski ekki eins nærri, fá sömu meðferð.
Blaðið læðist inn um lúguna, en þú leggur það strax í pappírskörfuna. Þú hlustaðir á fréttirnar í gærkvöldi, og kvöldfréttirnar eru sagðar eftir að ritstjórnarskrifstofan lokar, svo hví skyldirðu eyða tíma í blaðið? Þú skilur alveg þá sem lesa það – það hefur sinn sjarma – en það höfðar þó ekki til þín. Þess í stað nýturðu varmans af morgunsólinni og lygnir aftur augunum örlitla stund meðan þú hlustar á hljóðbók.
Úr því minnst var á metnaðinn, þá var hann eilítið sleginn niður, eftir að farsóttin varð völd að aflýsingum, en þú hefur tekist á við verri aðstæður með jafnaðargeði, og fundið eldmóðinn til að halda áfram af sama krafti. Ef eitthvað er, þá þykir þér, á heildina litið, ágætt að fá ár til viðbótar í undirbúning. Markmiðið er eftir sem áður það sama, skýrt eins og viti í höfn. Það er ekki öllum ætlað, að standa á æðsta sviði íþróttanna, en þú hefur einsett þér það, og hefur helgað líf þitt þessu markmiði.
Þú heyrir gelt út undan þér, og leggur heyrnartólin frá þér. Margt er bannað þessa dagana, en enn er leyfilegt að viðra hundinn. Þú segir eitthvað róandi við hann og biður hann ná í tauminn. Þó enginn annar sé á ferli er þrátt fyrir það mikilvægt að halda hundinum nærri – jafnvel enn mikilvægara en fyrr. Hann kemur til baka með taum og staf, sem þú tekur við og klappar honum blítt á vangann. Þú leiðir hugann stundarkorn að því hvernig dökk föt þín standa í skarpri og heldur skemmtilegri andstæðu við hvítan stafinn áður en þú lokar dyrunum á eftir þér og heldur út í daginn.

   (1 af 14)  
7/12/19 16:00

Billi bilaði

En ertu alveg viss um að fötin séu dökk - og stafurinn hvítur? (Litur stafsins þó sennilega líklegri.)

7/12/19 16:01

Fergesji

Það sér lesandi, en vér gerum ráð fyrir, að sögupersónunni hafi verið sagt frá lit fatanna þegar þau komust í eigu viðkomandi.

7/12/19 17:00

Grýta

Vó! Skörp saga.
Svo normal þegar maður losar um og slakar á, eftir endinn.
Því öll erum við samt sem áður svo misjafnlega eins.

7/12/19 17:00

Billi bilaði

Þú verður þá líka að gera ráð fyrir að satt hafi verið sagt frá um lit fatanna.

7/12/19 20:00

Regína

Billi, af hverju gerir þú svona rækilega ráð fyrir að fólk sé illa innrætt að ljúga að blindu fólk.
Góð saga og vel skrifuð Fergesji.

7/12/19 20:01

Fergesji

Þó logið sé að blindri manneskju um lit fata, þá þurfa allir að vera aðiljar að samsæri, svo ekki verði ósamræmi. Auk þess eru til tól og tæki, sem greina liti.
Takk fyrir, Regína og Grýta. [Brosir og lýsist upp.]

8/12/19 00:01

Billi bilaði

Reynsla af virkum í athugasemdum.
c",

8/12/19 03:01

Regína

Ah, skil.

8/12/19 13:00

Vladimir Fuckov

Langt síðan þjer hafið sjest hjer. Skál! [Sýpur á fagurbláum, sjálflýsandi drykk]
[13.8.2020 01:00]

8/12/19 13:01

Fergesji

Ó, eigi voru það nema átta ár, tæp. [Lyftir glasi, og klingir við glas Vlads.]
[13.8.2020 17:13]

Fergesji:
  • Fæðing hér: 14/6/04 21:57
  • Síðast á ferli: 14/2/21 13:57
  • Innlegg: 6840
Eðli:
Ýmsum nöfnum höfum vér nefnst, en vanastir erum vér þó að svara, er kallað er á Fergesja. Vér höfum tamið oss almenna kurteisi, og bregðum eigi frá henni, nema oss sé verulega misboðið.
Fræðasvið:
Margt smátt, jafnt sem annað stærra með nýlegri áherzlu á almennar lækningar.
Æviágrip:
Vér erum eitt af síðustu börnum 9. áratugarins, bjuggum löngum erlendis en flúðum úr landi sökum skorts á ísbílum. Síðan er eigi margt vitað um mig en nýlega haðfi komið í ljós að oss var aftur farið að langa að flýja land og því höfum vér nýlega framið valdarán í hinu fjarlæga ríki Efergisistan um 1000 sjómílur suðaustan Japansstranda og sezt þar að sem konungur. Vér fundum svo loksins hamingjuna eftir að hafa hlotnazt embætti gáfumálaráðherra Baggalútíu.